Vinstristjórn veit á ófrið - tvær skýringar

Öfgakennd stefnuskrá Samfylkingar og Pírata, t.d. um ESB-kosningar og atlögu að stjórnarskránni, myndi leiða til átaka í samfélaginu ef þessir flokkar kæmust í ríkisstjórn. Viðreisn myndi ekki lægja ófriðarbálið heldur auka það.

Sameiginlegt þessum þrem flokkum er að þeir boða þá stefnu að Ísland virki ekki, að gera þurfi róttæka breytingar á stjórnskipun okkar og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Greiningin er röng í grundvallaratriðum.

Í öllum aðalatriðum virkar Ísland. Á alþjóðlega mælikvarða um hagsæld og velferð, jafnrétti og öryggi, er Ísland í úrvalsflokki.

Seinni ástæðan fyrir ófriði sem fylgdi vinstristjórn nefnir Björn Valur, fyrrum varaformaður Vinstri grænna, er félagslegur veikleiki flokka eins og Pírata og Viðreisnar. Flokkarnir eru ,,lítið annað en hylkið utan um forystufólkið sem gerir þá afar brothætta í samstarfi."

Björt framtíð var slíkur flokkur. Á næturfundi forystu flokksins var síðasta ríkisstjórn sprengd. Morguninn eftir tilkynnti annar smáflokkur án baklands, Viðreisn, sömu fyrirætlan - að sprengja ríkisstjórnarsamstarf í óðagoti.

Öfgakennd stefnuskrá Samfylkingar og flokksstarf Viðreisnar og Pírata, sem er lítið meira en spjallþráður á samfélagsmiðli, gerir vinstristjórn að versta mögulega kosti þjóðarinnar.


mbl.is Hinn kosturinn „ríkisstjórn samfélagslegra átaka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Rauði krossinn að flytja inn í landið?

Rauði krossinn fær fjármuni frá ríkinu til að aðstoða fólk í vanda á fjarlægum slóðum. Rauði krossinn fær einnig fjármuni og heimild frá yfirvöldum að skjóta skjólshúsi yfir framandi fólk í neyð og bjóða þeim heimili á Íslandi.

Augljóst er af dómi héraðsdóms í málefnum tiltekinnar fjölskyldu að Rauði krossinn hefur algerlega brugðist þegar þessi fjölskylda fékk landvist. Brotið er tvíþætt. Í fyrsta lagi að ganga ekki úr skugga um að fjölskyldan væri tæk í íslenska menningu. Í öðru lagi að fylgja fjölskyldunni ekki eftir til að hún myndi aðlagast íslenskum siðum og háttum.

Í ljósi dómsins verður að krefja Rauða krossinn svara um hvaða ráðstafanir stofnunin hyggst gera til að mál af þessu tagi endurtaki sig ekki.


mbl.is Faðir dæmdur fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin hætta á stöðnun, heldur óstöðugleika

Íslenska hagkerfið er galopið, erlendar fjárfestingar flæða inn í landið. Íslenskir námsmenn fara í erlenda háskóla og fyrirtæki hér eiga í margvíslegu samstarfi við útlend. Það er engin hætta á stöðnun í þjóðfélaginu.

Á hinn bóginn er veruleg hætta á pólitískum óstöðugleika sem myndi bæði flæma burt erlenda fjárfestingu, valda lausatökum á efnahagsmálum og og auka úlfúð í samfélaginu.

Þess vegna þurfum við sterka ríkisstjórn fárra flokka sem mynda breidd í stjórnmálum. Aðeins ein slík er í boði. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks.


mbl.is Ríkisstjórn stöðnunar blasi við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn, málamiðlanir og byltingin

Vinstrimenn reyna núna margir hverjir að koma í veg fyrir að Vinstri grænir myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Það er ekki spurt um málefni heldur alið á andúð og tortryggni.

Í fortíðinni voru vinstriflokkar marxískir byltingarflokkar, jafnvel Alþýðuflokkurinn á árdögum sínum fyrir hundrað árum. Byltingarhugsjónin er annað-hvort-eða-stjórnmál, leyfir ekki málamiðlanir.

Á síðustu árum og áratugum eru vinstriflokkarnir í reynd orðnir kerfisflokkar. Þeir stefna ekki að byltingu. Það sást best í tíð einu hreinu vinstristjórnar lýðveldissögunnar, Jóhönnustjórninni 2009-2013.

Í efnahagsmálum, sem eru ær og kýr sígildra marxista, gerði Jóhönnustjórnin nákvæmlega ekki neitt til að breyta ríkjandi skipulagi. Frá og með kjörtímabilinu 2009-2013 viðurkenna vinstrimenn að ríkjandi samfélagsskipun sé sú besta sem völ er á - svona í meginatriðum.

Róttækni Jóhönnustjórnarinnar birtist í tveim málum, nátengdum: ESB-umsókninni og stjórnarskrármálinu. Í báðum tilvikum var stjórnin gerð afturreka. Það var ekki nægilegt fylgi í samfélaginu fyrir ESB-stjórnarskrá.

Lýðræðisstjórnmál byggja á málamiðlunum. Ef til verður ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks verður það merkisatburður í sögu lýðveldisins. Ekki síðan í nýsköpunarstjórninni 1944-1947 hafa sjálfstæðismenn og sósíalistar, forverar Vinstri grænna, starfað saman í ríkisstjórn.

Nýsköpunarstjórnin er fyrsta þingstjórn lýðveldisins. Stjórnin lagði grunninn að íslenska velferðarkerfinu með blönduðu hagkerfi, almannatryggingum og menntun fyrir alla.

Ný ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum innanborðs sýndi að stjórnmálamenning okkar sé komin til þroska. Í nafni lýðræðislegra málamiðlana geta flokkar yst á hvorum væng stjórnmálanna náð samkomulagi til heilla fyrir land og þjóð. Það yrði sigur lýðræðis yfir andúð og tortryggni.


mbl.is Óformlegum viðræðum haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit, Viðreisn og Samfylking

Stærsta viðskiptaland okkar í Evrópusambandinu, Bretland, hættir ESB-aðild eftir tvö ár. Tveir einsmálsstjórnmálaflokkar á Íslandi, Viðreisn og Samfylking, eru með það á stefnuskrá sinni að viðskiptakjör Íslands við Bretland verði ákveðin í Brussel, af Evrópusambandinu.

Ef Íslandi væri ESB-ríki, líkt og Viðreisn og Samfylking vilja, yrði nákvæmlega ekkert tillit tekið til íslenskra hagsmuna í samskiptum milli ESB annars vegar og hins vegar Bretlands.

Þegar það rennur upp fyrir fólki hversu hættuleg stefna Viðreisnar og Samfylkingar er íslenskum hagsmunum verða flokkarnir enn minni en þeir eru í dag. Og lengi getur smátt minnkað.


mbl.is Fara út með eða án samnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Andri, Björn Valur og klofningur vinstrimanna

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og þingmaður Samfylkingar segir Vinstri græna, Samfylkingu og Pírata eitt og sama stjórnmálaaflið, sem er sögulega rangt.

Samflokksmaður og starfsbróðir Guðmundar Andra, Hallgrímur Helgason, segir vinstrimenn þjást af sjúkdómi vanmetakenndar og vantrúar.

Aðeins einu sinni sátu vinstrimenn einir að landsstjórninni. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 var tveggja flokka stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Í kosningunum 2013 setti annar flokkurinn, Samfylking, heimsmet í fylgishruni stjórnmálflokks, fór úr tæplega 30 prósent fylgi 2009 í 12,9 prósent.

Lærdómurinn? Jú, farsælast er fyrir vinstrimenn og þjóðina að vinstriflokkarnir skiptist í stjórn og stjórnarandstöðu. En þannig hefur það verið lengst af í lýðveldissögunni. Til heilla fyrir land og þjóð.

Forveri Samfylkingar, Alþýðuflokkur, var í því hlutverki að starfa með Sjálfstæðisflokknum, þegar mál skipuðust á þann veg. Undanfari Vinstri grænna, Sósíalistaflokkur/Alþýðubandalag, starfaði aldrei með Sjálfstæðisflokknum frá 1947 að telja.

Fyrrum varaformaður Vinstri grænna, Björn Valur Gíslason, boðar að tími sé til kominn að Vinstri grænir starfi með Sjálfstæðisflokknum.

Guðmundur Andri og Hallgrímur geta ekki hugsað sér hlutverk hornkerlingarinnar. Samfylkingin var stofnuð til að verða valdaflokkur en er minni en Vinstri grænir tvennar kosningar í röð. Smáflokkur getur ekki gert tilkall til valda. Það er mergurinn málsins.

 


Ásökun um nauðgun: gildisdómur eða staðreynd?

Ásökun um að einhver sé nauðgari jafngildir ásökun um glæp, enda nauðgun refsivert brot, segir Mannréttindadómstóllinn Evrópu. Nei, segir hæstiréttur á Íslandi, að kalla einhvern nauðgara getur verið gildisdómur, og refsilaust er halda fram gildisdómi.

Þetta er spurning um sjónarhorn. Að kalla einhvern nauðgara gæti verið yfirlýsing um hugarfar viðkomandi og þar með gildisdómur. En gæti líka verið staðhæfing um að viðkomandi hafi nauðgað og þar með staðhæfing um staðreynd.

Blæbrigðin þarna á milli eru hárfín og verður að meta hvert tilfelli fyrir sig. Þegar meta skal blæbrigði umræðu, og ákveða hvort hún skuli refsiverð eða ekki, standa þeir dómstólar sterkari að vígi sem lesa umræðuna á frummálinu.


mbl.is Sendir misvísandi skilaboð með dómum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallgrímur hótar Vinstri grænum

Frambjóðandi Samfylkingar, Hallgrímur Helgason rithöfundur, hótar Vinstri grænum aðför á samfélagsmiðlum hefji þeir viðræður við Sjálfstæðisflokk um myndun ríkisstjórnar. Hallgrímur birtir hótunina í pistli á Stundinni:

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sem og hinn óstýriláti lausaleikskrói þeirra sem skírður var Miðflokkur, eru og verða í tröllahöndum. Þetta eru eitraðir flokkar. Sá sem sest í stjórn með þeim deyr í stólnum. Á staðnum.

Hallgrímur segir ,,öskrið okkar eina skjól" í lokaorðum og vísar þar í mátt samfélagsmiðla að gera ys og þys út af engu.

Vinstrimaðurinn Hallgrímur er þekktur fyrir næmt pólitískt stöðumat. Í frægri grein í Morgunblaðinu haustið 2002 skrifaði hann um meinta tilraun Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra að hemja útrásarauðmenn:

Við sem heima sitjum skiljum ekki hvers vegna guðfaðir nýja hagkerfisins snýst gegn bestu börnum þess. Við skiljum ekki hvers vegna sjálfstæðismenn beita öllu sínu gegn sjálfstæðustu mönnum landsins.

Okkur sem vorum að vona að íslenska efnhagskerfið væri loksins að fullorðnast tók það sárt að sjá lögregluvaldi misbeitt gegn framsæknum viðskiptamanni á örlagastundu; einn stærsti árangur Íslendinga í alþjóðaviðskiptum var eyðilagður af litlum mönnum með stór völd.

Hallgrímur er á opinberu framfæri sem rithöfundur. Hann fær listamannalaun frá ríkinu upp á 370 þúsund krónur á mánuði en gefur aðeins upp til skatts 140 þúsund krónur í tekjur. Skattahagræði Hallgríms felst í því að hann telur sjálfan sig fram sem fyrirtæki, verktaka.

Maður með pólitíska næmni Hallgríms og siðferðilega yfirburði telur eðlilega sóma sínum best borgið með öskri á samfélagsmiðlum.


mbl.is Þrír að hefja viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir fái frest vegna samfélagsmiðla

Vinstri grænir láta þau boð út ganga að ekkert liggi á að mynda ríkisstjórn. Þeir eru minnugir eineltisins á samfélagsmiðlum í fyrra þegar Björt framtíð fékk yfir sig gusurnar fyrir að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.

Vinstri grænir eru í eftirfarandi valþröng. Í fyrsta lagi geta þeir myndað veika 4-5 flokka ríkisstjórn þar sem Framsóknarflokkurinn yrði með forsætisráðuneytið. Í öðru lagi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn/Miðflokknum. Þar er gæti Katrín orðið forsætisráðherra. Umræðan á samfélagsmiðlum yrði hávær, einkum frá bloggher Samfylkingar og Pírata. 

Þriðji kosturinn er að sitja á friðarstóli í stjórnarandstöðu og vísa frá sér allri ábyrgð á landsstjórninni. Sá friður gæti orðið dýrkeyptur til lengri tíma litið. Vinstri grænir færu í sama flokk og Píratar, óstjórntækir.

Sjálfsagt er að veita Vinstri grænum langan frest. Liggur nokkuð á að mynda stjórn fyrir jól?


mbl.is Þreifingar við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál: glataður lærdómur frá 1947

Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar sprakk fyrir 70 árum, 1947. Samfylking hét reyndar Alþýðuflokkur þá og Sósíalistaflokkurinn er forveri Vg.

Í 70 ár hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og sósíalistum. Nú má spyrja: höfum við ekkert lært?

Víst höfum við eitthvað lært. Til dæmis sjálfsagða hluti eins og að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir eru andstæðir pólar.

Annað fór framhjá okkur. Pólskiptingin stafaði ekki síst af utanríkismálum, afstöðunni til Nató og varnarliðsins. Það ágreiningsefni gufaði upp að mestu 2006 þegar herinn fór úr landi.

Vinstri grænir eru ekki sósíalistar nema að nafninu til. Þeir stóðu ekki fyrir þjóðnýtingu 2009-2013 þegar færi gafst í tíð Jóhönnustjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkur einkavæðir ekki allt til andskotans þótt hann sé í stjórn.

Lærdómurinn sem við eigum enn eftir að tileinka okkur er að Samfylkingin er komin í hlutverk Sósíalistaflokksins 1947 en Vinstri grænir eru hófstillta vinstrið. Þetta blasir við ef maður kíkir undir vélarhlíf stjórnmálanna.


mbl.is Katrín hitti Sigmund Davíð í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband