Engin vinstristjórn, enda enginn vinstrisigur

Til að mynda vinstristjórn verða vinstriflokkarnir að vinna sigur í þingkosningum. Á laugardag bættu Vinstri grænir við sig einu prósenti, Samfylking hlaut sína næst lélegustu kosningu og Píratar töpuðu 4 þingmönnum. Heill vinstriflokkur þurrkaðist út af þing.

Úr tapi vinstriflokka er ekki hægt að smíða vinstristjórn. Það þýðir að ESB-málið er dautt, tilraunir með stjórnarskrána verða ekki samþykktar og skattpíning er afþökkuð.

Líklega þurfa vinstrimenn nokkra daga til að skilja niðurstöður kosninganna. Vinstrafólk er tilfinningaríkt og hugsar á mörkum hins röklega. Leyfum þeim að komast til meðvitundar.


mbl.is Hafnar þjóðaratkvæði um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björt, Óttarr veðjuðu á reiðibylgju - sem hjaðnaði snöggt

Óttarr Proppé og Björt framtíð veðjuðu á að reiðibylgja í samfélaginu myndi skila þeim fylgi í kosningum. Þegar andstæðingar Sjálfstæðisflokksins bjuggu til hóp barnaníðinga úr móðurflokknum ákvað Björt framtíð að stökkva á öldutoppinn í von um fylgi.

Björt framtíð taldi að kosningarnar 2017 yrðu endurtekning á kosningunum 2016 þegar flokkurinn naut góðs af andstöðu við búvörusamninginn.

En barnaníð og búvara er ekki alveg sami hluturinn. Reiðibylgja á samfélagsmiðlum þarf málefni til að rísa og stækka. Skáldskapur, þótt haganlega saminn, er ekki nóg.

Þess vegna er Björt framtíð ekki á þingi og Óttarr ekki formaður.


mbl.is Óttarr hættir sem formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál, tilfinningar og rök

Tilfinningaþrungið eintal Ingu Sæland um fátækt á Íslandi í beinni útsendingu RÚV daginn fyrir kjördag skilaði Flokki fólksins án ef atkvæðum. Hve mörgum veit enginn. Sigmundur Davíð gefur fólki hugboð um að hann kunni lausnir á flóknum vanda. 

Stjórnmál eru aðeins að hluta rökhugsun. Fáir ná árangri á þeim vettvangi nema að kunna lesa sig inn á tilfinningalíf kjósenda. Á norrænu og þýsku er stundum talað um ,,Fingerspitzengefühl" þegar átt er við innsæi í þjóðarsálina.

Sumir, til dæmis Inga og Sigmundur Davíð, eru gædd náttúruhæfileikum á þessu sviði, sem margar röksálir öfunda þau af.


mbl.is Kannanir misstu af Flokki fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV er hlutdrægur fjölmiðill

RÚV stundar hlutdræga fréttamennsku, ekki annað slagið vegna mistaka, heldur reglulega í þágu vinstristjórnmála. Dæmin eru mýmörg síðustu ár.

Í nýafstaðinni kosningabaráttu tók RÚV þátt í að klekkja á Sjálfstæðisflokknum með endurflutningi á fréttum Stundarinnar þar sem meira en tíu ára gömul viðskipti formanns Sjálfstæðisflokksins voru gerð tortryggileg. Þar varð einbeittur vilji til að þjóna pólitískum hagsmunum settur framar hlutlægri fréttamennsku.

RÚV fellur reglulega í þann pytt að gera eina fjöður að fimm hænum. Eitt afbrigðilegasta dæmið síðustu vikur er þegar RÚV komst að þeirri niðurstöðu að ,,dulúð" léki um skattaframtal Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans.

,,Hverjir vilja vinna með Katrínu Jakobsdóttur? Réttið upp hönd"-spurningin á lokakvöldi kosningabaráttunnar var tilraun RÚV til að lyfta formanni Vinstri grænna upp í pólitískt hásæti.

Á fréttastofu RÚV er ráðandi pólitísk vinstrimenning sem er faglegum metnaði yfirsterkari.


mbl.is Ólík afstaða kjósenda til RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Femínismi er valdahyggja

Hlutfall karla og kvenna á alþingi er 60/40 körlum í vil. Hlutfall karla og kvenna í háskólanámi er 63/37 konum í vil.

Enginn femínisti lætur sig varða afmenntun karla í samanburði við konur. En þær stökkva fram og vilja nýtt kvennaframboð þegar hallar á konur á alþingi.

Hvers vegna?

Jú, vegna þess að femínismi er fyrst og síðast hugmyndafræði til að sækja völd, ekki til að stuðla að jafnrétti.


mbl.is Ræða mögulegt kvennaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð skapar pólitík - Vinstri grænir tapa

Samanlagður þingflokkur Miðflokksins og Flokks fólksins er 11 þingmenn, jafn stór og þingflokkur Vinstri grænna. Bandalagið styrkir stöðu Sigmundar Davíðs í valdataflinu við myndun ríkisstjórnar.

Útspil Sigmundar Davíðs veikir sérstaklega stöðu Vinstri grænna sem daðra við vinstristjórn til að geta selt sig dýrt til Sjálfstæðisflokksins. Sigmundur Davíð getur boðið Bjarna Ben. 11 manna þingflokk og þá þarf aðeins Samfylkingu eða Framsóknarflokk til að mynda meirihluta.

Formaður Framsóknarflokksins gaf það út að hann vildi breiða stjórn (les: með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum). Kata Jakobs þarf að hrökkva eða stökkva fyrr en hún hélt.

 


mbl.is Í samvinnu með Flokki fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar reyna að þvinga atburðarásina

Útspil Pírata, að gefa út yfirlýsingu um að þeir neiti samstarfi, er tilraun til að þvinga fram pólitíska atburðará þar sem vinstristjórn er markmiðið.

Píratar voru fyrir ári taldir óstjórntæki af Vinstri grænum. Ólíklegt er að það mat hafi breyst. Píratar líkjast Bjartri framtíð að því leyti að báðir flokkarnir eru hviklyndir, breyta um skoðun eftir umræðunni á samfélagsmiðlum.

Með stórkarlalegri yfirlýsingu í upphafi stjórnarmyndunar mála Píratar sig út í horn. Enda best geymdir þar.


mbl.is Hefur rætt við nokkra flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir valkostir: stjórn eða óstjórn

Skilaboð kjósenda til stjórnmálamanna voru skýr. ,,Ef þið haldið áfram að bjóða upp á stjórnleysi munum við bæta um betur og senda fleiri framboð á alþingi. Og hananú."

Með átta flokka á alþingi stendur þingheimur frammi fyrir þeirri áskorun að hlusta á skilaboð þjóðarinnar og setja saman ríkisstjórn sem tengir meginpóla.

Á nýkjörnu þingi eru meginpólarnir Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir. Þeir þurfa að ná saman og bjóða þriðja flokknum að vera með. Það yrði einn þessara þriggja flokka: Miðflokkur, Framsóknarflokkur eða Samfylking.

Markmið nýrrar ríkisstjórnar þurfa ekki að vera háleit. Þau eru að halda samfélaginu í skorðum og að sitja út kjörtímabilið.


mbl.is Tveir valkostir fyrir forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Perrapólitík vinstrimanna hefndi sín

Vinstrimenn keyrðu kosningabaráttu sína á þeirri forsendu að pólitískir andstæðingar þeirra væru perrar í annarri af tveim útgáfum - ef ekki báðum -; barnaperrar eða fjármálaperrar.

Perrapólitíkin fékk uppslætti í vinstriútgáfum eins og RÚV, Stundinni og Kjarnanum. Til viðbótar teiknuðu vinstrimenn Íslendinga upp sem viðundur í erlendum fjölmiðlum.

Vinstrimenn töpuðu á perrapólitíkinni. Vinstrimenn sýndu sig siðferðilega á lágu plani og uppskáru eftir því.


mbl.is „Þörfnumst þess að fá velferðarstjórn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjaldbúinn í Laugardal er sigurvegarinn

Sigurvegari kosninganna er tjaldbúinn í Laugardal sem fór á mis við mannúð og mildi góðærisins. Tjaldbúinn í Laugardal stal kosningasigri Vinstri grænna og Samfylkingar og færði Miðflokknum og Flokki fólksins.

Á yfirborðinu virðist flókið mál að mynda ríkisstjórn. En ef flokkarnir skilja hverjum klukkan glymur er einboðið hverjir vinni saman.

Enginn möguleiki er á vinstristjórn. Aðeins eitt annað er útilokað og það er ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins.

Að þessum forsendum gefnum er einn raunhæfur möguleiki á ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir taki höndum saman með Framsóknarflokknum og myndi meirihluta með 35 þingmönnum. Tveir aðrir flokkar kæmu til greina í stað Framsóknar, Miðflokkur eða Samfylkingin, en þá yrði meirihlutinn 34 þingmenn.

Sjálfstæðisflokkurinn mun vilja Miðflokkinn fremur en Samfylkingu en því er öfugt farið hjá Vinstri grænum. Málamiðlunin er Framsókn, sem einnig tryggir aukinn meirihluta.

Tjaldbúinn í Laugardal gæti sæst á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Tjaldbúinn er raunsærri en margur heldur.


mbl.is Ríkisstjórnin tapar 12 þingsætum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband