Er til elíta á Íslandi?

Stutta svarið er nei. Með elítu er átt við valdastétt sem í krafti fjármagns og stjórnmála situr yfir hlut alls almennings. Auðugir Íslendingar eru ekki nægilega samstæður hópur til að teljast ein stétt. Stjórnmálavöld eru dreifð, samanber reglulega endurnýjun á alþingi undanfarnar kosningar. Launajöfnður vinnur gegn myndun elítu.

Langa svarið er já, á Íslandi er oft ráðandi elíta. Á hverjum tíma ná laustengd bandalög forræði yfir samfélaginu og skapa sér aðstöðu til að maka krókinn. Þeir sem standa utan ráðandi afla, elítunnar, eru út í kuldanum.

Sökum þess að bandalögin eru laustengd og innan þeirra rúmast ólíkir aðilar s.s. efnamenn, sérfræðingar, stjórnmálamenn, fulltrúar hagsmunasamtaka, fjölmiðlamenn, þá er elítan hverju sinni lítt sjáanleg.

Við sérstakar aðstæður eru birtuskilyrðin í samfélaginu þannig að elítan er vel sýnileg. Í aðdraganda hrunsins, tímabil sem kennt er við útrás, var elítan yfirþyrmandi. Útrásarelítan var skipuð eigendum og stjórnendum banka og smásöluverslunar (Baugur). Pólitískur armur þessarar elítu var Samfylkingin og Baugsmiðlar sáu um að miðla heimsmynd í takt við hagsmuni ráðandi afla.

Útrásarelítan varð gjaldþrota við hrunið. Pólitískt vörumerki hennar, Samfylkingin, er aðeins á lífi að nafninu til og Baugsmiðlar ekki svipur hjá sjón.

Hver er þá elítan í dag? Úti í samfélaginu eru margvíslegir kraftar að störfum. Um tíma leit út fyrir að verkalýðshreyfingin í samvinnu við Samtök atvinnulífsins yrði í gegnum lífeyrissjóðina næsta elíta. Lífeyrðissjóðirnir eiga stóra hluti í stærstu fyrirtækjum landsins. En til að verða elíta þarf bæði tök á stjórnmálum og fjölmiðlum. Lífeyrissjóðaöflin virðast ekki koma sér upp stjórnmálaflokki og fjölmiðlum.

Þegar Píratar sigldu með himinskautum í skoðanakönnunum með 40 prósent fylgi var hætta á að undir merkjum þeirra yrði til laustengt bandalag nýrrar elítu. RÚV meldaði sig sem fjölmiðill Pírata-elítunnar. En Píratar voru of veruleikafirrtir til að verða að elítu. (Sem segir nokkra sögu um greindarstigið á Efstaleiti).

Niðurstaðan er að á Íslandi í dag er engin ráðandi elíta. Enn er unnið úr hruninu og ekkert bandalag náð þeim tökum á samfélaginu að hægt sé að tala um eina elítu.

 

 

 

 


Trump-byltingin: heimurinn tekur hamskiptum

Trump var kjörinn forseti til að skipta út einni hugmyndafræði fyrir aðra. Skarpir rýnendur stjórnmála, t.d. á Spiegel, sjá hamskiptin. Alþjóðahyggja síðustu áratuga rann sitt skeið með sigri Trump. Fjölmenningin, sú hugsun að hópar með gagnólíka lífshætti þrífist í sama samfélagi, er komin á öskuhuga sögunnar.

Trump boðar amerísk gildi um að hollur sé heimafenginn baggi. Eina alþjóðasamstarfið sem fær blessun forsetans er baráttan gegn hryðjuverkum, eins og ísraelskir fjölmiðlar benda á.

Alþjóðasinnar og fjölmenningarfólk eru andstæðingar Trump. Skiljanlega þar sem kjör Trump er bein árás á sannfæringu þessara hópa og lífsviðurværi. Bakland alþjóða- og fjölmenningarsinna er veikt. Stofnanir þeirra, s.s. Evrópusambandið, eru rúnar trausti. Evrópskar útgáfur af Trump eru í meðbyr um alla álfuna.

Í hamskiptum leysast upp gömul bandalög og ný myndast. Það gerist ekki án átaka. 

Öll hugmyndafræði er einfölduð útgáfa af veruleikanum, sem er allt of margbrotinn til að rúmast í einu hugmyndakerfi. Hugmyndafræðin að baki Trump er sneisafull af mótsögnum, líkt og alþjóðahyggjan og fjölmenningin, sem hún leysir af hólmi.

Heimspekingar eins og AC Grayling harma tíma staðleysusanninda þar sem tilfinningar bera staðreyndir ofurliði. En það er einkenni byltingartíma að viðurkenndar staðreyndir tapa sannleiksgildi sínu. Á hinn bóginn vitum við ekki enn hvaða staðreyndir fá gæðastimpil sannleikans eftir hamskiptin. Trump-byltingin er rétt að hefjast.

 


mbl.is Trump orðinn forseti Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband