Engin loftslagsvá - ný bók

Eftir hundrað á verður ekki talað um loftslagsvá, segir sænski loftslagsvísindamaðurinn Lennart Bengtsson í viðtali við Die Welt. Bengtsson gaf nýlega út bókina Hvað verður um loftslagið? (Vad händer med klimatet).

Die Welt er fremur þekkt fyrir að taka undir með þeim sem telja jörðina brátt óbyggilega vegna manngerðs veðurfars. Til að fullvissa lesendur sína um að Bengtsson sé vísindamaður sem beri að taka af fullri alvöru vitnar Die Welt í loftslagsvísindamanninn og Nóbelsverðlaunahafann Klaus Hasselmann sem lofar Bengtsson í bak og fyrir.

En hvað segir Bengtsson í viðtalinu? Jú, til dæmis að hlýnun jarðar undanfarið sé að mörgu leyti blessun, einkum fyrir þá sem búa á norðlægari breiddargráðum. Betri uppskera í landbúnaði og huggulegri lífskjör bjóðist á kaldari slóðum. Ef og þegar Norður-Íshafið opnast fyrir siglingar hafi það jákvæð efnahagsleg áhrif. Fólk deyi miklu oftar úr kulda en hita.

Aðspurður segir Bengtsson að loftslagsvísindin geti fátt sagt um möguleg áhrif hlýnunar á samfélagshætti manna. Aðrar breytur en loftslag skipti meira máli, s.s. stríðsrekstur og efnahagsstjórnun. Hlýnunin gerist hægt og fyrirsjáanlega verði hægt að bregðast við óþægindum. Tíminn til stefnu sé nægur.

Þá vekur Bengtsson athygli á að vísindin viti ekki enn sem komið er hvernig náttúrulegir ferlar breyta loftslagi jarðar. Til dæmis kunna menn ekki skýringar á litlu ísöldinni, 1350-1850. Litla ísöldin er feimnismál í umræðunni. Náttúrulegar breytingar á loftslagi jarðar eru reglan en ekki undantekning. Tímabilið fyrir litlu ísöld er kallað miðaldahlýskeiðið, 900-1300. Þá var töluvert hlýrra á Grænlandi en það er í dag, eða sem nemur 1,5 C.

Þegar Bengtsson er spurður um samlanda sinn, Grétu Thunberg, helsta spámann hamfarahlýnunar svarar hann að þekking sé besta vörnin gegn loftslagsangist. Gréta hætti í skóla til að boða fagnaðarerindið um heimsendi - ekki á forsendum þekkingar heldur trúarhita. Bengtsson óttast að pólitísku hamfaratrúarbrögðin fæli fólk frá vísindum. Það er einkenni samtímans. Háværir aðgerðasinnar kæfa þekkingu.

 


Bloggfærslur 22. júní 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband