Sterkasta vopn ESB-sinna er ónýtt

Meirihluti Íslendinga er andvígur upptöku evru. En það var einmitt evran, sem ,,stöðugur gjaldmiðill" sem var helsta áróðursvopn ESB-sinna.

Í Viðskiptablaðinu kemur fram að aðeins 7 prósent kjósenda Framsóknarflokksins vilja evru og enn minna hlutfall kjósenda Sjálfstæðisflokksins, eða 4 prósent, vill gjaldmiðil Evrópusambandsins.

Sterkasta vopn ESB-sinna er eins og málstaðurinn allur; ónýtt.

 


mbl.is Fleiri á móti evru en með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhlaupastjórnmál; Árni Páll í gönuhlaupi

Áhlaupastjórnmál er að búa til samræmda uppákomu á alþingi, fjölmiðlum og bloggheimum. Markmiðið er að teikna upp skýra mynd af tiltekinni stöðu mála og festa í minni almennings. Hugsunin að bak er að slíkar myndir ráði afstöðu fólks til stjórnmála og stjórnmálamanna.

Flest áhlaup renna út í sandinn, það liggur í hlutarins eðli. En þegar þau takast er ávinningurinn oft afgerandi. Stjórnarandstöðunni tókst í samvinnu við DV, RÚV og fleiri fjölmiðla, auk ,,valinkunnra" embættismanna, að draga upp þá mynd af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að hún væri vanhæf í embætti ráðherra.

Væntingar um árangur af áhlaupi á stjórnmálamann verða að uppfylla eitthvert lágmark til að vit sé í áhlaupinu.

Áhlaup vinstriflokkanna og Pírata á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gengur út á það að Sigmundur Davíð vilji ekki ræða verðtryggingu. Já, segi og skrifa, að forsætisráðherra vilji ekki ræða verðtryggingu.  

Með leyfi: hvaða máli skiptir hvort Sigmundur Davíð vilji ræða verðtryggingu eða ekki? Öllum almenningi stendur á sama hvort verðtrygging er rædd eða ekki og hvort forsætisráðherra taki þar til máls eður ei.

Þegar áhlaupinu lýkur með því að Árni Páll, sem enn er formaður Samfylkingar, er rassskelltur af forsætisráðherra jafn eftirminnilega og lýst er í meðfylgjandi frétt þá er augljóst að þetta var gönuhlaup. 


mbl.is „Engan áhuga á verðtryggingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn: kjölfesta eða píratafrjálshyggja?

Val Sjálfstæðisflokksins stendur á milli þess að vera kjölfesta stjórnmálanna eða fitja upp á píratískum nýmælum eins og áfengi í matvörubúðir og reglulegar þjóðaratkvæðagreiðslur um stór mál og smá.

Ef efnahagsmál væru aðalmál stjórnmálanna ætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera á fljúgandi siglingu, Framsóknarflokkur raunar líka. En eins og vinstristjórn Jóhönnu Sig. kynntist getur efnahagskerfið verið í lagi en fylgið víðs fjarri. Hrunið kenndi þjóðinni að ekki er allt gull sem glóir. Í aðdraganda hrunsins lugu hagtölur upp auðlegð sem var loftbóla. Þjóðin tortryggir og spyr hvort við búum núna við meiri festu í hagstjórn og hvort verðmætin í þjóðarbúinu séu raunveruleg eða tálsýn.

Samkvæmt nýrri mælingu er Sjálfstæðisflokkurinn með 21,7 prósent fylgi. Er ekki líklegt að fleiri en einn af hverjum fimm kjósendum óski sér stöðugleika, þar sem hægt er að horfa sæmilega bjartsýnum augum til næstu framtíðar í trausti þess að stjórnvöld kollsigli ekki efnahagskerfinu með vangá ef ekki hugmyndafræðilegri blindu?

Forysta Sjálfstæðisflokksins horfir til Pírata í leit að uppskrift að velgengni. Talað er um þjóðaratkvæðagreiðslur og áfengi í matvörubúðir. Jaðarmál af þessu tagi henta nýjum flokkum sem þykjast sprækir og sniðugir. Kjölfestuflokkur beitir sér ekki þannig. Það er ekki Sjálfstæðisflokksins að setja stjórnskipun lýðveldisins í uppnám, né heldur að tefla í tvísýnu lýðheilsu þjóðarinnar.

Upphlaupið sem varð í samfélaginu vegna skringilegrar sölu á hlutabréfum Símans sýndi hvað fólk hefur raunverulega áhyggjur af; að hér verði á ný leiddur í öndvegi klíkukapítalismi með sömu afleiðingum og síðast - hruni.

Hrunið varð á vakt Sjálfstæðisflokksins, fólk hefur ekki gleymt því. Aðdragandi hrunsins var frjálshyggjuvæðing samfélagsins þar sem allt var falt auðmönnum. Frjálshyggja með pírataívafi mun ekki gera Sjálfstæðisflokkinn að kjölfestuflokki.

Aðeins eitt getur styrkt Sjálfstæðisflokkinn til forystu: að flokkurinn sýni að hann lærði sína lexíu af útrás og hruni og engin hætta sé á að nokkuð svipað gerist á ný á vakt Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn varð stór þegar fólk treysti flokknum að vera kjölfestan í stjórnmálum. Kjölfestuflokkur er varkár og íhaldssamur. Kjölfestuflokkur talar fyrir sígildum stefnumiðum fullveldis, sjálfsbjargar og ábyrgðar.


mbl.is Ekki búist við átökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband