Leki ýmist góðverk eða glæpur

Lekinn úr Glitni, bankaupplýsingar um þúsundir Íslendinga, þótti vinstrimönnum góðverk. Leki um vafasama fortíð hælisleitanda var stimplaður glæpur af sama fólki. Lekinn um símtal Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og Geirs H. Haarde forsætisráðherra er óhæfa, segir Björn Valur Gíslason fyrrverandi varaformaður Vinstri grænna.

Hljóðupptakan af símtalinu var tilefni ótal samsæriskenninga vinstrimanna um spillingu á æðstu stöðum. Ítrekar kröfur voru gerðar um birtingu símtalsins.

En nú þegar símtalið er komið á prent fyrir alþjóð eru fyrstu viðbrögð vinstrimanna að fordæma lekann.

Grátur og gnístran tanna vinstrimanna stafar ekki af símtalinu sjálfu. Heldur hinu, að nú þegar það er birt, kemur á daginn að samsæriskenningar um efni þess voru heilaspuni.

Í símtalinu kemur fram að seðlabankastjóri og forsætisráðherra reyndu að bjarga þeim íslenska banka sem gæti mögulega staðið af sér fyrirsjáanlegt bankahrun. Hvorugur var bjartsýnn að það tækist, Kaupþing féll eins og Glitnir og Landsbankinn gamli.

Samsæriskenningar vinstrimanna gengu út á að stjórnvöld bæru ábyrgð á falli bankanna, en ekki eigendur og stjórnendur þeirra. Það er heilaspuninn. Einkabankar standa og falla með ákvörðunum þeirra sem um véla, eigenda og stjórnenda.

 


mbl.is Vill að bankaráð ræði símtalið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkalíf Sigmundar, Bjarna og Rósu B.

Einkalíf Sigmundar Davíðs var pólitískt hitamál, þar sem eiginkonu hans tæmdist arfur. Einkalíf Bjarna Ben. var gert að stórmáli með fréttum um að faðir hans hafði skrifað undir hjá manni sem sóttist eftir uppreisn æru.

Þegar sá orðvari nýþingmaður Helga Vala Helgadóttir talar um ,,jakkið" á hún við aursletturnar sem hún og samherjar hennar köstuðu að Sigmundi Davíð og Bjarna Ben.

Víkur þá sögunni að Rósu B. Brynjólfsdóttur þingmanni Vinstri grænna. Hún er leiðandi í kröfunni um að Vinstri grænir starfi með Samfylkingu og notar sömu rök og Helga Vala.

Á vef alþingis segir að hún sé í hjónabandi með fyrrum framkvæmdastjóra Samfylkingar, Kristjáni Guy Burgess. Rósa B. er ekki þýfguð um það hvort sambúð með innvígðum og innmúruðum samfylkingarmanni hafi áhrif á pólitískt mat hennar. Ekki grennslast fjölmiðlar fyrir um hvort enn sé ráðningarsamband milli Kristjáns og Samfylkingar.

Einkalíf Rósu B. er ekki til umræðu á samfélagsmiðlum eða í fréttum. Nærfærnin sem Rósu B. nýtur sýnar hve háttvísir fjölmiðlar eru - þegar kemur að öðrum en Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni.


mbl.is Þrá að spritta sig með VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir töpuðu 50% fylgi á Samfylkingarstjórn

Vinstri grænir fóru í ríkisstjórn með Samfylkingu vorið 2009 með rúmlega 20 prósent fylgi. Fjórum árum seinna töpuðu þeir helmingnum af því fylgi, fengu 10,9 prósent í kosningunum 2013.

Þess vegna er harla gott hjá Vinstri grænum að halda í 60 prósent af kjósendum sínum frá síðustu kosningum þegar umræðan hnígur í þá átt að flokkurinn myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.

Í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna getur róttækasta aflið á vinstri væng stjórnmálanna brotið í blað, sýnt fram á að flokkurinn sé tækur í stjórnarráðið þótt ekki sé neyðarástand í samfélaginu, líkt og eftir hrun. Þar með geta Vinstri grænir orðið umbótaafl í stað mótmælahreyfingar.

Það er alltaf eftirspurn eftir umbótum en harla sjaldgæft að kallað sé á byltingu. Og þá sjaldan það gerist étur byltingin oftast börnin sín.


mbl.is Aðeins 60% myndu kjósa VG aftur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjalltæki og einkalífið

Foreldrar kaupa snjallúr á börnin sín til að fylgjast með þeim, hvar þau eru og samskiptum þeirra. Úrin gefa upp staðsetningu og eru hljóðnemar. Hlutverk foreldra er að gæta barna sinna og snjallúr auðvelda það.

En það er önnur hlið á málinu sem ekki er eins jákvæð. Ef notkun slíkra tækja verður almenn, ekki aðeins barna heldur alls almennings er einkalíf fólks orðið takmarkað.

Á móti má segja að á meðan enginn er neyddur til að bera snjallúr er einstaklingum valfrjálst að vera undir eftirliti eða ekki. En félagslegur þrýstingur gæti knúið fólk að vera undir eftirliti, ef ekki foreldra þá maka eða vinnuveitanda. Sá sem ekki vildi ganga með snjallúr yrði sjálfkrafa tortryggilegur.

Einu sinni var einkalíf sjálfsagður hlutur. Ekki lengur.

 


mbl.is Banna sölu á snjallúrum fyrir börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logi, hatrið og leyndarhyggjan

Logi Már Einarsson formaður Samfylkingar gat sér orð í bæjarmálum á Akureyri áður en hann tók við Samfylkingunni. Logi beitti sér fyrir mannréttindabrotum á grunnskólakennara þar í bæ.

Samkvæmt fundargerð skólanefndar Akureyrarbæjar var Logi málshefjandi undir liðnum ,,hatursáróður." Svo vitnað sé í fundargerðina frá 6. febrúar 2012:

2.Hatursáróður

2012020038

Að ósk Loga Más Einarssonar S-lista voru tekin til umræðu ummæli á opinberum vettvangi um samkynhneigð og viðbrögð við þeim ummælum.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir lögmaður Akureyrarbæjar mætti á fundinn undir þessum lið.

Logi Már Einarsson lagði fram bókun sem var færð í trúnaðarbók.

Nú er Logi sérstakur talsmaður þess að ,,leyndarhyggju" verði aflétt í íslenskum stjórnmálum. Er þá ekki rétt að hann aflétti leyndinni yfir ,,trúnaðarbókinni" sem hann lagði bókun sína inn í á fundinum? Í leiðinni gæti Logi upplýst alþjóð hvað hann á við með ,,hatursáróðri". Það liggur fyrir að hvorki innanríkisráðuneytið, héraðsdómur né hæstiréttur er sammála Loga um aðför hans að tjáningarfrelsinu undir merkjum ,,hatursáróðurs".

Eða er það þannig að leyndarhyggjan sé hið besta mál þegar maður þarf að fela eftir sig slóðina í atlögu að mannréttindum og er formaður Samfylkingar?

 

Katrín greinir hlutverk stjórnmálaflokka rétt

Stjórnmálaflokkar eru ekki til fyrir sjálfa sig heldur almannahag. Það er réttlætingin fyrir því að stjórnmálaflokkar eru að stærstum hluta fjármagnaðir úr ríkissjóði.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir um yfirstandandi viðræður um myndun meirihlutastjórnar:

„Ég veit að þetta er áhætta og heil­mik­il áhætta fyr­ir VG, en ég held það sé líka áhætta fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag ef maður tek­ur ekki áhættu.“

Þetta eru orð ábyrgs stjórnmálamanns. Vinstri grænir eru næst stærsti flokkurinn á alþingi. Framan af ferli sínum var flokkurinn sá þriðji eða fjórði stærsti. Næst stærsti flokkur landsins getur ekki leyft sér að segja pass, við tökum ekki þátt í málamiðlunum.


mbl.is „Þessum viðræðum er hvergi nærri lokið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símtalið, ekki-fréttin um leyndarhyggju

Vinstrimenn bjuggu til ótal samsæriskenningar um símtal Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og Geirs H. Haarde forsætisráðherra kortéri fyrir gjaldþrot íslensku bankanna. Samtalið reyndist stærsta ekki-frétt eftirhrunsins.

Davíð og Geir ræddu um það sem þeim bar að ræða, hvort hægt væri að bjarga stærsta bankanum, Kaupþingi. Í samtalinu er hvorugur bjartsýnn á að það tækist.

Íslensku bankarnir voru rændir að innan, eins og rannsóknaskýrsla alþingis leiddi síðar í ljós. Það hefði ekki þjónað langtímahagsmunum þjóðarinnar að Kaupþing héldi velli. En þegar menn stóðu á bjargbrúninni rétt fyrir fallið er skiljanlegt að allt hafi verið reynt til að forðast hámarkstjón og bjarga Kaupþingi.

Fjármálakerfið hrundi haustið 2008 vegna þess að fjárglæframenn stjórnuðu bönkunum. Það er mergurinn málsins.


mbl.is Ræddu örlög bankakerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Facebook og óþarfir blaðamenn

Facebook er ríkasti og öflugasti útgefandi í sögunni og skiptir út ritstjórum fyrir algóritma. Almannarýminu er skipt upp í milljónir klæðskerasniðna fréttastrauma er útiloka frjálsa og opna umræðu samtímis sem útgefandinn græðir milljarða.

Á þessa leið talar Katharine Viner, aðalritstjóri Guardian, um kreppu blaðamennskunnar. Og heldur áfram: blaðamenn eru í kapphlaupi niður á botninn, birta æsifréttir án þess að kanna sannleiksgildið til að fá athygli í samkeppni við félagsmiðla.

Facebook gerir ekki alla blaðamenn óþarfa. Enn er eftirspurn eftir vandaðri blaðamennsku. Þeir eru bara svo fáir sem hana stunda.


Beittasta stjórnarandstaðan, SDG

Sigmundur Davíð verður beittasta stjórnarandstaðan í tíð væntanlegrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar.

Miðflokkur Sigmundar Davíðs mun bjóða upp á miðhægri valkost og verða skeinuhættur Sjálfstæðisflokki og Framsókn en síður Vinstri grænum.

Í vinstriandstöðunni verða Viðreisn, Píratar og Samfylking en þríeykið er veikt, málefnasnautt og sjálfu sér sundurþykkt.

Sigmundur Davíð veitir Sjálfstæðisflokki og Framsókn slíkt aðhald að flokkarnir geta ekki leyft sér að gefa Vinstri grænum of lausan tauminn í landsstjórninni.


mbl.is VG veiti Sjálfstæðisflokki uppreist æru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ríkisstjórn, engir kjarasamningar

Stjórnarkreppan á Íslandi var búin til með falsfréttum þar sem dregin var upp sú mynd að máttarstólpar þjóðfélagsins væru á kafi í spillingu. Í samspili fjöl- og félagsmiðla var efnt til pólitískra uppþota sem lömuðu landsstjórnina.

Tvennar ónauðsynlegar kosningar á einu ári skiluðu sér í lengstu stjórnarkreppu lýðveldissögunnar. Á meðan stjórnmálakerfinu er haldið í varanlegri kosningabaráttu er ekki hægt að ganga til kjarasamninga.

Það rennur upp fyrir fólki að samsæriskenningar um spillingu á æðstu stöðum er aðeins rafræn útgáfa af ævintýrinu um fjöðrina sem varð að fimm hænum. Falsfréttir verða að skemmtiefni sem enginn leggur trúnað á. Og við getum lagt niður RÚV. 


mbl.is Viðræðurnar að mjakast af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband