Hagsmunalandið Ísland - og óseðjandi metnaður

Seðlabankastjóri, í lélegri vörn fyrir svikula embættismenn, sagði landinu stjórnað af hagsmunahópum. Það þóttu fréttir, mestar hjá þeim sem þykjast ekki vita - eða vilja ekki vita - hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Ísland er hagsmunaland og hefur alltaf verið. Frá landnámi var hér ættarveldi. Einar sjö ættir börðust um völdin á Sturlungaöld. Norska konungsvaldið reri undir, gerði bandalög þvers og kruss á ættirnar. Kirkjuvaldið, sem spratt upp úr goðavaldi ættanna, reif sig laust og gerði bandalag við konungsvaldið til höfuðs höfðingjaættunum. Fyrrum höfðingjaættir urðu staðarhaldarar kirkjunnar annars vegar og hins vegar embættismenn konungs.

Kirkjuvaldi og konungi laust saman 300 árum eftir Sturlungaöld. Með siðaskiptunum hafði konungsvaldið betur. Á nýöld stunduðu betri bændur og kirkjuhöfðingjar ábatasöm viðskipti við Englendinga og síðar Þjóðverja í trássi við konung. Því veseni lauk með einokuninni í byrjun 17. aldar. Danskir kaupmenn og innlendir leiksoppar urðu máttugir ásamt hálfdönsku yfirvaldi.

Hraðspólum inn í 20. öldina og sjáum fjórflokkinn taka á sig mynd fyrir miðja öldina. Undir yfirskini lýðræðis átti fjórflokkurinn landið og miðin. Ef einhver vildi verða barnakennari í Reykjavík þurfti hann flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum. Ég ólst upp í Keflavík. Ef menn sáu fyrir sér vinnu í tollinum á flugstöðinni á Miðnesheiði þurfti velvild krata - Alþýðuflokksins - sem útbýtti þeim gæðum.

Ekki svo að skilja að eymd og volæði hafi fylgt fjórflokknum. Öðru nær. Velmegun og hagsæld jókst alla 20stu öldina  almenningi til hagsbóta. En hvert sem litið var voru hagsmunir.

Og þannig er það enn. Fjórflokkurinn er fyrir bí en ekki hagsmunir. Þeir eru fleiri og dreifðari. RÚV er hagsmunamiðstöð starfsmanna á Efstaleiti. Embættismenn hafa komið ár sinni svo vel fyrir borð að fái þeir ekki laust embætti geta þeir farið í mál við ríkið og fengið einar 20 til 30 milljónir í bætur. Verkalýðsfélög og lífeyrissjóðir eru hagsmunabandalög sem sjá um sína. Og svo má áfram telja.

Til að skilja Íslendinga, bæði fyrrum og nú til dags, þarf að hafa tvennt á hreinu. Í fyrsta lagi hagsmuni, samanber sem að ofan segir. Í öðru lagi metnað einstaklinga sem er hóflegur í sumum en óseðjandi hjá öðrum.

Kolbeins saga Óttarssonar Proppé, Helga saga Seljan, Gunnars saga Smára, Ingu saga Sæland, Þorvalds saga Gylfasonar og saga Rósu B., eru nokkrar samtímasögur, valdar af handahófi, til að vekja athygli á fólki sem getur ekki hugsað sér heiminn án þess að það sjálft sé í aðalhlutverki. Að breyttu breytanda gæti þetta fólk verið úr Sturlungasögu. 

Hagsmunir og metnaður. Sturla Þórðarson og óþekktir höfundar Íslendingasagna kunnu skil á gangverki mannlífsins.


mbl.is Umdeilanlegt að höfða mál gegn starfsmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýr vörn seðlabankastjóra fyrir óverjandi háttsemi

Starfsmaður Seðlabanka Íslands átti í samstarfi við Helga Seljan á RÚV að niðurlægja norðlenskt útgerðafyrirtækja með ásökunum um lögbrot sem ekki reyndist fótur fyrir. Þetta er stutta sagan um seðlabankamanninn, Helga Seljan og Samherja.

Þegar Seðlabankinn hóf rannsókn á Samherja vorið 2012 taldi ég, líkt og allur þorri landsmanna, að um væri að ræða heiðarlegt stjórnvald að rannsaka rökstuddan og málefnalega grun um brot Samherja á gjaldeyrislögum. Margar tilfallandi athugasemdir voru skrifaðar til stuðnings Seðlabankanum og Samherji gagnrýndur, sjá t.d. hér og hér.

En það var ekkert eðlilegt við upphaf rannsóknar Seðlabanka Íslands á meintum gjaldeyrisbrotum Samherja. Helgi Seljan hafði farið með ónýta pappíra, sem hann kallaði skjöl í fleirtölu, og reynt að fá opinberar stofnanir í lið með sér að klekkja á Samherja. Málatilbúnaðurinn reyndist þvættingur frá a til ö. Í ofsóknum Helga Seljan og RÚV gegn Samherja spilaði starfsmaður Seðlabanka Íslands með og ljáði upplognum ásökunum trúverðugleika. Í þessu tilfelli brást embættismaðurinn og Seðlabankinn þar með trausti almennings.

Nú kemur sitjandi seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, sem vel að merkja tók við búinu löngu eftir Samherjamál, og ber fram þá vörn að Samherji ofsæki starfsmenn bankans. Nei, Ásgeir. Samherji vill réttlæti.

Ertu á móti réttlæti, Ásgeir Jónsson?

 


mbl.is Íslandi að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínaveiran og tvær frásagnir íslenskar

Tvær meginfrásagnir eru af farsóttarvörnum á Íslandi. Sú fyrri er að yfirvöldum, þ.e. þríeykinu og ríkisstjórn, hafi tekist vel upp. Íslendingar urðu ekki fyrir stórfelldum skerðingum á daglegu lífi sínu vegna sóttvarna samtímis sem dauðsföllum var haldið í lágmarki og heilbrigðiskerfinu var ekki riðið á slig. Íslendingar koma hvað best út í alþjóðlegum samanburði á viðbrögðum stjórnvalda við Kínaveirunni.

Seinni frásögnin um sóttvarnir á Fróni er öfgaútgáfan. Undirflokkar hennar eru tveir. Inga Sæland í Flokki fólksins og nærsveitarmenn, t.d. sumir í Samfylkingu, vildu loka landinu ótímabundið á meðan heimsfaraldurinn gengi yfir. Seinni undirflokkurinn á sér talsmenn meðal gúlag-lögfræðinga og í Sjálfstæðisflokknum er telja stórfelld mannréttindabrot að skikka fólk í sóttkví.

Fyrri frásögnin er rétt. Sóttvarnir á Íslandi voru hóflegar en árangursríkar. Seinni frásögnin er röng, kemur ekki heim og saman við veruleikann.

En öll eru þessi mál ofurviðkvæm, einkum á kosningaári. Þess vegna eru hertar sóttvarnir á Keflavíkurflugvelli ekki ræddar á ríkisstjórnarfundi. Sem er pínulítið fyndið, satt best að segja, og til marks um að einhverjir pólitískir hópar hér á landi halda enn dauðahaldi í annan hvorn undirflokk öfgafrásagnarinnar.


mbl.is Hertar aðgerðir ekki ræddar á ríkisstjórnarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trausti veit, Biden ekki

Meðalhiti á Íslandi síðustu 200 ár hefur hækkað um 0,8 gráður á öld, segir Trausti Jónsson veðurfræðingur og byggir á tiltækum gögnum.

Hækkun á meðalhita um 1,6 gráðu á 200 ára tímabili er engin hamfarahlýnun heldur eðlileg náttúruleg sveifla.

Á þessu tveggja alda tímabili eru styttri skeið þar sem hiti fer ýmist hækkandi eða lækkar. Svona svipað og veðrið, sem breytist frá degi til dags. Trausti skrifar: ,,Hiti á kuldaskeiðinu 1965 til 1995 var lengst af lægri heldur enn hann var á hlýskeiðum 19.aldarinnar [við kölluðum það kuldaskeið sem nítjándualdarmenn hefðu kallað hlýskeið]."

Biden Bandaríkjaforseti og heimselítan vilja telja okkur trú um að náttúrulegar sveiflur á hitafari séu af mannavöldum. Biden og heimselítan eru fangar trúarbragða. Trausti talar vísindi.


mbl.is Losun gróðurhúsalofttegunda helminguð fyrir 2030
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vín, morð og mannréttindi

Íslenskt vinafélag palestínskra hryðjuverkamanna gerir ísraelsk vín í ÁTVR að skotmarki sinu.

Í tilkynningu frá félagsskapnum Íslandi-Palestínu segir m.a. fyrirtæki eigi að ,,full­vissa sig um að þau ger­ist ekki meðsek um mann­rétt­inda­brot."

Yfirvöld í Palestínu hafa um árabil greitt laun til þeirra sem drepa gyðinga. Félagið Ísland-Palestína leggur blessun sína yfir kaldrifjuð morð en finnst ótækt að ísraelsk vín séu seld í ÁTVR.


mbl.is Vín frá hernumdu svæði sagt vera frá Ísrael
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn sækir fólk í Samfylkinguna

Efsti maður á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi, Guðbrandur Einarsson, var fyrrum í Alþýðubandalaginu og síðar í Samfylkingu. Fyrir nokkrum dögum var frétt um annan samfylkingarmann sem gekk í raðir Viðreisnar.

ESB-deild úr Sjálfstæðisflokknum stofnaði Viðreisn. Benni stofnandi, Þorgerður Katrín, Þorsteinn Páls og Pavel B. eru allt heimalningar á bithögum XD. 

Samfylking og Viðreisn eiga ESB-drauminn sameiginlegan. En tæplega er það dauða hross ástæðan fyrir vistaskiptum. 

Löngum er það þannig á vinstri kanti stjórnmálanna að fólk skiptir um flokk ef persónulegur metnaður og framavonir fara ekki saman. Rósa B. stökk úr Vinstri grænum í Samfylkingu á þeim forsendum. Andrés Ingi átti sömu brottfarstöð en lenti hjá Pírötum í von um þingsæti.

Nýrra ber við þegar Viðreisn tekur pólitískum flóttamönnum frá öðrum vinstriflokkum. Sumir stóðu í þeirri trú að Viðreisn væri frjálslyndur hægriflokkur. 


mbl.is Guðbrandur leiðir lista Viðreisnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banatilræði Jóhannesar

Jóhannes uppljóstrari Stefánsson hefur ,,mátt þola hót­an­ir og jafn­vel bana­til­ræði," segir í meðfylgjandi frétt.

Banatilræðið skyldi þó aldrei vera þetta hér?


mbl.is Jóhannes verðlaunaður fyrir uppljóstranir sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótbolta-Brexit og félagslegt auðmagn

Bresku félögin sex sögðu sig frá evrópsku ofurdeildinni í knattspyrnu. Þau bresku eru að mestu í eigu útlenskra auðmanna, bandarískra, rússneskra og arabískra. Eigendurnir stóðust ekki þrýsting stuðningsmanna og hættu við áform um evrópsku ofurdeildina.

Félagslegt auðmagn sigraði alþjóðlegan kapítalisma.

Guð blessi Brexit.


mbl.is Ofurdeildin er ekki hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sátt um sóttvarnir - en pólitísk undiralda

Í heildina er breið sátt um sóttvarnir gegn Kínaveirunni hér á landi. Farsóttin var í upphafi óútreiknanleg og lítið vitað um bestu viðbrögð annars vegar og hins vegar langtímaáhrif. Eðlilega var ekki allt fullkomið í opinberum aðgerðum. Hvorki hér á landi og enn síður erlendis.

Á hinn bóginn er rétt að halda til haga að Íslendingar urðu fyrir langtum minni röskun á daglegu líf en þorri annarra þjóða. Allar líkur eru á að stórfelldar smitbylgjur heyri sögunni til.

Takist okkur að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar hillir undir veirulok lítur út fyrir að með hækkandi sól falli flest í fyrra horf. Helsti vandinn er að finna ásættanlega úrlausn á ferðamönnum, íslenskum sem erlendum.

Ísland verður ekki veirufrítt. Það er einfaldlega ekki raunhæft markmið. En það ætti að liggja innan marka hins mögulega að grípa til staðbundinna aðgerða þegar smit stingur sér niður og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Farsóttin er stórmál. Varnir gegn henni, hvort gengið hafi verið nógu langt eða of skammt, eru eðlilega pólitískt álitamál. Þingkosningar eru í haust og þeim fylgir pólitísk undiralda. Þegar pólitísk öfl freista þess að gera hávaða um það sem sátt er um í samfélaginu er ekki víst að þeim verði kápan úr klæðinu.


mbl.is Rúmlega 62% vilja fólk í sóttvarnahótel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loga formanni mótmælt af ungum jafnaðarmönnum

Samstaðan fer eins og logi yfir akur í Samfylkingunni. Varla er formaðurinn búinn að lofa sóttkví á alla ferðamenn, og hægja á hjólum atvinnulífsins, þegar ungir jafnaðarmenn krefja stjórnvöld um aukna atvinnu.

Samfylkingin ætlar seint að læra að það verður ekki bæði sleppt og haldið.


mbl.is Atvinnuleysi aukist mest á Íslandi innan OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband