Hrunið, byltingin og gagnbyltingin

Hrunið 2008 leiddi til byltingartilraunar vinstrimanna. Samfylkingin tók að sér að sprengja ríkisstjórn Geirs H. Haarde þá um veturinn gegn því að Vinstri grænir samþykktu að styðja ESB-umsókn og að farga stjórnarskrá lýðveldisins. Vorið 2009 náðu þessir flokkar meirihluta á alþingi og ríkisstjórn Jóhönnu Sig. komst á koppinn.

Herfræði byltingarstjórnarinnar var þessi: Ísland er ónýtt og þarf að ganga í Evrópusambandið. Stjórnarskráin er ónýt og byltingarráð (stjórnlagaráð) var fengið til að semja nýja. Föllnu bankarnir voru gefnir útlendingum. Íslendingar sjálfir voru ónýtir; þess vegna skyldu þeir borga Icesave-reikninga einkabanka í 40 ár og lifa við vénúselískan sósíalisma á meðan, auðvitað undir forsæti vinstrimanna.

Sérfræðinga- og bloggsveit vinstrimanna hamaðist á þjóðinni með byltingarboðskapinn. En almenningur sá við þeim byltingaróðu og töfraði fram seinna óskabarn þjóðarinnar; Sigmund Davíð sem sagði nei, við borgum ekki Icesave og nei, við látum ekki almenning bera byrðarnar - heldur þrotabú bankanna.

Þjóðin gerði Framsóknarflokk Sigmundar Davíðs stærsta flokk landsins í kosningunum 2013. Byltingarflokkarnir fengu skell. Samfylkingin hrapaði úr 30 prósent fylgi í 12,9 prósent og Vinstri grænir misstu meira en helming atkvæða sinna, fóru í 10,9 prósent.

Gagnbylting Sigmundar Davíðs heppnaðist fullkomlega. ESB-umsóknin dó drottni sínum, skemmdarverkinu á stjórnarskránni linnti, Icesave-fjötrum var hnekkt, heimilin fengu leiðréttingu og bankarnir voru teknir úr höndum útlendinga til ábata fyrir Íslendinga.

Vinstrimenn brjáluðust. Þeir gerðu út lygnustu fréttaveitu norðan Alpafjalla, RÚV, til höfuðs óskabarninu. Sigmundur Davíð var plataður í viðtal á fölskum forsendum og Helgi Seljan RÚVari líkti gagnbyltingarhetjunni við Pútín og Gaddaffi í frægum sjónvarpsþætti kenndum við Panama.

Sigmundur Davíð féll með ríkisstjórn sinni 2016. En líkt og Nelson við Trafalgar sigraði hann bæði stríðið og orustuna: lýðveldinu var borgið, þökk sé óskabarninu öðrum fremur.

Eftir 2016 var stjórnmálaóreiða þangað til að Sjálfstæðisflokkur og illskásta vinstrið gerðu vopnahlé og mynduðu ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.


mbl.is Mannlífið á fyrstu mánuðum eftir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV atlagan að Brimborg

Brimborg er fyrirtæki með 300 manns í vinnu. RÚV gerði sér að leik að grafa undan fyrirtækinu með rangri ásökun um að Brimborg mismunaði starfsmönnum sínum. RÚV vissi að ásökunin var röng en gerði engu að síður atlögu að trausti og trúverðugleika fyrirtækisins.

Starfsaðferðir RÚV við að taka einstaklinga og fyrirtæki af lífi með röngum ásökunum eru komnar út í slíkar öfgar að ekki verður við unað.

RÚV er fjármagnað af ríkinu sem er eini eigandi stofnunarinnar. Löngu tímabært er að RÚV sæti ábyrgð á framferði sínu. 


mbl.is Telur Helga hafa brotið siðareglur RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir snúa baki við ESB

Afgerandi meirihluti kjósenda Vinstri grænna, um 62 prósent, er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er töluvert hærra hlutfall en meðal þjóðarinnar almennt, en þar eru 57 prósent andvíg.

Um skamma hríð, í herferð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. gegn lýðveldinu tók forysta Vinstri grænna upp á því að styðja ESB-umsókn Samfylkingar. Þingflokkurinn klofnaði, þrír þingmenn hrukku af skaftinu.

Forysta Vinstri grænna náði áttum og lagði til að ESB-umsóknin yrði sett ofan í skúffu áramótin 2012/2013. Þar hefur hún legið síðan.


mbl.is Meirihlutinn á móti inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flótti frá VR og verkó

Stórfjölgun félagsmanna í nýju stéttarfélagi, Félagi lykilmanna, kemur að stærstum hluta frá VR. Félagið er ekki stofnað til að plokka fjármuni af launþegum. Félagsgjaldið tekur aðeins 0,05 prósent af launum félagsmanna í félagsgjöld á meðan VR tekur 0,7 prósent.

Á síðustu árum hafa verkalýðsfélög eins og VR og Efling fallið í hendur herskárra verkalýðsrekenda sem í skjóli lítillar kjörsóknar og samfélagsmiðla ná völdum í gamalgrónum stéttarfélögum.

Lággjaldafélag eins og Félag lykilmanna er svar við einokun verkalýðsrekenda á félagslegu valdi sem reglulega er misbeitt í pólitískum tilgangi annars vegar og hins vegar til að hlaða undir fámenna klíku er situr í fílabeinsturni án tengsla við veruleika atvinnulífsins.

 


mbl.is 50% fjölgun félaga í FLM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin er í fortíðinni

Í þúsund ára sögu Rómarveldis byggðust allar hugmyndir um framtíðina á fortíðinni. Hver samtími taldi sér trú um sína útgáfu af fortíðinni og undirbyggði þar með framtíðina.

Íslendingar eru almennt fremur latir að horfa til fortíðarinnar.

Framtíðarhugmyndir sveiflast þess vegna á milli þess að vera bernsk óskhyggja eða algjört svartnætti. Dáldið við að vera þannig.


mbl.is Sigurvegararnir fá milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta hrun undirbúið

Næsta hrun er í undirbúningi. Þeir sem selja inn á viðkvæma markaði ferðaþjónustunnar stytta greiðslufrest úr mánuði niður í tvær vikur. Þegar flugfargjöld hækka, eða WOW fer í gjaldþrot, hvort heldur sem kemur fyrr, kemur högg á ferðaþjónustuna.

Væntanlegt hrun verður kannski aðeins leiðrétting. Krónan er þegar tekin að aðlaga sig, hefur lækkað síðustu vikur. Almenningur hefur veður af breytingum, dregur úr stórneyslu t.d. í bílakaupum.

Kjarasamningar í vetur verða undir þeim formerkjum að verja áunninn kaupmætt góðæris síðustu ára. Það verður erfitt í hallæri.

 


mbl.is Bankarnir betur búnir undir annað hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Há laun valda veikindum

Launin í landinu eru orðin svo há að það borgar sig að vera veikur. Verkalýðsfélög eiga svo digra sjúkrasjóði að æ fleiri launþegar kjósa að vera heima á sjúkradagpeningum. Velferðin er orðin svo mikil að fólk nennir ekki að vinna.

Tvær lykilefnisgreinar í viðtengdri frétt, önnur frá Eflingu og hin frá VR, útskýra samhengið:

Hjá Efl­ingu hækkuðu dag­pen­inga­greiðslur til fé­lags­manna á al­menn­um vinnu­markaði um 39% milli ára. Hækk­un­in skýrist að hluta til af því að laun hafa hækkað og fé­lög­um hef­ur fjölgað. „Þó er ljóst að veik­um hef­ur fjölgað, þeir voru leng­ur veik­ir og fengu hærri upp­hæðir,“

Frá VR kemur þetta:

„Við vilj­um vita af hverju fólkið okk­ar er að gef­ast upp. Hvað er það í okk­ar sam­fé­lagi sem veld­ur því að við erum að missa fólk í þetta mikl­um mæli í veik­indi, í streitu­tengda sjúk­dóma, og út af vinnu­markaði?“

Verkalýðshreyfingin er orðin atvinnurekandi sjúklinga. Í kjarasamningum síðustu ára tryggja verkalýðsrekendur stöðu sína með því að krefja atvinnurekendur - og launþega - um framlag í sjúkrasjóði. Þeir sjóðir greiða laun án þess að nokkur vinna komi á móti. Þá fjölgar þeim sem sitja heima, föndra eða leika sér í tölvuleikjum, og eru á harla góðum launum sjúkrasjóða.

Stressandi líf, ekki satt?


mbl.is Greiðslur hafa hækkað um 43%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundakofakenning Baldurs

Baldur Þórhallsson prófessor býr til kenningu um að smáríki þurfi skjól. Kenningin mælist til þess að smáríki finni sér hundakofa á lóð stórríkis og láti sér vel líka.

Gallinn við kenningu Baldurs er að þeir sem hugsa smátt verða litlir.

Gildir bæði um einstaklinga og þjóðir.


mbl.is Smáríki þurfa skjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

WOW leiðir gjaldþrotastríðið við Icelandair

Í september lækkuðu flugfargjöld til og frá Íslandi um heil 25 prósent, samkvæmt Hagstofunni. Á sama tíma hækkaði eldsneytisverð og vextir. Öll rök mæltu með hækkun fargjalda. Hver er skýringin?

Jú, WOW keyrir niður fargjöldin og Icelandair eltir. Flugfélögin bæði borga með hverjum farþega sem þau flytja. Á síðustu 4 árum hefur WOW jafnt og þétt aukið markaðshlutdeild sína á kostnað Icelandair. Miðað við brottfarir var Icelandair með 65% markaðshlutdeild fyrir fjórum árum en WOW 13%. Í yfirliti Túrista er Icelandair með 44% hlutdeild í ágúst síðast liðinn en WOW yfir 30%.

Til samans standa WOW og Icelandair fyrir um 75 prósent af flugumferð til og frá landinu. Félögin eru bæði of stór til að falla - án hörmunga fyrir ferðaþjónustuna.

Viðskiptamódel WOW þessar vikurnar er að valda stórkostlegu tapi á flugrekstri til að komast beint eða óbeint í ríkisfé. WOW kemst upp þessa viðskiptahætti vegna þess að stjórnvöld eru veiklunduð, leyfa m.a. skuldasöfnun WOW hjá Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll.

WOW getur um hríð flutt fólk til og frá landinu undir kostnaðarverði. En það er bilbugur á félaginu, samanber samdrátt í framboði.

Ríkisstjórnin verður að senda skýr skilaboð. Í gjaldþrotastríði flugfélaganna fær hvorugt þeirra krónu af almannafé. Þá, en ekki fyrr, linnir flugrekstri þar sem haltur leiðir blindan fram af bjargbrúninni.


mbl.is Hlutabréf í Icelandair lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sekur uns sakleysi sannað

Almenna reglan í réttarríkinu er að sekt skuli sönnuð. Án sönnunar verði enginn dæmdur. Á tímum múgæsingar á samfélagsmiðlum er meginreglunni iðulega snúið upp í andstæðu sína: menn eiga að sanna sakleysi sitt.

Fyrir utan þá augljósu staðreynd að sönnun á sakleysi er oft ómöguleg veldur miðlamúgæsingin því að málsvörn sakbornings drukknar í stöðugu flæði ásakana sem hafa ekkert með upphaflega ákæru að gera.

Sakborningur á sér fáar bjargir. Hann er úthrópaður, úthýstur og útilokaður frá réttlátri málsmeðferð. Dómsmorð er fullframið áður en sannleikurinn kemst á stjá.


mbl.is Segir þetta „erfiða“ tíma fyrir unga menn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband