Löglegt óréttlæti

Mannréttindadómstóllinn í Strassborg úrskurðar dóminn yfir Geir H. Haarde lögmætan. Einn stjórnmálamanna var Geir dreginn fyrir landsdóm þegar öllum mátti vera ljóst að ábyrgðin á hruni bankanna var margra.

Geir situr upp með þann dóm að hafa ekki haldið nógu marga ríkisstjórnarfundi í aðdraganda hrunsins.

Dómurinn í Strassborg gerir ekki annað en að staðfesta að í þessu tilviki er löglegur dómur óréttlátur.


mbl.is Telur Geir í raun ekki hafa tapað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitíska kerfið brást tvisvar

Í aðdraganda hruns bankanna brást pólitíska kerfið, með því að láta auðmenn vaða yfir sig á skítugum skónum. Eftir hrun var hávær krafa um að rétta yfir kerfinu sem brást.

Ef helstu ábyrgðaraðilar stjórnarráðsins frá 2007, Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Árni Mathisen hefðu allir farið fyrir dóm mætti með rökum segja að pólitíska kerfið hefði sett sig sjálft á sakabekk.

En það var ekki gert heldur var Geir einn ákærður. Dómurinn, að Geir hefði ekki haldið nógu marga fundi, var í takt við málatilbúnaðinn, hvorttveggja úr smiðju fáránleikans.

Pólitíska kerfið brást tvisvar, bæði fyrir og eftir hrun. Enda höfum við búið við stjórnmálakreppu æ síðan.


mbl.is Dæmt í máli Geirs í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamaður vegur úr launsátri, fær dóm

Ónafngreindir heimildamenn eru ígildi skáldskapar blaðamanna í dómi héraðsdóms, samkvæmt frásögn á visir.is

Blaðamaður Stundarinnar var dæmdur fyrir meiðyrði og sektargreiðslu.

Íslenskir blaðamenn nota gjarnan orðalagið ,,samkvæmt heimildum" án nafngreiningar. Nú er kominn dómur um að nafnlausir heimildamenn teljast skáldskapur sem blaðamaður ber ábyrgð á. Sem líklega er hárrétt í mörgum tilfellum.


Mæður feðraveldisins

Enginn karlmaður verður hluti af feðraveldinu án þess að hafa fyrst átt móður. Ríkjandi viðhorf í samskiptum fólks, innan kynja og á milli þeirra, verða ekki til upp úr þurru. 

Við vitum að ríkjandi viðhorf taka breytingum. Fyrir áttunda áratug síðustu aldar var t.a.m. ráðandi það sjónarmið að konur færu ekki í háskólanám. Núna, hálfri öld síðar, er hlutfall kynjanna í háskólanámi 60/40 konum í vil.

Í umræðunni um bætt samskipti fólks í félagsstörfum, eins og á vettvangi stjórnmálanna, næst meiri árangur ef öðru kyninu er ekki stillt upp sem fórnarlömbum en hinu sem yfirgangsseggjum.


Ósiðir, ofbeldi og flokkspólitík

Í umræðunni um kynferðismál í stjórnmálum er undir sama dagskrárliðnum rætt um ósiðlega og óviðurkvæmilega háttsemi annars vegar og hins vegar ofbeldi. Mannasiði þarf að bæta en ofbeldið verður að uppræta.

Mannasiðir eru bættir með umræðu um hvað er við hæfi og hvað ekki; ofbeldið kallar á lögreglurannsókn og eftir atvikum saksókn.

Af umræðunni að dæma er þorri atvika sprottinn upp innanflokks. Það eru pólitískir samherjar sem eiga í hlut. Það kallar á að stjórnmálaflokkarnir taki málið upp á sínum vettvangi og freisti þess að greina umfang vandans og í framhaldi bregðist við.


mbl.is „Verra en við héldum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondir fjölmiðlar, verri blaðamenn - 2 tillögur

Almennt er lélegt ástand á íslenskum fjölmiðlum. Þeir eru flestir hverjir hlutdrægir og óvandaðir í vinnubrögðum. Blaðamenn líkjast æ meira almannatenglum og hanna atburðarás fremur en að segja fréttir.

Aiden White á Ethical Journalism Network dregur saman 5 kjarnaatriði blaðamennsku. Atriðin fimm eru samþjöppun á um 400 siðareglum blaðamanna á alþjóðavísu.

1. Nákvæmni, byggja fréttir á staðreyndum og fara rétt með.
2. Sjálfstæði, vera ekki málpípa.
3. Óhlutdrægni, segja frá báðum (öllum) hliðum máls.
4. Mannúð, upplýsa en ekki meiða.
5. Ábyrgð, leiðrétta og viðurkenna mistök.

Íslenskir blaðamenn kolfalla reglulega á öllum 5 kjaraatriðunum og gera ekkert til að bæta sig. Fagleg umræða blaðamanna er í skötulíki.

Lélegu fjölmiðlarnir íslensku vilja ríkisframlag til að auka framboðið af vondri blaðamennsku. Það yrði bjarnargreiði við þjóðina að rétta fjölmiðlum fjármuni til að villa og trylla umræðuna.

En tvær tillögur má ræða.

Í fyrsta lagi að kippa RÚV af auglýsingamarkaði. Auglýsingafé leitaði þar með til annarra miðla sem bættu þar með afkomu sína. Að vísu færi drjúgt til Facebook og Google en við búum ekki í fullkomnum heimi.

Í öðru lagi að fjármagna samkeppnissjóð þangað sem fjölmiðlar/blaðamenn gætu sótt um til að vinna að tilteknum afmörkuðum verkefnum. Fagráð færi yfir umsóknir og veitti fé til verðugra. Fagleg vitund ykist við þetta fyrirkomulag og veitir ekki af. 


mbl.is Fjölmiðlaskýrsla væntanleg fyrir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar sem drepa lýðræði: 10% þátttaka í netlýðræði

Lýðræði batnar ekki með netkosningum, það versnar. Reykjavíkurborg tilkynnir metþátttöku í hverfakosningum: heil 10 prósent atkvæðisbærra tóku þátt. Sem þýðir að 90 prósent sögðu pass, við nennum þessu ekki.

Talsmenn netlýðræðis og auknum fjölda kosninga um stórt og smátt gera þau reginmistök að halda að kosningar jafngildi lýðræði. Svo er ekki.

Lýðræði er ferli þar sem kosningar eru oft, en ekki alltaf, hluti af umræðu. Fjöldi kosninga er ekki mælikvarði á aukið lýðræði. Þvert á móti. Aukinn fjöldi kosninga er merki um óreiðu og upplausn. Eins og Þýskaland á fjórða áratugnum og Ísland eftir hrun bera vitni um. 

Á árdögum lýðræðis, meðal Aþenumanna til forna, kom umræðan fyrst en kosningarnar síðar. Lýðræði án umræðu er eins og þorskur á þurru landi, á sér ekki lífs von.     


mbl.is 76 verkefni valin í íbúakosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppstokkun óvinaímynda

Óvinaímyndir eru rótgrónar í stjórnmálum. Fátt er jafn öflugt og óvinaímynd til að halda flokksliðinu saman. Stjórnmálaöfl eru alltaf meðvitaðri um andstæðinginn en um eigin stefnu. Stjórnmálastefna er greining og framtíðarsýn, allt byggt á orðum, en andstæðingurinn er hér og nú, mældur í styrk og áhrifum upp á prósentubrot.

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar kallar á uppstokkun á óvinaímynd, einkum þeirra tveggja fyrst nefndu.

Óvinaímynd er svo sterkt afl að hún lifir af gjörbreyttar aðstæður. Gagnkvæm óvinaímynd sjálfstæðismanna og vinstri grænna (þar áður sósíalista/alþýðubandalagsmanna) varð til í kalda stríðinu sem lauk fyrir aldarfjórðungi. Herinn fór úr landi 2006 en skildi eftir sig fullmannaðar skotgrafir svarinna andstæðinga í íslenskum stjórnmálum.

Einhverjum mun reynast ofviða að skipta út óvinaímynd fyrir raunsæi. Við lifum í sagnaheimi og hvert okkar á sín uppáhalds tröll sem við gefum ekki eftir fyrr en í fulla hnefana.

 


mbl.is Breið stjórn og uppbygging – kunnuglegt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV veitir Loga friðhelgi

Log Einarsson formaður Samfylkingar nýtur friðhelgi á RÚV. Á Efstaleiti er ekki fjallað um mannréttindabrot Loga á Snorra Óskarssyni, sem hafði í frammi skoðanir sem ekki voru Loga að skapi.

Fundargerð skólanefndar Akureyrar afhjúpar þátt Loga í aðförinni að Snorra:

2.Hatursáróður

2012020038

Að ósk Loga Más Einarssonar S-lista voru tekin til umræðu ummæli á opinberum vettvangi um samkynhneigð og viðbrögð við þeim ummælum.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir lögmaður Akureyrarbæjar mætti á fundinn undir þessum lið.

Logi Már Einarsson lagði fram bókun sem var færð í trúnaðarbók.

RÚV grennslast ekki fyrir um bókun Loga og leyndarhyggjuna þar að baki. Ekki heldur er Logi tekinn í viðtal fyrir atlögu að tjáningarfrelsinu annars vegar og hins vegar að hafa kostað Akureyrarbæ milljónir ofan á milljónir í skaðabætur og málskostnað.

En RÚV hefur nægan tíma til að útvarpa og sjónvarpa áróðri samfylkingarfólks gegn yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum.


Vestræna frjálslyndiskreppan hremmir Þjóðverja

Vestrænt frjálslyndi er í ógöngum. Brexit, þ.e. úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, sigur Trump í Bandaríkjunum og hrun flokkakerfisins í Frakklandi eru allt einkenni þessarar kreppu. Þýsk stjórnmál eru yngsta fórnarlambið.

Frjálslynda kreppan birtist í andófi gegn alþjóðvæðingu, andstöðu við innflytjendastraum, og vantrausti pólitíska forystu síðustu áratuga. Kreppan er ekki aðeins pólitísk, hún er ekki síður menningarleg. Vestrænar þjóðir eru í leit að nýrri sjálfsmynd.

Þjóðverjar eru í stjórnarkreppu í fyrsta sinn eftir seinna stríð. Der Spiegel vísar í Weimar-lýðveldið í sögulegri tilvísun. Weimar-lýðveldið var millibilsástand eftir fyrra stríð, áður en Hitler fékk völdin.

Vestræna frjálslyndið óx upp með velferðarríkinu eftir seinni heimsstyrjöld og í skjóli kalda stríðsins. Aldarfjórðungur er síðan kalda stríðinu lauk með þíðu. Jákvæð túlkun á kreppu vestræns frjálslyndis er að hún sé vorleysing er gangi yfir á tveim til þrem áratugum. Rétt er að halda í bjartsýnina enn um stund.

 


mbl.is Evran lækkar í kjölfar viðræðuslita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband