Formaður Viðskiptaráðs á Litla-Hrauni

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, sýndi af sér óvenjulega hreinskilni í viðtali við RÚV.

Hreggviður, sem er í félagi með Benedikt Jóhannessyni að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn vegna ESB-umsóknar Samfylkingar, sagði að aðlögunarferlið inn í Evrópusambandið væri eins og bílferð á Eyrarbakka.

Allir vita að Litla-Hraun er rétt hjá Eyrarbakka. Þegar ESB-sinni líkir aðild að Evrópusambandinu við fangelsisvist er óþarfi fyrir andstæðingar aðildar að hafa frekari áhyggjur af málinu. ESB-sinnar eru fullfærir um að klúðra ESB-umsókn Samfylkingar upp á eigin spýtur.


Jón Ásgeir ekki ókeypis, en samt...

Fréttastofa Stöðvar 2, hluti 365-miðla Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, auglýsir sig með þeim orðum að hún kosti okkur ekki skattfé. Ritstjóri Kjarnans er á öðru máli og rekur dæmi um kostnaðinn. 

Umræðan beinir kastljósinu að tjóninu sem starfsemi Jóns Ásgeirs hér á landi hefur valdið. Spyrja má hvort einhver ágóði komi á móti.

Samfylkingarskáldið Hallgrímur Helgason sagði Jón Ásgeir sjálfstæðasta manninn í íslensku viðskiptalífi. Líkt og launaður almannatengill auglýsti skáldið bandalag Jóns Ásgeirs og Samfylkingar. Þar er kannski ábatinn sem við höfðum af Jóni Ásgeiri - hann dró fram eðli og inntak Samfylkingarinnar. 


Vinstriflokkarnir í vasa elítunnar

Vinstriflokkarnir tala ekki máli almennings heldur elítuhópa í háskólum og fyrirtækjum. Helsta áhugamál vinstriflokkanna, að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, er hjartans mál hálaunamanna hjá hinu opinbera og í fyrirtækjum enda opnast greið leið fyrir þá til kjötkatlanna í Brussel.

Viðskilnaður vinstriflokkanna við alþýðu manna sést vel þessa dagana þegar vinnudeilur og verkföll eru víða í samfélaginu. Vinstriflokkarnir melda pass í þeirri umræðu; þeir hafa ekkert að segja enda hugur þeirra bundinn við áhugamál elítunnar.

Vinstriflokkarnir eru svo heillum horfnir að þegar ríkisstjórnin leggur fram tillögur um skuldaleiðréttingu heimilanna þá þæfa þingmenn Samfylkingar, VG og Bjartrar framtíða málið og finna því allt til foráttu.

Vinstriflokkarnir eru ekki í tengslum við launafólk - aðeins elítuna.


mbl.is Fyrir fólk sem litar sjálft á sér hárið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta undanþágan

ESB-sinnar klifa á öllum þeim frábæru undanþágum sem ætlunin er að ná í samningum við Evrópusambandið. Við eigum að halda landhelginni, forræði yfir alþjóðasamningum, landbúnaðarmálum og svo framvegis.

Evrópusambandið sjálft segir engar undanþágur í boði, aðeins aðlögunarferli inn í ríkjandi laga- og regluverk sambandsins. Í Brussel segja menn að ekki sé um eiginlega samninga að ræða, aðeins útfærsla á aðlögun umsóknarríkis.

Íslenskir ESB-sinnar, á hinn bóginn, hamast á glæsilegu undanþágunum sem í boði eru og láta opinberar yfirlýsingar ESB, sem segja hið gagnstæða, ekki trufla sig.

Í málflutningi sínum draga ESB-sinnar fjöður yfir þá staðreynd að Ísland er þegar með í hendi stærstu undanþágan, - sem er að standa utan Evrópusambandsins.

Þegar að er gætt er málflutningur ESB-sinna líkastur hundi sem eltir rófuna sína.


mbl.is Einfaldast að sækjast ekki eftir aðild?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband