ESB-umsóknin, orkupakkinn og Katrín

ESB-umsóknin var rökstudd þannig að í boði væru aldeilis frábærar undanþágur frá íþyngjandi regluverki ESB. Sömu rök eru notuð fyrir 3. orkupakka ESB af Katrínu forsætisráðherra.

Hún segir í hádegisfréttum RÚV að Ísland geti fengið undanþágu frá því tengjast evrópska raforkumarkaðnum með sæstreng. En, óvart, gengur orkupakkinn út á sameiginlegan ESB-markað fyrir raforku og ekki neitt annað.

Að innleiða 3. orkupakka ESB án rafstrengs er eins og að byggja flugvöll en banna flugtak og lendingu flugvéla. Enginn heilvita byggir flugvöll nema ætla að nota hann fyrir flugumferð.

Undanþágurökin fyrir ESB-umsókninni voru ónýt. Öllum var augljóst að við höfðum fyrir stærstu og bestu undanþáguna - að standa utan ESB. 

Að sama skapi eru undanþágurökin fyrir 3. orkupakkanum ónýt. Á meðan enginn er rafstrengurinn milli Íslands og Evrópu er algerlega ástæðulaust að Ísland eigi aðild að raforkustefnu ESB.

Ríkisstjórn sem ekki skilur jafn gjörtapaða málefnastöðu og einkennir umræðuna um 3. orkupakkann er hreinlega ekki mönnuð fólki með dómgreindina í lagi.

 


Gjaldþrot WOW ódýrasti kosturinn

WOW er fljúgandi þrotabú sem enginn vill kaupa. Eigandi félagsins reynir fjárkúgun til að fá ríkisfé í reksturinn.

Flugrekstur lýtur lögmálum grjótharðrar samkeppni. Ríkisfé á ekkert erindi í þann rekstur.

Hvað sem gerist um helgina í samskiptum Icelandair og WOW ætti ríkið að halda fast um pyngjuna.

Lögmál markaðarins á að ráða afdrifum WOW.


mbl.is Upp og niður hjá Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3. orkupakkinn: Ísland þarf nýja forystu

Þriðji orkupakki ESB snýst um að selja rafmagn yfir landamæri þjóðríkja. Eini tilgangur orkupakkans er að markaðsvæða framleiðslu og sölu rafmagns á evrópska vísu.

Íslensk stjórnvöld reyna að telja okkur trú um að ekkert samhengi er á milli þess að innleiða þriðja orkupakkann og selja rafmagn með sæstreng til Evrópu. En það væri eins og að setja upp umferðaljós án umferðar.

Ísland hefur fengið heildarundanþágur frá reglum ESB um skipaskurði og járnbrautalestir. Hvers vegna fáum við ekki heildarundanþágu frá reglum um sölu rafmagns yfir landamæri? Rökin eru þau sömu; hér eru ekki skipaskurðir, ekki lestir og rafmagn er ekki selt yfir landamæri. Við eigum ekkert erindi í orkustefnu ESB nema ætlunin sé að leggja rafstreng til Evrópu.

Þegar það liggur fyrir að ríkisstjórnin er einbeitt í brotavilja sínum gegn almannahagsmunum er augljóst að landið þarf nýja forystu. 

Ríkisstjórn sem ekki er fær um að annast fjöregg þjóðarinnar, fullveldið, er ekki á vetur setjandi.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband