Ríkisrekin hugsjón

Kjarninn er útgáfa byggð á ,,hugsjón og rómantík" skrifar Þórður Snær ritstjóri í afmælisgrein. Hugsjónir Kjarnans eru m.a. að Ísland verði ESB-ríki og að við áttum að borga Icesave. 

Hugsjónir útgáfunnar eru studdar ,,stað­reynda­mið­uðum skoð­ana­skrif­um", segir ritstjórinn. Á mæltu máli heitir þetta hlutdrægni.

Það liggur í eðli hugsjóna að þær eru hlutdrægar. Menn sannfærast um ágæti málstaðar og fylgja eftir sannfæringu sinni í riti og ræðu. Allt í lagi með það. Orðræða og skoðanaskipti eru af hinu góðu.

Verra er að Þórður Snær vill að ríkið borgi með hugsjónaútgáfunni. Það er ekki hlutverk ríkisins að taka upp á sína arma hugsjónir afmarkaðra hópa og gefa þeim peninga til að kynna hugðarefni sín. Menn eiga að tala fyrir eigin reikning, ekki á kostnað annarra.

Við sitjum uppi með ríkisfjölmiðil sem rekinn er undir merkjum hugsjóna starfsmanna. Fyrrverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, leggur til að RÚV verði úrelt, lagt niður.

Til þess eru þess eru vítin að varast. Ríkisrekin hugsjón endar ávallt með óskapnaði.


RÚV gerir grýlu úr Hjörleifi

Hjörleifur Guttormsson segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við RÚV. Í grein í Morgunblaðinu í dag rekur Hjörleifur aðsúg sem RÚV gerir að honum vegna athugasemda sem hann gerði um vegglistaverk.

Hjörleifur er nágranni Sjávarútvegshússins. Gafl hússins var nýlega skreyttur stórri mynd af sjómanni. Hjörleifur sendi athugasemdir til borgarinnar, rétt eins og hver annar almennur borgari, og spurði um lög og reglur borgarinnar um verk af þessu tagi.

Í meðförum RÚV var Hjörleifur gerður að skúrki sem amaðist við listaverkum. Tölvupóstar voru birtir til að sýna Hjörleif í sem neikvæðustu ljósi.

RÚV stundar reglulega aðgerðafréttamennsku af þessu tagi og er það miður. Vandaðir fjölmiðlar hanna ekki fréttir heldur segja þær.


Fasískur sósíalismi

Vinstriútgáfan Guardian sér teikn á lofti að fasískur sósíalismi eigi velgengni að fagna í Bandaríkjunum. Stuðningurinn komi bæði frá fylgismönnum Donald Trump og Bernie Sanders, sem er á vinstrivæng Demókrataflokksins.

Samkvæmt Guardian sameinar fasískur sósíalismi kynþáttahyggju og andstyggð á kapítalisma.

Sögulegur flugufótur fyrir þessari greiningu er að Adolf Hitler var þjóðernissósíalisti og Mussólíni spratt úr jarðvegi marxista. Annað til: fasískum hreyfingum óx fiskur um hrygg þegar borgaralegri stjórnmálamenningu hnignaði.

Borgaraleg stjórnmálamenning hratt heiminum út í fyrra stríð fyrir hundrað árum.

En, sem sagt, ástandið er ekki jafn slæmt núna.

 


Bloggfærslur 21. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband