Sjálfstæðisflokkurinn reddar Birnu

Ef ríkið fær Íslandsbanka, vegna uppgjörs föllnu bankanna, munu laun bankastjórans, Birnu Einarsdóttur, lækka. Núna er Birna með tvöfalt hærri laun en Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbanka, sem er í eigu ríkisins.

Steinþór fellur þó varla úr hori, með 1,7 milljónir á mánuði.

Sjálfstæðisflokkur ríka fólksins boðar að Íslandsbanki fari óðara til einkaaðila enda ótækt að bankar séu í samfélagseigu þegar einkaframtakið vill feitan gölt að flá.

Á meðan launafólk gerir sáttmála um hófleg laun er taki mið af stöðu útflutningsgreina boðar Sjálfstæðisflokkurinn nýgræðgisvæðingu auðmanna þar sem laun miðast við hugmyndafræði en ekki efnahagslegan veruleika.

Sjálfstæðisflokkurinn er algerlega úr takti við þjóðlífið. En Birna Einarsdóttir mun ábyggilega greiða flokknum atkvæði sitt.


mbl.is Laun Birnu gætu lækkað um helming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagstjórn á Íslandi loksins möguleg

Launaskrið almenna vinnumarkaðarins fer til opinberra starfsmanna sem aftur deila lífeyrisrétti sínum með almennum launþegum. Laun taki mið af útflutningsgreinum. Um það bil þetta virðist í rammasamningi aðila vinnumarkaðarins.

Gangi rammasamkomulagið fram er komin forsenda fyrir hagstjórn á Íslandi.

Vel að verki staðið, Gylfi, Þorsteinn, Elín og þið hin sem náðu þessum áfanga. Forseti lýðveldisins hefur veitt orðu af minna tilefni.


mbl.is Markar vatnaskil á vinnumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran er atvinnuleysi og eymd; krónan er atvinna og hamingja

Í tísku er að níða skóinn af krónunni. Jónas heggur í hana og Brynjar N. tekur í sama streng. Ef það væri svo að valkostur við krónuna færði auðlegð, ríkidæmi og stöðugleika mætti taka mark á orðræðunni.

Evran er talinn valkostur við krónuna. Umræðan út í heimi er á þá lund að evran rífi í sundur samfélög vegna þess að hún viðheldur atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks. Telegraph ræðir ömurleika evrunnar ítarlega. Welt leggur dæmið upp á svipaðan hátt.

Þeir sem óska sér evru í stað krónu biðja um atvinnuleysi og eymd, einkum og sér í lagi hjá ungu fólki.

Krónan er besti vinur unga fólksins; stuðlar að atvinnu. Krónan er slagorðið ,,stétt með stétt" holdi klædd sökum þess að hún jafnar byrðunum þegar illa árar, með því að lækka í gengi, en eykur kaupmátt allra í góðæri með því að styrkjast.

Krónan er blessun sem þjóðin getur ekki verið án.


Salek og samfélagssátt um fjármálakerfið

Ef vinna Salek-hópsins gengur upp, og það er stórt ef, myndast forsendur fyrir víðtækari þjóðarsátt en nemur skiptingu launakökunnar.

Afnám hafta og lokauppgjör föllnu bankanna skapa nýjar aðstæður í efnahagskerfinu, sem fela bæði í sér hættur og tækifæri. Stærsta hættan er sú að bankakerfið komist í hendurnar á auðmönnum sem óðara munu setja upp svikamyllu líkt og í útrás er leiddi til hrunsins 2008.

Tækifærin eru á hinn bóginn þau að hægt er að virkja launþegahreyfinguna til að axla ábyrgð með ríkinu á stöðugleika fjármálakerfisins. Lífeyrissjóðirnir myndu eignast bankana á móti ríkinu.

Það er ríkur pólitískur vilji í samfélaginu til að læra af reynslu hrunsins, þótt nýafstaðinn landsfundur öfgaauðmannaflokks hafi ekki endurspeglað þann vilja.

 


mbl.is Salek fundar á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágmarksríkið og Sjálfstæðisflokkur ríka fólksins

Frelsi er gæði sem einstaklingar eiga og verður ekki með rétti frá þeim tekin, segir aðalverjandi siðferðilegrar frjálshyggju á síðustu öld, Robert Nozick. Lágmarksríki Nozick sér um lögreglu, hervernd og dómstóla. Annað er frjálsra samtaka og fyrirtækja að sinna.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri hallur undir siðferðilega frjálshyggju væru skilaboð frá landsfundi flokksins að afnema ætti skólaskyldu. Frekt brot á einstaklingsfrelsi er að skylda hvern og einn í skóla tíu ár ævinnar. Einnig ætti að vera valkvætt hvort einstaklingurinn skrái sig í þjóðskrá. Ótækt er að allir eigi að skrá sig í gagnabanka stóra bróður.

En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur siðferðilegrar frjálshyggju þar sem einstaklingsfrelsi ræður ferðinni. Samkvæmt Hannesi Hólmsteini:

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur þeirra, sem eru ríkir, heldur flokkur þeirra, sem vilja verða ríkir

Öruggasta leiðin til að verða ríkur er að stjórnvöld úthluti manni ríkidæmi, til dæmis með því að selja manni ríkisbanka.

Ef maður er eigandi að matvörukeðju og vill auka veltuna er pottþétt aðferð að fá Flokkinn til að afnema þaulreynt fyrirkomulag á áfengissölu og leyfa áfengi í matvörubúðum. Skítt með lýðheilsusjónarmið, aðalatriðið er að gróðinn skili sér á réttan stað - til einkaaðila.

Frelsið sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar er frelsi hinna fáu að maka krókinn á kostnað almennings. Þegar fyrir liggur, samanber reynslu af útrás og hruni, að frelsi auðmanna til sjálftöku á gæðum almennings skilar sér í þjóðargjaldþroti þarf verulega pólitíska blindu, að ekki sé sagt siðferðilega, til að boða meira af því sama.

Horfinn er Sjálfstæðisflokkur borgaralegra gilda, stöðugleika og jafnræðishugsunar, ,,stétt með stétt." Flokkurinn leitar til jaðarhópa samfélagins sem sameinast í áhuga á þjófnaði, á hugverkum annars vegar og hins vegar ríkisbönkum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2015 blandaði saman píratapólitík um frjálsar hassreykingar og sjálfselsku ríka fólksins og kallaði ,,frjálslyndi." Sjálfstæðisflokkurinn stækkar ekki með kverúlantapólitík heldur festir hann sig í sessi sem örflokkur jaðarhópa. 

 


Græðgisfrelsi og siðferðilegt frelsi er sitthvað, Ólöf

Ísland fór í hundana haustið 2008 vegna frelsis auðmanna að keyra bankakerfið í þrot. Um þetta þarf ekki að deila - enda söguleg staðreynd.

,,Ég deili öll­um viðhorf­um sem snúa að frelsi ein­stak­lings­ins. Ég gladd­ist mjög mikið yfir því hvernig slík viðhorf fengu gott svig­rúm á fund­in­um,“ sagði Ólöf Nor­dal nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Frelsið sem Ólöf talar um er sama græðgisfrelsið og auðmennirnir nýttu sér í útrás. Nú á að taka annan snúning á þjóðinni með því að selja ríkisbanka. Eins og til að undirstrika að fólk myndi ekki gera slíkt með réttu ráði er lagt til að vímuvæða þjóðina með áfengi í matvörubúðum og lögleiðingu eiturlyfja.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tekur upp vímuvædda græðgi hlýtur fylgið að skila sér í hús. Eða er það ekki?  


mbl.is Frjálslyndið í fyrirrúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðstjórar, byltingar og verri heimur

Ef fall harðstjóranna Gaddafi í Líbýu og Hussein í Írak er borið saman við frönsku byltinguna, sem er móðir allra vestrænna byltinga, er eitt atriði sem öðrum fremur sker sig úr.

Franska byltingin var dauðavottorð lénskerfisins sem fjötraði einstaklinga í stéttir með guðs blessun. Eftir frönsku byltinguna missti kirkjan tökin og veraldarhyggja sótti í sig veðrið. Einstaklingurinn fæddist ekki lengur inn í stétt heldur samfélag sem þróaðist í átt til lýðræðis.

Fall Gaddafi og einkum þó Hussein stuðlar ekki, a.m.k. ekki enn sem komið er, að afbyggingu trúarlegs valds yfir einstaklingnum. Þvert á móti gýs upp öfgatrúarstefna sem pólitíkin þar syðra og eystra hverfist um. Engu líkara er að samfélög múslíma óski sér trúarlegra miðalda.

Harðstjórarnir tveir voru vondir menn. En þeir stjórnuðu í anda veraldarhyggju. Trúarlegar miðaldir eru heldur síðri kostur en vond veraldarhyggja.


mbl.is Heimurinn betri með Saddam og Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórveldi smíða ekki (lengur) ný ríki

Bandaríkin ætluðu að setja saman ný ríki í Afganistan og Írak og fengu til þess aðstoð frá Bretum og ýmsum öðrum þjóðum líka, t.d. Íslendingum.

Fyrirmynd Bandaríkjanna var frá 19. öld þegar nýlenduveldi bjuggu til ný ríki í þriðja heiminum, svona meira og minna eftir hentugleikum.

Reynslan af Afganistan og Írak segir að stórveldi samtímans eru ekki í færum að setja saman ný ríki þótt herstyrkurinn sé fyrir hendi. Eitt er að steypa harðstjóra af stóli en allt annað að búa í haginn fyrir nýja stjórnskipun.


mbl.is Tengsl á milli Íraksinnrásar og ISIS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðjan brotnar í Sjálfstæðisflokknum

Eltingarleikur við píratapólitík; s.s. lögleiðingu fíkniefna annars vegar og hins vegar öfgafrjálshyggju, eins og að selja áfengi í matvörubúðum og setja banka í hendur ógæfumanna, þýðir að miðjan er brotin í Sjálfstæðisflokknum.

Venjulegt fólk með hversdagslegar skoðanir á lífinu og tilverunni verður að leita annað en til Sjálfstæðisflokksins eftir orðræðu sem rímar við varkára og íhaldssama heimsmynd.

Framsóknarflokkurinn hagnast mest á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2015.


mbl.is 89% breytinga ungra sjálfstæðismanna samþykktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki vera bjáni, Bjarni

Tilboð Bjarna Benediktssonar um þjóðin fái 5 prósent ,,gefins" í þeim bönkum sem þjóðin á 100 prósent er ekkert annað en óskammfeilnar mútur. Bjarni formaður og fjármálaráðherra veit að almenningur vill ekki sjá bankana í höndum einkaframtaksins sem setti þjóðina nærri á hausinn árið 2008.

Einkaframtakið á Íslandi kann einfaldlega ekki að reka banka. Bjarni veit þetta manna best sjálfur, enda gerði hann nýlega athugasemd við spillinguna í kringum sölu Arion á hlutabréfum í Símanum. Þar véluðu bankamenn sem lærðu ekkert af hruninu og eru þess albúnir að setja upp spillingasvikamyllur til að þeir fáu græði á kostnað almennings.

Fari bankakerfi okkar í hendur einkaframtaksins er voðinn vís. Engar vísbendingar eru um að bankafólk hafi lært sína lexíu af útrás og hruni.

Bankar eru ekki eins og hver önnur fyrirtæki. Bankar eru taugakerfi efnahagslífsins. Íslenska ríkið ætti að vera afgerandi í bankaþjónustu, t.d. með eignarhaldi á Íslandsbanka og Landsbanka. Eignarhald ríkisins veitir í senn kjölfestu og aðhald. Einkaframtakið býr til spillingu og óráðsíu - eins og dæmin sanna.


mbl.is Gefi landsmönnum 5% í bönkum ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband