Sunnudagur, 3. mars 2019
Kona velur sér hlutverk ambáttar
Shamíma Begum valdi sér hlutverk ambáttar að múslímskum sið. Líkt og margar vestrænar konur skipti Begum út sjálfræði og frjálslynd fyrir undirgefni.
Trúarmenning múslíma býður konum undirgefni. Fjölkvæmi er algengt meðal múslíma og til þess tekið þegar einhver efast um heilbrigði þess að karl eigi margar konur.
Karlar sem fundu sannfæringu sinni farveg hjá Ríki íslams fóru austur til að drepa og vera drepni. Konur gengu íslamistum á hönd til að fá á sig hlekki.
Vestræn einstaklingshyggja er ekki allra.
![]() |
Vill búa með Begum í Hollandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 3. mars 2019
9 flokkar og uppskriftin að Íslandi
Heilir 9 flokkar fá mælingu í könnun og allir nema einn fulltrúa á alþingi. En landsmenn skiptast ekki í níu pólitískar fylkingar. Hvað veldur slíkum fjölda framboða?
Á meðan fjórflokkakerfið var og hét, frá lýðveldisstofnun og fram undir hrun, voru til tveir kjósendahópar. Flokkshestar sem kusu sinn flokk í gegnum súrt og sætt og lausafylgi er kaus eftir pólitískum tískustraumi. Kalda stríðið og barátta við verðbólgu voru meginuppspretta deilna.
Um aldamótin stokkuðu vinstrimenn upp flokka sína, Alþýðubandalagið klofnaði í Samfylkingu og Vinstri græna; Alþýðuflokkur fór nánast í heilu lagi inn í Samfylkingu á meðan Kvennalistinn dreifðist.
Stóru deilumál lýðveldisáranna, kalda stríðið og verðbólgan, urðu jaðarmál um aldamótin. Ný átakamál, s.s. Evrópumál og náttúrvernd, komu í staðinn.
Annað mál, séríslenskt, gegnsýrði samfélagið í byrjun aldar. Útrásin 2000-2008 var menningarpólitísk hamskipti á sjálfsvitund þjóðarinnar. Íslendingar trúðu margir hverjir að þeir væru sérstökum gáfum gæddir á sviði fjármála. Ofmetnaðurinn birtist í hugmyndum um að landið yrði fjármálamiðstöð á heimsvísu og að Ísland tæki sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Hrunið afhjúpaði blekkinguna. Fjármálavitið reyndist heimskuleg áhættusókn í bland við glæpahneigð.
Stjórnmálakerfið tók þátt í blekkingunni og varð illa úti í tilvistarkreppunni eftir hrun. Í framhaldi opnuðust flóðgáttir fyrir einstaklinga og hópa sem töldu sig vita hvernig ætti að bjarga Íslandi. Þar voru margir kallaðir en fáir útvaldir. Í raun er það aðeins einn óhefðbundinn pólitíkus sem átti erindi á vígvöllinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann gerði smáflokk úr gamla kerfinu að stórveldi nýrra stjórnmála í kosningunum 2013. En vantraust hrunsins ásamt misheppnuðu viðtali og atsókn fjölmiðla felldi bjargvættinn.
Samhliða fjármálalegu og pólitísku hruni tók fjölmiðlakerfið stakkaskiptum. Samfélagsmiðlar gáfu tóninn í umræðunni en hefðbundnir miðlar eltu. Dagskrárvald samfélagsumræðunnar, sem áður var í höndum fárra stjórnmálaflokka og álíka margra fjölmiðla, var komið út um víðan völl. Og er þar enn.
Stjórnmálaflokkar bjóða uppskrift að samfélagi. Ein 9 framboð þykjast vita og kunna hvað þarf til að gera Ísland starfhæft. En þjóðin skiptist ekki í 9 fylkingar. Íslendingar eru ein fylking þótt meiningarmunur sé nokkur á milli manna eftir búsetu, afkomu og lífsskoðun. Þeir stjórnmálaflokkar sem finna stærstu samnefnarana meðal þjóðarinnar munu lifa og dafna. Hinir verða neðanmálsgrein í sögu eftirhrunsins.
![]() |
Sjálfstæðisflokkur bætir við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. mars 2019
90% launþega í klóm öfgamanna
Öfgafólk náði undir sig verkalýðsfélögum þar sem kosningaþátttaka er um tíu prósent. Til að knýja fram verkföll þar heldur ekki meira en tíu prósent virkni.
Öfgafólkið nær þessari stöðu vegna úreltra laga um skylduaðild að verkalýðsfélögum. Atvinnurekendur innheimta félagsgjöld af launþegum í sjóði verkalýðsfélaga.
90 prósent launþega eiga betra skilið en að öfgafólk sýsli með lífskjör þess og atvinnuöryggi.
Breyta þarf úreltum lögum og fyrirkomulagi á vinnumarkaði þannig að launþegar eigi valkosti um hvernig félögum þeir vilji tilheyra.
![]() |
Hópum beint til erlends rútufyrirtækis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 2. mars 2019
Orkupakkinn, umræðan og hlutverk stjórnvalda
Stjórnvöld eiga að vinna að almannahag. Það er frumskyldan sem tilveruréttur stjórnvalda byggir á. Við höfum umræðu til að leiða fram kosti og galla afmarkaðra mála og hvernig almannahag er best borgið.
Þriðji orkupakkinn hefur fengið ítarlega umræðu í marga mánuði. Margir taka til máls og styðjast við opinber gögn, pólitíska vitund og dómgreind. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fundað og Framsókn efndi til umræðu, þar sem bæði formaður og varaformaður hlýddu á sjónarmið með og á móti 3. orkupakkanum.
Til að gera langa sögu stutta eru embættismenn hlynntir innleiðingu orkupakka Evrópusambandsins en allur þorri manna, sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta, er á móti.
Sjónarmið embættismanna er að ESB viti hvað Íslendingum er fyrir bestu. Þetta eru sömu viðhorf og voru ríkjandi þegar ESB-umsókn Samfylkingar var á dagskrá 2009-2012/2013. Embættismenn eru hvorki betri né verri en annað fólk, þeir hugsa um sína hagsmuni. Og þeirra tilvera hverfist um Brussel.
Allur almenningur, sem ræðir 3. orkupakkann, er á móti innleiðingu hans. Viðtaka pakkans felur í sér framsal á valdi yfir íslenskum orkumálum til ESB. Og almenningur segir nei, það viljum við ekki.
Þegar almannavilji er jafn skýr og ótvíræður er það skylda stjórnvalda að taka mið af almannahag og hafna fyrir hönd þjóðarinnar viðtöku þriðja orkupakka Evrópusambandsins.
![]() |
Frestar orkupakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. mars 2019
VR og Efling drepa WOW
WOW átti ekki fyrir launum starfsfólks um mánaðarmótin og varð að selja flugsæti á brunaútsölu með 30 prósent afslætti. Skæruverkföll VR og Eflingar ríða WOW að fullu enda verður afturkippur í eftirspurn Íslandsferða um leið og útlönd frétta af verkföllum.
Um leið og VR og Efling kippa fótunum undan ferðaþjónustunni fækkar störfum og atvinnuleysi blasir við fjölda fólks.
Sósíalistum í VR og Eflingu er slétt sama um afkomu launafólks. Það er pólitíkin sem er aðalmálið hjá forystu VR og Eflingu. Uppskriftin er þessi: á eftir eymd og óeirðum kemur byltingin.
![]() |
VR boðar verkfall á 20 hótelum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 1. mars 2019
Djúpríkið eignast flokk - XD
Þriðji orkupakkinn er hagsmunamál embættismanna. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, Þórdís iðnaðar og Guðlaugur utanríkis, gera sér far um að mylja undir embættismennina, djúpríkið.
Embættismenn í stjórnarráðinu eru upp til hópa ESB-sinnar. Það þjónar einkahagsmunum þeirra að binda Ísland kirfilega við ESB. Atvinnumöguleikar þeirra aukast í Brussel og þar er kaupið hærra en í Reykjavík. Embættismenn flytja með fullveldinu á höfuðbólið í Belgíu. Eftir situr alþýða manna með verri bjargráð.
Þriðji orkupakkinn fórnar þjóðarhagsmunum - yfirráðum yfir raforkumálum okkar - fyrir hagsmuni djúpríkisins, embættismanna.
Að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins skuli ganga erinda djúpríkisins í beinni andstöðu við almannahag veit ekki á gott fyrir flokkinn. Öðru nær.
![]() |
Flóknar viðræður fram undan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)