Einræði fjölmiðla eða stjórnvalda

Tal um einræði í fjölræðissamfélagi eins og því bandaríska er dálítið eins og að tala um vatnsskort í miðri djúpu lauginni. Meint einræði er í raun deila um dagskrárvald í pólitískri umræðu.

Fjölmiðlar telja sig eiga dagskrárvaldið skuldlaust og vilja ákveða hvaða pólitísku álitamál eru rædd og á hvaða forsendum. Trump forseti er á öðru máli og efnir til harðrar samkeppni við fjölmiðla um dagskrárvaldið.

Vígvöllurinn þar sem forsetinn og fjölmiðlar heyja baráttu sína er samfélagsmiðlar. Ef fjölmiðlar tapa þessum slag glata þeir dagskrárvaldinu. Ef Trump tapar er hann orðinn hornreka í umræðunni.

Einn sigurvegari er þegar kominn fram: samfélagsmiðlarnir.


mbl.is Fjölmiðlar „óvinir almennings“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin sigraði í sjómannadeilunni

Hart var sótt að ríkisstjórninni í sjómannadeilunni en hún stóðst álagið. Deila sjómanna við útgerðina er innbyrðis barátta um hvernig skuli skipta afkomunni af fiskveiðum. Aldrei var tilefni til þess að ríkisvaldið fjármagnaði lausn deilunnar, þótt ýmsir gerðu kröfu um það.

Ríkisstjórnin hélt fast við  meginreglununa um frelsi og ábyrgð samningsaðila að ná niðurstöðu sín á milli. 

Fiskveiðar er afmörkuð atvinnustarfsemi sem kallar ekki á atbeina ríkisvaldsins líkt og almennir kjarasamningar á vinnumarkaði gera á tíðum. 

Sjómenn og útgerð geta líka vel við unað. Stundum þarf að þreyja þorrann og góuna þegar deilur eru komnar í hnút. Og það var gert í þessu verkfalli.


mbl.is Samið í kjaradeilu sjómanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur til hægri, kreppa til vinstri

Hagvöxtur verður við pólitískan stöðugleika, traust ríkisfjármál og tilrú. Sígild hægripólitík, jafnvægi á milli íhaldssemi og einstaklingsfrelsis, skapar þessi skilyrði.

Ef jafnvægið raskast, eins og gerðist fyrir hrun, hleypur slæmska í hagkerfið með þekktum afleiðingum.

Vinstripólitík er andstaðan við íhaldssemi og einstaklingsfrelsi; bylting og samfélagstilraunir. Pólitískur stöðugleiki, skikkanleg ríkisfjármál og tiltrú þrífst illa eða alls ekki í vinstripólitík.

Hægrimenn tala um að skapa verðmæti, en hafa minni áhyggjur af útdeilingu þeirra. Aðaláhyggjuefni vinstrimanna er að deila út verðmætum, en þeir láta sér í léttu rúmi liggja hvort og hvernig þau verða til.

Skynsamar þjóðir setja hægriflokka í ríkisstjórn en úthluta vinstriflokkum það hlutverk að veita aðhald í stjórnarandstöðu.


mbl.is Blússandi hagvöxtur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsfréttir og falskur veruleiki

Fjölmiðar eins og RÚV eru á undanhaldi frá hlutlægri fréttamennsku og á hraðri leið inn í kjaftakvörn samfélagsmiðlunar þar sem mestur hávaðinn fangar athyglina.

RÚV stundar skipulagða kjaftakvarnarblaðamennsku með einhliða áróðri um málefni sem stofnunin tekur upp á sína arma, núna síðast loftslagsvá.

Yfirgengileg einföldun og misþyrming talnaefnis eru ær og kýr kjaftakvarnarinnar á Efstaleiti.

Almenningur veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið enda fátt um fína drætti í andófinu gegn fölskum veruleika RÚV.

 


mbl.is Mikill meirihluti hefur áhyggjur af loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að gúggla sig til mennta?

Menntun var einu sinni að þýða latínu og grísku yfir íslensku á Bessastöðum en ensku í Oxford. Að auki lærðu nemendur ljóð utanbókar og kannski eitthvað smávegis í stærðfræði og stjarnvísindum. Með þennan grunn börðust Íslendingar til sjálfstæðis en Englendingar urðu heimsveldi.

Lýðræðisvæðing skólamenntunar á síðustu öld breytti inntaki hennar. Markmiðið var að koma sem flestum í gegnum skóla en ekki höfðu allir smekk fyrir fornmenntum og fagurbókmenntum. Sumir prjónuðu sig í gegnum skóla. Sígild menntun lét á sjá.

Eftir netvæðingu er þekkingin er hvers manns fingrum í gegnum leitarvélar eins og google. Skólakunnátta er lítils virði í samanburði.

Tvennt lærir maður þó ekki á google, sjálfsaga og sköpun. Að þýða texta á einu tungumáli yfir á annað krefst ögunar og sköpunargáfu.

Svarið við spurningunni í fyrirsögn er nei, við gúgglum okkur ekki til mennta. 


mbl.is Forstjóri Google svaraði sjö ára stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokatilboð - síðan neyðarkall

Á almennum vinnumarkaði eru tveir samningsaðilar, vinnuveitendur og launþegar. Það er þeirra og engra annarra að semja um kaup og kjör innan ramma laganna.

Fyrir tveim dögum sögðu sjómenn að þeir hefðu gert útgerðinni lokatilboð.

Sjómenn hlupu á sig og senda alþingi neyðarkall tveim dögum eftir ,,lokatilboð". Í kjaraviðræðum er ekkert lokatilboð, aðeins samningar.

 


mbl.is Sendir neyðarkall til alþingismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðurinn hættir blekkingu - ríkið tekur við

Jafnlaunavottun VR byggði á þeirri blekkingu að launagreiðslur væru eitthvað annað en greiðslur fyrir tiltekin störf - að kyn launþega skipti máli. VR gefst upp á blekkingunni og hættir að gefa út jafnlaunavottorð. Ríkið ætlar að yfirtaka starfsemina.

VR er markaðsaðili á vinnumarkaði; semur um kaup og kjör launþega. Kjarasamningar eru kynlausir og því þarf jafnlaunavottun að byggja á einhverju öðru til að finna kynbundinn launamun.

Upplýsingar um kynbundinn launamun eru ekki til. Aðeins eru til upplýsingar um að ólík störf gefi ólík laun - enda ganga kjarasamningar út á þá forsendu.

Velferðarráðuneytið reynir að blekkja fólk til að trúa því að upplýsingar um launamun á milli starfsgreina og starfsheita séu í raun tölfræði um launamun kynja.

Og það er einmitt velferðarráðuneytið sem mun taka yfir jafnlaunavottun sem vinnumarkaðurinn er að hætta við.

Ríkisvædd blekking er einmitt það sem við þurfum á að halda. Eða þannig.


mbl.is VR er hætt að votta laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsæsingar frjálslyndra í Evrópu og Bandaríkjunum

Stjórnmálamenn sem kenna sig við frjálslyndi í Bandaríkjunum og Evrópu stunda stríðsæsingu gegn Rússlandi ásamt gömlum kaldastríðsjálkum.

Slóðin frá Írak 2003 liggur til Úkraínu sem Bandaríkin og Evrópusambandið vilja gera að bandalagsríki sínu gegn Rússlandi.

Trump gaf ekki mikið fyrir stríðsæsingar frjálslyndra í kosningabaráttunni. En kannski er hann orðinn húsvanur.


mbl.is Rússar hyggjast halda Krímskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjómannaverkfallið kælir hagkerfið

Þeir milljarðar sem fara í súginn í sjómannaverkfallinu kæla hagkerfið, draga úr atvinnustarfsemi og minnka einkaneyslu.

Fyrirsjáanleg lækkun á neysluvörum með innkomu Costco á smásölumarkaði mun draga úr þenslu og leiða til uppstokkunar í heildsölu- og smásölu.

En stóra spurningin er hvort ríkið heldur aftur af sér í útgjöldum. Ef ríkið sýnir aðhald í þenslunni er möguleiki að komast hjá harðri lendingu hagkerfisins 2018/2019.


mbl.is Sagðir undirbúa sig fyrir næstu kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsfrétt ráðuneytis um kynbundinn launamun

Velferðarráðuneytið hagræðir tölum til að láta líta svo út að konur fái lægri laun fyrir sömu vinnu og karlar. Blekkingin felst í því að nota hráar tölur um ólík störf og líta framhjá þeirri staðreynd að ólík störf gefa ólík laun - burtséð frá hvort það sé karl eða kona sem vinni þessi störf.

Lykilefnisgrein í falsfrétt ráðuneytisins er eftirfarandi:

Laun­a­r­ann­sókn Hag­stofu Íslands (árið 2015) sýn­ir að þegar bor­in eru sam­an reglu­leg laun karla og kvenna, þ.e. laun fyr­ir dag­vinnu, hafa karl­ar að jafnaði 17,4% hærri laun að meðaltali en kon­ur. Í þess­um sam­an­b­urði er ekki leiðrétt fyr­ir launamun sem skýra má með mál­efna­leg­um breyt­um, s.s. mennt­un og manna­for­ráðum o.fl. Þegar horft er til heild­ar­launa mæl­ist mun­ur­inn enn meiri, eða 21,5% körl­um í vil.

Með því að taka tölur þar sem ekki er reiknað með að sumir vinna hlutastörf, einhverjir séu við ræstingar og símavörslu á meðan aðrir eru deildarstjórar og forstjórar, þá fæst launamunur milli karla og kvenna. Það er verið að bera saman appelsínur og epli. Gylfi Magnússon hagfræðingur útskýrir muninn á milli leiðrétts og óleiðrétts launamunar.

Í skýrslu Hagstofunnar, sem velferðarráðuneytið vitnar í, kemur fram á bls. 9 að karlar og konur starfa í mismunandi atvinnugreinum og í mismunandi störfum innan þeirra og það skýri launmuninn.

Falsfrétt velferðarráðuneytisins tekur sem sagt tölur um launamismun ólíkra starfa og heimfærir þær tölur upp á launamismun karla og kvenna. Launamunur milli starfsgreina og starfa innan þeirra er allt önnur umræða en launamunur milli kynja. Þetta er vísvitandi blekking og ólíðandi að stjórnarráðið skuli stunda slíka iðju.


mbl.is Kynbundinn launamunur sagður staðreynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband