Hitler, helförin og afneitunin

Ný bíómynd, Denial, fjallar um fræg réttarhöld um aldamótin þar sem breski sagnfræðingurinn David Irving tapaði máli gegn Deborah Lipstadt. Hún hafði ásakað Irving um að vera helfarar-afneitara.

Helfarar-afneitari er viðsjált hugtak. Þröng merking þess felur í sér að afneita verksmiðjumorðum á mörgum milljónum, að skipun Hitlers, í Auschwitz. Víðari merking hugtaksins er að helfarar-afneitari hafnar þeirri sögulegu staðreynd að Þjóðverjar skipulögðu fjöldamorð á gyðingum í seinni heimsstyrjöld.

David Irving er helfarar-afneitari í fyrri merkingunni en um hann er talað eins og hann afneiti með öllu skipulögðum morðum nasista á gyðingum.

Irving tapaði Lipstadt-málinu, eigum sínum og orðstír sem sagnfræðingur. En samkvæmt Guardian fær Irving uppreisn æru í netheimum. Hann býr vel í Skotlandi og keyrir á Rolls Royce.

Irving selur bækur í bílförmum og er eftirsóttur fyrirlesari. Hann auglýsir fundarlaun upp á þúsund pund fyrir þann sem getur reitt fram sönnun um að Hitler hafi fyrirskipað fjöldamorð á gyðingum. Enginn hefur gefið sig fram. Eins og nærri má geta er Irving ekki sáttur við hvernig hann er kynntur til sögunnar í Denial.

Irving hafnar verksmiðjumorðum í Auschwitz. En hann hafnar ekki skipulögðum fjöldamorðum nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöld. Í einum af fjölmörgum fyrirlestrum á Youtube talar hann ítarlega um skipulögð fjöldamorð á gyðingum. Hann býður skoðanaferðir á vettvang fjöldamorðanna í Póllandi, þ.e. Treblinka, Sobibor, Belzec og Majdanek. Á þessum slóðum voru tvær til þrjár milljónir gyðinga drepnar með köldu blóði. Lík þeirra eru í fjöldagröfum.

Irving er sérstaklega hataður fyrir að bera blak af Hitler. Irving segir engar sannanir fyrir aðild Hitlers að fjöldamorðum. Irving telur að Heinrich Himmler sé meginhöfundurinn að fjöldamorðunum.

Án höfuðpaurs eins og Hitler verður helförin ekki lengur djöfullegt samsæri myrkrahöfðingjans, einstætt í sögunni. En maður verður ekki afneitari sögulegra staðreynda þótt maður telji Hitler eins og hvern annan þýskan stjórnmálamann. Sagnfræðingurinn AJP Taylor sagði fyrir meira en hálfri öld að Hitler, og hegðun hans, væri ekki geðveiki eða illskan uppmáluð, heldur afhafnir þýsks stjórnmálamanns í hefðbundinni pólitík og stríðsrekstri.

Sagnfræði er alltaf smituð af pólitík. Við verðum að búa við þá staðreynd.


Trump-Pútín fundur í Reykjavík og ímyndaður veruleiki

Bæði Pútín og þó sérstaklega Trump þurfa söguleg augnablik til að sýnast ráðamenn í æðra veldi. En ekki lélegur arfberi stóru Sovétríkjanna annars vegar og hins vegar götustrákur frá New York sem varð forseti út á lygar í samfélagsmiðlum.

Með stórveldafundi í Reykjavík fetuðu félagarnir í fótspor Ronald Reagan og Gorbatsjov, síðustu leiðtoga í tvískiptum heimi, sem funduðu hér 1986.

Fantasíur löghelga völd. Toppfundur í Reykjavík gagnaðist þeim báðum, Pútín og Trump, og gæti orðið að veruleika.


mbl.is „Fréttin er fantasía“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarráðið er ekki lénsveldi

Grunnt er á þeirri hugsun að ráðherrar séu lénsherrar í umboði kjördæma sinna. Svo er ekki. Stjórnarráðið starfar í þágu þjóðarinnar en ekki einstakra kjördæma.

Metnaður þingmanna til ráðherradóms á að standa til þess að þjóna almannahag en ekki sérgreindum hagsmunum.

Páll Magnússon er tvisvar búinn að afneita formanni sínum vegna ráðherraskipunar. Metnaðurinn er orðinn að frekju. Ef Páll getur ekki hamið sig í þriðja sinn er hann kominn fram af brúninni.


mbl.is Páll segir Bjarna hafa gert mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sovétríkin, Rússland og mistök Nató-ríkja

Sovétríkin voru frá stofnun 1922 til endaloka 1991 útþensluríki. Með kommúnisma sem hugmyndafræði stunduðu Sovétríkin áróður fyrir breyttu þjóðskipulagi í öllum ríkjum heims.

Kommúnistaflokkar í Evrópu og öðrum heimsálfum voru sjálfkrafa bandamenn Sovétríkjanna. Vestrænar þjóðir höfðu ríka ástæðu að óttast vofu kommúnismans. Á millistríðsárunum risu upp sterkir kommúnistaflokkar í Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Eftir seinna stríð stjórnuðu kommúnistar öllum ríkjum Austur-Evrópu með Sovétríkin sem bakhjarl. Varsjárbandalagið stóð grátt fyrir járnum andspænis Nató, hernarðarbandalagi vestrænna ríkja.

En Sovétríkin liðuðust í sundur 1991 og Varsjárbandalagið fór sömu leið. Með endalokum Sovétríkjanna hvarf kommúnisminn sem hugmyndafræði í alþjóðasamskiptum. Vestrænum ríkjum stendur engin ógn af ágengum valkosti við viðurkennt þjóðskipulag.

Rússland, öflugasta ríki Sovétríkjanna, varð óreiðu að bráð eftir fall kommúnismans. Rússar náðu tökum á sinum málum um og upp úr aldamótunum. Á meðan Rússland var veikt nýttu fyrrum bandamenn þeirra sér tækifærið og skiptu um lið, fóru úr Varsjárbandalaginu yfir í hernaðarbandandalag vestrænna ríkja, Nató.

Rússar kvörtuðu undan ágengni vestrænna ríkja sem í gegnum Evrópusambandið og Nató þrengdu að öryggishagsmunum Rússlands. Nató herstöðvar eru á öllum vesturlandamærum Rússlands.

Rússar máttu þola innrásir frá vestrænum ríkjum tvær síðustu aldir, frá Frökkum á 19. öld og Þjóðverjum á þeirri tuttugustu. Þeim er ekki um það gefið að vera umkringdir vestrænum herjum. Þegar Nató, Bandaríkin og Evrópusambandið gerðu valdatilkall til Úkraínu fyrir tveim árum brugðust Rússar við og komu í veg fyrir að Úkraína, sem var hluti Sovétríkjann, yrði enn eitt Nató-landið.

Í framhaldi settu Nató-ríkin viðskiptabann á Rússland.

Samantekið og rökrétt niðurstaða: Vestrænum ríkjum stendur ekki ógn af Rússlandi. Samskipti við Rússa ættu að byggja gagnkvæmri virðingu fyrir öryggishagsmunum.

 

 

 


mbl.is Refsiaðgerðum mögulega aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt RÚV-samsærið: falsfréttir frá Efstaleiti

RÚV bjó til samsæriskenningu um að skýrslu um aflandsreikninga hefði verið stungið undir stól í fjármálaráðuneytinu. RÚV vélaði með Stundinni að láta svo líta út sem ,,hvíttað" hefði verið dagsetningu skýrslunnar, þ.e. hún fölsuð. Í frétt 8. janúar segir RÚV:

Fréttastofa hefur fengið staðfest í dag að dagsetninguna hafi verið að finna á upprunalegri skýrslu starfshópsins.

Aðgerðafréttamönnum á Efstaleiti var í mun að búa til pólitíska ólgu vegna stjórnarmyndunarviðræðna. Fréttastofan fjallaði sáralítið um efnisinnihald skýrslunnar, aðalatriðið var að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og formann hans.

RÚV er orðin helsta miðstöð falsfrétta á Íslandi.

 

 


mbl.is Enginn texti „hvíttaður“ í skýrslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar og leyniþjónustur

Leyniþjónustur lifa og hrærast í heimi lyga og blekkinga, eðli málsins samkvæmt. Leyniþjónustur stunda ekki sannleiksleit í venjulegum skilningi orðsins. Þeim er beitt til að fá ,,óvininn", hver sem hann er, til að trúa ósannindum og flokka sannindi sem lygar.

Njósnir eru sagðar næst elsta atvinnugreinin í henni veröld, á eftir vændi.

Meintar upplýsingar um Trump koma frá fyrrum starfsmanni bresku leyniþjónustunnar sem rekur ráðgjafafyrirtæki. Andstæðingar Trump í Republíkanaflokknum keyptu þjónustu fyrirtækisins þegar forval flokksins stóð yfir. Demókratar komu í kjölfarið, eftir að Trump var útnefndur, og keyptu sömu þjónustu - sem er að útbúa upplýsingar um hve Trump er óvandaður maður. Eins og það þyrfti njósnir til að afhjúpa það. Hlutlægur sannleikur í skýrslu af þessari gerð er álíka og ástin sem kúnni fær hjá vændisþjónustu.

Í frétt Telegraph um Trump-skýrsluna kemur fram að markmiðið er að sannfæra háa sem lága að Trump sé óhæfur til að vera forseti. En, óvart, þá verður Trump forseti eftir viku.


mbl.is Boðar skýrslu um tölvuárásir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að dópa sig til heilsu

Fréttir og rannsóknir um að heilsubætandi sé að drekka áfengi eða dópa sig til heilsu eru allar því marki brenndar að velja afmarkaða virkni á valda hópa.

Rauðvínsglas annað veifið er gott fyrir heilsuna, líka að drekka stöku bjór með vinum og kannski að staupa sig fyrir matinn. Að fá sér jónu endrum og sinnum er alltaf ólöglegt en trúlega skaðlaust fyrir heilsuna.

En hvorttveggja áfengi og kannabisefni eru vímuefni sem skaða samfélagið mun meira en þau bæta líðan fárra. Þess vegna eigum við hvorki að leyfa áfengi í matvöruverslanir né lögleiða kannabisefni.


mbl.is Virknin ekki sú sem er lofuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsfréttir, Elvis og umræðan

Lýðræði á vestræna vísu byggir á trausti á stofnunum samfélagsins, bæði opinberum stofnunum og fjölmiðlum í einkaeigu. Þrátt fyrir að fjölmiðlar væru pólitískir, til hægri eða vinstri, voru þeir almennt taldir trúverðugir fyrir sinn hatt.

Fjölmiðlar sem fluttu fréttir um að Elvis væri á lífi löngu eftir að hann dó og að sést hefði til marsbúa þjónuðu jaðarhópum sem sóttu í skemmtun lausbeislaðs ímyndunarafls.

Hefðbundnu fjölmiðlarnir héldu að fólki heimsmynd með blæbrigðum en ekki öfgum. Í kalda stríðinu voru Bandaríkin skárri en Sovétríkin almennt séð. Spurningin var hversu mikið eða lítið skárri.

Kalda stíðinu lauk á síðasta áratug liðinnar aldar. Um sama leyti kom alnetið til sögunnar og í framhaldi samfélagsmiðlar á fyrsta áratug nýrrar aldar.

Við lok kalda stríðsins boðaði Francis Fukuyama endalok sögunnar með því að vestrænt lýðræði hefði sigrað heiminn. Aldarfjórðungi síðar veltir Fukuyama fyrir sér afleiðingum falsfrétta, bæði fyrir vestræna stjórnmálamenningu og alþjóðlega.

Falsfréttir eru í grunninn að Elvis lifi og að marsbúar gætu á hverri stundu birst okkur. Umræðan, sem að mestu fer fram á samfélagsmiðlum, er í síauknum mæli tilbúin að trúa á lifandi Elvis og marsbúa. Lýðræðið skilar okkur valdhöfum sem endurspegla trúgirnina.


mbl.is „Pólitískar nornaveiðar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Björn Valur þjófur?

Björn Valur Gíslason varaformaður Vinstri grænna var einu sinni í atvinnurekstri sem fór illa. Stal hann undan skatti? Stal Björn Valur frá viðskiptafélögum sínum?

Hefur hann verið spurður?
Ef ekki – er þá ekki rétt að spyrja hann?

Orðin hér að ofan, þau inndregnu, eru höfð eftir Birni Val í færslu þar sem varaformaðurinn hvetur til áhlaups á forsætisráðherra.

Björn Valur hvetur til að fjölmiðlar þjófkenni forsætisráðherra með spurningum. 

Er æskilegt að gera stjórnmálin að leðjuslag brigsla og subbuskapar?

Yfir til þín, Björn Valur.


Söguskipti í stjórnmálum: reiðin og vinstripólitík

Stórir atburðir skilgreina samtímann, samanber hrunið 2008. Smærri atburðir, fremur en stórir, eiga það til að verða taldir til söguskipta - þegar ein söguleg þróun tekur við annarri.

Í samtímanum var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir aðeins neðanmálsgrein við hrunið. Í lýðveldissögunni var þetta fyrsta hreina vinstristjórnin. Flokkarnir sem stóðu að Jóhönnustjórninni, Samfylking og Vinstri grænir, töldu sig marka þáttaskil. Vorið 2009 skyldi upphaf langs valdatíma vinstrimanna.

Leiðtogar vísuðu í gagnólíka framtíðarsýn Jóhönnustjórnarinnar. Steingrímur J. talaði um norræna velferðarstjórn en Jóhanna og Össur voru fangar hugmyndarinnar um ESB-Ísland. Kratar og kommar höfðu þar söguleg sætaskipti. Kommar, forverar Vg, boðuðu miðja síðustu öld Sovét-Ísland en kratar norræna velferð.

Valdatími vinstrimanna 2009 - 2013 var samfelld þrautarganga einmitt af þessari ástæðu. Kratar og kommar búa að gerólíkri pólitískri sýn á framtíð lands og þjóðar.

Söguskiptin í íslenskum stjórnmálum urðu 2013 urðu þegar Samfylking og Vinstri grænir töpuðu meira en helmingnum af fylgi sínu. Valdatómarúmið á vinstri væng stjórnmálanna fylltu Píratar upp í með reiðibylgjupopúlisma sem náði hámarki á liðnu vori með afsögn forsætisráðherra. Eftir það fjaraði undan Pírötum.

Saga vinstrimanna hér á landi er af sameiningu í orði en sundrungu á borði. Jóhönnustjórnin leiddi fram á stóra sviðið þessa sögulegu staðreynd. Vinstripólitík á Íslandi er mótsögn sem breytist í reiði þegar reynt er að hrinda henni í framkvæmd.


mbl.is „Hefur setið djúpt í hnakkinum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband