Takk Ísland, takk fullveldi

Ástæðan fyrir því að Ísland gat veitt Eystrasaltsríkjunum stuðning til sjálfstæðis er að við erum fullvalda þjóðríki.

Án fullveldis hefði Ísland hvorki getað hreyft legg né lið til stuðnings smáþjóðunum sem vildu losna undan ríkjasasambandi við voldugan nágranna.

Fullveldið er verðmæti sem er ekki metið til fulls fyrr en það tapast.

 


mbl.is Litháar segja „takk Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhöfðingi leitar að samnefnara

Hlutverk þjóðhöfðingja er að finna samnefnara meðal þjóðarinnar og styðja málefni sem sameina fremur en sundra.

Þjóðhöfðingjar sem gleyma hlutverki sínu og taka þátt í pólitískum skotgrafahernaði gera hvorki sjálfum sér né þegnum sínum greiða.

Elísabet Englandsdrottning er ekki slæm fyrirmynd.


mbl.is Elísabet stappar stálinu í landsmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Th. gefur skotleyfi á sjálfan sig

Guðni Th. forseti stóð fyrir sérstakri rannsókn þegar hann ígrundaði hvort hann ætti að taka völdin af dómsmálaráðherra og neita að undirrita skipunarbréf dómara í landsrétt. Guðni Th. gaf þar með undir fótinn með að forsetinn hefði völd til að breyta stjórnvaldsákvörðun ráðherra.

Viku seinna kemur sami Guðni Th. og ber sig aumlega vegna máls kynferðisbrotamanns sem fær uppreisn æru frá forseta. Forsetinn segir

það er ekki ég sem tek ákvörðun­ina, stjórn­ar­at­höfn­in er ekki mín enda er ég ábyrgðarlaus á stjórn­ar­at­höfn­um sam­kvæmt stjórn­ar­skrá.

Hér verður ekki bæði sleppt og haldið. Annað hvort er forsetinn með vald til að breyta ákvörðun ráðherra eða ekki. Fyrir viku sagði Guðni Th.:

Sú staða get­ur þó vissu­lega komið upp að for­seti þurfi að íhuga hvort hann vilji staðfesta stjórn­ar­at­hafn­ir.

Hvort er rétt, það sem Guðni Th. segir í dag eða í síðustu viku?

Misvísandi skilaboð Guðna Th. um valdheimildir forsetaembættisins jafngilda skotleyfi á allar ákvarðanir embættisins. Forsetinn þarf að gyrða sig í brók.

 


mbl.is Ákvörðunin tekin í ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan efnir ekki til ófriðar - hverjir þá?

Lögreglan er eins og þjóðin, friðsöm og efnir ekki til átaka. Hlutverk lögreglunnar er að við viðbúin hættuástandi og stöðva lögbrot. En það eru aðrir í samfélaginu sem efna til ófriðar.

Kjörnir fulltrúar Vinstri grænna og Pírata, og stuðningsmenn þessara stjórnmálaafla, eru fremstir í flokki óeirðarfólks.

Málatilbúnaðurinn er í aðalatriðum þessi: eðlilegur viðbúnaður lögreglunnar er gerður tortryggilegur á alla vegu og kanta með samsæriskenningum og hálfsannleik.

Hvað gengur ófriðarfólkinu til?


mbl.is „Ennþá friðsöm og örugg þjóð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, vonda fólkið og bandarísk hnignun

Bandaríkin eru í vondri stöðu. Trump forseti stendur höllum fæti í valdabaráttu þar sem afstaðan til Rússlands er miðlæg. En raunveruleg ástæða fyrir valdabaráttunni er önnur.

Í sumum valdakreðsum í Washington og á ritstjórnum öflugra fjölmiðla er Pútín Rússlandsforseti sagður með horn og hala og hafi með tölvudjöfulskap gert Trump að forseta. Þess vegna verði Trump að víkja.

Yfirvegaðri sálir segja að Bandaríkjunum stafi engin hætta af Rússlandi og Pútín. Bæði er Rússland veikt ríki í samanburði við stórveldið og er í vörn allar götur frá falli Sovétríkjanna fyrir aldarfjórðungi. En yfirvegun ræður ekki ríkjum í Wasington heldur örvænting.

Örvæntingin stafar ekki síst af misheppnaðri utanríkisstefnu Bandaríkjanna frá aldamótum. Eftir hryðjuverkaárásina á tvíburaturnana í New York 11. september 2001 stóðu Bandaríkin fyrir hernaði vítt og breitt, en einkum í miðausturlöndum, sem áttu að styrkja bandarísk áhrif í heiminum.

Íraksstríðið, sem hófst 2003, skyldi vera sniðmát fyrir stórveldahagsmuni Bandaríkjanna. Ætlunin var að móta Írak sem bandalagsríki þar sem lýðræði og velmegun væri auglýsing fyrir yfirburði stórveldisins. En það fór á annan veg, Bandaríkin fóru úr Írak með skottið á milli lappanna árið 2011. Írak er ónýtt ríki.

Eftir útreiðina í Írak var hleypt af stokkunum smærri verkefnum, í Sýrlandi og Líbýu, en þau skiluðu sömu niðurstöðu, borgarastríði og ónýtum ríkjum. Úkraína í Austur-Evrópu var enn annað bandarískt verkefni sem fór út um þúfur 2014.

Valdaelítan í Washington, sem ber ábyrgð klúðrinu, sér möguleika að slá tvær flugur í einu höggi með því að spyrð saman forsetana Trump og Pútín.

Trump lofaði í kosningabaráttunni á síðasta ári að hætta stríðsreksti Bandaríkjanna. Með því að gera Trump að útsendara Pútín er vonda fólkið komið með afsökun fyrir hve hörmulega tekist hefur til alla þessa öld að styrkja Bandaríkin í sessi sem heimsveldi.

 

 

 


mbl.is Trump ofsóttur af „vondu fólki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn: náttúruval eða erfðafræðitilraun?

Elsti forfaðir mannsins er nú sagður 7.2 milljónir ára. Tegundin sjálf, homo sapiens, er samkvæmt yngstu upplýsingum um 300 þúsund ára.

Á ferðalagi forfeðranna fram til homo sapiens er kynblöndun. Haft er fyrir satt að neandertalsmenn og homo sapiens deili erfðavísum sem felur í sér að eldri útgáfur af þessum tegundum hafi blóðblandast. Blóðblöndun enn eldri forfeðra er líkleg.

Samkvæmt náttúrvalskenningunni, þar sem Darwin er aðalhöfundur, er líffræðileg þróun samspil erfðaþátta og umhverfis. Þær lífverur komast af og fjölga sér sem búa yfir bestu aðlögunarhæfni.

Ef einhver hlekkurinn á milli homo sapiens og elsta forföður, þess sem er 7.2 milljónir ára, varð til vegna meðvitaðrar tilrauna einstaklinga af ólíkum tegundum að eignast afkvæmi litur málið nokkuð öðruvísi út. Ekki væru lengur blind náttúruöfl að verki heldur formannlegur ásetningur.

Lykilhugtakið hér er meðvitund. Hvenær drepur maður mann og hvenær ekki? spyr Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni. Hvenær verður til meðvitund?

 


mbl.is Steingervingar breyta sögu okkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalisti með byssu

Stuðningsmaður sósíalistans Bernie Sanders tók hatursorðræðu vinstrimanna bókstaflega. Vopnaður byssu lagði hann hönd á plóginn við að útrýma hægrimönnum.

En líkt og hugmyndafræðin er ómarkviss tókst skjálfhentum sósíalistanum ekki að myrða  pólitíska andstæðinga, þótt nokkrir særðust.

Sósíalistar boðuðu einu sinni vopnaða byltingu. Upp á síðkastið eru þeir orðnir herskárri í orðfæri en löngum áður. Kannski að sá skjálfhenti sé boðberi nýrra tíma.

 

 


mbl.is „Var að reyna að drepa fólk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víkingar, vopn og síðasta ferðalagið

Ísland var numið á tíma vopnaskaks víkingaaldar sem hefð er fyrir að tímasetja 793 til 1066. Öld víkinganna hófst þó fyrr, í sveitasamfélögum norrænna manna sem lærðu vopnaburð til að verjast nágrönnum en nýttu síðar þá kunnáttu, ásamt skipasmíði og siglingafræðum, til að leggja undir sig byggðir og óbyggðir í Evrópu og jafnvel Ameríku.

Bátskumlin í Eyjafirði eru upphaf síðasta ferðalags víkingaaldarmanna. Báturinn flytur þá til nýrra heimkynna og sverðið er til taks ef kemur til ófriðar. Hundi er lógað til að húsbóndinn verði ekki án förunautar.

Víkingar færðu samtíma sinn ekki í letur. Elstu ritheimildir um menningu þeirra eru kristnar. Tilraunir seinni tíma að skilja samtíma víkinganna eru þessu marki brenndar.

Við þykjumst vita að Ísland var óbyggt, eða því sem næst, þegar norrænir menn tóku sér búsetu á níundu og tíundu öld. Ófriðurinn á Íslandi var þar af leiðandi milli víkinganna sjálfra en ekki við sameiginlegan óvin.

Bátskumlin í Eyjafirði geyma ekki plóg heldur sverð. Það gefur til kynna að fyrstu íslensku bændurnir voru tengdari stríðsmenningu víkinga en brauðstritinu.


mbl.is „Þetta er óvanalegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmenn og dómstóll götunnar

Jóhannes Rúnar Jóhannesson og Ástráður Haraldsson fara báðir með lögfræðilegan ágreining sinn við dómsmálaráðherra fyrir dómstól götunnar. Þeir gera eins og almannatenglar, efna til hávaða í fjölmiðlum út af dómarastöðum sem þeir ekki fengu.

Þegar lögmenn velja götudómstólinn fremur en lögformlega leið réttarríkisins vakna óneitanlega grunsemdir um að þeir telji málstaðinn veikan fyrir dómstólum.

Málssókn moldríkra lögmanna fyrir dómstóli götunnar sýnir fegurstu eiginleika samfélagsins. Milljónin sem þeir hvor um sig, Ástráður og Jóhannes Rúnar, vilja í bætur er vasapeningur í þeirra bókhaldi. Aðalatriðið er að félagarnir fái stuðning almennings til að verða dómarar í landsrétti.

En almenningur hlýtur að spyrja: skiptir máli hvaða lögmenn sitja í landsrétti? Eru ekki allir jafnir fyrir lögum?


mbl.is Held að fólki misbjóði vinnubrögðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynilisti haturslögreglunnar - hatur@lrh.is

Haturslögreglan safnar skipulega upplýsingum um einstaklinga með óæskilegar skoðanir. Á heimasíðu lögreglunnar er hægt að senda nafnlaust inn upplýsingar um einstaklinga með rangar skoðanir. Tölvupóstfangið fyrir þessa starfsemi er við hæfi: hatur@lrh.is

Eyrún Eyþjórsdóttir lögreglufulltrúi er sögð, samkvæmt heimasíðu lögreglunnar, safna upplýsingum um hugarfar landsmanna. Í samtali við blaðamann mbl.is neitar Eyrún tilvist lista yfir fólk með óæskilegar skoðanir.

Eyrún fær sem sagt upplýsingar um hugfar landsmanna inn á tölvupóstfangið hatur@lrh.is en neitar því að unnið sé úr þessum upplýsingum. Hver er þá tilgangurinn með söfnun þessara upplýsinga? Listinn sem verður til með nöfnum fólks með óæskilegum skoðanir hlýtur að vera leynilisti, sem ekki má viðurkenna opinberlega.

Lögreglan sýnir skýran og einbeittan vilja til að njósna um skoðanir fólks, safnar upplýsingum í gegnum póstfangið hatur@lrh.is og gefur út ákærur vegna óæskilegra skoðana. Á mannamáli heitir þetta skoðanakúgun.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband