Skoðanir og ríkisfé

Stór hluti fjölmiðla er skoðanir og álit. Eyjan er slíkur miðill, Kjarninn að stórum hluta, Stundin sömuleiðis og Hringbraut alfarið sem og Kvennablaðið. Bloggið sem þú ert að lesa er skoðun.

Sigurjón M. Egilsson rekur skoðanamiðil, Miðjuna. Hann vill fá ríkisfé til að borga undir sínar skoðanir. Hann er ekki einn um þessa skoðun (já, skoðun). Ritstjórar Kjarnans eru duglegir að minna á að skoðanafabrikkur eigi skilið niðurgreiðslu frá ríkinu af kostnaði sem hlýst af mér-finnst-útgáfu.

Ef ríkið tekur upp á því að borga mönnum að hafa skoðanir mun framboðið stóraukast. En nú þegar eru fleiri skoðanir um allt milli himins og jarðar en nokkur kemst yfir að kynna sér með góðu móti. Verður ríkið ekki líka að borga fólki að kynna sér skoðanir, sem niðurgreiddar eru með almannafé?

Auðvitað er einfaldleikinn bestur. Menn geta haft skoðun, en fyrir eigin reikning, ekki annarra. Allra síst eiga menn að fá borgað af almannafé fyrir skoðanir sínar. Ríkisforsjá í skoðanamyndun er ekki samboðin samfélagi sem kennir sig við lýðræði.

 


Svívirðilegur heimur alþjóðahyggjunnar og lífskjörin

Ragnar Þór formaður VR skrifar um stöðu Icelandair á alþjóðlegum flugmarkaði:

Sam­keppni um hvað? Verstu lífs­gæðin fyr­ir mestu vinn­una? Við ætt­um miklu frek­ar að koma í veg fyr­ir að slík fyr­ir­tæki fái að fljúga til lands­ins eða stunda hér viðskipti, neita þeim um af­greiðslu á flug­völl­un­um okk­ar eða fyr­ir­tækj­um að selja vör­ur sín­ar á ís­lensk­um markaði nema að kjara­samn­ing­ar og grund­vall­ar mann­rétt­indi séu virt.

Nokkuð snúið að fara leið Ragnars Þórs nema að stórkostlega gjaldfella lífskjör á Íslandi. Ferðamenna koma helst til Íslands með lággjaldaflugfélögum sem formaður VR vill loka á.

 

 


mbl.is Verði eins og hjá „svívirðilegustu“ félögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forysta Eflingar tryggir hagsmuni sína

Sósíalistarnir í Eflingu kunna að koma ár sinni fyrir borð. Hér er tilvitnun í frétt þeirra um nýjan samning:

Önnur meg­in­at­riði samn­ings­ins eru sam­tals 90 þúsund króna hækk­un grunn­launa í grunnþrepi yfir samn­ings­tím­ann, stytt­ing vinnu­vik­unn­ar, 61 þúsund króna ár­legt fram­lag í nýj­an fé­lags­manna­sjóð og fleira. (undirstrikun pv)

Forysta Eflingar tryggir sér 61 þús. kr. pr. haus launþega í sjóð til að vinna að framgangi byltingarinnar. Þessir peningar máttu auðvitað ekki fara í launaumslög vinnandi alþýðu, sem forystan segir þó lepja dauðann úr skel. 

Jólin koma snemma þetta árið fyrir Sósíalistaflokk Íslands.


mbl.is Efling og SÍS semja – verkfalli aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icelandair: gjaldþrot eða ódýrari rekstur

Icelandair er of dýrt í rekstri. Fjárfestar neita að leggja peninga í fyrirtækið nema rekstrarkostnaður lækki.

Stærstu liðir rekstarkostnaðar eru eldsneyti, flugvélar og laun. Heimsmarkaðurinn ræður verði á eldsneyti og flugvélum. 

Launakostnaður aftur ræðst af samningum við verkalýðsfélög.

Málið er einfalt. Lægri rekstarkostaður eða gjaldþrot.


mbl.is „Þetta er grafalvarlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingsfrelsi hættulegt samfélaginu

,,Meiri­hluti nýrra til­fella eru rak­in til 29 ára karl­manns sem fór út að skemmta sér í Ita­ewon-hverfi borg­ar­inn­ar, sem er þekkt fyr­ir öfl­ugt næt­ur­líf. 1.510 manns voru á sömu stöðum og maður­inn og heil­brigðis­yf­ir­völd vinna nú að því að hafa sam­band við fólkið."

Tilvitnunin hér að ofan er um einstakling í Suður-Kóreu en gæti verið frá Bretlandi, Frakklandi, Noregi eða Íslandi. Einn getur smitað marga. Eins og barþjónninn í Ölpunum sem smitaði flugvélafarma af íslensku skíðafólki.

En svarið er já, við mun­um fá aft­ur svona far­ald­ur. Al­veg klár­lega. Hvenær það verður veit ég ekki og hvort það verður heims­far­ald­ur in­flú­ensu, önn­ur teg­und af kór­ónu­veiru eða al­veg ný veira, það veit ég ekki. Þetta er ekk­ert búið, þetta kem­ur aft­ur. Það eina sem við vit­um er að heims­far­ald­ur in­flú­ensu kem­ur á 30-40 ára fresti, og svo aðrar veir­ur líka. Þess vegna þurf­um við alltaf að vera í start­hol­un­um og til­bú­in að eiga við þetta

Seinni tilvitnunin er í Þórólf sóttvarnarlækni.

Við höfum gengið að einstaklingsfrelsi sem vísu. Einstaklingurinn á sig sjálfur og má gera hvað honum sýnist, svo lengi sem hann skerðir ekki frelsi annarra.

En ef einn einstaklingur er þess umkominn að valda farsótt sem leiðir til dauða annarra og ríður heilbrigðiskerfi á slig er ekki spurning hvort heldur hve mikið þarf að skerða einstaklingsfrelsið.

Skrítnir tímar sem við lifum.


mbl.is Óttast aðra bylgju faraldursins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laun Elliða og siðferði sósíalista

Eflingar-sósíalismi er ráðandi tíska í kjarabaráttunni. Grunnhugmyndin er réttlæti. Það sé beinlínis ranglátt að einhver sé með lægri laun en nemur tiltekinni fjárhæð.

Gefum okkur að sátt náist um lágmarkslaun á Íslandi, segjum 650 þús. kr. en það eru dagvinnulaun mín sem framhaldsskólakennara. Þar með væri launaranglæti útrýmt, samkvæmt kennisetningu sósíalista.

Er hægt að ímynda sér slíka sátt? Já, en aðeins sem ímyndun. Sósíalistar myndu aldrei samþykkja að réttlætinu væri fullnægt, það kippti stoðunum undan tilveru þeirra. Þeirra tilvist byggir á samjöfnuði og óánægju með að einhver hafi hærri laun en annar.

Meðallaun á Íslandi, fyrir farsótt, voru eitthvað um 700 þúsund á mánuði, heildarlaun fyrir dag- og yfirvinnu í einn mánuð. Elliði bæjarstjóri er með rúmlega tvöföld meðalmánaðarlaun fyrir það að bera ábyrgð á rekstri bæjarfélags. Það hljómar ekkert út úr korti, liggur nærri mánaðarlaunum alþingsmanna.

Siðferði sósíalista er að taka fyllilega eðlilegt ástand og gera úr því ljótleika óréttlætis. Á Íslandi er meira launajafnrétti en á öðrum byggðum bólum. Þeir sem búa til ranglæti úr því ástandi eru skringilega innréttaðir.

 


mbl.is Elliði birtir launaseðilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar eru vinir, en líka óvinir: um heimsku í stjórnarráðinu

Bretar settu á okkur hryðjuverkalög í aðdraganda hrunsins, það var ekki vinarbragð. Bretar sendu herskip upp að ströndum Íslands til að verja rányrkju breskra togara í íslenskri landhelgi. Ekki var það huggulegt af stórveldinu.

Hvorugt þessara atriða rataði í ítarlega frétt stjórnarráðsins um 80 ára stjórnmálasamband Íslands og Bretlands, sem raunar var slitið um tíma vegna stríðsins um landhelgina. Heimskan í stjórnarráðinu gerir Gulla utanríkis að meiri hálfvita en hann þyrfti að vera og gæti þriðji orkupakkapilturinn alveg verið án bjarnargreiðans.

Heimskan í stjórnarráðinu er angi af menningarsjúkdómi sem veldur því að fólk sér heiminn í svart-hvítu og tapar blæbrigðum veruleikans. Menningarsjúkdómurinn krefst annað hvort eða - á meðan heimurinn er bæði og. Í sæmilega mönnuðu stjórnarráði ætti fyrir löngu að vera komið hjarðónæmi fyrir alþjóðaveiru sem einkum leggst á fólk töluvert neðan meðalgreindar.

Hlutlægt mat er að Bretar eru sögulega bæði og, vinir og óvinir. Seint á miðöldum sigldu þeir hingað, veiddu og versluðu yfirleitt til hagsbóta fyrir landsmenn sem annars voru undir dönsku yfirvaldi. Þegar herskip hans hátignar sigldu inn Faxaflóa 10. maí 1940 varpaði þjóðin öndinni léttar. Það voru ekki sveinar Hitlers sem sóttu okkur heim. Nokkurt stímabrak varð mánuði áður þegar þýskar hersveitir lögðu undir sig Noreg og Danmörku. Bretar voru ótvírætt betri kostur. Líkt og Íslendingar eru Bretar eyþjóð(ir) sem lítt taka undir isma meginlandsins, hvort heldur forskeytin séu nas-, kommún- eða ESB.

Þjóðir eiga ekki hugsjónir, aðeins hagsmuni. Þessi grunnhugsun gildir í samskiptum þjóðríkja frá nýöld. Þjóðríkið á fyrst og fremst skyldum að gegna við íbúa sína. Til að rækta þá skyldu mega stjórnvöld aldrei falla í þá gildru að umgangast íbúana eins og börn sem hvorki vita í þennan heim né annan.

Bretar eru vinaþjóð en stundum skerst í odda þar sem hagsmunir Íslands og Bretlands fara ekki saman. Á hátíðarafmæli stjórnmálasambands þjóðanna ætti ekki að draga fjöður yfir sögulegar staðreyndir.

Eitt atriði enn gæti skýrt hálfvitatexta stjórnarráðsins. Bretar tóku stórmerkilega ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016; að yfirgefa Evrópusambandið, Brexit. Sjálfkrafa færir Brexit okkur nær Bretum andspænis ESB. Hvers vegna skyldi eins og einni setningu ekki splæst í frétt utanríkisráðuneytisins um þetta atriði. Jú, það er alþjóðaveiran sem meira og minna allir í íslensku utanríkisþjónustunni eru smitaðir af: sæluríkið er ESB, utan þess er harðbýli. Sérstaklega ef maður er smitaður embættismaður - og ætti með réttu að vera í sóttkví.


mbl.is Stjórnmálasamband við Bretland 80 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB bannar ferðalög til Íslands

Framkvæmdastjórn ESB ákvað í dag á fundi í Brussel að framlengja lokun Evrópu fyrir ferðamönnum utan álfunnar til 15. júní. 

Gulli utanríkis og Áslaug dómsmála tóku þátt í fyrri lokun ESB á Evrópu, sem gildir til 15. maí.

Ekki vel sniðugt að láta Brussel ákveða hverjir megi koma til Íslands og hverjir ekki.


mbl.is Vill alla áfram í sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rasismi í heimsþorpinu: Trump og Pútín

Sameinuðu þjóðunum er illa við Trump forseta. Glókollur í Hvíta húsinu dregur lappirnar við að fjármagna heimsþorp frjálslyndra vinstrimanna með manngerðu loftslagi, fjölmenningu og alles.

Andstæðingar heimsþorpsins eru rasistar, samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna.

Einn vinur heimsþorpsins, Kevin Rudd, fyrrum forsætisráðherra Ástralíu, segir nýjasta trix Trump-vina að rekja kórónuveiruna til kínverskrar rannsóknastofu. Pjúra rasismi. Lýsing Rudd á samsærinu er að breyttu breytanda sú sama og Trump-vinir höfðu á samsæri frjálslyndra vinstrimanna eftir kosninganna 2016 þegar Pútín Rússlandsforseti var sagður hafa tryggt kjör Trump.

Heimsþorpinu kann að skorta leiðtoga. En ættarhöfðingjarnir eru með andstæðingana á hreinu: Donald Trump og þar á eftir Valdimar Pútín.

 


mbl.is „Flóðbylgja haturs og rasisma“ vegna veirunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skeljungur, Hagar og Össur: ljótu andlit kapítalismans

Siðleysi fyrirtækja á beinum ríkisstyrk að greiða eigendum arð og kaupa eigin bréf, til að auka verðmæti ráðandi hluthafa, er algert.

Skeljungur, Hagar og Össur eru auðrónarnir sem koma óorði áfengið sem heldur annars öllum sáttum; mannúðlegt markaðshagkerfi.

Almenningur ætti að forðast viðskipti við auðrónana.


mbl.is Breyta hlutabótaleið til að hindra misnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband