Árni Páll, hrokinn og valkvæða heimskan

Formaður Samfylkingar stundar valkvæða heimsku þegar hann segir, líkt og margir ESB-sinnar, að íslenskur almenningur geti ekki mótað sér skoðun á Evrópusambandinu fyrr en aðildarsamningur liggur fyrir.

Árni Páll og ESB-sinnar gefa sjálfum sér fulla heimild til að hafa þá skoðun að aðild að ESB sé eftirsóknarverð um leið og þeir vísa mótbárum gegn aðild á bug með þeim rökum að ,,samningur liggur ekki fyrir."

Allar upplýsingar um Evrópusambandið liggja fyrir sem og saga sambandsins, yfirstandandi kreppa og framtíðarhorfur. Ekkert þessara atriði myndi breytast þótt 300 þúsund Íslendingar gerðu aðildarsamning við  500 milljóna manna Evrópusamband.

 

 


mbl.is „Vitum hvað Evrópusambandið er“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannfæring þriggja þingmanna VG 16. júlí 2009

Þrír þingmenn VG greiddu atkvæði gegn yfirlýstri sannfæringu sinni þegar ESB-umsóknin var samþykkt á alþingi 16. júlí 2009 með 33 atkvæðum gegn 28, en 2 sátu hjá. Ef þingmenn VG hefðu greitt atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni, eins og þeir vinna drengskaparheit að þeir skuli gera, þá hefði ESB-umsóknin aldrei verið samþykkt.

Álfheiður Ingadóttir sagði þetta í sinni atkvæðaskýringu er hún samþykkti tillögu Össurar:

Frú forseti. Stuðning minn við þessa tillögu um aðildarviðræður ber ekki að skilja sem stuðning við aðild Íslands að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Nú?) Ég er eindreginn andstæðingur þess að Ísland gangi í ESB og ég tel ólíklegt að aðildarviðræður muni skila samningi sem getur varið íslenska hagsmuni og auðlindir gagnvart alþjóðlegu auðvaldi og yfirþjóðlegri drottnun þess.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lét eftirfarandi ummæli falla í ræðustól þingsins þegar hún samþykkt ESB-umsóknina

Frú forseti. Ég hef þá sannfæringu að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég hef þá sannfæringu að bandalagið sé á krossgötum eins og heimurinn allur og þurfi á endurmati að halda. Þar þurfi að efast um mælikvarða, grundvöll og forsendur þess samfélags sem við höfum byggt á Vesturlöndum undanfarinna áratuga. Ég hef þá sannfæringu að lýðræðið sé fyrir borð borið í Evrópusambandinu vegna þess að valdið er of langt frá fólkinu. Ég hef þá sannfæringu að markmið Evrópusambandsins sé að verða stórt og sterkt og hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag væri að ræða.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sagði frammi fyrir alþjóð þegar hún studdi tillögu Össurar um að sækja um aðild að ESB

Ég hef mótað mér mína afstöðu. Sem alþjóðasinni er ég krítísk á Evrópusambandið og ég tel hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.

Ef þessir þingmenn VG, þar af tveir ráðherrar, hefðu greitt atkvæði samkvæmt yfirlýstri sannfæringu sinni, eins og þeim bar að gera að viðlögðum drengskap, þá hefði tillaga Össurar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu fallið, 31 hefði sagt nei, 30 já og 2 setið hjá. 


mbl.is Mikill þrýstingur á þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdapólitík í Evrópu 1914 og 2014

Fyrir hundrað árum vildu Þjóðverjar fá viðurkenningu á stórveldastöðu sinni á meginlandi Evrópu. Bretar voru ekki á því að leyfa Þjóðverjum sæti undir sólinni og gerðu bandalag við Frakka og Rússa til að halda aftur af metnaði þeirra þýsku. Fyrri heimsstyrjöld hófst vegna valdaskaks stórþjóða Evrópu.

Í dag takast á í Austur-Evrópu hagsmunir Evrópusambandsins annars vegar og hins vegar Rússlands. Þjóðverjar, sem leiðandi afl í Evrópusambandinu, vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Í einn stað telja þeir Úkraínu, a.m.k. vesturhluta landsins, eiga að bindast hagsmunaböndum við Evrópusambandið en í annan stað viðurkenna þeir að Úkraína, a.m.k. austurhlutinn, sé á hefðbundnu áhrifasvæði Rússa. Þannig talar t.d. fyrrum kanslari Þýskalands, Helmuth Schmidt.

Stórt hlutfall Rússa innan landamæra Úkraínu gefur Pútín forseta lögmæti í valdaskakinu. Hann er þegar búinn að hirða Krím af Úkraínu. Saðning eykur svengd valdaúlfa eins og Pútíns.

Enginn veit hvernig spilast úr valdapólitíkinni á meginlandi Evrópu næstu misseri, ekki frekar en menn sáu fyrir hvað yrði úr morðinu á erkihertoganum Frans Ferdínand og Sofíu konu hans í Sarajevo 28. júní 1914. Hitt er öllum læsum á íslensku morgunljóst að við eigum enga hlutdeild í valdaskaki meginlandsþjóða Evrópu. 


mbl.is Innrás yrði söguleg mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slúður-skýrslan og viðskiptahættir útrásarmanna

Heimildirnar í skýrslu Alþjóðmálastofnunar HÍ um það hvort Ísland væri í samningaviðræðum við Evrópusambandið eða aðlögunarferli eru nafnlausir embættismenn í Brussel. Orðalag skýrsluhöfunda minnir á orðfæri útrásarmanna um sýndarviðskipti. Á blaðsiðu 17 í skýrslunni sem ESB-sinnar keyptu af Alþjóðamálastofnun segir

Öllum viðmælendum skýrsluhöfunda kom saman um að um raunverulegar samningaviðræður væri að ræða og að hægt væri að ná saman um erfið mál.

,,Raunverulegar samningaviðræður" segja nafnlausu heimildarmennirnir í Brussel. Hreinn Loftsson, fyrrum stjórnarformaður Baugs, notaði orðalagið ,,raunveruleg viðskipti" þegar hann keypti útgáfufélag af eiganda Baugs, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. 

Þegar tekið er fram að eitthvað sé ,,raunverulegt" er það einmitt vegna þess að sterkur grunur leikur á að um sé að ræða sýndarmennsku. Og það á sannarlega við um slúður-skýrslu Alþjóðamálastofnunar.

Evrópusambandið hefur sjálft gefið út leiðarvísir um inngönguferli nýrra aðildarþjóða. Þar segir skýrt og skorinort:

 „Hugtakið „samningaviðræður" getur verið blekkjandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði og tímasetningar umsækjandans fyrir samþykki, innleiðingu og beitingu ESB-reglna - um það bil 100.000 blaðsíðna af þeim. Þessar reglur (einnig þekktar sem acquis sem er franska og þýðir „það sem hefur verið samþykkt") eru aftur á móti ekki umsemjanlegar. Fyrir umsækjendur snýst þetta einfaldlega um að samþykkja hvernig og hvenær þeir taki upp og innleiði reglur og málsmeðferðarreglur ESB. Hvað ESB varðar er mikilvægt að það fái tryggingu fyrir dagsetningu og skilvirkni innleiðingar reglnanna hjá hverjum umsækjanda.

Á vefsíðum ESB um stækkunarferlið segir það sama: ferlið inn í Evrópusambandið er aðlögunarferli þar sem samið er um með hvaða hætti umsóknarríki tekur upp lög og reglur ESB. Engar samningaviðræður fara fram.

Slúður-skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin er fyrir ESB-sinna, er álíka merkileg og kosningapési Samfylkingar frá 2009 sem lofaði að samningaviðræðum við Evrópusambandið yrði lokið 2010 en í síðasta lagi 2011.

 


mbl.is Vinnubrögð við skýrsluna gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband