Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur fólksins

Pistill Guðmundar Magnússonar í Morgunblaðinu um ,,gamla" Sjálfstæðisflokkinn vakti marga til umhugsunar um móðurflokk íslenskra stjórnmála. Styrmir Gunnarsson birtir kjarnann úr pistlinum á Evrópuvaktinni.

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn var flokkur hins frjálsa framtaks og athafnaskáldanna. En hann var líka jafnaðarflokkur sem byggði upp öflugustu félagsmálastofnun landsins í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkurinn starfaði lengi undir kjörorðinu ,,stétt með stétt" sem lagði áherslu á öfgalaust borgaralegt samfélag.

Sértrúarhópurinn sem ætlar að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn vegna ESB-umsóknar Samfylkingar starfar ekki í anda gamla Sjálfstæðisflokksins heldur stundar hann stjórnmál hótana, en sú pólitík er til vinstri eins og alþjóð veit.


Evrópustofa í innanlandspólitík

Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastýra Evrópustofu boðaði til lokaðs fundar útvalinna kvenna til að kynna þeim væntanlegt hryggstykki í pólitískri brúarsmíð á Íslandi. Umrætt hryggstykki er Ragna Árnadóttir fyrrv. dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sig.

Bakgrunni fundarins er þessi: kvennaklúbbur samfylkingardeildar Sjálfstæðisflokksins vill byggja brú yfir í 12,9%-flokkinn.

Nú er eðlilegt að flokkar og flokksbrot á jaðri stjórnmálanna leit sér bandamanna. En það er heldur óviðkunnanlegt að Evrópustofa, sem er fullfjármögnuð áróðursmiðstöð ESB, skuli vera í milligöngu um pólitíska brúarsmíð á Íslandi.


Bennaframboðið dautt eins og ESB-umsóknin

Jórunn Frímannsdóttir virðist ein um að skrá sig á framboðslista Benedikts J., Sveins Andra og Þorsteins Páls. Eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem greiddi atkvæði með ESB-umsókn Össurar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, afþakkaði félagsskapinn.

Benedikt var búinn að lofa fréttum af framboðinu fljótlega eftir páska. Það er á mörkunum að það teljist frétt að Jórunn, sem sat í síðasta sætinu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, skuli biðjast undan þessu ábyrgðarmikla hlutverki til að taka sæti á Bennaframboði.

Tilhlaup Jórunnar og þeirra sem hún vélar með var þó harla fagmannlega unnið og gaf fyrirheit um að stórfylking ESB-sinna á hægri vængnum myndi láta til sína taka.

En þrátt fyrir aðstoð sjónvarpsmannsins sem stundum er tekinn í viðtal í eigin þætti, þá heyrist ekki meira af fjöldahreyfingunni.

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er Bennaframboð ESB-sinna dautt eins og umsóknin.  Samfylkingin andar léttar enda ESB-atkvæði meðal kjósenda svo fá að þau eru varla til skiptanna.


mbl.is Nýr í heiðurssætið í stað Jórunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ASÍ vill evru og 15 til 30% atvinnuleysi

Meðalatvinnuleysi í evru-löndunum 18 er 12 prósent. Í sumum ríkjum, t.d. Spáni er það 26%. Evran er ástæðan fyrir atvinnuleysi í jaðarríkjum Evrópusambandsins. Ef Ísland tæki upp evru þá væri búið að innleiða varanlegt atvinnuleysi hér á landi. Íslandi yrði jaðarríki í ESB og gæti ekki búist við lágu ,,þýsku" atvinnuleysi.

Alþýðusamband Íslands hefur aldrei þorað að bera undir félagsmenn sína hvort þeir vilji að Ísland gangi í Evrópusambandið. Umboðsleysi skrifstofuliðsins í ASÍ er algert þegar það krefst evru og ESB-aðildar.

Evran veldur eymd og volæði meðal launþega á meginlandi Evrópu og óskiljanlegt að launþegasamtök skuli biðja um sambærilegt ástand hér á landi.


mbl.is Tilraun til langtímasamnings í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög á verkföll sem raska allsherjarreglu

Enginn ferðamaður kemur til Íslands vegna flugvallarstarfsmanna á Keflavíkurflugvelli. Og engir ferðamenn koma til landsins vegna flugmanna Icelandair. Þessar stéttir eru á hinn bóginn í þeirri stöðu að ógna allsherjarreglu; stöðugri atvinnu í landinu og stöðugu gengi krónunnar.

Verkföll eru ekki mannréttindi, eins og forseti ASÍ heldur, enda geta stéttarfélög ekki átt mannréttindi, aðeins einstaklingar. Samfélagið, á hinn bóginn, á kröfu til þess að alþingi og ríkisstjórn viðhaldi allsherjarreglu.

Ef rök flugvallarstarfsmanna og flugmanna fyrir hærri launum halda ekki, þá á að setja lög boðuð verkföll.


mbl.is Allt útlit fyrir allsherjarverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk evra, veik Evrópa

Stór hagkerfi í Evrópu, t.d. Spánn og Ítalía, eru í kreppu vegna sterkrar evru. Minni hagkerfi í þeim 18 ríkjum sem nota evru sem gjaldmiðil, Portúgal og Grikklandi sem dæmi, eru á barmi þjóðfélagslegrar upplausnar - vegna evrunnar. Þessi lönd þurfa sárlega gengisfellingu upp á 20 til 40 prósent til að komast aftur á lappirnar.

Seðlabankastjóri evrunnar, Mario Draghi, kvartar undan sterkri evru. En hendur Draghi eru bundnar; seðlabanki evrunnar er aðeins með umboð til að stýra verðbólgumarkmiði gjaldmiðilsins, ekki skiptigild evrunnar á gjaldeyrismarkaði.

Roger Bootle heitir maður sem skrifar margt skynsamlegt um efnahagsmál. Í grein, þar sem hann fjallar um breska pundið, vekur hann athygli á hversu yfirgengilega erfitt það er að stilla af ,,rétt" gengi gjaldmiðils. ,,Rétt" gengi gjaldmiðils er það gengi sem til lengri tíma þjónar best hagsmunum viðkomandi samfélags. Vel að merkja: frjálst gengi gjaldeyrismarkaða er ekki það ,,rétta" skv. skilgreiningu Bootle, - til þess eru gjaldeyrismarkaðir of braskvæddir.

Þegar það er yfirgengilega erfitt að stýra breska pundinu svo vel sé, sem er jú aðeins gjaldmiðill Bretlands, þá ættu flestir læsir að skilja að ógjörningur er að stýra evrunni, gjaldmiðli 18 þjóðarhagkerfa, þannig að vel fari.

Evran er sjálfstæð uppspretta efnahagslegs óstöðugleika og gerir Evrópusambandið að vandræðagrip í alþjóðahagkerfinu. Þar fyrir utan viðheldur evran eymd og volæði milljóna íbúa á meginlandi álfunnar.


mbl.is Tæp 26% Spánverja án vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkurinn sem vill selja Ísland

Alþýðuflokkurinn, forveri Samfylkingar, var heimili helstu andstæðinga þess að Ísland stofnaði lýðveldi árið 1944. Alþýðuflokkurinn þáði styrki frá Jafnaðarmannaflokknum í Danmörku og gilti þar að sá á hund er fæðir.

Alþýðubandalagið gekk til liðs við Alþýðuflokkinn og stofnaði Samfylkinguna um nýliðin aldamót. Starfsemi Alþýðubandalagsins og forvera var að hluta fjármögnuð með rússagulli enda sáust þess merki í stefnumálum flokksins.

Samfylkingin vill framselja fullveldið til Brussel með því að knýja á um að Ísland gangi í Evrópusambandið. 

Samfylkingarmenn gefa út rafritið Herðubreið og þar má lesa pistil sem heitir Flokkurinn sem vill eiga Ísland.

Þegar valið stendur milli stjórnmálaflokks sem vill Ísland í íslenskum höndum annars vegar og hins vegar flokk sem vill Ísland í útlendum höndum þarf maður að vera verulega illa innrættur til að velja seinni kostinn.


Stríð skila (oft) jákvæðum árangri

Stundum þarf stríð til að koma skikki á hlutina, útkljá deilur og koma í veg fyrir langvinnar smáskærur. Staðbundið stríð í Úkraínu, sem t.d. skipti landinu upp líkt og Þýskalandi var skipt upp eftir seinna stríð, gæti verið farsælli niðurstaða en óskipulagt ofbeldi sjálfskipaðra og illa agaðra hópa í hermennskuleik.

Stríð skilar sterku ríkisvaldi, segir í nýrri bók eftir Ian Morris sem fær jákvæða dóma sums staðar þótt aðrir setji fyrirvara við meginályktanir höfundar. Sterkt ríkisvald einokar ofbeldi og heldur friðinn, er rökfærsla Morris. 

Stríð voru lengi ásættanleg leið að útkljá óleysanlegar milliríkjadeilur. Fyrri heimsstyrjöld breytti viðhorfum manna til stríðs enda kostaði hún full mörg mannslíf, að áliti deiluaðila. Eftir seinna stríð var kjarnorkuógnin bremsa á stríðsrekstur í áratugi, þ.e. á Vesturlöndum. 

Hundrað ár eru frá fyrra stríði og kjarnorkuógnin takmarkaðri en hún var fyrir tveim til þrem áratugum. Stjórnmálamenn nota þau verkfæri sem aðstæður leyfa hverju sinni. Stríð er eitt þeirra. 


mbl.is Gripið til frekari refsiaðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BHM í klóm ESB-sinna

Bandalag háskólamanna, BHM, hefur ekki leitað til sinna félagsmanna um afstöðu þeirra til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Engu að síður skrifar formaður BHM og frambjóðandi Bjartar framtíðar, Guðlaug Kristjánsdóttir, umsögn til alþingis þar sem lagst er gegn afturköllun ESB-umsóknar ríkisstjórnar Samfylkingar og VG.

Formaður BHM starfar ekki í umboði Bjartar framtíðar sem formaður stéttarfélags og getur ekki í nafni BHM skrifar umsögn þar sem tekin er afstaða til Evrópumála.

Aðalfundur BHM er eftir tvo daga. Í skýrslu stjórnar er hvergi getið um umboðslausu umsögn formannsins og er þó margt léttvægara tínt til. Ekki heldur er gert ráð fyrir umræðum um málið á aðalfundi.

Félagsmenn BHM hljóta að spyrja sig í hverra þágu formaður BHM starfar.


Stjórnmálamenn í samsæri gegn almenningi

Ekkert framboðanna til borgarstjórar Reykjavíkur talar máli afgerandi meirihluta kjósenda sem vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Samanlögð stjórnmálastéttin í borginni er í samsæri gegn ótvíræðum og margyfirlýstum vilja kjósenda.

Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn, sem ætti að vita hvað klukkan slær, getur ekki boðið annað en hálfvelgju um að kjósa einhvern tíma í framtíðinni um flugvöllinn. Þar með segir Sjálfstæðisflokkurinn að kosningarnar eftir mánuð skipti ekki máli. Og hvers vegna ætti fólk að styðja framboð í ómarktækum kosningum? Önnur framboð ætla sér kaldrifjað og yfirvegað að hundsa vilja kjósenda.

Það eru kosningar 31. maí í höfuðborg Íslands en kjósendur fá ekki valkost í stærsta skipulagsmáli seinni tíma sögu Reykjavíkur. Stjórnmál í höfuðborginni eru tragikómískur brandari.


mbl.is 71,2% Reykvíkinga vilja völlinn áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband