Benedikt fellur á dollaraprófinu

Krónan þjónar íslenskum hagsmunum best allra gjaldmiðla. En ef það væri svo að hagfræðileg rök stæðu til þess að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil þá er bandarískur dollari nærtækastur.

Dollarinn er eina heimsmyntin og utanríkisviðskipti okkar eru meira í dollurum en öðrum gjaldmiðlum, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vekur athygli á í dag.

Tilefnið er grein Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra í vikunni sem boðaði upptöku evru. Benedikt má vita að ef raunverulegur vilji er til að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil þá væri dollarinn nærtækasti kosturinn, bæði efnahagslega og pólitískt.

En Benedikt er ekki með augastað á evru heldur aðild að Evrópusambandinu. Hann fellur á dollaraprófinu, sem mælir raunverulegan vilja til að skipta um gjaldmiðil.


Krónan drap Samfylkingu, og nú Viðreisn

Ef krónan væri einstaklingur væri hún jafnaðarmaður í sígildum skilningi orðsins. Þegar illa árar lækkar hún og dreifir þar með byrðum hallærisins á alla landsmenn. Þegar vel árar styrkist krónan og færir öllum landsmönnum aukinn kaupmátt.

Samfylkingin gefur sig út fyrir að vera jafnnaðarmannaflokkur. En flokkurinn andskotaðist í krónunni eins og hún væri helsti óvinur lands og þjóðar. Samfylkingin tapaði þeim slag, rétt lafir inn á þingi með þrjá landsbyggðarþingmenn.

Viðreisn undir forystu Benedikts Jóhannessonar gerir nú aðra atlögu að krónunni. Rök Samfylkingar fyrir afnámi krónunnar voru að hún væri of lág, Benedikt segir að gengið sé of hátt. Í ríkisstjórnartíð Samfylkingar var kreppa, í dag er góðæri. Vitanlega aðlagar krónan sig að ólíkum aðstæðum. Til þess er hún.

Hvorki Samfylking né Viðreisn skilja einfaldasta grunnatriði gjaldmiðla. Þeir eru verkfæri. Valið stendur á milli þess að Íslendingar hafi verkfæri til að takast á við góðæri og hallæri eða að við hendum frá okkur verkfærinu.

Evra, bandarískur dollar, norsk króna eða kandadískur dollar munu aldrei aðlaga sig að íslenskum efnahagsveruleika. En krónan gerir það alltaf.

Árinni kennir illur ræðari, segir fornt orðtak. Samfylkin og Viðreisn kenna krónunni um það sem miður fer í efnahagsmálum. En krónan hvorki býr til né eyðir auðlegð, ekki frekar en aðrir gjaldmiðlar. Krónan er aftur besta verkfærið sem við höfum til að aðlaga kjör landsmanna að efnahagslegum veruleika hverju sinni.

Og þetta er sameiginlegur vandi Samfylkingar og Viðreisnar. Báðir flokkarnir eru á flótta frá veruleikanum.

 


Ísland: kvennavöld og velsæld aldraðra

Tvær alþjóðlegar skýrslur sýna að völd kvenna í stjórnkerfinu eru hvergi meiri en á Íslandi annars vegar og hins vegar að öryggi aldraðra er hvað mest hér á landi.

Vitað er að óvíða í heiminum er launajöfnuður meiri en einmitt á Íslandi og það kemur m.a. fram í hlutfallslega lægri launum opinberra embættismanna hér á landi en í viðmiðunarríkjum.

Niðurstaða: Ísland er gott land að búa í. En það vissum við fyrir.


Bloggfærslur 22. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband