Vaðall lygi verri

Sá sem lýgur stendur andspænis sannleikanum en kýs að fara með ósannindi. Kjaftavaðall, sem á ensku er kallaður ,,bullshit", gerir engan greinarmun á sannleika og lygi. Vaðall er seigfljótandi grautur þar sem má finna bæði sannleikskorn og helbera lygi.

Lygarinn stendur í þeim skilningi nærri sannleikanum að hann þekkir hann - annars gæti hann ekki meðvitað farið með lygi. Kjaftaskurinn, á hinn bóginn, lætur sér í léttu rúmi liggja sannindi og ósannindi - vaðallinn er hans ær og kýr. Lygarinn viðurkennir sannleikann, en hafnar honum, á meðan kjaftaskurinn notar sannindi og ósannindi jöfnum höndum.

Á þessa leið greindi Harry G. Frankfurt kjaftavaðal, ,,bullshit", fyrir rúmum áratug. Og sagði vaðalinn lyginni verri.

Samfélags- og netmiðlar standa fyrir veldisvexti vaðals á síðustu árum. Falsfréttir nærast á vaðli. Vaðall er eitt aðaleinkenni stjórnmálaumræðunnar.

Hvað er til ráða? Fyrsta skrefið er að átta sig á einkennum vaðals. Samkvæmt Frankfurt er það sjálfsupphafning. Kjaftaskar nota vaðal til að upphefja sjálfa sig.


Alþjóðavæðing, Brexit og Trump

Til skamms tíma var alþjóðahyggja ráðandi hugmyndafræði. Frjáls viðskipti, frjálsir flutningar vöru, þjónustu og ekki síst fólks voru hluti hugmyndafræðinnar. Bakslag er komið í alþjóðahyggjuna, núna síðast þegar ,,velkomin til helvítis"-mótmælin riðu húsum í Hamborg á leiðtogafundi G-20 ríkjanna.

Alþjóðahyggjan átti, samkvæmt kenningunni, að bæta lífskjör almennings, bæði á vesturlöndum og í fátækari heimshlutum. Um aldamótin síðustu var orðið ljóst að kenningin virkaði ekki. Stórir hópar millistéttarfólks á vesturlöndum fékk ekki bætt lífskjör - þótt smjör drypi af hverju strái í alþjóðavæddum heimi þeirra efnameiri.

Hagfræðingar, sem voru helstu hugmyndafræðingar alþjóðahyggjunnar, eru óðum að endurskoða fyrri sannfæringu sín, eins og Nikil Savar gerir ítarlega grein fyrir í Guardian.

Vestræn samfélög, Bretland með Brexit og Bandaríkin með kjöri Trump, snerust í vaxandi mæli gegn alþjóðahyggju.

Vaxandi straumur innflytjenda frá Norður-Afríku og miðausturlöndum var kornið sem fyllti mælinn í andstöðu margra við alþjóðavæðinguna. Ekki aðeins sáu stórir hópar vesturlandabúa fram á versnandi lífskjör vegna þess að störf þeirra voru flutt til fátækari ríkja heims heldur komu innflytjendur (flóttamenn/hælisleitendur) og þrengdu frekar að lífskjörunum.

Vesturlandabúar vilja vernda sín samfélög. Ef samfélagið umbyltist á skömmum tíma, t.d. vegna aukinnar efnahagslegrar misskiptingar og innflutningi fólks með framandi menningu, kallar umbyltingin á andsvar.

Drögin að andsvarinu er þegar komin fram: Brexit og sigur Trump.


mbl.is Verndarstefnan „drepur hagvöxt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband