Dauðinn er ekki geðveiki

Við sjúkdómavæddum fæðingar og fluttum þungaðar konur á spítala þegar þær ólu börn. Í þúsund ár fæddust íslensk börn heima hjá móður sinni.

Við deyjum núna helst á sjúkrahúsum eða elliheimilum. Sumir deyja af slysförum, einhverjir falla fyrir eigin hendi. Áður dó fólk heima hjá sér eða í vinnunni, sem oft var sami staðurinn.

Sjúkdómavæðing dauða og fæðingar fær okkur til að halda að upphaf og endir lífs sé afbrigðilegur, eitthvað óheilbrigt.

En, sum sé, án dauða engin fæðing. Lífið er hringrás.

Lifið heil.


Þjóðverjar vilja ræða innflytjendamál

Aðalmál þýsku þingkosninganna er innflytjendamál. Samvkæmt könnun eru innflytjendamál brýnasta verkefni næstu ríkisstjórnar. Þar á eftir er aukinn munur á milli fátækra og ríkra í Þýskalandi kjósendum hugleikinn. Í þriðja sæti eru málefni tengd hryðjuverkum.

Tveir stórir flokkar, Kristilegir demókratar og Jafnaðarmenn, eru ráðandi í þýskum stjórnmálum. Kristilegir demókratar, með Angelu Merkel sem oddvita, mælast með tæp 40 prósent fygli en Jafnaðarmenn með rúm 20.

Stærstur smáflokkanna er AfD, sem leggur áherslu á takmarkanir á straum innflytjenda til landsins.

Þýsku þingkosningarnar eru eftir fjórar vikur.


Kanada lokar á flóttamenn

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, segir flóttamenn í leit að betri lífskjörum ekki velkomna til landsins. Aðeins þeir sem flýja pyntingar, hafi ástæðu til að óttast um líf sitt eða eru án ríkisfangs eiga erindi sem flóttamenn til Kanada, segir forsætisráðherrann samkvæmt Guardian.

Þetta er stefnubreyting af hálfu Trudeau, sem fyrir skemmstu bauð alla flóttamenn velkomna til Kanada í kjölfar þess að Bandaríkin hertu reglur um viðtöku flóttamanna. Kanadískar stofnanir kikna undan álagi vegna flóttamannastraums frá Bandaríkjunum. Allt að 250 hælisleitendur koma daglega yfir landamærin. Ólympíuþorpið í Montreal er orðið að flóttamannamiðstöð og tjaldbúðir eru settar upp við landamærin.

Í Kanada er Trudeau gagnrýndur fyrir að hafa búið til flóttamannastrauminn með því að bjóða alla flóttamenn velkomna til landsins fyrr á árinu.


Framsókn í bóndabeygju góða fólksins

Framsóknarflokkurinn skipti um formann til að halda frið við góða fólkið. Og nú er oddvitanum í Reykjavík fórnað enda hafði hann bannfærðar skoðanir.

Góða fólkið fylgir pólitískum rétttrúnaði og bannfærir þá sem eru með rangar skoðanir.

En góða fólkið er annars sundurlaus hópur, dreifir sér á aðskiljanlega pólitíska flokka; Samfylkinguna, Vinstri græna, Pírata, Bjarta framtíð og Sósíalistaflokk Gunnars Smára.

Hvers vegna tekur Framsóknarflokkurinn við skipunum frá góða fólkinu?


mbl.is Sveinbjörg segir skilið við Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Costco og örmarkaðurinn Ísland

Costco lækkaði vöruverð í landinu, ekki aðeins í Garðabæ og nágrenni. Fólk leggur á sig ferðalög til að versla við nýju búðinni. Vöruverð í Costco mælist í mörgum tilfellum tugum prósenta lægri en í íslenskum lágvöruverslunum og dæmi eru um mörg hundruð prósenta mun. Til að keppa við Costco verða aðrar verslanir að taka til í rekstrinum og bjóða betra verð. Þetta heitir samkeppni.

Á hinn bóginn er það alveg rétt hjá Jóni Gerald Sullenberger að samkeppni við Costco er ekki á jafnréttisgrunni. Costco er alþjóðleg risaverslun, þær íslensku eru örlitlar í samanburði.

Neytendur munu eflaust fyrirgefa einhvern verðmun, sem er þeim íslensku í óhag. En þeir dagar eru liðnir að íslenskar verslanir geti í skjóli fákeppni látið eins og þær eigi markaðinn.


mbl.is Ófyrirséðar afleiðingar af Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæsahúð og Trump-gleði

Eðlilega fékk Hillary Clinton gæsahúð í návist Donald Trump. Hann hirti af henni forsetaembættið. Stuðningsmenn Trump voru nógu margir til að fleyta honum inn í Hvíta húsið. Sjaldnast heyrist hósti eða stuna frá stuðningsmönnunum.

Vinstriútgáfan Guardian, sem alls ekki tilheyrir aðdáendahópi forseta Bandaríkjanna, mætti á fjöldafund Trump og heyrði hljóðið í nokkrum stuðningsmönnum Trump. Úrvalið er nokkuð breitt, karlar og konur, sæmilega stæðir og öryrkjar, hvítir og svartir.

Stuðningsmennirnir eru sammála um að Trump sé ekki rasisti, þeir vilja landamæravegginn, báðir öfgahóparnir í Charlottesville bera ábyrgð á átökunum þar og að fjölmiðlar séu haldnir fordómum gegn Trump.


mbl.is „Ég fékk gæsahúð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivextir svínvirka, slegið á fasteignabóluna

Ákvörðun Seðlabankans um óbreytta stýrivexti virðist koma sumum á óvart. Á hlutabréfamarkaði virtust a.m.k. sumir gera ráð fyrir áframhaldi á vaxtalækkun.

Strax eftir að ákvörðun bankans var tilkynnt féllu öll hlutabréf í verði. Þegar á daginn kom að ákvörðunin veikti krónuna styrktust hlutabréf fyrirtækja sem fá drýgstan hluta tekna sinna í gjaldeyri, Icelandair og Marel.

Fasteignafélögin sem mala gull á fasteignabólunni fengu ekki þá innspýtingu sem þau gerðu ráð fyrir, í formi lægri vaxta, og guldu afhroð á hlutabréfamarkaði. Fasteignafélögin Eik og Reitir lækkuðu bæði um meira en 4 prósent í viðskiptum dagsins.

Vaxtaákvörðun Seðlabankans í dag svínvirkar. Hún leiðréttir gengi krónunnar og slær á fasteignabóluna.


mbl.is Stýrivextir áfram 4,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frosin stjórnmál - nema hjá Flokki fólksins

Stjórnmálin eru frosin, eins og þau birtast í fylgi við stjórnmálaflokka. Flokkur fólksins er eina stjórnmálaaflið sem sækir í sig veðrið.

Jákvæði fréttirnar eru að ef mælingar sýna verulegt flökt á milli flokka er það vísbending um óreiðu í þjóðarsálinni. Allt síðasta kjörtímabil var undirliggjandi spenna, sem gerði t.d. Pírata að stærsta flokki landsins í mörg misseri.

Í þessu ástandi þarf ríkisstjórnin ekki að hafa áhyggjur. Enginn valkostur er við stjórn Bjarna Benediktssonar. En festist þessi staða í sessi næstu vikur og mánuði er tímabært að grípa til aðgerða, t.d. að skera úr snörunni fylgislausu flokkana sem hanga eins og hundur á roði í stjórnarráðinu.


mbl.is Ríkisstjórnin með 27,2% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur, brjóstaskoran og sæði skáldsins

Fréttir falla af himnum ofan, eins og allir vita. Eiríkur Jónsson fékk í fangið frétt um brjóstaskoru saksóknara og hlaut að birta hana. Hann er jú verkfæri almættisins. Eiríkur útskýrði vinnubrögð sín í afmælisblaði Blaðamannsins 1987.

Eiríkur var í þá tíð ungur blaðamaður en kunni þó sögur af órannsakanlegum aðferðum við öflun frétta. Á bls. 57 í afmælisútgáfu félagsriti blaðamanna segir Eiríkur frá því þegar hann fékk viðtal við nóbelskáldið Halldór Laxness á heimili hans á Gljúfrasteini.

Yfirskin viðtalsins var að Eiríkur ætlaði að fjalla um ,,ritvélar og áhrif þeirra á menn" en skáldið var þekkt fyrir að nota handskrift en ekki vélar í starfinu. ,,Af rælni," segist Eiríkur hafa gripið með sér í viðtalið útgáfu af tímaritinu Paris Match. Í útgáfunni var sagt frá tilraun til að safna sæði nóbelsverðlaunahafa. Tilgangurinn var að kynbæta mannkynið.

Þegar Eiríkur fitjaði upp á raunverulegum tilgangi heimsóknarinnar á Gljúfrastein, að fá álit skáldsins á kynbótastarfinu, var honum vísað á dyr.

Trúlega er Eiríkur enn, mörgum áratugum síðar, að klóra sér í kollinum yfir sneypuförinni upp í Mosfellssveit. Hann er jú aðeins sendiboðinn.


mbl.is Segist bara vera sendiboðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geðveiki, mannréttindi og hryðjuverk

Geðveikir fremja ekki hryðjuverk, samkvæmt skilgreiningu innanríkisráherra Frakka, en þeir eiga það til að líkja eftir hryðjuverkum.

Hryðjuverk eru framin af ásettu ráði til að ná fram pólitískum markmiðum.

Komið hefur í ljós að aðalhöfundur hryðjuverkaárásarinnar í Bercelona í síðustu viku fékk hæli á Spáni í nafni mannréttinda. Spænsk yfirvöld vildu skila manninum til Marokkó en dómstóll kvað upp úr um að mannréttindi múslímaklerksins gæfu honum landvist á Spáni.

Hornsteinn vestrænnar menningar er mannréttindi, bæði þeirra sem heilir eru á geði og veikra. Án mannréttinda væri samfélag okkar verra.

Mannréttindi voru til skamms tíma tengd fullveldi þjóða. Ítali, sem bjó í Þýskalandi, naut t.d. ekki fullra mannréttinda á við þá þýsku, t.d. hvað varðar aðgengi að opinberri þjónustu s.s. menntun og heilsugæslu og kosningarétt. Hugmyndin að bak var að þjóðríkið tryggði mannréttindi þegna sinna. Rökin eru hversdagsleg; þjóðfélagsþegnar eiga sameiginleg mannréttindi enda ríkisborgarar sama lands.

Á seinni árum vex þeirri hugsun fiskur um hrygg að mannréttindi séu algild óháð þjóðríkjum. Ameríkani sem stígur fæti á norska grund í fyrsta sinn á ævinni skal njóta sömu réttinda og Ole Nordman sem búið hefur mann fram af manni í Noregi. Enn er ekki komið að að slíku ástandi en þróunin stefnir í þessa átt: algild mannréttindi óháð uppruna og landamærum.

En það er geðveiki að láta ekki þegnskap og mannréttindi haldast í hendur. Þegnskapur verður ekki til þegar maður stígur úr flugvél í framandi landi. Þegnskapur myndast þegar maður tileinkar sér siði og háttu samfélagsins sem maður býr í. 

Vinda þarf ofan af geðveikinni í mannréttindaumræðunni.


mbl.is Þriðjungur glímir við geðræn vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband