Píratar lama stjórnarandstöðuna

Óeining innan þingflokks Pírata og vankunnátta í pólitík lamar starf stjórnarandstöðunnar. Þetta má lesa úr umfjöllun DV og Eyjunnar um sundrunguna sem Píratar standa fyrir á alþingi.

Pólitísk óreiða og innbyrðis hjaðningavíg eru samofin Pírötum. Á síðasta kjörtímabili var að kalla til vinnustaðasálfræðing í þriggja manna þingflokk Pírata.

Á meðan Píratar eru í stjórnarandstöðu er ríkisstjórninni óhætt - og almenningi líka.


Falsdauði 80 Íslendinga

Árlega deyja 80 Íslendingar vegna loftmengunar, segir Umhverfisstofnun. Hængurinn er sá að líkin vantar.

Þegar Íslendingur deyr er gefin út dánarorsök. Ríkisstofnun, sem vill láta taka mark á sér, hlýtur að styðjast við traust gögn um dánarorsök til að undirbyggja fullyrðingu um árlegan dauða 80 Íslendinga af völdum svifryks. Þessi fjöldi dauðra stappar nærri faraldri.

En tala Umhverfisstofnunar um 80 dauða Íslendinga er ekki fengin úr dánarskýrslum. í skjali á heimasiðu stofnunarinnar kemur fram að talan er ágiskun. Þar segir á bls. 8 að 80 dauðsföll eru talin

útfrá styrk loftmengunarefna, lýðfræðilegum upplýsingum og niðurstöðum rannsókna um sambandið milli loftmengunar og heilsufarsbrests.

Á hversdagslegu máli heitir þetta að ljúga með þvættingi. Það liggja fyrir tölur um dánarorsakir hjá heilbrigðisyfirvöldum, t.d. landlækni. En þær tölur eru ekki notaðar heldur einhverjar ótilgreindar rannsóknir úti í hinum víða heimi um að 80 einstaklingar deyi á Íslandi vegna svifryks.

Til hvers er leikurinn gerður?

 

 


mbl.is 80 ótímabær dauðsföll vegna svifryks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og Pútín: óvinaímyndir og sterkir menn

Óvinaímynd auðveldar skilning, ekki síst í alþjóðastjórnmálum. Í kalda stríðinu voru Sovétríkin skýr óvinaímynd vestrænna þjóða. Sovétríkin stóðu fyrir alræði kommúnisma gegn vestrænu lýðræði (sem, raunar, stóð ekki alltaf undir nafni).

Fall Sovétríkjanna fyrir aldarfjórðungi skóp skilyrði sögulegra sátta þar sem arftaka Sovétríkjanna, Rússlandi, yrði hleypt inn í samfélag vestrænna þjóða. Svo fór ekki. Eftir áratug upplausnar í Rússlandi tók völd þar maður að nafni Pútín - og hefur haldið þeim síðan.

Pútín hefur stjórnað Rússlandi í tíð fjögurra Bandaríkjaforseta: Clinton, Bush yngri, Obama og nú Trump. Af þessum fjórum er Trump líkastur Pútín; afgerandi og umdeildur.

Vonir stóðu til að Trump og Pútín myndu loks grafa stríðsöxina, sem úreltist við fall Sovétríkjanna. Tvímenningarnir skiptust á skjalli á meðan Trump stóð í kosningabaráttu sinni á síðasta ári.

En óvinaímyndin, sem gerði Bandaríkin og Rússland að andstæðingum þótt efnislegar forsendur væru ekki lengur fyrir hendi, tók á sig nýja mynd við sigur Trump. Hann var sagður strengjabrúða Pútín og á í vök að verjast á heimavelli vegna ásakana um að hafa orðið forseti með stuðningi Rússa.

Sumir Bandaríkjamenn, til dæmis Paul Saunders og Stephen F. Cohen, telja að nýju óvinaímyndinni, sem haldið er á lofti, um að Trump sé handbendi Pútín, stórauki hættuna af stríði fyrir slysni á milli Bandaríkjanna og Rússlands.

Sterkir menn eru oft hégómlegir. Þeir þurfa reglulega að staðfesta að þeir standi undir nafni. Þeir taka stórar og afgerandi ákvarðanir í því skyni. Fyrirsjáanlegt handaband Trump og Pútín í Hamborg er ekki stór og afgerandi ákvörðun. En það er þó huggulegra að óvinaímyndir hittist augliti til auglitis og takist í hendur. 


mbl.is Trump og Pútín hittast í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalistaforinginn, klíkan og sérhagsmunir

Tilviljunarúrtak mun ráða hverjir móta stefnu sósíalistaflokks Gunnars Smára. Rökin eru að aðferðin sé

besta vörn­in gegn klíku­mynd­un, stétta­skipt­ingu og sér­hags­muna­gæslu í stefnu­mót­un.

Gott og vel. En hvernig var staðið að vali á formanni flokksins?


mbl.is Skipa í málefnahópa með slembivali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuherinn og Ísland

Ísland var hernumið af breska hernum í seinna stríði, mánuði eftir að Þjóðverjar tók Danmörku og Noreg. Evrópskur her, undir forystu Frakka og Þjóðverja, væri ekki með Norður-Atlantshaf, þar ríkja Bandaríkin, Bretland og að einhverju marki Rússland.

Evrópuherinn, þ.e. her undir merkjum Evrópusambandsins, er í smíðum. Bretar munu standa utan og vinna með Bandaríkjunum, annað hvort tvíhliða eða í gegnum Nató.

Fyrir Ísland skiptir þessi þróun máli. Áður var staðfest að engin efnahagsleg, söguleg, pólitísk eða landfræðileg rök standa til þess að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Núna bætist við að hernaðarleg rök mæla gegn aðild. Ísland verður ekki aðili að Evrópusambandinu um fyrirsjáanlega framtíð. Punktur.


mbl.is Evrópuherinn kemur að lokum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn í samfylkingarvanda

Viðreisn átti að vera bandamaður Samfylkingarinnar til hægri um pólitísk völd. Nafn flokksins vísar til viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á sjöunda áratug síðustu aldar.

Viðreisn var stofnuð af ESB-sinnum í Sjálfstæðisflokknum. Aðild að Evrópusambandinu var stefnumálið sem skyldi binda saman Viðreisn og Samfylkingu. Þegar ESB-umsókn Samfylkingar frá 16. júlí 2009 rann út í sandinn áramótin 2012/2013 var fótunum kippt undan tilverurétti Viðreisnar - áður en flokkurinn fékk tækifæri til að bjóða fram. Útreið Samfylkingar í síðustu kosningum girti fyrir alla vaxtarmöguleika.

Viðreisn mælist með um fimm prósent fylgi. Hópar innan flokksins vilja halda aukalandsþing til að gera upp við stefnuna og flokksforystuna.

Viðreisn og Samfylking ættu að slá tvær flugur í einu höggi. Halda sameiginlegan landsfund - og leggja báða flokkana niður.


Grætt á falsfréttum um Trump

Falsfréttir um Trump er góð söluvara. Einkum fréttir sem ekki er hægt af afsanna, eins og þær að Trump sé handbendi Pútín Rússlandsforseta. Þetta er niðurstaða Glenn Greenwald sem segir fréttamiðla eins og CNN og Washington Post hvorki skeyta um skömm né heiður þegar kemur að framleiðslu falsfrétta.

Í Bandaríkjunum, og raunar víðar, vilja margir ekki trúa því að Trump einn og óstuddur hafi sigrað í forsetakosningunum. Hann hljóti að hafa notið stuðnings erlendis frá. Og þar er Pútín nærtækasta og best auglýsta illmennið.

Rússafóbía sameinar tvo valdamikla hópa í Bandaríkjunum. Demókrataflokkinn nánast í heild sinni og kaldastríðshauka í Repúblíkanaflokknum. Á bakvið þessa hópa eru sterkir hagsmunir, t.d. í hergagnaiðnaði, sem njóta góðs af Rússagrýlunni.

Fjölmiðlar eins og CNN og Washington Post fá áhorf og lestur út á falsfréttir um að Rússar hafi komið Trump til valda. Þeir fá einnig aðgang að umræðuþáttum og samfélagsmiðlum þar sem eftirspurn er eftir einmitt falsfréttum af þessari gerð.

Og þegar eftirspurn er eftir falsfréttum, þá eru þær einfaldlega framleiddar.


mbl.is CNN aftur flækt í hneykslismál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OECD: krónan besti kosturinn

Krónan endurspeglar íslenskt efnahagslíf. Þegar vel gengur, eins og núna, njóta landsmenn betri kaupmáttar með sterkara gengi. Þegar slær í bakseglin, og gengið lækkar, dreifast byrðarnar á háa sem lága.

Hugmyndir Viðreisnar um myntráð eru loftkastalasmíði sem myndu enda í martröð.

OECD telur núverandi fyrirkomulag gjaldmiðilsins besta kostinn. Við vissum það fyrir - nema kannski Viðreisn og Samfylking sem alltaf eru úti á þekju.


mbl.is Berskjaldaðri fyrir spákaupmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlingjar afhjúpa svindlið um hlýnun jarðar

Í aldarfjórðung hafa aðgerðarsinnar, vísindamenn sem taka styrki fram yfir sannleikann og ekki síst stjórnmálamenn reynt að telja okkur trú um að jörðin sé að hlýna af mannavöldum. Jörðin verði óbyggileg ef ekki verði gripið í taumana og stórkostlega dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda, einkum koltvísýrings.

Að stærstum hluta er hlýnun jarðar af mannavöldum áróður. Nokkrir gamlingjar úr röðum vísindamanna eru öflugir að afhjúpa svindlvísindin um hlýnun jarðar.

Fred Singer er á tíræðisaldri og prófessor í umhverfisvísindum. Hann segir engar sannanir fyrir hlýnun af mannavöldum.

Norsk-ameríski nóbelsverðlaunahafinn Ivar Giaver segir loftslagsvísindin í höndum sértrúarmanna sem brjóti meginreglur vísindanna um að leita sannleikans. Ivar er 88 ára.

Carl-Otto Weiss er þýskur vísindamaður. Hann sýnir fram á að loftslagsbreytingar eru náttúrulegar sveiflur; ekki af mannavöldum. Carl-Otto er 76 ára.

Freeman Dyson prófessor í Princeton er með þrjá yfir nírætt. Leggjum ekki trúnað á reiknilíkönin um að jörðin verði óbyggileg er hans viðhorf. Þvert á móti er jörðin lífvænlegri en áður.

Og hvers vegna eru það gamlingjar sem eru sannir og skýrir í mati sínu á umræðunni um loftslagsbreytingar? Jú, þeir láta ekki kaupa sig annars vegar og hins vegar eru þeir nógu hugaðir til að taka sannleikann fram yfir pólitískan rétttrúnað.


Höfrungahlaup kjaraumræðunnar

Hver eru sanngjörn laun sendiherra? Ríkisendurskoðanda? Þingmanna? Dómara? Talsmenn verkalýðshreyfingarinnar rjúka upp til handa og fóta þegar kjararáð ákveður laun embættismanna.

En í höfrungahlaupi umræðunnar lætur verkalýðshreyfing hjá líða að tefla fram sínum hugmyndum um hver launin ættu að vera.

Verkalýðshreyfingin getur, bæði í krafti samningsumboðs og eignarhalds á stjórnfyrirtækjum í gegnum lífeyrissjóði, haft mótandi áhrif á launaumræðuna. En það gerist ekki með upphrópunum. Vinna betur í SALEK og tala minna í fjölmiðlum væri ágætis byrjun.


mbl.is Hrundið af stað nýju „höfrungahlaupi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband