Rauðhetta var ekki fjárkúgari

Saga Vítalíu Lasarevu er samtímaútgáfa sögunnar af Rauðhettu sem rataði í gin úlfsins. Vítalía fór í sveitina, líkt og stúlkan í ævintýrinu. Þar beið hennar ekki úlfur heldur þrír hvítir miðaldra karlar með mannaforráð, loðnir um lófana og til í tuskið.

Í sumarbústaðnum í sveitinni fór eitthvað fram sem var nógu ósiðlegt til að karlarnir þrír ,,stigu til hliðar", eins og sagt er á kurteisan hátt, eftir að Vítalía varð á augabragði þjóðkunn fyrir ásakanir sínar.

Fjölmiðlar kveiktu óðara galdrabál og fuðruðu upp þrenn mannorð (raunar fern, en það er hliðarsaga). Femínistar notuðu frásögnina til að kynda undir fordómum um að allir karlar séu inn við beinið nauðgarar.

Þáverandi kærasti Vítalíu var með í för og hefur staðfest að frásögn hennar sé í meginatriðum rétt. Ekki hefur komið fram hvað kærastinn aðhafðist á meðan karlarnir þrír misbuðu stúlkunni. Fálkaorðan fyrir riddaramennsku verður ekki í bráð næld á brjóst Arnars Grant.

Endurskoðuð saga af sumarbústaðaferð Vitalíu og Arnars í október 2020 er að skötuhjúin hafi átt það erindi að flá feita gelti. Höfundar endurskoðuðu útgáfunnar eru Þórður Már Jóhannesson, Ari Edwald og Hreggviður Jónsson sem Vitalía sakar um misgjörð við sig. Þremenningarnir kæra Vitalíu og Arnar fyrir fjárkúgun.

Framtakssemi af þessu tagi er ekki ný af nálinni. Tvær stúlkur hirtu nokkrar millur af knattspyrnumanni fyrir nokkru með hótunum að væna hann um alvarlegt brot. Þær guldu Stígamótum tíund. Hákirkjan fær sitt fyrir erja akurinn og búa í haginn fyrir fjárkúgara.

Rauðhetta er ekki lengur lítil saklaus stúlka heldur kynferðisleg tálbeita, samkvæmt endurskoðuðu útgáfunni. Í ljósi afsagna þremenninganna gleyptu þeir agnið. Úlfarnir stigu ekki ,,til hliðar" fyrir þær sakir að þeir horfðu á Rauðhettu og stunduðu hugrenningasyndir. Eitthvað meira gekk á. Loðnir um lófana eru þeir kannski en kunna síður að halda að sér höndunum.

Réttlætið sem Vitalía krafðist þegar hún kynnti alþjóð raunir sínar virtist þetta hefðbundna í anda Stígamóta og metoo. Opniber smánun gerenda og samfélagsleg útilokun. En ef  fiskur undir steini er sá að 150 milljónir krónu áttu að skipta um hendur verður málið allt annars eðlis. Andstæðurnar eru ekki lengur sekt og sakleysi heldur siðleysi og ósvífni - að ekki sé talað um lögbrot. Gott efni í skáldsögu en lélegt fjölmiðlaefni þar sem hlutirnir þurfa að vera annað tveggja svartir eða hvítir til að blaðamenn skilji.  

Rauðhetta fékk uppreist æru fyrir heimsku sína, að halda úlf ömmu, og var frelsuð heil og óspjölluð úr kviði dýrsins sem fékk makleg málagjöld og drukknaði í brunni. En Rauðhetta, sum sé, var ekki fjárkúgari.

Ævintýrin í sveitinni enda ekki öll vel.

 


mbl.is Engin kæra frá Vítalíu í Löke
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. júní 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband