Vinstri grænir fái frest vegna samfélagsmiðla

Vinstri grænir láta þau boð út ganga að ekkert liggi á að mynda ríkisstjórn. Þeir eru minnugir eineltisins á samfélagsmiðlum í fyrra þegar Björt framtíð fékk yfir sig gusurnar fyrir að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.

Vinstri grænir eru í eftirfarandi valþröng. Í fyrsta lagi geta þeir myndað veika 4-5 flokka ríkisstjórn þar sem Framsóknarflokkurinn yrði með forsætisráðuneytið. Í öðru lagi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn/Miðflokknum. Þar er gæti Katrín orðið forsætisráðherra. Umræðan á samfélagsmiðlum yrði hávær, einkum frá bloggher Samfylkingar og Pírata. 

Þriðji kosturinn er að sitja á friðarstóli í stjórnarandstöðu og vísa frá sér allri ábyrgð á landsstjórninni. Sá friður gæti orðið dýrkeyptur til lengri tíma litið. Vinstri grænir færu í sama flokk og Píratar, óstjórntækir.

Sjálfsagt er að veita Vinstri grænum langan frest. Liggur nokkuð á að mynda stjórn fyrir jól?


mbl.is Þreifingar við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál: glataður lærdómur frá 1947

Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar sprakk fyrir 70 árum, 1947. Samfylking hét reyndar Alþýðuflokkur þá og Sósíalistaflokkurinn er forveri Vg.

Í 70 ár hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og sósíalistum. Nú má spyrja: höfum við ekkert lært?

Víst höfum við eitthvað lært. Til dæmis sjálfsagða hluti eins og að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir eru andstæðir pólar.

Annað fór framhjá okkur. Pólskiptingin stafaði ekki síst af utanríkismálum, afstöðunni til Nató og varnarliðsins. Það ágreiningsefni gufaði upp að mestu 2006 þegar herinn fór úr landi.

Vinstri grænir eru ekki sósíalistar nema að nafninu til. Þeir stóðu ekki fyrir þjóðnýtingu 2009-2013 þegar færi gafst í tíð Jóhönnustjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkur einkavæðir ekki allt til andskotans þótt hann sé í stjórn.

Lærdómurinn sem við eigum enn eftir að tileinka okkur er að Samfylkingin er komin í hlutverk Sósíalistaflokksins 1947 en Vinstri grænir eru hófstillta vinstrið. Þetta blasir við ef maður kíkir undir vélarhlíf stjórnmálanna.


mbl.is Katrín hitti Sigmund Davíð í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdataka kverúlanta í KÍ

Ragnar Þór Pétursson var frambjóðandi kverúlantahóps sem lamaði kjarabaráttu grunnskólakennara og stendur fyrir stöðugum skæruhernaði gagnvart forystu framhaldsskólakennara.

Kverúlantahópurinn sá til þess að kjarasamningar grunnskólakennara voru ítrekað felldir. Deildin innan framhaldsskólakennara dundar sér ár og síð við að rægja forystuna með endalausum samsæriskenningum á Facebook.

Í tilefni af valdatökunni skrifar Ragnar Þór: ,, Svik, róg­ur og þving­an­ir eiga hvergi heima í sam­skipt­um." En það er einmitt aðferðafræði sem hann og félagar hans nota.

Í pistli til að réttlæta framboð sitt skrifar Ragnar Þór:

Ég skal alveg viðurkenna að ég hef mjög sterklega á tilfinningunni að ég sé ekki í kosningabaráttu gegn tveimur einstaklingum – heldur kerfi.

og

Að þessu leyti grunar mig að ójafnt sé komið á með frambjóðendum. Bæði Ólafur og Guðríður geta – kjósi þau það – sinnt kosningabaráttu sinni á vinnutíma og jafnvel gert sér upp erindi út í skólanna eða til sendinga á trúnaðarpóstlista kennaranna. Þau geta jafnvel látið undirmenn sína í Kennarahúsinu semja fyrir sig ræður og greinar, eða bóka viðtöl í fjölmiðlum, á meðan þau sinna öðru.

Ragnar Þór sér sig sem riddara réttlætisins gagnvart spilltu kerfi og sakar aðra frambjóðendur um undirferli.

Valdataka kverúlantahópsins með Ragnar Þór í fararbroddi er stórslys sem mun skaða málstað kennara.


mbl.is Vill þróa skólakerfi 21. aldarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband