Eyjan, Pressan, DV: vinstriútgáfa eða borgaraleg?

Þeir fjölmiðlar Frjálsrar fjölmiðlunar sem helst taka þátt í skoðanaumræðu eru Eyjan, Pressan og DV. Í þessum miðlum er vinstrislagsíða áberandi, bæði í efnistökum og vali á endurbirtu efni.

Borgaraleg sjónarmið eiga undir högg að sækja í flestum fjölmiðlum. Nýverið benti Björn Bjarnason að sjálf háborgin væri ótraust.

Nú er að sjá hvort nýir eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar ætla að klappa sama steininn og fóðra vinstriumræðuna.


mbl.is Karl stýrir Frjálsri fjölmiðlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvald útifunda og undirskrifta

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins harmar að ríkisstjórninni ,,virðist vera sama um undirskriftalista og útifundi" og óskar sér að ríkisvaldið sniðgangi lög og reglur í afgreiðslu mála.

Stjórnvald útifunda og undirskriftarlista er orðalag yfir múgræði. Það fæli í sér að dyntir og tiktúrur, sem fá nægilegt fylgi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðum, ryðji í burt lögum og reglum.

Vitanlega er það ekki tilviljun að vinstrimenn vilja ólmir múgræði í stað lýðræðis. Það er leið þeirra til valda, að sniðganga lög og reglur.


Frjálslynd þröngsýni og leitin að ekta stjórnmálamanni

Erkiíhald, erkikaþólikki og gegnheill þjóðernissinni. Þannig lýsir þýskur fjölmiðill Jacob Rees-Mogg sem fyrirvaralaust er orðinn að stjörnu í breskum stjórnmálum.

Rees-Mogg studdi úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, og stendur á fast á trú sem var gerð útlæg frá Bretlandi á miðöldum.

Brexit er uppreisn gegn pólitískum rétttrúnaði og tilheyrandi popúlisma. Kobbi kaþólski er bresk útgáfa af Trump. Fágaður yfirstéttarmaður með sannfæringu sem ekki er til sölu.


mbl.is Sérvitur og með umdeildar skoðanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og fjölmiðlavaldið

Stærstu fjölmiðlar Bandaríkjanna vinna skipulega gegn Donald Trump forseta. Hann þykir ekki ,,normal" og því eiga almennar reglur um óhlutdræga blaðamennsku ekki við þegar forsetinn á í hlut. Að einhverju marki stafar andúðin af óöryggi fjölmiðla. Þeir vilja ekki tapa áhrifavaldi til samfélagsmiðla og verða kalþólskari en páfinn í andófinu.

En forsetaembætti fékk Trump í lýðræðislegum kosningum. Um leið og fjölmiðlar grafa undan Trump, af því hann er sá sem hann er, ráðast þeir að grunnstoð samfélagsins, sem er virðing fyrir lýðræðinu.

Eitt stórblaða vestan hafs virðist Wall Street Journal ekki taka þátt í að finna allar mögulegar og ómögulegar leiðir að sýna Trump í sem verstu ljósi. Í samantekt Guardian er Wall Street Journal ásakað um að ,,normalisera" Trump.

Þegar svo er komið að lýðræðislegar kosningar þurfi að ,,normalisera" er normið orðið dálítið undarlegt, svo ekki sé meira sagt. Einkum hjá fjölmiðlum.

 


Lýðræði og byltingar, Evrópa og múslímar

Eftir fall Berlínarmúrsins tókst fyrrum kommúnistaríkjum Austur-Evrópu í meginatriðum að hverfa frá alræði til lýðræðis. Þýskaland sameinaðist friðsamlega, Tékkóslóvakía varð að tveim ríkjum án ofbeldis, Úkraína skipti um valdhafa án vopnaðra átaka (sem blossuðu upp síðar, samanber Úkraínudeiluna frá 2014).

Aðeins Júgóslavía splundraðist í nokkur ríki í blóðugum átökum, þeim alvarlegustu í Evrópu frá lokum seinna stríðs. En Júgóslavía var undantekning. Hálfri öld yfirráða kommúnista, og gott betur í tilfelli Sovétríkjanna, lauk tiltölulega friðsamlega. Lýðræðið sigraði án stórkostlegra blóðfórna.

Austur-Evrópa naut nærveru Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna sem settu mikla fjármuni í enduruppbygginu eftir sviðna jörð veraldlegra trúarbragða kommúnismans. En án almenns vilja þjóða austan járntjalds til málamiðlana hefði þróunin orðið önnur og síðri.

Víkur þá sögunni til miðausturlanda og trúarmenningu múslíma. Þarf hófst fyrir sex árum arabíska vorið, sem kennt var við lýðræði. Nokkru áður höfðu Bandaríkin tekið ótímabært forskot á sæluna, steypt af stóli einræðisherranum Saddam Hussein í Írak, en gekk illa að breyta landinu ofanfrá í lýðræðisríki. Rétt fyrir arabíska vorið gáfust Bandaríkin upp á að stjórna landinu í gegnum leppstjórn, borgarastyrjöld varð afleiðingin.

Í arabíska vorinu komu fram margvísleg þjóðfélagsöfl í miðausturlöndum og Norður-Afríku, sem höfðu hver sína útgáfu af hvernig skyldi stokka upp spilin til að gefa upp á nýtt. Hófsamir lýðræðissinnar voru þar í bland við herskáa múslíma. Heil einræðisríki féllu, t.d. Líbýa, önnur urðu borgarastyrjöld að bráð, Sýrland. Um tíma varð Ríki íslams allsráðandi í stórum hluta Sýrlands og Íraks.

Hófsöm lýðræðisöfl töpuðu baráttunni andspænis einræðinu annars vegar og hins vegar trúarríkinu. Aðeins í Túnis virðist lýðræðisöflum takast að halda í skefjum alræðinu.

Einræðisherrann Assad í Sýrlandi er um það bil að tryggja vopnaðan frið þar í landi. Í yfirlitsgrein yfir þau ríki sem ekki urðu borgarastyrjöld að bráð, s.s. Egyptalandi, Marakkó og Sádí-Arabíu er dregin upp dökk mynd. Stjórnvöld þessara ríkja hafa keypt sér frið með ósjálfbærum niðurgreiðslum á lífskjörum til almennings. Ríkisvaldið meira og minna stjórnar efnahagskerfinu í anda kommúnisma. Fólki fjölgar og stjórnvöld hafa ekki efni á að kaupa sér frið til langframa. Fyrr eða seinna skellur á kreppa sem leysir úr læðingi undirliggjandi stjórnmálaólgu.

Hvers vegna tókst þjóðum Austur-Evrópu að breyta ríkisskipulaginu frá alræði í lýðræðisátt tiltölulega friðsamlega en þjóðum miðausturlanda virðist það fyrirmunað?

Þjóðir Austur-Evrópu byggja á stjórnmálamenningu sem getur aðlagað sig að stjórnskipulagi eins lengi og það uppfyllir lágmarksskilyrði um öryggi og velferð. Tvær heimsstyrjaldir á fyrri hluta síðustu aldar kenndu Evrópubúum að ókostir málamiðlana eru töluvert skárri en hreintrúarstefna, hvort heldur fasismi eða kommúnismi. Arabísk trúarmenning fór á mis við þessa lexíu.

Hreintrúarstefna, hvort heldur veraldleg eða ættuð af himnum ofan, býður ekki upp á málamiðlun. Þar gildir allt eða ekkert. En, sem sagt, lýðræði er málamiðlun.


Blaðamenn verða fjölmiðlar - og heimtufrekjan vex

Allir geta orðið blaðamenn, starfið er ekki lögverndað og hver sem er má titla sig blaðamann. Það er ekki nýtt. Aftur er nýtt að hver sem er getur orðið starfandi blaðamaður á fjölmiðli. Með því að stofna blogg eða heimasíðu. Einn blaðamaður, hvort heldur skrifandi eða óskrifandi, getur þannig orðið fjölmiðill.

En sumum er það ekki nóg. Þeir vilja að einhverjir borgi þeim að vera blaðamenn, ef ekki einkaaðilar þá ríkið. Kjarninn er félag nokkurra blaðamanna sem vilja fá ríkispeninga í áhugamálið sitt. Sigurjón M. Egilsson, sem rekur Miðjuna, heggur í sama knérunn og kallar það ,,þöggun" ef stjórnmálamaður vill ekki tala við hann eða einkaaðili ekki borga honum kaup.

Sigurjón segir ástandið ,,afleitt fyrir fjölmiðlun á Íslandi."

Nei, ástand fjölmiðlunar á Íslandi um þessar mundir er giska gott. Ofgnótt er af framboði og peningum er dælt inn í greinina. Núna síðast hálfum milljarði í Vefpressuna.

Í landi blaðamannafjölmiðla verður þorri blaðamanna að sætta sig við að stunda sína iðju fyrir eigin reikning. Hér ræður lögmálið um framboð og eftirspurn.

 

 


Einkarekstur eykur oflækningar

Oflækningar eru stundaðar af einkarekinni læknisþjónustu hér á landi, að því er fram kemur hjá landlækni. Ástæða oflækninganna, sem eru óþarfar aðgerðir er jafnvel valda heilsutjóni, er sú að einkalæknisþjónusta er borguð af ríkinu - en ekki sjúklingum - og ríkið greiðir fyrir afköst.

Einkarekstur í heilbrigðisgeiranum er meira og minna byggður á blekkingum. Það eina sem er ,,einka" við þennan rekstur er gróðinn sem fer í vasa einkaaðila. Ríkið borgar fyrir þjónustuna.

Almenn samstaða er hér á landi um að allir eigi kost á heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Einkarekstur í þessum geira á ekki við nema á afar skýrt afmörkuðum sviðum, t.d. fegrunaraðgerðum og augnaðgerðum þar sem markmiðið er að leysa fólk undan því að nota gleraugu/linsur.

Einkarekstur í almennum lækningum veldur oflækningum og er sóun á almannafé.


Góða fólkið sem skammast sín að vera Íslendingar

Eftir hrun var ,,ónýta Ísland" óopinbert slagorð góða fólksins. Það vildi afnema stjórnarskrá lýðveldisins, pakka fullveldinu saman og senda það til Brussel. En hrunið var ekki meira en svo að við réttum úr kútnum, þökk sé krónunni, sem góða fólkið hatast við.

Ísland býður þegnum sínum upp á öfundsverð lífskjör. Þess vegna kemur hingað fólk að vinna og setjast að. En sumir koma í leit að fríu fæði, húsnæði og dagpeningum. Og góða fólkið rekur upp ramakvein þegar útlendingum er vísað úr landi eftir að sýnt er fram á að viðkomandi eigi ekkert erindi hingað.

,,Ég skammast mín að vera Íslendingur" heitir herferð góða fólksins, sem nú stendur yfir á samfélagsmiðlum með dyggri aðstoð fjölmiðla sem reglulega birta fóður fyrir þá góðu að kjamsa á. Þetta nýja tilbrigði við ,,ónýta Ísland" er sumpart keyrt áfram af fólki sem beðið hefur skipbrot í lífinu.

Sumir í háværasta hluta góða fólksins eiga að baki persónulegt gjaldþrot, alkahólisma og brotnar fjölskyldur. Til er fólk sem ,,afrekar" allt þrennt. En samt gólar það á torgum samfélagsmiðla um að þjóðin eigi að skammast sín.

Fólk með ömurlegan æviferil á það til að kenna öllum öðrum en sjálfum sér um mistökin í lífinu. Þetta fólk þiggur með þökkum hjartnæmar hannaðar sögur af flóttamönnum í bágindum, otar þessum sögunum framan í þjóðina og segir hrokafullt: þið eigið að skammast ykkar.

Vellíðunin, sem misheppnaður einstaklingur finnur fyrir, þegar hann hreykir sér í hlutverki mannvinar bætir upp vanlíðan ömurlegrar ævi.

 


ESB stöðvar gerviflóttamenn á flugvöllum

Nær engir platflóttamenn koma til ESB-ríkja með flugvélum. Evrópusambandið er með í gildi reglur sem kveða á um að flugfélög beri ábyrgð á ferðaheimildum farþega sinna. Af því leiðir koma flóttamenn, hvort heldur þykjustuflóttamenn eða raunverulegir, ekki til Evrópu í flugvélum.

Allir flóttamenn til Íslands koma með flugvélum. Við eigum að nota sömu reglur og ESB til að koma í veg fyrir flóttamannastrauminn til Íslands.

Flóttamenn ættu að geta óskað hælis á Íslandi með umsókn til sendiráða Íslands eða beint til Útlendingastofu. Þeir sem yrðu samþykktir fengju ferðaheimildir og kæmu til landsins.

Þetta væri mannúðlegasta aðferðin í viðtöku flóttamanna og um leið skilvirk og ódýr.

En þeir sem græða á flóttamönnum, bæði beint með fjárhagslegum hagnaði, og ekki síður hinir sem nota flóttamenn í pólitískum tilgangi vilja auðvitað búa til mannlegan harmleik úr sérhverjum flóttamanni. Þannig verður til hagnaður, bæði fjárhagslegur og pólitískur.


mbl.is „Við munum ekki gefast upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegt brot RÚV

RÚV nýtti sér nafnlausar heimildir til að saka eigendur veitingahúss á Akureyri um alvarlegt mannréttindabrot. Frétt RÚV skaut fyrst en spurði svo. Afleiðingarnar fyrir fórnarlömb RÚV eru skelfilegar.

Hvað gerir RÚV í framhaldi? Verður gerð rannsókn á þessum mistökum og fréttamenn endurmenntaðir í grunnatriðum blaðamennsku?

Nei, RÚV lætur fréttina standa en birtir leiðréttingu svo lítið beri á.

RÚV hagar sér eins og ríki í ríkinu. Stofnunin er í ríkiseigu en sætir aldrei ábyrgð. Það er ekki í lagi. 


mbl.is Standast almenna kjarasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband