Frekjufyrirtæki hóta almannavilja

Fyrirtæki sem hóta að flytja starfsemi sína úr landi vegna niðurstöðu lýðræðislegra kosninga eru þjökuð af sama hugarfari og útrásarfyrirtækin sem töldu sig hafin yfir lög og reglur.

Íslendingar kusu um afstöðuna til Evrópusambandsins í síðustu þingkosningum. Tveir flokkar, sem báðir eru andvígir aðild Íslands að ESB, fengu meirihluta. Eini flokkurinn sem vill aðild Íslands að ESB fékk 12,9% fylgi.

Eigendur og forstjórar sem ekki vilja una niðurstöðum þingkosninga og hóta almannavilja eru komnir langt fram úr sjálfum sér.


mbl.is Ástandið á Íslandi ýtir Creditinfo út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hannes, Jón Steinar og klíkuvæðing samfélagsins

Hrunið var ekki nýfrjálshyggjunni að kenna heldur klíkukapítalisma, segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Pæling Hannesar fær stuðning frá Agli Helga sem að jafnaði er ekki sammála frjálshyggjumönnum.

Jón Steinar Gunnlaugsson, sem oftar en ekki er sammála Hannesi, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann harmar tilburði stjórnmálaflokka að aftengja meginreglur samfélagsins og innheimta af skattborgurum hrúgu af peningum til að endurúthluta í samræmi við handahófskennt réttlæti (sem auðvitað er ekkert réttlæti heldur ranglæti).

Það má færa rök fyrir því að hrunið, sem var afleiðing gerspilltrar strákaklíku auðmanna, hafi leitt til klíkuvæðingar stjórnmálamenningarinnar þar sem allir eiga að fá sitt og andskotinn hirði afleiðingarnar. Þess vegferð hófst með kröfum um að bæta ,,forsendubrestinn" og þegar að var gætt urðu allir fyrir forsendubresti - líka þeir sem stunduðu spilavítisfjárfestingar.

Andskotinn mun ekki hirða afleiðingarnar af klíkuhugsunarhætti, þar sem meginreglum er varpað fyrir róða, heldur bitna þær á okkur öllum.


Guðni foringi framsóknarmanna í Reykjavík

Guðni Ágústsson er maðurinn til að leiða lista Framsóknarmanna í Reykjavík. Kjósendur í borgarstjórnarkosningum leita eftir vel kynntum frambjóðendum og ekki þykir verra að þeir hafi húmor. Guðni tikkar í báðum flokkum.

Í breiðari pólitík er Guðni með tilhöfðun til kjósenda sem hafa varkárni og ráðdeild að leiðarljósi og þar skorar fyrrum formaður Framsóknarflokksins hátt.

Guðni er maðurinn til að fylkja saman borgaralega sinnuðum kjósendum undir merkjum Framsóknarflokksins.


Bloggfærslur 16. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband