Föstudagur, 10. júní 2022
Reynir Trausta, fréttaslúður og RSK-miðlar
Fréttir eru eitt en slúður annað. Fréttir byggja á heimildum en slúður orðasveimur, undir hælinn lagt hvort flugufótur sé fyrir eða hreinn skáldskapur. Reynir Traustason vinnur með fréttaslúður, gerir ekki greinarmun á því sem er og ímyndun.
Reynir á að baki langa sögu í fréttaslúðri. Fyrir 19 árum skrifaði hann alræmda frétt um að Davíð Oddsson hafi sigað lögreglunni á Baug. Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmastjóri Vinnslustöðvarinnar skrifar grein þar sem rekur nýleg afrek Reynis í fréttaslúðri.
Til að fréttaslúðrið nái flugi, fái útbreiðslu, þarf að koma því sem víðast á framfæri. Ásamt Mannlífi rekur Reynir Kvennablaðið þar sem hann endurbirtir valið slúður. Lesendur halda að um tvo sjálfstæða miðla sé að ræða, þannig fær slúðrið trúverðugleika. Þá skipta vina- og fjölskyldutengsl máli. Það eru til fjölmiðlafjölskyldur, eins og Sigurgeir vekur athygli á.
RúV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar, stunda skipulega sama leikinn og Reynir. Einn ríður á vaðið með fréttaslúður og hinir fylgja í humátt á eftir með sinn vinkil á sama efni. Fjölskyldu- og vinatengsl ákveða hvaða slúðri skuli gert hátt undir höfði.
Þegar mikið liggur við eru tveir miðlar látnir birta samtímis fréttaslúðrið. Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þórður Snær á Kjarnanum störfuðu eftir nákvæmri tímaáætlun við undirbúning umfjöllunar um ,,skæruliðadeild" Samherja. Þeir t.a.m. hringdu í Pál skipstjóra með tíu mínútna millibili daginn fyrir birtingu.
Hvorki Reynir né RSK-miðlar láta sig nokkru varða almannahagsmuni, sem eru að fá fréttir byggðar á heimildum. Það eru ýmist hagsmunir auðmanna, pólitískir hagsmunir eða persónulegir dyntir sem ráða ferðinni. Tök RSK-miðla á blaðamannastéttinni eru slík að þeir fá verðlaun fyrir fréttaslúður sem fengið er með glæpum.
Samræmdar aðgerðir fjölmiðla gera slúður að sannleika.
![]() |
Reynir braut siðareglur með umfjöllun um Róbert |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 9. júní 2022
Helgi Seljan namibískur blaðamaður
Dagblaðið Namibian, gefið út í samnefndu landi, er komið með íslenska blaðamenn í sína þjónustu, þá Helga Seljan og Inga Frey Vilhjálmsson.
Helgi og Ingi Freyr eru blaðamenn á Stundinni. En þeir eru jafnframt skráðir fyrir frétt i Namibian um ... haldið ykkur ... Namibíumálið.
Málið verður enn kostulegra þegar fréttin er lesin. Helsta heimildin fyrir fréttinni í Namibian er ... haldið ykkur ... Stundin.
Nú vantar bara að hinir tveir hlutar RSK-miðla, RÚV og Kjarninn, birti fréttir sem byrja svona: ,,samkvæmt namibísku dagblaði...".
Endurnýting frétta verður vart skilvirkari.
Fréttin í Namibían gætir þess vandlega að nefna ekki höfuðpaurinn í málinu og stjörnuvitni, Jóhannes Stefánsson sem neitar að mæta í yfirheyrslu í Namibíu - líkt og fjórmenningar á RSK-miðlum á Íslandi.
Hvernig væri nú, fyrst blaðamenn eru sjálfir aðalheimildir frétta, að Helgi Seljan tæki viðtal við Þóru á RÚV og Þórð Snæ á Kjarnanum um stöðu þeirra sem sakborninga í sakamáli þar sem byrlun og gagnastuldur koma við sögu?
![]() |
Fundað með namibískum rannsakendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. júní 2022
Helgi S. og RÚV taka Namibíusnúning
Helgi Seljan, sem hraktist af RÚV vegna rannsóknar lögreglu á byrlun og stuldi, freistar þess að blása lífi í Namibíumálið svokallaða með frétt á Stundinni. Félagarnir á RÚV endurbirta.
Namibíumálið gengur út á ásakanir eins manns, Jóhannesar Stefánssonar, um að Samherji hafi stundað stórfelldar mútugreiðslur og framið önnur afbrot á meðan útgerðin stundaði veiðar þar syðra. Jóhannes var Samherji í Namibíu, æðstráðandi til sjós og lands í útgerðinni þar.
Snúningur Helga og RÚV að þessu sinni er að láta að því liggja að íslensk stjórnvöld komi í veg fyrir að réttað verði yfir þremur íslenskum mönnum í Namibíu.
En það er einfaldlega ekki rétt.
Aðalástæðan fyrir því að saksóknari í Namibíu kemst hvorki lönd né strönd er að stjörnuvitnið, Jóhannes Stefánsson, harðneitar að mæta í skýrslutöku hjá lögreglunni í Namibíu og í framhaldi koma fyrir dómstóla.
Færi Jóhannes til Namibíu yrði sennilega aðeins einn Íslendingar ákærður fyrir misferli og glæpi.
Það lá fyrir í október sl. að engir Samherjamenn yrðu ákærðir í Namibíu. Meint gögn i málinu eru öll því marki brennd að hafa farið um hendur Jóhannesar Stefánssonar. Hann er ekki trúverðug heimild, frómt frá sagt.
Hvorki Helgi né RÚV vekja athygli á að málið stendur og fellur með Jóhannesi. Í lok fréttar RÚV kemur neyðarleg játning:
Dómsmálaráðuneyti Namibíu hefur að sama skapi ekki enn sent formlega beiðni til Íslands um framsal mannanna.
,,Mennirnir" sem vísað er til eru þrír starfsmenn Samherja. Ástæðan fyrir því að dómsmálaráðuneyti Namibíu fer ekki fram á framsal þeirra er að namibískur dómstóll telur engar forsendur fyrir ákæru.
Og hvers vegna er það?
Jú, ástæðan er að Jóhannes Stefánsson neitar að fara til Namibíu.
Síðasti Namibíusnúningur Helga Seljan og RÚV er eins og þeir fyrri: bara reykur. Það er enginn eldur. En þess meira af lygum og þvættingi sem dómgreindar- og samviskulausir RSK-miðlar lepja upp.
Í stað þess að taka enn einn snúninginn á Namibíumálinu ættu Helgi og RÚV að segja fréttir af sakamálarannsókn á Íslandi. Almenningi þyrstir í fréttir af fjórum sakborningum sem eiga aðild að byrlun og gagnastuldi. Fjórmenningarnir eru blaðamenn á RSK-miðlum. En það ríkir dauðaþögn um fréttamál sem á brýnt erindi við alþjóð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 7. júní 2022
Ég er ópólitískur, kýs Framsókn
Fyrir skemmstu var óhugsandi að framsóknarmaður yrði borgarstjóri. Flokkurinn var í útrýmingarhættu á höfuðborgarsvæðinu. En nú verður frammari borgarstjóri, að vísu eftir tvö ár.
Einu sinni var Sjálfstæðisflokkurinn í þeirri stöðu að ópólitískir kusu flokkinn. Framsókn er óðum að nálgast það þægilega fylgispólitíska umhverfi. Þingkosningar, kosningar til sveitarstjóra og kannanir segja þá sögu. Framsókn er við 17 prósent fylgi. XD hefur enn 3-5 prósentustiga forskot sem fer minnkandi.
Framsókn er ekki hugmyndaflokkur, var það síðast á dögum Jónasar frá Hriflu fyrir miðja síðustu öld. (Valdatíð Sigmundar Davíðs undantekning). Flokkurinn er samkvæmt hefð tilbúinn að vinna til hægri og vinstri. Ópólitíska miðjan.
,,Er ekki best að kjósa Framsókn?" er risminna en ,,stétt með stétt". En við lifum ekki rismikla tíma. Velmegun og óánægja haldast í hendur. Almenningur er feitur þjónn í leit að þægilegum húsbónda.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fundið fjölina sína frá hruni. Víst er hann enn stærstur flokka, en nú má ekki miklu muna. Framsókn nartar í hælana.
Sjálfstæðisflokkurinn var síðast hugmyndaflokkur þegar Davíð Oddsson var í forsvari. Hægriflokkur með víða skírskotun. Á seinni árum eru tilburðir flokksins að koma til móts við andstæðinga sína og apa eftir frjálslyndri vinstritísku. Ekki hefur dregið úr þeirri viðleitni í ríkisstjórnarsamstarfi með Vinstri grænum.
Á þeim tíma þegar ópólitískir kusu Sjálfstæðisflokkinn mátti ganga að vísri borgaralegri hugmyndafræði, bæði í efnahagsmálum og menningu. Í dag er allt heldur ógreinilegra.
Flokknum til afsökunar voru skýrari línur á milli hægri og vinstri um aldamótin, að ekki sé talað um tímabilið kennt við kalda stríðið. Evrópskir hægriflokkar eru ekki í mikið betri stöðu. Breski Íhaldsflokkurinn, til dæmis, tók upp Grétufræði í loftslagsmálum til að þóknast vinstritísku. Hugsunin virðist vera að betra sé að veifa röngu tré en öngvu.
Framsókn iðkar hagnýt stjórnmál, stendur á gömlum merg, elstur starfandi flokka. Kjósendur telja sig ekki taka áhættu að greiða Framsókn atkvæði sitt.
Aukið vægi Framsóknar má túlka þannig að í hugmyndabaráttunni sé runninn upp úrvinnslutími. Hvað virkar? er spurt. Kannski virkar Framsókn. Kannski ekki.
![]() |
Dagur og Einar skipta með sér borgarstjórastólnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. júní 2022
Rússneskt jafntefli
Efnahagslegur stormur er i aðsigi, segir Jamie Dimon forstjóri JP Morgan. Stormurinn er þríþættur: óhófleg peningaprentun frá 2008, verðbólga/vaxtahækkun/lánsfjárþurrð - og Úkraínustríðið.
Sameiginlegt þáttunum þremur er að engin söguleg fordæmi eru fyrir þeim. Á tæknimáli heitir peningaprentun QE. Andstæðan, QT, sem Dimon segir blasa við, er peningalegt aðhald, minna fjármagn í umferð. Stórstríð í Evrópu er fordæmalaust frá lokum seinni heimsstyrjaldar.
Vesturlönd eru háðari skilvirkum fjármálamörkuðum en aðrir heimshlutar. Stríðið í Úkraínu eykur verðbólguþrýsting, einkum á hrávöru eins og olíu og korni, og gerir illt verra efnahagslega. Að ekki sé talað um mannlegar hörmungar og hættu á stigmögnun, jafnvel upp í kjarnorkustríð. Samstaða er um að sumarið skilji á milli feigs og ófeigs. Í haust er um seinan að redda sér fyrir horn.
Úkraínustríðið er óvissuþáttur sem hægt er að ná tökum á með tiltölulega skömmum fyrirvara. Hinir tveir þættirnir eru óáþreifanlegri en ekki mannskæðir. Hætta á stigmögnun er bundin við félagslega og pólitíska ókyrrð - en ekki manndráp í stórum stíl.
Þrenn úrslit eru hugsanleg í Úkraínustríðinu. Jafntefli með friðarsamningum, úkraínskur sigur og rússneskur sigur. Á skrifandi stundu er rússneskur sigur líklegastur.
Sigur Rússa þýðir vestræn niðurlæging. Rússar hefðu öll ráð Evrópu í hendi sér. Sigursælasti herinn væri þeirra og í kaupbæti sitja Rússar á gasi, olíu og korni sem Evrópu sárvantar. Ekki svo að skilja að Rússar séu líklegir að ásælast aukna landvinninga eftir Úkraínu. En þeir munu ekki leggja sig fram um að bjarga Vestur-Evrópu frá efnahagskreppu og fyrirsjáanlegum félagslegum og pólitískum óstöðugleika.
Óstaðfestar fréttir á jaðarmiðlum segja að í stórum Evrópuríkjum s.s. Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Bretlandi séu valkostir við rússneskan sigur ítarlega greindir og metnir. Úkraínskur sigur er nær óhugsandi. Útfærsla á jafntefli er eini raunhæfi möguleikinn.
Í fáum orðum: Vestur-Evrópa, með samþykki Bandaríkjanna, skipar stjórninni í Kænugarði að semja við Rússa og láta af hendi það land sem þarf til að kaupa frið. Selenskí forseti og stjórn hans er fjármögnuð af vesturlöndum. Kænugarður verður að hlýða ákveði Vestur-Evrópa að komið sé nóg af stríðsbrölti. Einu rökin sem ráðandi öfl í vestrinu myndu hlusta á eru sigrar Úkraínuhers á vígvellinum. Þar er fátt um fína drætti upp á síðkastið.
Það mætti kalla slíka friðarsamningana jafntefli. Rússneskt jafntefli.
![]() |
Ekki niðurlægja Rússland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. júní 2022
Fúkyrði, sjálfsálit og sannfæring
Þjóðmálaumræðan einkennist af æsingi, upphrópunum og fúkyrðaflaumi, skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir í Fréttablaðið.
Peter Hitchens, sem einu sinni var vinstrimaður, segir ástæðuna fyrir heift vinstrimanna þá að þeir séu sannfærðir um eigið ágæti annars vegar og hins vegar réttmæti málstaðarins.
Vinstristefna, hvort heldur kratismi eða sósíalismi, taldi sig kunna uppskriftina að framtíðinni. Þaðan kemur sannfæringin, að vita hvernig heimurinn á að vera. Ef uppskriftinni verður ekki fylgt, segja vinstrimenn, blasir við heimsendir. Ragnarök kapítalismans hét það fyrrum. Þegar sá heimsendir lét bíða á eftir sér fundu vinstrimenn nýja ógn, manngert veðurfar.
Vinstrimenn eru löngum flinkir í orðræðunni. Þeir setja saman tákn og texta með boðskapnum. Lítið dæmi er nýtt meint listaverk í fjörukantinum vestur í bæ, skammt frá JL-húsinu. í texta með verkinu er fjasað um súrnun sjávar. Dómsdagur er í nánd. Grétufræði gerð listræn. Á kostnað skattborgaranna, auðvitað.
Vinstrimenn eru gjarnan sérfræðingar á sviðum þar sem þekking er af skornum skammt. Þróun efnahagskerfa þóttust þeir sjá fyrir á 19. öld og á 21. öld hvernig veðrið verður eftir 50 ár. Samt þora ekki einu sinni veðurfræðingar að spá veðri nema nokkra daga fram í tímann. Litla þekkingu bæta vinstrimenn upp með sjálfsáliti og sannfæringu. Sé þeim andmælt er stutt í fúkyrðaflauminn.
Eins og dæmin sýna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 4. júní 2022
Víetnam og Úkraína
Norður-Víetnamar unnu ekki eina orustu gegn Bandaríkjamönnum í Suður-Víetnam á sjöunda áratug síðustu aldar. En allir sigrar Bandaríkjamanna komu fyrir lítið. Norður-Víetnamar unnu stríðið.
Í vestrænum fjölmiðlum, sjá t.d. hér, er gefið til kynna að Rússar séu í sömu sporum í Úkraínu og Bandaríkin í Víetnam fyrir hálfri öld. Ef þessi leið verður farin, segir leiðarahöfundur Die Welt, þýddi það óhemju mannfórnir.
Samjöfnuðurinn við Víetnam er langsóttur. Úkraína er að stórum hluta byggð Rússum, einkum austurhéruðin, þar sem bardagar eru harðastir. Stríðið í Garðaríki er borgarastyrjöld og væri innansveitarkróníka ef stjórnin í Kænugarði nyti ekki stuðnings vesturlanda.
Úkraínustríðið er 100 daga. Stoltenberg forstjóri Nató segir að stríðið gæti varað í einhver ár. Það er ólíklegt. Rússar eru við það að sigra austurhéruðin, Donbass, segir þýskur hernaðarsérfræðingur. Opin spurning er hvað verði eftir af úkraínska hernum. Tvennum sögum fer af herfræðinni. Ein er að stjórnin í Kænugarði sé tilbúin að fórna fremur mannskap en landi en hin að undanhaldið sé skipulagt og landi fremur fórnað en hermönnum.
Herirnir eru álíka stórir, hvor um 200 þús. Munurinn er sá að Rússar eiga til vara um eina milljón skráða hermenn. Úkraína er ekki með þá dýpt í mannafla.
Stjórnin í Kænugarði er vestrænt verkefni og hefur verið frá stjórnarbyltingunni 2014. Refsiaðgerðir vesturlanda gegn Rússland setja efnahagskerfi Evrópu og Ameríku í uppnám en virðast ekki knýja Rússa til uppgjafar. Þegar haustar verður spurt hversu miklar byrðar almenningur á vesturlöndum eigi að leggja á herðar sér til að Donbass-Rússar verði áfram innan landamæra Úkraínu.
Mestu mistökin, og meginástæða stríðsins sem nú er 100 daga, liggja í pólitík. Allt frá stjórnarbyltingunni 2014 og innlimun Krímskaga var hægt að semja án stórátaka. Tvo þurfti í þann friðartangó. En það var ekki dansað. Skotgrafir voru grafnar og heitstrengingar hafðar í frammi.
Að þessu leyti líkist Úkraína Víetnam. Ráðandi hugmyndafræði á vesturlöndum eftir seinna stríð var að sovésk-kínverskur kommúnismi ógnaði heimsbyggðinni. Víetnamstríðið var háð samkvæmt dómínókenningunni; félli Víetnam fær suðaustur Asía í heild sinni undir kommúnisma. Eftir það öll lönd í álfunni að Miðjarðarhafi og heimurinn í framhaldi. Í raun snerist Víetnamstríðið um að bændaþjóð vildi sitt eigið ríki.
Ríkjandi hugmyndafræði í dag er að Rússland, Pútín sérstaklega, vilji endurvekja Sovétríkin. Falli Úkraína færu Eystrasaltslöndin næst, og þar á eftir Pólland, undir Rússland. Í raun snýst Úkraínustríðið, séð frá sjónarhóli Rússa, um öryggi ríkisins. Úkraína sem Nató-land ógnar tilvist Rússlands. Pútín hefur aldrei sýnt áhuga að leggja undir sig smáríkin við Eystrasalt og enn síður Pólland.
Hugmyndfræði er sterkt afl, mótar stöðumat og aðgerðir. Hugmyndafræði vesturlanda gagnvart Rússlandi er röng, eins og hún var röng í Víetnam fyrir 60 árum.
![]() |
Hörðustu refsiaðgerðirnar til þessa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 3. júní 2022
Ál og fiskur, ánægja og öfund
Besta árið í sögu áliðnaðar er frétt sem vekur ánægju. Sambærilegar fréttir af góðri afkomu fiskveiða vekja ólund og öfund.
Almannagæði eru nýtt til álframleiðslu, orka fallvatnanna. Önnur almannagæði eru nytjuð af sjávarútvegi, fiskimiðin.
Hvers vegna veldur góð afkoma í einni grein ánægju en ólundin er ríkjandi vegna betra gengis annarrar atvinnugreinar?
Hefur það eitthvað með pólitík að gera?
![]() |
Spáir besta ári frá upphafi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 2. júní 2022
Blaðamenn, óþurft og glæpir
Blaðamönnum fækkar jafnt og þétt. Það er ástæða sameiningar tveggja stéttarfélaga þeirra, Ff og BÍ. Upplýsingasamfélagið gerir blaðamenn óþarfa. Þeir hafa hvorki þekkingu né fagkunnáttu fram að færa sem eftirspurn er eftir.
Einu sinni svöruðu blaðamenn spurningunni ,,er þetta frétt." Ef já, þá varð úr frétt í fjölmiðli. Ef nei, þá engin frétt. Til að eitthvað yrði að frétt þurfti heimild. Sérgrein blaðamanna var heimildarýni.
Núna ræður umræðan á samfélagsmiðlum hvort eitthvað sé frétt eða ekki. Vinna blaðamanna fer í að þefa upp færslur á Twitter eða Facebook og gera úr þeim frétt. Heimildarýni er lítil sem engin. Í stað blaðamanna gæti sjálfvirkur teljari séð um að halda lista yfir flestar deilingar og mestan lestur á tilteknum færslum. Fréttin er sjálfssprottin, þarf ekki fæðingarhjálp blaðamanna.
Til að gera sig gildandi leiðast sumir blaðamenn á braut glæpa og siðleysis. Þeir skálda fréttir og taka bullukolla sem trúverðugar heimildir. Í refsikerfinu eru fjórir blaðamenn undir rannsókn fyrir aðild að byrlun og gagnastuldi. Heilir þrír fjölmiðlar eru undir í glæparannsókninni: RÚV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar. Ef þessir fjölmiðlar væru lánastofnanir færu þeir í ruslflokk - enginn vildi ótilneyddur eiga við þá viðskipti.
Ríkisvaldið heldur lífinu í fjölmiðlum sem annars myndu ekki þrífast. Á meðan blaðamen eru sumpart óþarfir og að einhverju leyti lögbrjótar freistast ríkisvaldið til að halda uppi fjölmiðlum með almannafé. Nær væri að hætta öllum styrkjum og leggja niður RÚV. Blaðamennskan sinnti þá nauðsynlegum verkefnum en væri síður til óþurftar. Þaggað yrði niður í Glæpaleiti í eitt skipti fyrir öll.
![]() |
Grætur ekki titilinn og fagnar sameiningunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 1. júní 2022
Hvers vegna tapar Úkraína?
Úkraínu gengur illa í stríðinu við Rússa. Engar líkur eru að Nató-hermenn berjist við hlið Úkraínumanna. Vopnasendingar frá Ameríku og Evrópu komast seint og illa á austurvígstöðvarnar.
Stórskotalið gegnir lykilhlutverki. Fallbyssur og eldflaugar skjóta úr þriggja til 15 km fjarlægð á andstæðinginn. Þegar búið er ,,mýkja" andstæðinginn reynir fótgöngulið fyrir sér og freistar þess að hrekja óvininn af vígvellinum í krafti yfirtölu hermanna á vettvangi gegnumbrots. Myndbönd hafa sést sem minna á skotgrafahernað í fyrra stríði, fyrir rúmri öld.
Í þéttbýli er stundum barist húsi úr húsi. Oftar hörfar andstæðingurinn þegar hann skynjar að við ofurefli liðs er að etja. Í fáein skipti er herlið óvinarins umkringt og gefst upp, sbr. Marípupól.
Herir Úkraínu og Rússa eru álíka fjölmennir, um 200 þús. hjá hvorum aðila. Nær allur rússneski herinn er skipaður atvinnuhermönnum. Hluti úkraínska hersins er fenginn með herkvaðningu og er lítt reyndur í hermennsku. Mannfall er meira hjá Úkraínuher, líklega um 20 til 30 þús. en sennilega 10 til 15 þús. í her Rússa. Hvorugur stríðsaðili gefur upp tölur um eigið manntjón.
Rússar sækja fram hægt og sígandi en fátt er að segja af gagnsókn stjórnarhersins. Meginmunur virðist liggja í yfirburðum Rússa í stórskotaliði og flugvélastuðningi við árásir á jörðu niðri. Þá skiptir höfuðmáli að aðdrættir Rússa eru öruggari, birgðaleiðir eru styttri og tjón á flutningum töluvert minna en hjá Úkraínuher.
Vesturlönd gátu e.t.v. gert útslagið í upphafi átaka í lok febrúar. En nú er það um seinan. Þegar næg stríðsþreyta safnast upp hjá báðum aðilum verður gengið til samninga. Kannski í sumar en mögulega ekki fyrr en í haust. Þangað til ræður dauði og tortíming ferðinni.
![]() |
Ömurlegt að Evrópa fjármagni stríðsrekstur Pútíns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |