Evran veldur fátækt, ósjálfstæði

Ítalía er með minni landsframleiðslu í dag en fyrir sameiginlegan gjaldmiðil ESB-ríkja, segir í samantekt Die Welt. Ríki Suður-Evrópu, s.s. Spánn, Grikkland, Ítalía og Frakkland, búa við sviðna jörð sameiginlegs gjaldmiðils.

Kórónuveiran veldur Suður-Evrópuríkjum með einhæfri efnahagskerfi meiri búsifjum en þróuðum iðnríkjum í Norður-Evrópu.

Reglulega þurfa ríki með einhæft efnahagskerfi að fara með betlistaf í hendi til Þýskalands og biðja um ölmusu. Ástæðan er að þessi ríki búa ekki við fjárhagslegt sjálfstæði, eru fangar sameiginlegs gjaldmiðils.

Og svo eru þeir til á Íslandi, Viðreisn og Samfylking, sem óska sér evru. Það er fólk fátækt í hugsun og þýlynt. 


Íslensk æfing í þegnskap og norsk smitskömm

Íslendingar og Norðmenn eru sama fólkið, en hafa búið hvorir í sínu samfélaginu í þúsund ár. Á þeim tíma hefur hvor þjóðin um sig tileinkað sér eilítið ólíka samfélagshugsun sem farsóttin leiðir fram.

Íslendingar eru almennt efagjarnari á ríkisvald en Norðmenn. Forfeður okkar tóku meðvitaða ákvörðun að hafa ekkert ríkisvald, engan konung. Fyrstu 330 árin bjuggu Íslendingar við goðavald þar sem um 40 goðar ákváðu lög í landinu. Frjálsleg framkvæmd á lögum, byggð á skynsemi og einstaklingshyggju, sem oft var hrátt vald, skóp gullöld Íslendinga. Þeir skrifuðu alþjóðlegar metsölubækur, byggðu Grænland og könnuðu Ameríku.

Þegar Íslendingar stóðu frammi fyrir alþjóðlegri vá, kristni í heiðnum heimi, tóku þeir skynsemi fram yfir vopnaskak. Á einum fundi alþingis ákváðum við að taka upp nýjan sið að nafninu til. Sérhver mátti þó halda í heiðni að vild; bera út börn, éta hrossakjöt og blóta.

Norðmenn, aftur, beygðu sig undir konungsvald frá dögum Haralds hárfagra. Þeir urðu aðeins kristnir með manndrápum og pyntingum konunganna Ólafs Tryggvasonar og Ólafs digra Haraldssonar. Til að kenna Norðmönnum að kyssa vöndinn var sá digri gerður að dýrlingi.

Þegar norskt ríkisvald lagaðist yfir Ísland, með Gamla sáttmála 1262/64, hófst 700 ára eymdartími með dyntóttu útlendu valdi og lausung í samfélaginu er gekk mest út á að koma sér undan téðu valdi.

Norðmönnum farnaðist ekki betur, urðu danskir þegnar og máttu þola þá skömm að landi þeirra var úthlutað Svíum í lok Napóleonsstyrjaldanna snemma á 19. öld.

Ólík saga samfélaganna tveggja birtist í viðbrögðum við kínversku veirunni, kófinu. Hjá Íslendingum eru viðbrögðin æfing í þegnskap. Ríkisstjórnin framseldi sóttvarnir í hendur þriggja geðþekkra embættismanna sem daglega ræða við landsmenn um nauðsyn ítrustu varkárni en hafa jafnframt auga með því að efnahagskerfið hrynji ekki.

Norðmenn, á hinn bóginn, beita sálfræðihernaði og útilokun.

Lengi lifir í gömlum glæðum. Íslendingar urðu kristnir á einum fundi en Norðmenn með áralöngu ofbeldi og kúgun. Farsóttarvarnir er byggja á yfirvegun og æðruleysi eru farsælli en bannfæring og yfirgangur.  

 


mbl.is Úthrópaðir á samfélagsmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband