Lágmarksríkið og Sjálfstæðisflokkur ríka fólksins

Frelsi er gæði sem einstaklingar eiga og verður ekki með rétti frá þeim tekin, segir aðalverjandi siðferðilegrar frjálshyggju á síðustu öld, Robert Nozick. Lágmarksríki Nozick sér um lögreglu, hervernd og dómstóla. Annað er frjálsra samtaka og fyrirtækja að sinna.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri hallur undir siðferðilega frjálshyggju væru skilaboð frá landsfundi flokksins að afnema ætti skólaskyldu. Frekt brot á einstaklingsfrelsi er að skylda hvern og einn í skóla tíu ár ævinnar. Einnig ætti að vera valkvætt hvort einstaklingurinn skrái sig í þjóðskrá. Ótækt er að allir eigi að skrá sig í gagnabanka stóra bróður.

En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur siðferðilegrar frjálshyggju þar sem einstaklingsfrelsi ræður ferðinni. Samkvæmt Hannesi Hólmsteini:

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur þeirra, sem eru ríkir, heldur flokkur þeirra, sem vilja verða ríkir

Öruggasta leiðin til að verða ríkur er að stjórnvöld úthluti manni ríkidæmi, til dæmis með því að selja manni ríkisbanka.

Ef maður er eigandi að matvörukeðju og vill auka veltuna er pottþétt aðferð að fá Flokkinn til að afnema þaulreynt fyrirkomulag á áfengissölu og leyfa áfengi í matvörubúðum. Skítt með lýðheilsusjónarmið, aðalatriðið er að gróðinn skili sér á réttan stað - til einkaaðila.

Frelsið sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar er frelsi hinna fáu að maka krókinn á kostnað almennings. Þegar fyrir liggur, samanber reynslu af útrás og hruni, að frelsi auðmanna til sjálftöku á gæðum almennings skilar sér í þjóðargjaldþroti þarf verulega pólitíska blindu, að ekki sé sagt siðferðilega, til að boða meira af því sama.

Horfinn er Sjálfstæðisflokkur borgaralegra gilda, stöðugleika og jafnræðishugsunar, ,,stétt með stétt." Flokkurinn leitar til jaðarhópa samfélagins sem sameinast í áhuga á þjófnaði, á hugverkum annars vegar og hins vegar ríkisbönkum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2015 blandaði saman píratapólitík um frjálsar hassreykingar og sjálfselsku ríka fólksins og kallaði ,,frjálslyndi." Sjálfstæðisflokkurinn stækkar ekki með kverúlantapólitík heldur festir hann sig í sessi sem örflokkur jaðarhópa. 

 


Græðgisfrelsi og siðferðilegt frelsi er sitthvað, Ólöf

Ísland fór í hundana haustið 2008 vegna frelsis auðmanna að keyra bankakerfið í þrot. Um þetta þarf ekki að deila - enda söguleg staðreynd.

,,Ég deili öll­um viðhorf­um sem snúa að frelsi ein­stak­lings­ins. Ég gladd­ist mjög mikið yfir því hvernig slík viðhorf fengu gott svig­rúm á fund­in­um,“ sagði Ólöf Nor­dal nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Frelsið sem Ólöf talar um er sama græðgisfrelsið og auðmennirnir nýttu sér í útrás. Nú á að taka annan snúning á þjóðinni með því að selja ríkisbanka. Eins og til að undirstrika að fólk myndi ekki gera slíkt með réttu ráði er lagt til að vímuvæða þjóðina með áfengi í matvörubúðum og lögleiðingu eiturlyfja.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tekur upp vímuvædda græðgi hlýtur fylgið að skila sér í hús. Eða er það ekki?  


mbl.is Frjálslyndið í fyrirrúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðstjórar, byltingar og verri heimur

Ef fall harðstjóranna Gaddafi í Líbýu og Hussein í Írak er borið saman við frönsku byltinguna, sem er móðir allra vestrænna byltinga, er eitt atriði sem öðrum fremur sker sig úr.

Franska byltingin var dauðavottorð lénskerfisins sem fjötraði einstaklinga í stéttir með guðs blessun. Eftir frönsku byltinguna missti kirkjan tökin og veraldarhyggja sótti í sig veðrið. Einstaklingurinn fæddist ekki lengur inn í stétt heldur samfélag sem þróaðist í átt til lýðræðis.

Fall Gaddafi og einkum þó Hussein stuðlar ekki, a.m.k. ekki enn sem komið er, að afbyggingu trúarlegs valds yfir einstaklingnum. Þvert á móti gýs upp öfgatrúarstefna sem pólitíkin þar syðra og eystra hverfist um. Engu líkara er að samfélög múslíma óski sér trúarlegra miðalda.

Harðstjórarnir tveir voru vondir menn. En þeir stjórnuðu í anda veraldarhyggju. Trúarlegar miðaldir eru heldur síðri kostur en vond veraldarhyggja.


mbl.is Heimurinn betri með Saddam og Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband