Trump vill vinna með Rússum, þingið refsa þeim

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill eiga vinsamleg samskipti við Rússa. Bandaríkjaþing vill refsa Rússum vegna meintra afskipta þeirra af bandarísku forsetakosningunum.

Talsmaður Trump segir engar sannanir fyrir afskiptum Rússa af kosningunum.

En fjölmiðlar halda áfram að framleiða fréttir sem byggðar eru á orðrómi og ágiskunum. Og það er nóg fyrir þingið til að móta utanríkisstefnu þvert á yfirlýsta stefnu forsetaembættisins.

 


mbl.is Herða refsiaðgerðir gegn Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrun siðmenninga

Norræn byggð á Grænlandi eyddist á 15. öld og lauk þar 500 ára sögu. Haraldur Sigurðsson greinir frá byggð inúíta á Norðaustur Grænlandi sem lagðist á af 19. öld.

Grænlensku samfélögin voru einangruð og er það án efa hluti skýringarinnar að þau liðu undir lok. En sagan geymir dæmi um þróuð samfélög tengd með verslun og öðrum samskiptum en eyddust engu að síður.

Í kringum árið 1200 fyrir Krist hrundi siðmenning átta ríkja á austanverðu Miðjarðarhafinu. Tímabilið 1700 til 1200 er kallað síðbronsöld. Lengi voru goðsögur Hómers helsta heimildin um tímabilið og lítið vitað um ástæður hrunsins.

Á seinni árum er orðin til frásögn, studd fornleifafundum, um ástæður hrunsins. Eric Cline gerir grein fyrir þessum ástæðum í fyrirlestri.

Í stuttu mál er líklegt að hrun siðmenninga sé afleiðing nokkurra þátta: loftslagsbreytingar, uppskerubrestur, þurrkur og hungur, jarðskjálftar, flóttamannastraumur, stríðsátök og uppreisnir.

Ólíkt hruni Rómarveldis á fimmtu öld eftir Krist, sem skildi eftir sig kaþólsku kirkjuna er varð stórveldi á miðöldum, eyddust samfélög á austanverðu Miðjarðarhafi og risu ekki upp aftur. Egyptaland, sem var hluti þessarar siðmenningar, hélt reyndar velli en var ekki svipur hjá sjón.

Siðmenning er sem sagt hvergi nærri sjálfsagt mál.


Fingurkoss til You-tube-blaðamanna

Blaðamönnum er ekki umhugað um staðreyndir eða að leita sannleikans heldur að komast sjálfir í fréttirnar og verða smellbeitur á You tube, segir Sean Spicer fráfarandi talsmaður Hvíta hússins.

Samfélagsmiðlar ýta undir sjálfsdýrkun blaðamanna. Fréttin verður ekki aðalatriðið heldur þáttur blaðamannsins í fréttinni. Þessi þróun er löngu hafin hér á landi. Fréttamenn sjónvarpsstöðva eru í mynd stóran hluta fréttanna. Myndmálið sendir skýr skilaboð: fréttamaðurinn er mikilvægari en fréttin.

Þegar fréttamenn eru orðnir stór hluti fréttanna er hætt við að eitthvað annað verði útundan. Til dæmis hlutlægni og dómgreind.


mbl.is Sendi blaðamönnum fingurkoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benedikt fellur á dollaraprófinu

Krónan þjónar íslenskum hagsmunum best allra gjaldmiðla. En ef það væri svo að hagfræðileg rök stæðu til þess að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil þá er bandarískur dollari nærtækastur.

Dollarinn er eina heimsmyntin og utanríkisviðskipti okkar eru meira í dollurum en öðrum gjaldmiðlum, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vekur athygli á í dag.

Tilefnið er grein Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra í vikunni sem boðaði upptöku evru. Benedikt má vita að ef raunverulegur vilji er til að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil þá væri dollarinn nærtækasti kosturinn, bæði efnahagslega og pólitískt.

En Benedikt er ekki með augastað á evru heldur aðild að Evrópusambandinu. Hann fellur á dollaraprófinu, sem mælir raunverulegan vilja til að skipta um gjaldmiðil.


Krónan drap Samfylkingu, og nú Viðreisn

Ef krónan væri einstaklingur væri hún jafnaðarmaður í sígildum skilningi orðsins. Þegar illa árar lækkar hún og dreifir þar með byrðum hallærisins á alla landsmenn. Þegar vel árar styrkist krónan og færir öllum landsmönnum aukinn kaupmátt.

Samfylkingin gefur sig út fyrir að vera jafnnaðarmannaflokkur. En flokkurinn andskotaðist í krónunni eins og hún væri helsti óvinur lands og þjóðar. Samfylkingin tapaði þeim slag, rétt lafir inn á þingi með þrjá landsbyggðarþingmenn.

Viðreisn undir forystu Benedikts Jóhannessonar gerir nú aðra atlögu að krónunni. Rök Samfylkingar fyrir afnámi krónunnar voru að hún væri of lág, Benedikt segir að gengið sé of hátt. Í ríkisstjórnartíð Samfylkingar var kreppa, í dag er góðæri. Vitanlega aðlagar krónan sig að ólíkum aðstæðum. Til þess er hún.

Hvorki Samfylking né Viðreisn skilja einfaldasta grunnatriði gjaldmiðla. Þeir eru verkfæri. Valið stendur á milli þess að Íslendingar hafi verkfæri til að takast á við góðæri og hallæri eða að við hendum frá okkur verkfærinu.

Evra, bandarískur dollar, norsk króna eða kandadískur dollar munu aldrei aðlaga sig að íslenskum efnahagsveruleika. En krónan gerir það alltaf.

Árinni kennir illur ræðari, segir fornt orðtak. Samfylkin og Viðreisn kenna krónunni um það sem miður fer í efnahagsmálum. En krónan hvorki býr til né eyðir auðlegð, ekki frekar en aðrir gjaldmiðlar. Krónan er aftur besta verkfærið sem við höfum til að aðlaga kjör landsmanna að efnahagslegum veruleika hverju sinni.

Og þetta er sameiginlegur vandi Samfylkingar og Viðreisnar. Báðir flokkarnir eru á flótta frá veruleikanum.

 


Ísland: kvennavöld og velsæld aldraðra

Tvær alþjóðlegar skýrslur sýna að völd kvenna í stjórnkerfinu eru hvergi meiri en á Íslandi annars vegar og hins vegar að öryggi aldraðra er hvað mest hér á landi.

Vitað er að óvíða í heiminum er launajöfnuður meiri en einmitt á Íslandi og það kemur m.a. fram í hlutfallslega lægri launum opinberra embættismanna hér á landi en í viðmiðunarríkjum.

Niðurstaða: Ísland er gott land að búa í. En það vissum við fyrir.


Ættarsamfélag, guð og einstaklingsfrelsi

Ættarsamfélag þarf hugmyndafræði til að réttlæta tilvist sína. Trúarleg hugmyndafræði veitir sterkara taumhald á samfélagi en veraldleg.

Ættarsamfélög halda í trúarsannfæringuna vegna þess að hún er hornsteinn samfélagsins, kennir hvað má og hvað ekki og refsar bæði í þessum heimi og í eilífðinni.

Einstaklingsfrelsi og mannréttindi eru vestræn uppfinning. Það er ekki tilviljun að á vesturlöndum er trúarsannfæring einkamál hvers og eins. Frelsi einstaklinga óx þegar guði var úthýst úr stjórnmálum.

Trúarmenning múslíma er vandamál vegna þess að guð er ekki einkamál heldur pólitískt afl. Á meðan guð múslíma er samfélagslegt hreyfiafl er lítil von til að múslímar aðlagist vestrænu samfélagi.


mbl.is Ættbálkurinn ofar öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stígamót: níu konur með rangar ásakanir

Níu konur sem sögðu Stígamót eineltisvinnustað höfðu í frammi rangar ásakanir. Stígamót eru með úttekt upp á það. En úttekt er keypt þjónusta.

Níu konur með rangar ásakanir er nokkur fjöldi. Stígamót starfa á vettvangi þar sem ásakanir og gagnásakanir eru algengar; heimilisofbeldi, nauðganir og svo framvegis.

Í því ljósi kalla ,,rangar" ásakanir níu starfskvenna Stígamóta á frekari skýringar.


mbl.is Stígamót hreinsuð af ásökunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ójafnrétti á Jafnréttisstofu

75 prósent starfsmanna Jafnréttisstofu eru konur. Af átta starfsmönnum eru aðeins tveir karlar.

Af tíu umsækjendum um stöðu framkvæmdastjóra eru átta konur en aðeins tveir karlar.

Eitthvað vantar upp á jafnréttið á Jafnréttisstofu.


mbl.is Tíu vilja stýra Jafnréttisstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benedikt - umræðan: 0 - 2

Benedikt fjármálaráðherra er tvö núll undir í sumarumræðunni. Í vor datt honum í hug að afnema tíúþúsundkallinn og í framhald mynt og seðla en leyfa aðeins rafpeninga. Tillagan reyndist sjálfsmark, Benedikt - umræðan: 0 - 1.

Í morgun tilkynnti fjármálaráðherra að hann væri á móti krónunni um leið og hann talaði um sjálfan sig í þriðju persónu eintölu. Fáir taka undir; Björn Bjarnason segir útspil Benedikts reist á sandi. Aftur sjálfsmark, Benedikt - umræðan, 0 - 2.

Ef Benedikt spilar áfram á þessu tempói má gera ráð fyrir þriðja sjálfsmarkinu áður en þing hefst í haust. Krónan verður áfram gjaldmiðillinn okkar en formannsstóll Benedikts í Viðreisn er valtur. Ráðherra sem talar um sjálfan sig í þriðju persónu er líklega að tékka út.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband