25 eineltir þingmenn

Pólitík er einelti. Dag inn og dag út stundar þorri þingmanna einelti með því að væna hina og þessa um spillingu, gerræði, mannvonsku, óréttlæti eða almennt heimshatur. Án eineltis engin pólitík.

Þegar könnun meðal þingmanna segir að nær fjórir af hverjum tíu þykjast hafa orðið fyrir einelti í vinnunni er annað tveggja að 25 þingmenn vita ekki hvað pólitík gengur út á eða þeir ljúga upp á sig einelti í skjóli nafnleyndar. Svona eins og sumir þingmenn ljúga upp á sig prófgráðum.

Alþingi er illa mannaður vinnustaður. Þótt sómafólk sé þar innan um, og þökk sé þeim að umbera afturkreistingana, er drjúgur hluti alþingismanna illa gefinn og verr innrættur. Siðferðilegir mínusvaríantar komust til þings eftir útrás og hrun þegar lausung hljóp í lýðinn sem leitaði að hirðfíflum í mótmælakosningum gegn máttarvöldum sem sváfu á verðinum.

Hirðfíflin gáfu sig óðara fram, stofnuðu jafnvel heilu flokkana. Mótmælaaldan skolaði þeim á Austurvöll. Þar stunda viðrinin skemmdarverk, einatt í samspili við samfélagsmiðla og RÚV.

Skemmdarverkin eiga þann samnefnara að hér búi ónýt þjóð í hörmungarlandi. Gripsvit hirðfíflanna segir þeim að þjóð fái þá þingmenn sem hún á skilið: ónýt þjóð fær ónýta þingmenn.


mbl.is 38% þingmanna orðið fyrir einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís þakkaði fúsk WHO

Svandís heilbrigðis þakkaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni, WHO, vinnubrögð sem einkenndust af fúski og undirlægjuhætti gagnvart Kínverjum.

Í WHO birtist gerspilling alþjóðavaldsins í sinni tærustu mynd. Vanhæfir og ábyrgðalausir embættismenn fá framgang í baktjaldamakki. Framganginn þakka þeir með þrælslund gagnvart stórveldum sem þeir eiga frama sinn að þakka.

Betur hefði farið á því að Svandís minntist þess að hollur er heimafenginn baggi. Íslendingar náðu tökum á farsóttinni með séríslenskum ráðstöfunum en ekki leiðsögn frá alþjóðlegri ruslahrúgu sem nú er til rannsóknar.


mbl.is Samþykkja sjálfstæða rannsókn á WHO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugfreyjur í 40% skotgröf

Flugfreyjur gerðu þau mistök í upphafi samninga við Icelandair að segja tilboð félagsins jafngilda 40 prósent launalækkun.

Tilboðið félagsins fól í sér meiri vinnu fyrir sambærileg laun. Það má kalla það launalækkun en líka tilraun til að bjarga verðmætum, sjálfu fyrirtækinu. Án Icelandair er einfaldlega engin vinna. WOW datt ekki í hug að semja við stéttarfélagið Flugfreyjufélag Íslands. Næsti flugrekandi mun heldur ekki gera það.

Flugfreyjur tóku Eflingu á tilboðið. Máluðu skrattann á vegginn og hrópuðu á torgum um óréttlæti heimsins.

En það er sem sagt munur á raunsæi og Eflingaræði.

 

 


mbl.is Engin niðurstaða eftir ellefu tíma fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband