Er til elíta á Íslandi?

Stutta svarið er nei. Með elítu er átt við valdastétt sem í krafti fjármagns og stjórnmála situr yfir hlut alls almennings. Auðugir Íslendingar eru ekki nægilega samstæður hópur til að teljast ein stétt. Stjórnmálavöld eru dreifð, samanber reglulega endurnýjun á alþingi undanfarnar kosningar. Launajöfnður vinnur gegn myndun elítu.

Langa svarið er já, á Íslandi er oft ráðandi elíta. Á hverjum tíma ná laustengd bandalög forræði yfir samfélaginu og skapa sér aðstöðu til að maka krókinn. Þeir sem standa utan ráðandi afla, elítunnar, eru út í kuldanum.

Sökum þess að bandalögin eru laustengd og innan þeirra rúmast ólíkir aðilar s.s. efnamenn, sérfræðingar, stjórnmálamenn, fulltrúar hagsmunasamtaka, fjölmiðlamenn, þá er elítan hverju sinni lítt sjáanleg.

Við sérstakar aðstæður eru birtuskilyrðin í samfélaginu þannig að elítan er vel sýnileg. Í aðdraganda hrunsins, tímabil sem kennt er við útrás, var elítan yfirþyrmandi. Útrásarelítan var skipuð eigendum og stjórnendum banka og smásöluverslunar (Baugur). Pólitískur armur þessarar elítu var Samfylkingin og Baugsmiðlar sáu um að miðla heimsmynd í takt við hagsmuni ráðandi afla.

Útrásarelítan varð gjaldþrota við hrunið. Pólitískt vörumerki hennar, Samfylkingin, er aðeins á lífi að nafninu til og Baugsmiðlar ekki svipur hjá sjón.

Hver er þá elítan í dag? Úti í samfélaginu eru margvíslegir kraftar að störfum. Um tíma leit út fyrir að verkalýðshreyfingin í samvinnu við Samtök atvinnulífsins yrði í gegnum lífeyrissjóðina næsta elíta. Lífeyrðissjóðirnir eiga stóra hluti í stærstu fyrirtækjum landsins. En til að verða elíta þarf bæði tök á stjórnmálum og fjölmiðlum. Lífeyrissjóðaöflin virðast ekki koma sér upp stjórnmálaflokki og fjölmiðlum.

Þegar Píratar sigldu með himinskautum í skoðanakönnunum með 40 prósent fylgi var hætta á að undir merkjum þeirra yrði til laustengt bandalag nýrrar elítu. RÚV meldaði sig sem fjölmiðill Pírata-elítunnar. En Píratar voru of veruleikafirrtir til að verða að elítu. (Sem segir nokkra sögu um greindarstigið á Efstaleiti).

Niðurstaðan er að á Íslandi í dag er engin ráðandi elíta. Enn er unnið úr hruninu og ekkert bandalag náð þeim tökum á samfélaginu að hægt sé að tala um eina elítu.

 

 

 

 


Trump-byltingin: heimurinn tekur hamskiptum

Trump var kjörinn forseti til að skipta út einni hugmyndafræði fyrir aðra. Skarpir rýnendur stjórnmála, t.d. á Spiegel, sjá hamskiptin. Alþjóðahyggja síðustu áratuga rann sitt skeið með sigri Trump. Fjölmenningin, sú hugsun að hópar með gagnólíka lífshætti þrífist í sama samfélagi, er komin á öskuhuga sögunnar.

Trump boðar amerísk gildi um að hollur sé heimafenginn baggi. Eina alþjóðasamstarfið sem fær blessun forsetans er baráttan gegn hryðjuverkum, eins og ísraelskir fjölmiðlar benda á.

Alþjóðasinnar og fjölmenningarfólk eru andstæðingar Trump. Skiljanlega þar sem kjör Trump er bein árás á sannfæringu þessara hópa og lífsviðurværi. Bakland alþjóða- og fjölmenningarsinna er veikt. Stofnanir þeirra, s.s. Evrópusambandið, eru rúnar trausti. Evrópskar útgáfur af Trump eru í meðbyr um alla álfuna.

Í hamskiptum leysast upp gömul bandalög og ný myndast. Það gerist ekki án átaka. 

Öll hugmyndafræði er einfölduð útgáfa af veruleikanum, sem er allt of margbrotinn til að rúmast í einu hugmyndakerfi. Hugmyndafræðin að baki Trump er sneisafull af mótsögnum, líkt og alþjóðahyggjan og fjölmenningin, sem hún leysir af hólmi.

Heimspekingar eins og AC Grayling harma tíma staðleysusanninda þar sem tilfinningar bera staðreyndir ofurliði. En það er einkenni byltingartíma að viðurkenndar staðreyndir tapa sannleiksgildi sínu. Á hinn bóginn vitum við ekki enn hvaða staðreyndir fá gæðastimpil sannleikans eftir hamskiptin. Trump-byltingin er rétt að hefjast.

 


mbl.is Trump orðinn forseti Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur, Trump og þjóðlegt lýðræði

Trump talaði fyrir bandarískum launþegum í kosningabaráttunni allt síðasta ár. Ögmundur Jónasson er vinstrimaður af gamla skólanum; tortryggin í garð gráðugra kapítalista og yfirþjóðlegs valds. Alveg eins og Trump.

Ögmundur og Trump eru fulltrúar sjónarmiða í sókn beggja vegna Atlantshafsins. Þeir bera fram þá kröfu að markaðsöflin leiki ekki lausum hala á kostnað launþega. Að lýðræði þjóða sé meira vert en alþjóðahyggja. Og að opin landamæri séu tálsýn.

Þjóðlegt lýðræði sameinar vinstri og hægri. Eins og sést á Trump og Ögmundi.


mbl.is „Við þurfum öll að vakna!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump drepur alþjóðahyggjuna

Alþjóðahyggju er, með réttu eða röngu, þökkuð að við búum í friðsamari heimi en lengst af í sögunni. Nýr Bandaríkjaforseti fékk embætti sitt út á harða gagnrýni á alþjóðahyggjuna.

Alþjóðahyggja er ráðandi í alþjóðapólitík frá seinna stríði og allsráðandi síðasta aldarfjórðunginn, eftir að kalda stríðinu lauk.

Ef Bandaríkin verða sterk á ný, eins og Trump boðar, verður aukinn styrkur þeirra á kostnað annarra ríkja og ríkjasambanda. Alþjóðahyggjunni var stefnt gegn þeirri hugsun að styrkur eins ríkis væri veikleiki annars. En sú hugsun er áberandi í samskiptum þjóða allt frá fimmtu öld fyrir Krist þegar Aþena og Sparta deildu um forystu í gríska menningarheiminum.

Evrópusambandið, Rússland og Kína eru meðal þeirra ríkja sem veikjast verði sterkari Bandaríkin að veruleika á forsendum einangrunarhyggju. Viðsjálir tímar eru framundan. 


mbl.is Hyggst sameina Bandaríkjamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsfréttamaður játar

Stjórnmál eru ýkjur, hálfsannleikur og lygar. Falsfréttir eru aðeins eðlilegt framhald af hversdagslegri stjórnmálaumræðu, segir maðurinn sem bjó til fréttina um að Hillary Clinton væri staðin að kosningasvindli.

Falsfréttamaðurinn Cameron Harris, 23 ára nýútskrifaður úr háskóla með próf í stjórnmálafræði, settist niður við eldhúsborðið heima hjá og keypti fyrir 5 dollara netlén. Hann skrifaði frétt um að fundist hefðu þúsundir atkvæðaseðla merktir Clinton í vöruhúsi í Ohio. Harris skáldaði upp nafni heimildamanns og fann ljósmyndir af kjörkössum á netinu. Þegar fréttin var tilbúin birtist hún á falsfréttamiðli Harris fimm vikum fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Til að auka útbreiðsluna bjó Harris til nokkrar falsaðar Facebook-síður og endurbirti falsfréttina. Það tók Harris 15 mínútur að semja fréttina. Innan skamms var hann kominn með fimm þúsund dollara í auglýsingatekjur enda voru þeir margir sem trúðu fréttinni og endurbirtu á samfélagsmiðlum. Auglýsingatekjur á netmiðlum ráðast af útbreiðslu.

Embættismenn í Ohio hófu rannsókn á kosningasvindlinu en það gerði ekki annað en að auka á trúverðugleika falsfréttarinnar.

Cameron Harris segist hafa búið til falsfréttir, bæði um kosningasvindlið og aðrar, til að fá tekjur. Hann hyggst stofna pólitíska ráðgjafaþjónustu í kringum sérfræðiþekkinguna sem hann býr yfir.


Verðum ekki ógæfuþjóð - Grænlendingar eru vinir okkar

Grænlendingar eru vinir okkar og hafa alltaf verið. Í rannsókn er sakamál sem er þyngra en tárum taki.

En sakamálið tengist einstaklingum og er ekki til marks um hver við eða Grænlendingar erum sem þjóðir.

Verðum ekki ógæfuþjóð sem yfirfærir sekt eða sakleysi einstaklinga yfir á heilar þjóðir.


mbl.is Grænlendingar mæti óvild hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldskapur í einkalífi og einkalíf i skáldskap

Einkalíf æ fleiri er skáldskapur á samfélagsmiðlum. Fólk birtir myndir af sér og lýsir aldeilis frábærum augnablikum í lífi sínu. Lesendur/áhorfendur trúa að augnablikið sé sannleikurinn um líf viðkomandi. Og fyllast leiða yfir sínu lífi í grámyglunni.

Samhliða þessari þróun eru deilur í fjölmiðlum um að rithöfundar nýti sér einkalíf fólks til að skrifa skáldverk.

Við búum sem sagt á tímum þar sem einkalíf er skáldskapur og skáldskapur einkalíf. Engin furða að áleitnasta viðfangsefni samfélagsrýna og heimspekinga er staðleysuveruleiki. New York Times segir okkur þyrsta í skáldskap klæðskerasaumaðs sannleika þar sem satt og ósatt skiptir ekki máli. Við trúum augnablikinu, engu öðru.  


Sælir eru einfaldir

Gáfur eru mannkostur en alls ekki sá eini. Heiðarleiki, iðni, hófsemi og hugrekki eru mannkostir sem hafa ekkert með gáfur að gera.

Gáfur leiða menn oft í ógöngur. Skólastrákar um alla Evrópu flykktust í herinn sumarið 1914 til að stríða á meðan bændafólk sinnti uppskerunni sátt við lífið og tilveruna. Gamalli konu á Íslandi, óskólagenginni, varð að orði þetta sumar; 'það er ég viss um að þeir hætta ekki þessari vitleysu fyrr en þeir drepa einhvern.' Og þeir dóu nokkrir á Flandri og við Somme og Verdun árin 1914 - 1918. Ekki síst vegna gáfumenna sem fundu upp bráðsnjallt tæki, vélbyssuna.

Ef gáfum hnignar er það kannski til marks um að við þurfum ekki á þeim að halda. Í sögunni var hyggjvitið alltaf í askana látið. Tvísýnna er með bókvitið.


mbl.is Greindarvísitala lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningar ESB og kalt mat

Stærsta verkefni Evrópusambandsins, evran, var byggt á tilfinningu en ekki staðreyndum eða efnahagslegum rökum. Tilfinningin var sú að einn gjaldmiðill myndi þvinga fram pólitískan samruna ESB-þjóða í eitt ríki Stór-Evrópu.

Frá upphafi stóðu Bretar utan evrunnar. Kalt mat Breta var að evran væri áhætta sem ekki borgaði sig að taka. Ákvörðun um evruna var tekin fyrir aldarfjórðungi og henni var hleypt af stokkunum sem gjaldmiðli Evrópusambandsins um aldamótin.

Reynslan sýnir að evran var mistök. Hún virkaði í sjö góðærisár, fram að kreppunni 2008, en varð öllum öðrum en Þjóðverjum dýrkeypt eftir það.

Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, var formlega ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu síðast liðið sumar. En drögin að úrsögninni voru skrifuð þegar um aldamótin, þegar Bretar höfnuðu aðild að evrunni.

Vegna evrunnar og úrsagnar Breta er Evrópusambandið með særðar tilfinningar. Kalt og yfirvegað mat á aðstæðum er þeim ofviða sem er í tilfinningalegu uppnámi.


mbl.is „Þurfum að komast framhjá tilfinningunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vg hyglað, Pírötum refsað - þjóðin er klofin

Vinstri grænum er hyglað fyrir að standa utan ríkisstjórn og þeir bæta hressilega við sig fylgi. Píratar, sem vildu ólmir komast í ríkisstjórn, er refsað og eru á pari við lélega útkomu í kosningum.

Stjórnarflokkarnir fá engin verðlaun fyrir að leysa meirihlutakreppuna á alþingi. Fylgi Sjálfstæðisflokksins gefur eftir. Lítil eftirspurn er eftir Viðreisn og Björt framtíð missir fylgi.

Framsóknarflokkurinn geldur forystukreppu og er fastur í tíu prósent fylgi. Samfylkingin er þar sem hún á heima, í kjallaranum. 

Samkvæmt könnun MMR er þjóðin álíka klofin og í kosningunum í haust þegar metfjöldi framboða fékk kosningu til alþingis.

Stjórnmálaókyrrðin heldur áfram á meðan ekki myndast skýrari og meira afgerandi pólitískir valkostir.


mbl.is VG bætir verulega við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband