Vg: Varaformaður óskar friðar, Sóley boðar ófrið

Varaformaður Vinstri grænna vonast eftir friði fyrir nýja ríkisstjórn undir forystu flokksins. Sóley Tómasdóttir fyrirverandi borgarfulltrúi Vinstri grænna efnir á hinn bóginn til ófriðar með því að tortryggja smæstu atriði og biðja um liðstyrk fjölmiðla að gera úlfalda úr mýflugu.

Vísir segir frá tísti Sóleyjar þar sem hún furðar sig á því að Katrín Jakobsdóttir hafi ekki skrifað undir áskoranir kvenna um mótmæli við kynferðisáreiti í stjórnmálum. Tístið er gagngert til að efna til ófriðar. 

Í frétt Vísis kemur fram að málið er á misskilningi byggt. 

En það er enginn misskilningur að Sóley velur átök þegar friður er í boði. Sumir þrífast einfaldlega best í ófriði.


mbl.is Hafa siglt fyrir flestar víkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullveldisstjórnin

Í lok vikunnar verður fullveldið 99 ára. Þann 1. desember 1918 fékkst fullveldið sem Jón Sigurðsson lagði drög að með greininni Hugvekja til Íslendinga. Hugvekjan var skrifuð 70 árum áður, þegar Friðrik sjöundi konungur Dana lét af einveldi.

Danska embættismannakerfið hugsaði sér að fjarstýra Íslandi frá Kaupmannahöfn, líkt og það hafði gert mörg hundruð ár, þrátt fyrir endalok einveldis. Rök Jóns Sigurðssonar voru annars vegar söguleg, við vorum í konungssambandi við Danakonung en ekki hluti Danmerkur, og hins vegar hagnýt, engar framfarir yrðu á Íslandi á meðan landinu  væri stjórnað frá Kaupmannahöfn.

Eftir hrun var alið á efasemdum um að Íslendingar kynnu fótum sínum forráð. Viðkvæðið var að landinu yrði betur stjórnað frá Brussel en Reykjavík. Umsókn Samfylkingar um ESB aðild frá 16. júlí 2009 var vantraust á fullveldið.

Ný ríkisstjórn fullveldisdaginn 1. desember 2017 er til marks um að óreiða eftirhrunsins sé tekin að sjatna. Fullveldið skiptir sköpum, Ísland virkar.


mbl.is Ríkisstjórn kynnt í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stúlkur þrælar, drengir fíklar

Fjórða iðnbyltingin ætlar að skila okkur stúlkum sem eru þrælar samskiptamiðla og drengjum háðum tölvuleikjum eins og fíklar.

Kynslóð þrældóms og fíknar er ekki öfundsverð.

Fullorðna fólkið verður að grípa í taumana.


mbl.is Geta orðið öryrkjar af netnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær öfgar íslenskra stjórnmála - báðar frjálslyndar

Öfgar íslenskra stjórnmála eru ekki vinstri og hægri, heldur öfgafrjálslyndið sem er andstæða meðalhófsins og gengur ýmist til hægri eða vinstri. Fyrir hrun var öfgafrjálslyndi til hægri ráðandi en eftir hrun vinstra öfgafrjálslyndi.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007-2009, hrunstjórnin, markaði ris öfgafrjálslyndis til hægri. Hrunstjórnin var öfgafrjálslynd í efnahagsmálum og í menningunni. Samfélagið skyldi markaðsvætt frá a til ö. Sjálfstæðisflokkurinn var orðinn hikandi í útrásarstefnunni en Samfylking vildi gefa í. Frá varaformanni Samfylkingar kom tillaga um að gera Ísland tvítyngt til að íhaldsfyrirbæri eins og tungumálið truflaði ekki frjálslynda framrás undir merkjum útrásar.

Eftir hrun tók við vinstra öfgafrjálslyndi. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir, Vinstri grænir og Samfylkin, sótti um aðild Íslands að Evrópusambandinu. ESB er háborg frjálslyndra stjórnmála í Evrópu. Óopinbert slagorð Jóhönnustjórnarinnar, Ísland er ónýtt, sýndi hve langt var seilst til að réttlæta öfgarnar.

Bankahrunið 2008 markaði endalok hægri öfgafrjálslyndis. Stórfelldur ósigur Vinstri grænna og Samfylkingar í kosningunum 2013 kippti fótunum undan vinstri öfgafrjálslyndi.

Sjálfstæðisflokkurinn er að upplagi borgaralegur íhaldsflokkur fremur en öfgafrjálslyndur. Það sá varla högg á vatni þótt fáeinir frjálslyndir sjálfstæðismenn stofnuðu Viðreisn. Samfylkingin, sem átti að verða hinn turninn í íslenskum stjórnmálum, er á hinn bóginn öfgafrjálslynt rekald, smáflokkur með ónýta aðalstefnu, að Ísland verði ESB-ríki.

Vinstri grænir standa á grunni þjóðlegrar íhaldsstefnu, ættaðri úr Alþýðubandalaginu. Þess vegna eru Vinstri grænir í færum að verða forystuafl ríkisstjórnar meðalhófsins sem miðlar málum milli öfga íslenskra stjórnmála síðustu ára er báðar má kenna við frjálslyndi, ýmist til hægri eða vinstri.

 


Brexit breytir Evrópu, drepur EES-samninginn

Útganga Breta út Evrópusambandinu, Brexit, gerir það sem eftir er af sambandinu að félagsskap meginlandsríkja. ESB er þegar komið í uppstokkunarferli, þarf að treysta stoðir evrunnar og gera upp hvort ESB-ríkin utan gjaldmiðlasamstarfsins verði aukaaðilar af kjarnasamstarfinu.

EES-samningur Íslands og Noregs við ESB er dauður með útgöngu Bretlands. Hvorki verður samningurinn til grundvallar okkar samskiptum við Bretland né til frambúðar við ESB-ríkin.

Fyrirkomulag samskipta Breta við ESB verður líkleg fyrirmynd okkar Norðmanna. En það tekur einhver ár að það fyrirkomulag mótist. Á meðan eflum við tengslin við Bretland með tvíhliðasamningum.


mbl.is Náin tengsl við Breta í forgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð verður hán

Sænska kirkjan vill ekki lengur tilbiðja guð í karlkyni og nota fornafnið ,,hen" um himnaföðurinn eða ,,hán" á íslensku. Norræn kristileg umræða um þetta framtak Svía er ekki jákvæð.

Svíar niðurlægja sjálfa sig, segir í Documenta, með ótta um að þríeinn guð - faðir, sonur og heilagur andi - sé liðin tíð. Tillagan er tengd við biskupinn í Lundi Antje Jackelén en hún vill höfða til múslíma með slagorðinu ,,Guð er stærri" sem er útfærsla á ,,Allahu akbar." Trúarblöndun af þessu tagi, synkretismi, er öll á forsendum múslíma, segir Documenta.

Þjóðverjar eiga ekki orð eins og ,,hán" (hen á sænsku) og telja Svía vilja breyta guði í ,,það". Þýskir taka fram að þeir sænsku ætla ekki að breyta faðirvorinu og þykir það huggun harmi gegn.

Guðsmynd endurspeglar sjálfsvitund samfélaga. Guð sem ,,hán" er annað tveggja; leiðin til endurreisnar trúarinnar eða áfangi til ,,Allahu akbar" - upp á arabísku.


Stjórnarskráin í lagi, segir Mannréttindadómstóllinn

Stjórnarskrá Íslands var ekki gagnrýnd af Mannréttindadómstól Evrópu í dómsmáli Geirs H. Haarde gegn íslenska ríkinu. Dómurinn kallar ekki á stjórnarskrárbreytingar, eins og Björn Bjarnason rekur skilmerkilega.

Landsdómsmálið í heild sinni er dæmi um misbeitingu þingvalds til að klekkja á einum einstaklingi, Geir H. Haarde.

Og sú stjórnarskrá hefur enn ekki verið skrifuð í heiminum sem kemur í veg fyrir misbeitingu valds.


mbl.is Ríkið sýknað í landsdómsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið var frjálslynt: Þorgerður K. og Ingibjörg Sólrún

Bankahrunið stafaði ekki af stjórnlyndi heldur frjálslyndi. Í nafni frjálslyndis óx veldi auðmanna á kostnað almannavaldsins.

Þegar ,,litla kreppan" reið yfir árið 2006 var almannavaldið svo lemstrað og illa farið að engin tök voru að hemja frjálslynda auðræðið. Þvert á móti var mynduð ári síðar Baugsstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem var eins og leir í höndum auðmanna.

Vinkonurnar frjálslyndu, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingar bjuggu til ríkisstjórn Geirs H. Haarde.

Varaáætlun vinkvennanna var sú sama, að Ísland yrði ESB-ríki eftir að frjálslyndið skildi eftir sig sviðna jörð þar sem áður stóð lýðveldi.


Logi hótar forseta Snorratökum

Einlægasti aðdáandi tjáningarfrelsisins norðan Alpafjalla, Logi Einarsson formaður Samfylkingar, tekur upp á því í eintali á Facebook að skipa forseta lýðveldisins til verka.

Logi telur forseta ekki nógu hallan undir samfylkingarpólitík.

Ef Logi mætti ráða yrði forsetinn samstundis rekinn, líkt og grunnskólakennarinn sem ekki var á sama máli og formaður Samfylkingar.


mbl.is „Hvenær missir forsetinn þolinmæðina?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarstríð kynjanna er óþarfi

Að því marki sem umræðan um kynferðismál í stjórnmálum er ekki um ofbeldi og einelti snýst hún um kynjamenningu.

Karlamenning og kvenmenning eru ólíkir heimar. Ekki gagnólíkir en samt: í karlahópum viðgengst karllæg orðræða sem er ólík þeirri sem tíðkast meðal kvenna.

Ekki aðeins er orðræðan ólík, myndmálið er það sömuleiðis. Myndin sem Ragnar Önundarson gerir að umtalsefni er með eina merkingu í karlaheimi en aðra í kvenheimi.

Flestir vinnustaðir eru kynblandaðir, líkt og stjórnmálin. Og á öllum þorra vinnustaða ríkir málamiðlun á milli ólíkra menningarheima kynjanna. Málamiðlunin lýtur óskráðum reglum sem við temjum okkur og kallast mannasiðir.


mbl.is „Dómgreindin er til umhugsunar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband