Hagsmunalandið Ísland - og óseðjandi metnaður

Seðlabankastjóri, í lélegri vörn fyrir svikula embættismenn, sagði landinu stjórnað af hagsmunahópum. Það þóttu fréttir, mestar hjá þeim sem þykjast ekki vita - eða vilja ekki vita - hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Ísland er hagsmunaland og hefur alltaf verið. Frá landnámi var hér ættarveldi. Einar sjö ættir börðust um völdin á Sturlungaöld. Norska konungsvaldið reri undir, gerði bandalög þvers og kruss á ættirnar. Kirkjuvaldið, sem spratt upp úr goðavaldi ættanna, reif sig laust og gerði bandalag við konungsvaldið til höfuðs höfðingjaættunum. Fyrrum höfðingjaættir urðu staðarhaldarar kirkjunnar annars vegar og hins vegar embættismenn konungs.

Kirkjuvaldi og konungi laust saman 300 árum eftir Sturlungaöld. Með siðaskiptunum hafði konungsvaldið betur. Á nýöld stunduðu betri bændur og kirkjuhöfðingjar ábatasöm viðskipti við Englendinga og síðar Þjóðverja í trássi við konung. Því veseni lauk með einokuninni í byrjun 17. aldar. Danskir kaupmenn og innlendir leiksoppar urðu máttugir ásamt hálfdönsku yfirvaldi.

Hraðspólum inn í 20. öldina og sjáum fjórflokkinn taka á sig mynd fyrir miðja öldina. Undir yfirskini lýðræðis átti fjórflokkurinn landið og miðin. Ef einhver vildi verða barnakennari í Reykjavík þurfti hann flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum. Ég ólst upp í Keflavík. Ef menn sáu fyrir sér vinnu í tollinum á flugstöðinni á Miðnesheiði þurfti velvild krata - Alþýðuflokksins - sem útbýtti þeim gæðum.

Ekki svo að skilja að eymd og volæði hafi fylgt fjórflokknum. Öðru nær. Velmegun og hagsæld jókst alla 20stu öldina  almenningi til hagsbóta. En hvert sem litið var voru hagsmunir.

Og þannig er það enn. Fjórflokkurinn er fyrir bí en ekki hagsmunir. Þeir eru fleiri og dreifðari. RÚV er hagsmunamiðstöð starfsmanna á Efstaleiti. Embættismenn hafa komið ár sinni svo vel fyrir borð að fái þeir ekki laust embætti geta þeir farið í mál við ríkið og fengið einar 20 til 30 milljónir í bætur. Verkalýðsfélög og lífeyrissjóðir eru hagsmunabandalög sem sjá um sína. Og svo má áfram telja.

Til að skilja Íslendinga, bæði fyrrum og nú til dags, þarf að hafa tvennt á hreinu. Í fyrsta lagi hagsmuni, samanber sem að ofan segir. Í öðru lagi metnað einstaklinga sem er hóflegur í sumum en óseðjandi hjá öðrum.

Kolbeins saga Óttarssonar Proppé, Helga saga Seljan, Gunnars saga Smára, Ingu saga Sæland, Þorvalds saga Gylfasonar og saga Rósu B., eru nokkrar samtímasögur, valdar af handahófi, til að vekja athygli á fólki sem getur ekki hugsað sér heiminn án þess að það sjálft sé í aðalhlutverki. Að breyttu breytanda gæti þetta fólk verið úr Sturlungasögu. 

Hagsmunir og metnaður. Sturla Þórðarson og óþekktir höfundar Íslendingasagna kunnu skil á gangverki mannlífsins.


mbl.is Umdeilanlegt að höfða mál gegn starfsmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband