Evrópa tapar á evrunni

Evrópusambandið tapar á evrunni enda höktir og skröltir allt kerfið í Brussel vegna efnahagsvandræða og pólitískrar spennu er stafa af sameiginlegum gjaldmiðli. Nú hefur hagfræðingur leitt rök af því að enginn peningalegur hagnaður er af myntinni og er þá fokið í flest skjól

Heimssýnarbloggið segir ávinningurinn sem varð af evrusamstarfinu fyrstu árin sé uppurinn vegna fjármálakreppunnar. Heimssýn segir frá skýrslu hagfræðings á vegum gríska seðlabankans:

Fram kemur í skýrslunni að fram til 2007 hafi samþætting fjármálamarkaða, þ.e. hlutabréfamarkaða og skuldabréfamarkaða, haft talsverðan ávinning í för með sér m.a. í formi lægri kostnaðar og aukinnar skilvirkni, en eftir að kreppan hóf innreið sína hafi sundurleitni verið ríkjandi bæði innan hvers evrulands og eins yfir svæðið í heild, kostnaður aukist og heildarávinningur þar með orðið enginn.

Eina leiðin til að bjarga evrunni er sameiginleg ríkisfjármál, sem í reynd felur í sér sambandsríki Stór-Evrópu. En það er enginn pólitískur vilji í evru-ríkjunum 18 til að fórna leifunum af fullveldinu á altari gjaldmiðils sem skilur eftir sig sviðna jörð.

 


Ekki-múslímar og konur annars flokks fólk

Þeir sem eru ekki múslímar og konur, hvort heldur múslímskar eða ekki, eru annars flokks fólk sem ekki á að njóta sömu réttinda og múslímskir karlmenn. Þessari kennisetningu er haldið á lofti í breskum skólum sem múslímskir bókstafstrúarmenn hafa lagt undir sig.

Múslímavæðingin í allnokkrum skólum í Birmingham er talin merki um erfiðari sambúð bókstafstrúarfólks og bresks samfélags.

Í frétt Telegraph er haft eftir Jack Straw fyrrum innanríkisráðherra að múslímar verði að sætta sig við kristin gildi sem forsendu fyrir breskum þegnskap.


ESB-málið trompar hægri/vinstri skilgreiningu

Ófæddi ESB-hægriflokkurinn byggir væntanlegan tilverugrundvöll sinn á því að einhverjir hægrimenn, sem hlynntir eru ESB-aðild, hafi hingað til haldið sig frá stuðningi við Samfylkinguna og dótturfélagið í Bjartri framtíð.

Könnun Fréttablaðsins sýnir að sárafáir hægrimenn í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki styðja ófædda hægriflokkinn. Á hann bóginn sýnir könnunin að um 30 prósent af kjósendum Samfylkingar og Bjartrar framtíðar geta hugsað sér að kjósa hægrisinnaðan ESB-flokk.

Niðurstaða könnunarinnar er að ESB-málið er ekki hægra- eða vinstramál. Afstaðan til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er hafin yfir hægri- og vinstri skilgreiningu. Og það gildir hvorttveggja um ESB-sinna og andstæðinga aðildar.


Nýr flokkur: ESB-sinnar deila innbyrðis

Nýtt hægriframboð tæki mest fylgi frá Samfylkingu og Bjartri framtíð, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Um þriðjungur kjósenda Samfylkingar gætu hugsað sér flokk Sveins Andra og Benedikts Jóhannessonar og tæp 30 prósent kjósenda Bjartar kysi kannski nýja ESB-flokkinn.

Aðeins um 15 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins gefa nýja flokknum sjens og enn minna hlutfall stuðningsmanna Framsóknarflokksins.

Meirihluti landsmanna vill ekki styðja væntanlegt framboð. Sá fimmtungur kjósenda sem gefur flokknum undir fótinn er mestur í hálfvelgjunni; um 14 prósent sögðu líklegt að þau styddu framboðið en aðeins rúm sex prósent að það væri mjög líklegt.

Niðurstaða: Sjálfstæðisflokknum stendur engin ógn af nýja ESB-framboðinu. Þvert á móti verður Sjálfstæðisflokkurinn öflugri þegar háværi sértrúarhópur Benedikts og félaga hverfur úr flokknum til að herja á fylgi Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. 


Bloggfærslur 22. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband