Samherjamenn lesa ekki rétt í spilin

Eigendur Samherja eru meðal ríkustu Íslendinga. Ríkidæmið varð til með dugnaði og áræðni, segja sumir, á meðan aðrir telja að fiskveiðiauðlind þjóðarinnar sé meginástæðan og bæta við; sem Samherji fékk á slikk.

Eftir hrun var Samherji tekinn til rannsóknar af þess bærum yfirvöldum, Seðlabankanum, vegna gruns um brot á reglum um gjaldeyri. Eigandi og forstjóri Samherja var fyrir hrun stjórnarformaður gjaldþrota banka, Íslandsbanka. Skýrsla alþingis dregur upp þá mynd af bankakerfinu fyrir hrun að bankarnir voru rændir að innan. Forstjórinn er sem sagt enginn kórdrengur í fjármálum.

Eftir málarekstur í kerfinu var Samherji sýknaður af misferli með gjaldeyri. Í stað þess að una niðurstöðunni sáttir og glaðir leita Samherjamenn hefnda, vilja afsögn seðlabankastjóra.

Tvær ólíkar niðurstöður eru mögulegar. Í fyrsta lagi að eftirmálin tapast Samherjamönnum. Norðlendingarnir sýndu sig hvorki stóra í sigri né auðmjúka í tapi. Í öðru lagi gætu Samherjamenn haft betur í seinni rimmunni við yfirvöld, t.d. með því að seðlabankastjóri yrði rekinn. Það yrði Norðlendingunum sýnu dýrkeyptara.

Ef það kemur á daginn að útgerðarauðvaldið geti svínbeygt ríkisvaldið er komin upp pólitísk staða sem beinlínis krefst þess að almannavaldið grípi í taumana og setji auðvaldinu stólinn fyrir dyrnar. Einboðið er hvaða leið verður valin; gera Samherjavaldið fátækt - með því að hækka veiðigjöldin.

Hefndaleiðangur Samherjamanna er dæmdur til að mistakast á hvorn veginn sem er. Norðlendingarnir ættu að gera sjálfum sér greiða og hætta strax þessu feigðarflani.


mbl.is Katrín fundaði með Samherjamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB klofnar í tvær fylkingar - Ísland slapp

Macron og Merkel tilkynna samrunaáætlun landamærahéraða Frakklands og Þýskalands með sameiginlegum innviðum s.s. sjúkrahús, vegi og orku. Á sama tíma boða pólsk og ítölsk stjórnvöld samvinnu um öflugri landamæravörslu og eflingu þjóðríkja.

Öll þjóðríkin fjögur eru í Evrópusambandinu. Gagnólík sjónarmið ráða ferðinni í Þýskalandi og Frakklandi annars vegar og hins vegar í Póllandi og Ítalíu.

Macron berst fyrir pólitísku lífi sínu andspænis gulvestungum sem krefjast afsagnar hans og Merkel hættir í stjórnmálum eftir næstu þingkosningar. Samrunaþróunin stendur veikum fótum.

Aftur njóta hægrimenn í Póllandi og Ítalíu sterkrar stöðu um þessar mundir og eiga sér bandamenn í stjórnarmeirihluta í Austurríki og Ungverjalandi og hauk í horni þar sem eru Marine Le Pen og Þjóðfylkingin í Frakklandi.

Evrópusambandið er búið að vera í núverandi mynd. Engar líkur eru á að þýsk-franska samrunaáætlunin verði sniðmát fyrir önnur ESB-ríki. Meiri líkur eru á því að ESB í heild sinni veikist og verði ekki sá gerandi í pólitík álfunnar sem sambandið hefur verið á þessari öld.

ESB stendur fyrir alþjóðavæðingu sem mistókst. Stórfelldur innflutningur fólks frá framandi menningarheimum, einkum þeim múslímska, reif í sundur samfélagsfriðinn sem þjóðríki Evrópu nutu áratugina eftir seinna stríð. 

Brexit-atkvæðagreiðslan og framkoma Brussel-valdsins gagnvart Bretum í kjölfarið afhjúpaði blekkinguna að ESB væri samband frjálsra ríkja er virti meginreglur lýðræðisins.

Skásta niðurstaðan, úr því sem komið er, yrði að ESB afbyggðist. Umsvif sambandsins drægjust saman, yfirþjóðlegt vald yfir aðildarríkjum minnkaði og metnaðinum fyrir Stór-Evrópu yrði stungið ofan í skúffu.

Hængurinn er sá að valdakerfi eins og ESB lifa sjálfstæðu lífi þótt kringumstæður kippa fótunum undan tilveru þess. Valdakerfin eru ekki afbyggð heldur falla þau með brauki og bramli.

Séð frá Íslandi er heldur leitt hvernig komið er fyrir Evrópusambandinu. Íslendingar geta þó prísað sig sæla að hafa ekki fylgt mýrarljósi Samfylkingar út í kviksyndið í Brussel - ekki frekar en við fylgdum öðrum sögulegum misskilningi vinstrimanna á síðustu öld, kenndum við Sovét-Ísland.

 


mbl.is Óttast ofbeldi í mótmælum helgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband