Ný breiðfylking í íslenskum stjórnmálum

Til skamms tíma gátu ESB-sinnar treyst því að ASÍ spilaði með og styddi með ráðum og dáð að Ísland yrði ESB-ríki. Ekki lengur. ASÍ leggst gegn orkupakkanum:

Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu launafólks.

Umræðan um orkupakkann riðlar íslenskum stjórnmálum. Breiðfylking frá hægri til vinstri er andsnúin innleiðingu ESB-réttar inn í íslensk raforkumál. Jón Baldvin úr Alþýðuflokki/Samfylkingu, Styrmir úr Sjálfstæðisflokki, Hjörleifur úr Vinstri grænum, Frosti úr Framsókn, Inga úr Flokki fólksins og Miðflokkurinn eins og hann leggur sig.

Á móti breiðfylkingunni standa þingflokkar stjórnarinnar ásamt Samfylkingu og Viðreisn.

Breiðfylkingin nýtur víðtæks stuðnings í þjóðfélaginu. Orkupakkinn snýst um yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum. Þeir sem ekki skilja hve djúpt það ristir að óttast óafturkræft framsal á forræði yfir lífsnauðsynlegum auðlindum, - tja, þeir skilja ekki pólitík.

 


mbl.is Vill að Katrín „aðstoði“ Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmaður í pólitík, þingmenn í lögfræði

Evrópusambandið skrifar pólitík í lagatexta. Framkvæmdastjórn ESB notar jöfnum höndum hugtökin stefnumál (policies) og lög (law). Hér á Íslandi leggjast menn undir fávísisfeld þar sem lögfræðingur á þingnefndarfundi talar eins Evrópupólitíkus og þingmenn týna sér í lagatækni.

Í báðum tilfellum birtist einbeittur vilji til að skilja ekki kjarna málsins í orkupakkanum.

Skúli Magnússon, dómari og kennari í lögum, kemur fyrir þingnefnd og segir setningar eins og

Með því að hafna því að aflétta stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara væru Íslend­ing­ar í raun að segja að þeir vildu velja „bestu mol­ana“ úr sam­starf­inu og það væri Evr­ópu­sam­band­inu ekki að skapi.

Skúli ræðir hér pólitík en ekki lögfræði. Á hinum endanum eru fávísir þingmenn sem keppast við að sökkva sér ofan í lagatexta en skilja ekki pólitíkina.  

Orkupakkinn er hluti af pólitískri stefnu ESB um að mynda orkusamband með miðstýrðu ákvörðunarvaldi. Þetta liggur fyrir þótt íslenskir þingmenn keppist við að skilja það ekki

Miðstýrt erlent vald yfir orkumálum Íslendinga felur í sér að alþingi getur ekki lengur sett lög um raforkumál í þágu þjóðarhagsmuna - lagavaldið er komið út fyrir landsteinana.

Ísland er í dauðafæri að afþakka aðild að orkusambandi ESB. Við erum ekki tengd raforkukerfi ESB. En ef við samþykkjum 3. orkupakkann jafngildir það lagalegri og pólitískri yfirlýsingu um að við ætlum okkur að verða hluti af orkusambandi ESB. Eftir það verður ekki aftur snúið.


mbl.is „Neikvæðar afleiðingar“ markmið ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkadauði - þrjár meginástæður

Um alla Evrópu deyja sögulegir stjórnmálaflokkar drottni sínum, segir í Telegraph. Stöndugir flokkar til áratuga sem leiddu samfélög sín upp úr rústum seinna stríðs hrapa í fylgi á meðan nýmæli til hægri og vinstri sópa til sín kjósendum.

Hvað veldur?

Meginástæður eru þríþættar:

a. Flokkarnir tapa hefðbundnu baklandi sínu, gildir sérstaklega um vinstriflokka sem glata stuðningi verkalýðshreyfingarinnar.

b. Flokkum mistekst að svara kalli kjósenda um taka á brýnum samfélagsvanda, s.s. upplausn vegna aðstreymis flóttamanna með framandi menningu og siði.

c. Flokkarnir verða fangar elítu sem sýna almenningi hroka í anda einveldis; við vitum hvað ykkur er fyrir bestu.

Samfylking er deyjandi flokkur af ástæðu a. - Sjálfstæðisflokkurinn af ástæðu b. og c.


Brexit og orkupakkinn

Bresku þjóðinni var talin trú um að þjóðaratkvæðagreiðslan 2016 hefði verið um hvort Bretland ætti að vera innan eða utan Evrópusambandsins. Bretar völdu Brexit, að standa utan ESB.

Síðan eru þrjú ár liðin og Bretar eru enn fast í ESB.

Á Íslandi reyna talsmenn orkupakka ESB að telja okkur trú um að þótt við samþykkjum pakkann verðum við ekki hluti af orkubandalagi ESB. Hlutlausir aðilar, t.d. blaðamaður viðskiptatímaritsins Forbes, segja aðra sögu: ESB ætlar að færa forræði raforkumála frá aðildarríkum til Brussel.

Heilir þingflokkar á Íslandi þykjast ekkert skilja út á hvað orkusamband ESB gengur út á.

En það þarf ekki meira en gripsvit á verklagi ESB til að átta sig á hvernig sambandið vinnur. Ömöguleiki Breta að komast úr félagsskapnum blasir við öllum sem vilja sjá.


Pilla Styrmis

Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsina má sitja undir ámæli fyrir að vera ,,einangrunarsinni" sökum þess að hann er andstæðingur orkupakkans.

Styrmir gerir uppnefnið að umtalsefni en víkur jafnframt að málfari þeirra sem handvaldir eru að tala í Ríkisútvarp vinstrimanna. RÚV:

En þar fyrir utan gaf Silfrið í morgun tilefni til að efnt verði til víðtæks málhreinsunarátaks. Tungumál engilsaxa er farið að smitast óþægilega mikið inn í íslenzkt mál, eins og þeir geta sannreynt, sem vilja, með því að horfa á þáttinn

 


Sjálfstæðisflokkurinn, orkupakkinn og hælisleitendur

Orkupakkinn er stærra mál en tæknileg útfærsla á EES-samningnum. Umræðan um orkupakkann er í einn stað um tengsl Íslands við umheiminn og hvað hve miklu leyti þau eiga að vera á okkar forsendum eða útlendra hagsmuna.

Í annan stað er orkupakkaumræðan um hvernig við viljum haga málum innanlands.

Ragnar Önundarson skrifar

Við eigum ekki að fórna náttúru landsins, menningu og tungu á altari evrópsks kapítalisma. Ísland á ekki að verða sumarbústaðaland evrópskra auðmanna.

Björn Bjarnason ræðir sérstaklega uppákomuna á fundi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, þar sem hælisleitendur reyndu að taka orkupakkaumræðuna í gíslingu, og nutu innlendrar aðstoðar:

  1. Það er nýmæli að íslenskir stjórnmálamenn geti ekki haldið opinbera fundi án þess að þeir, fundarstjóri og fundarmenn standi frammi fyrir uppákomu sem þessari...
     [...]
  2. ...vekur spurningar um hvort andstæðingar Sjálfstæðisflokksins ætli að beita hælisleitendum fyrir stríðsvagn sinn gegn flokknum. Sé svo er hér ekki um smámál að ræða.

Bæði í málefnum hælisleitanda og í orkupakkamálinu hefur Sjálfstæðisflokkur látið andstæðingana teyma sig frá sjónarmiðum þorra kjósenda sinna. Forystan tók upp opingáttarstefnu Pírata og vinstrimanna í málefnum hælisleitenda. Helstu stuðningsmenn ráðherra Sjálfstæðisflokksins í orkupakkaumræðunni eru Samfylking og Viðreisn, einu ESB-flokkar landsins.

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður vorið 1929 úr tveim flokkum, Íhaldsflokknum og Frjálslynda flokknum. Það vill gleymast að Íhaldsflokkurinn var mun stærri. Frjálslyndi flokkurinn var smáflokkur, líkt og Viðreisn núna.

Forysta og ráðherralið Sjálfstæðisflokksins kastar frá sér vopnum sínum með fylgisspekt við pólitík í andstöðu við sjálfstæðismenn. 


mbl.is Upphlaup á fundi Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstriútgáfan Kjarninn tapar 47 milljónum - rukkar ríkið

Í grein Sig­urðar Más er farið yfir rekstr­ar­tölur Kjarn­ans á árunum 2014 og út árið 2017. Þar greinir hann rétti­lega frá því að sam­an­lagt tap á þessum fjórum árum hafi verið 47 millj­ónir króna.

Ofanritað er játning ritstjóra Kjarnans, Þórðar Snæs Júlíussonar, á stórfelldu tapi vinstriútgáfunnar.

Þórður Snær er ósáttur við að Sigurður Már Jónsson blaðamaður tekur Kjarnann til bæna í Þjóðmálum.

Vellauðugir vinstrimenn halda úti Kjarnanum til að herja á stjórnmálamenn á hægri kanti stjórnmálanna, t.d. Hönnu Birnu, Sigmund Davíð og Sigríði Andersen.

Þórður Snær ritstjóri er einn ákafasti talsmaður þess að ríkið fjármagni einkarekna fjölmiðla. Líklega eru Panama-Þorsteinn og vinstriauðmennirnir þreyttir á taprekstrinum og seilast þess vegna í vasa almennings. Gömul saga og ný.


ESB-sinni játar ósigur í OP3-umræðunni

Tvær öruggar vísbendingar um málefnalegt gjaldþrot eru þegar umræðan er persónugerð, farið í manninn en ekki boltann, annars vegar og hins vegar þegar ýkjur eru orðnar svo stórkostlegar að þær verða hlægilegar.

Ritstjóri Fréttablaðsins er ESB-sinni. Hann líður önn fyrir hve illa er komið fyrir umræðunni um 3. orkupakkann og segir andstæðingana ,,athyglissjúka". Í lok leiðarans koma ýkjurnar: ef við samþykkjum ekki orkupakkann fáum við hvorki kaffi né bíla frá útlöndum.

Takk, Kristín Þorsteinsdóttir, að veita okkur innsýn í stöðumat ESB-sinna.

Í viðtengdri frétt er sagt frá ályktun sveitarstjórnarmanna í Skagafirði. Þeir mæla gegn samþykkt orkupakkans. Þetta er ein afleiðing umræðu síðustu mánaða, sem sýnir æ betur að fólki finnst óheppilegt að framselja til Brussel forræðinu í raforkumálum.

En þótt fylgismenn orkupakkans sitja uppi með gjörtapaða stöðu í umræðunni er ekki að sjá bilbug á ríkisstjórnarflokkunum, sem ætla sér að knýja í gegn samþykkt á alþingi.

Það er verulega slæmt fordæmi þegar stjórnvöld lýsa þjóðarfélagsumræðuna ómarktæka. Stjórnvöld sem þannig haga sér segja skilið við umbjóðendur sína. Og það er ekki vel gott í samfélagi sem kennir sig við lýðræði.


mbl.is Vilja undanþágu frá orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrímslið og loftslagið

Loch Ness-skrímslið ,,sást" vegna þess að jarðvegurinn var undirbúinn. Fréttir um risaeðlur frá forsögulegum tímum kveiktu ímyndunaraflið og fólk ,,sá" lifandi skrímsli.

Á síðasta fimmtungi nýliðinnar aldar birtust raðfréttir um að heimurinn væri að farast vegna hækkandi lofthita af mannavöldum. Engu skipti þótti að breytileiki í veðurfari væri vel þekktur; rómverska hlýskeiðið, miðaldahlýnunin sem gerði Grænlandi byggilegt norrænum mönnum og litla ísöld frá um 1300 til 1900 - nei, nú var það manngert veðurfar takk fyrir.

Skólakrakkar fara í verkfall vegna veðurfarsbreytinga og stjórnmálamenn búa til loftkastala um alheimsstjórnun á veðurfari og almenningur trúir.

Jólasveinar, Loch Ness-skrímslið og manngert veðurfar. Trúgirninni eru engin takmörk sett.


mbl.is Telja Nessie almenna skynvillu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Baldvin: orkupakkinn eyðileggur EES-samninginn

Einfalt er að fá undanþágu frá 3. orkupakkanum enda Ísland ekki tengt raforkukerfi ESB. Við erum með undanþágur frá reglum um járnbrautir og skipaskurði. Guðfaðir EES-samningsins, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að innleiðing orkupakkans muni eyðileggja samninginn. Rökin eru þessi:

Stuðning­ur við EES-samn­ing­inn bygg­ir að lok­um á póli­tískri af­stöðu kjós­enda í aðild­ar­ríkj­un­um. Ef hinn vold­ugi samn­ingsaðili, Evr­ópu­sam­bandið, hætt­ir að virða í reynd þetta grund­vall­ar­atriði EES-samn­ings­ins og krefst þess að EFTA-rík­in samþykki skil­yrðis­laust það sem að þeim er rétt, án til­lits til eig­in þjóðar­hags­muna, er hætt við að stuðning­ur við EES-samn­ing­inn fari þverr­andi. Þar með get­ur EES-samn­ing­ur­inn, með öll­um þeim ávinn­ingi sem hann hef­ur tryggt Íslandi á und­an­förn­um ald­ar­fjórðungi, verið í upp­námi.

Rök Jóns Baldvins eru trúverðugri en þeirra sem segja EES-samninginn í uppnámi ef við samþykkjum ekki orkupakkann. Þegar þjóðarhagsmunir eru í húfi er skynsamlegast að gæta varúðar. Og varúðarreglan býður að við breytum ekki ástandi sem almenn sátt er um og köllum yfir þjóðina óvissu um eignarhald og forræði auðlindanna. Það er beinlínis vond pólitík að samþykkja 3. orkupakkann. 


mbl.is „Viljum við taka þessa áhættu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband