Oddný: kratar á móti norrænni samstöðu

Á Norðurlöndum er samstaða um að evran sé óæskilegur gjaldmiðill fyrir norrænt velferðarþjóðafélag. Noregur, Danmörk og Svíþjóð halda sinni krónu en fúlsa við evru.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður og fyrrum formaður Samfylkingar vill að Íslandi skeri sig frá Norðurlöndum, fargi krónunni en taki upp evru.

En kannski er Oddný aðeins í læri hjá sitjandi formanni, sem heldur að evran sé lögeyrir á Norðurlöndum.


mbl.is Komumst ekki úr hjólförum með krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan gramsar í fordómum

Lögreglan fann fjöður í athugasemdakerfi DV og gerði úr haturshænu, öllu heldur hana, ákærði og fékk mann dæmdan. Ef lögreglan ætlar að fínkemba athugasemdakerfi fjölmiðla og færslur á samfélagsmiðlum í leit að hatri til að draga mann og annan fyrir dómstóla er hætt við að tvennt gerist.

Í fyrsta lagi að lögreglan mismuni. Hatrið sem lögreglan leitar að er í daglegu tali kallað fordómar. Þeir eru margvíslegir og hluti af mannlífinu. Lögreglan verður að forgangsraða og hafi uppi á fordómum sem hún telur sérdeilis henta að fá stimplaða sem hatur. Lögreglan er komin í pólitískt hlutverk sem þekkist aðeins í alræðisríkjum þar sem einum fordómum er hampað en öðrum úthýst.

Í öðru lagi verður það sport að daðra opinberlega við fordóma til að leita eftir viðbrögðum lögreglunnar, kanna hvar hún dregur mörkin og hvaða rétttrúnaðartíska gildir þá og þá stundina. Það beinlínis hvetur til fordóma að vita af áheyrendum sem vilja leggja við hlustir.

Hatur er tilfinning rétt eins og ást. Lögregla ræður ekki yfir tilfinningalífi fólks, a.m.k. ekki enn sem komið er. Af því leiðir er tómt mál að tala um hatursorðræðu. Hatrið getur verið ískalt, yfirvegað og fágað. Líkt og ástarjátningar eru einatt kauðskar, óheflaðar og lítt ígrundaðar.

Talsmenn refsinga fyrir meinta hatursorðræðu eru hlaðnir fordómum. Þeir vilja refsa fólki fyrir rangar skoðanir og leggjast einkum á þá sem kunna illa að koma fyrir sig orði, eru minnimáttar. Lögregla í lýðræðisríki á ekki að láta hafa sig út í slíka vitleysu.


mbl.is Dæmdur fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkó lækkar krónuna, skerðir kjör almennings

Herskár sósíalismi verkalýðshreyfingarinnar grefur undan lífskjörum almennings. Krónan hefur lækkað um tíu prósent í haust vegna ótta við yfirvofandi verkfallsaðgerðir. Sigurður Már Jónsson blaðamaður rekur samhengið í yfirlitspistli.

Lækkun krónunnar er í lóðbeinu framhaldi af herskáum tón sósíalíska hluta verkalýðshreyfingarinnar. Löngu áður en kjarasamningar hefjast hækkar verkalýðshreyfingin verð á nauðsynjum, gerir ferðir almennings til útlanda dýrari - allt vegna gengislækkunar.

Sósíalistar komust til valda í Eflingu og VR í skjóli félagslegs doða, innan við tíu prósent af félagsmönnum tók þátt í stjórnarkjöri.

Verkó-gengisfallið er sjálfskaparvíti sósíalískrar verkalýðshreyfingar sem þykist bera almannahagsmuni fyrir brjósti en er í reynd klíkuveldi sem hugsar mest um eigin hag. Eins og sést á sjálftökunni í Eflingu.


Bloggfærslur 18. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband