2018: sjötta hlýjasta árið - spár rangar

Nýliðið ár er það sjötta hlýjasta af síðustu 40 árum. Roy Spencer, sérfræðingur í loftslagsmálum, birtir línurit sem sýnir samanburðinn.

Hann segir jafnframt:

Samanburðartölur sýna að hlýnun síðustu 40 ára er töluvert minni en veðurfarslíkön IPCC (stofnun SÞ sem ber ábyrgð á alþjóðlegri stefnumótun, innsk. pv) gera ráð fyrir en á grunni þeirra er krafist minni losunar koltvíoxíðs skv. Parísarsáttmálanum.

Heimsendaspámenn verða að finna sér önnur rök en hlýnun jarðar.


Nasistar, kommúnistar og sigurvegarar

Sigurvegarar skrifa söguna á kostnað þeirra sigruðu. Kommúnistar í félagi við vestrænar þjóðir, sem kenndu sig við lýðræði, sigruðu nasista í seinna stríði. Grimmd og skepnuskapur nasista var skrifaður upp en óhæfuverkum kommúnista sópað undir teppið.

Veraldlegar trúarsetningar eru forsendan í báðum tilvikum. Nasistar trúðu á þjóð og foringja en kommúnistar á flokkinn og sögulega nauðhyggju. Útkoman var svipuð. Í nafni alræðis réttra hugmynda var milljónum mannslífa fórnað, tugmilljónum í tilfelli kommúnista.

Valdataka alræðisins fór fram undir sömu kringumstæðum. Fyrra stríð sýndi þrot borgaralegs lýðræðis. Alræðið bauð upp á fagra nýja veröld og margir létu blekkjast.

Augljós þreytumerki eru á borgaralegu lýðræði um þessar mundir. Og þá hefst metingur um hvort sé verra, nasismi eða kommúnismi.

 


Mínar staðreyndir og þínar

Skoðanir án staðreynda eru eins og fiskur á þurru landi. Staðreynir einar og sér eru þó ekki til þess fallnar að gára vatnið, fá fólk til að skipta um skoðun.

Samhengi staðreynda og ályktanir sem af þeim eru dregnar eiga það til að hreyfa við fólki, sé sæmilega staðið að verki.

Í hagfræði eru margar staðreyndir, ekki síst þær sem fengnar eru með tölfræði. Um þá sem iðka greinina er sagt að aldrei taki tveir hagfræðingar tal saman að ekki séu þrjár skoðanir á lofti í senn.

Nú ræða fjármálaráðherra og talsmenn verkalýðshreyfingarinnar saman og eru ekki á eitt sáttir um hlutfall fullvinnandi launþega með undir 300 þús. krónur í mánaðarlaun. Munurinn liggur í tveim þekktum staðreyndum, heildartekjum í einn stað og í annan stað dagvinnulaunum.

Á yfirborðinu snýst deilan um hvaða staðreyndir eigi heima í umræðunni. Í reynd er tekist á um hvor málsaðila eigi sviðið. Hávaðinn og bergmálið í samfélagsfjölmiðlum er aðalatriðið. Staðreyndir eru til skrauts.


mbl.is Rifist um mismunandi staðreyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tap er jákvætt, minni viðskipti sömuleiðis

Þeir sem keyptu íslensk hlutabréf á liðnu ári töpuðu á fjárfestingunni. Talsmaður Kauphallar segir það jákvætt.

Velta á hlutabréfamarkaði dróst saman um 20 prósent, það er einnig jákvætt segir sama heimild.

Samkvæmt ofansögðu yrði neikvætt að hlutabréf skiluðu ávöxtun og heldur verra ef viðskipti ykjust.

Þegar talsmaður Kauphallarinnar talar á þennan veg er ekki líklegt að almenningur beinlínis flykkist með peningana sína í hlutabréfin.

 


mbl.is Jákvætt ár að baki á íslenskum hlutabréfamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosið um ríkisstjórn

Þingkosningar snúast æ meira um hvaða ríkisstjórn er í spilunum í kosningabaráttunni. Ef sitjandi ríkisstjórn heldur velli út kjörtímabilið, sem líkur eru á að hún geri, mæla þingkosningarnar eftirspurn eftir framhaldslífi hennar.

Vinstri grænir verða i kjörstöðu. Þeir munu bæði höfða til þeirra ráðsettu vinstrimanna sem vilja sitt fólk í stjórnarráðið og einnig félagshyggjufólks sem vantreystir hægrislagsíðu Samfylkingar.

Miðflokkurinn er þokkalega staddur sem valkostur við Framsókn í sitjandi stjórn.

Til að Samfylkingin eigi möguleika þarf flokkurinn að tefla fram fólki sem almenningur hefur trú á sem mögulegum ráðherrum. Þinglið Samfó er ekki með þann mannskap.


mbl.is Fylgi Miðflokksins helmingast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristni er menning, ekki (endilega) trú

Sá sem ekki þekkir kristni er týndur í íslenskri menningu. Ef einhver herrar nálægt manni er nánast sjálfgefið að maður segir guð hjálpi þer - og þau goðsorð hafa mest lítið með trú að gera en teljast til mannasiða.

Vinstrikverúlantar og þeir sem kenna sig við vantrú eru út í móa þegar þeir leita uppi trú í menningunni til að fetta fingur út í.

Fyrir löngu er viðurkennt að trú er einkamál hvers og eins. Menninguna eigum við á hinn bóginn sameiginlega. Látum ekki menningarsnauða kverúlanta ráða ferðinni og úthrópa fyrir engar sakir kristni.


mbl.is 45% andvíg trú í skólastarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kulnun án lífsbaráttu

Maðurinn þróast með lífsbaráttu. Skásta kenningin sem við höfum um þróun lífs er kennd við Darwin. Meginhugmyndin er að margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Maðurinn sem tegund hefur aldrei áttað sig hvers vegna einmitt hann er útvalinn.

Til að réttlæta eigin tilvist grípur maðurinn til ýmissa hugmyndakerfa s.s. trúarbragða eða vísinda. Þó er öllum ljóst, sem á annað borð gefa því gaum, að hugmyndakerfin eru mannasetningar, eftiráskýringar, og geta ekki svarað hvers vegna einmitt okkar tegund er sú útvalda.

Við búum við meiri velmegun en fyrri kynslóðir og gætum gefið okkur meiri tíma til að svara eilífðarálitamálum um tilgang lífsins og hvernig jarðlífið sé best skipulagt. En það gerum við ekki nema i framhjáhlaupi. Meiri er áherslan á heimsendaspámennsku að jörðin sé um það bil að verða óbyggileg vegna athafna okkar.

Sjálfssköpuð kulnun er þegar maðurinn trúir því að hann sé að tortíma sjálfum sér - og kallar það vísindi. 

 


mbl.is Varist kulnun, kvíða, streitu og stress
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullveldið, fegurðin og Katrín

Sígild fegurð er mæld í hlutföllum. Gullinsnið er stærðfræði fegurðar sem Forn-Grikkir færðu yfir á byggingar og myndlist. Frá sömu uppsprettu fáum við hugmyndina um heilbrigða sál í hraustum líkama.

Í fegurð er samræmi, hvorki of né van.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fangaði í orðum helstu hlutföllin í farsæld þjóðarinnar frá miðri 19. öld. Fullveldið og hófstilling þurfa sitt samræmi, sjálfsgagnrýni má hvorki vera of né van.

Til að búa í haginn fyrir fagurt mannlíf þarf eitt enn í gullinsnið stjórnmálanna, og þar er Katrín blessunarlega vel nestuð: raunsæi.


mbl.is „Getum öll lagt okkar af mörkum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaup góða fólksins

Andstyggð á þjóðkirkjunni og Sjálfstæðisflokknum var á sínum stað. Kata Jak. var gerð að undirsáta móðurflokksins og Samfylkingin orðin svo ómerkileg að hún fékk ekki atriði. Dittó Píratar.

Pólitískur rétttrúnaður trompar heilbrigðisvernd enda blóðgjöf i þágu þeirra sem gefa en ekki þiggja.

Lélegasta innslagið var af fundi ungra sjálfstæðismanna þar sem gamlingjar brostu að misheppnaðri fyndni um góða fólkið. Þeir sem ekki geta séð sig í spéspegli eru hégómlegir.


mbl.is Tíst um Áramótaskaupið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband