Trump og fjölmiðlavaldið

Stærstu fjölmiðlar Bandaríkjanna vinna skipulega gegn Donald Trump forseta. Hann þykir ekki ,,normal" og því eiga almennar reglur um óhlutdræga blaðamennsku ekki við þegar forsetinn á í hlut. Að einhverju marki stafar andúðin af óöryggi fjölmiðla. Þeir vilja ekki tapa áhrifavaldi til samfélagsmiðla og verða kalþólskari en páfinn í andófinu.

En forsetaembætti fékk Trump í lýðræðislegum kosningum. Um leið og fjölmiðlar grafa undan Trump, af því hann er sá sem hann er, ráðast þeir að grunnstoð samfélagsins, sem er virðing fyrir lýðræðinu.

Eitt stórblaða vestan hafs virðist Wall Street Journal ekki taka þátt í að finna allar mögulegar og ómögulegar leiðir að sýna Trump í sem verstu ljósi. Í samantekt Guardian er Wall Street Journal ásakað um að ,,normalisera" Trump.

Þegar svo er komið að lýðræðislegar kosningar þurfi að ,,normalisera" er normið orðið dálítið undarlegt, svo ekki sé meira sagt. Einkum hjá fjölmiðlum.

 


Lýðræði og byltingar, Evrópa og múslímar

Eftir fall Berlínarmúrsins tókst fyrrum kommúnistaríkjum Austur-Evrópu í meginatriðum að hverfa frá alræði til lýðræðis. Þýskaland sameinaðist friðsamlega, Tékkóslóvakía varð að tveim ríkjum án ofbeldis, Úkraína skipti um valdhafa án vopnaðra átaka (sem blossuðu upp síðar, samanber Úkraínudeiluna frá 2014).

Aðeins Júgóslavía splundraðist í nokkur ríki í blóðugum átökum, þeim alvarlegustu í Evrópu frá lokum seinna stríðs. En Júgóslavía var undantekning. Hálfri öld yfirráða kommúnista, og gott betur í tilfelli Sovétríkjanna, lauk tiltölulega friðsamlega. Lýðræðið sigraði án stórkostlegra blóðfórna.

Austur-Evrópa naut nærveru Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna sem settu mikla fjármuni í enduruppbygginu eftir sviðna jörð veraldlegra trúarbragða kommúnismans. En án almenns vilja þjóða austan járntjalds til málamiðlana hefði þróunin orðið önnur og síðri.

Víkur þá sögunni til miðausturlanda og trúarmenningu múslíma. Þarf hófst fyrir sex árum arabíska vorið, sem kennt var við lýðræði. Nokkru áður höfðu Bandaríkin tekið ótímabært forskot á sæluna, steypt af stóli einræðisherranum Saddam Hussein í Írak, en gekk illa að breyta landinu ofanfrá í lýðræðisríki. Rétt fyrir arabíska vorið gáfust Bandaríkin upp á að stjórna landinu í gegnum leppstjórn, borgarastyrjöld varð afleiðingin.

Í arabíska vorinu komu fram margvísleg þjóðfélagsöfl í miðausturlöndum og Norður-Afríku, sem höfðu hver sína útgáfu af hvernig skyldi stokka upp spilin til að gefa upp á nýtt. Hófsamir lýðræðissinnar voru þar í bland við herskáa múslíma. Heil einræðisríki féllu, t.d. Líbýa, önnur urðu borgarastyrjöld að bráð, Sýrland. Um tíma varð Ríki íslams allsráðandi í stórum hluta Sýrlands og Íraks.

Hófsöm lýðræðisöfl töpuðu baráttunni andspænis einræðinu annars vegar og hins vegar trúarríkinu. Aðeins í Túnis virðist lýðræðisöflum takast að halda í skefjum alræðinu.

Einræðisherrann Assad í Sýrlandi er um það bil að tryggja vopnaðan frið þar í landi. Í yfirlitsgrein yfir þau ríki sem ekki urðu borgarastyrjöld að bráð, s.s. Egyptalandi, Marakkó og Sádí-Arabíu er dregin upp dökk mynd. Stjórnvöld þessara ríkja hafa keypt sér frið með ósjálfbærum niðurgreiðslum á lífskjörum til almennings. Ríkisvaldið meira og minna stjórnar efnahagskerfinu í anda kommúnisma. Fólki fjölgar og stjórnvöld hafa ekki efni á að kaupa sér frið til langframa. Fyrr eða seinna skellur á kreppa sem leysir úr læðingi undirliggjandi stjórnmálaólgu.

Hvers vegna tókst þjóðum Austur-Evrópu að breyta ríkisskipulaginu frá alræði í lýðræðisátt tiltölulega friðsamlega en þjóðum miðausturlanda virðist það fyrirmunað?

Þjóðir Austur-Evrópu byggja á stjórnmálamenningu sem getur aðlagað sig að stjórnskipulagi eins lengi og það uppfyllir lágmarksskilyrði um öryggi og velferð. Tvær heimsstyrjaldir á fyrri hluta síðustu aldar kenndu Evrópubúum að ókostir málamiðlana eru töluvert skárri en hreintrúarstefna, hvort heldur fasismi eða kommúnismi. Arabísk trúarmenning fór á mis við þessa lexíu.

Hreintrúarstefna, hvort heldur veraldleg eða ættuð af himnum ofan, býður ekki upp á málamiðlun. Þar gildir allt eða ekkert. En, sem sagt, lýðræði er málamiðlun.


Bloggfærslur 10. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband