Bylting kemur ekki í bútum - gagnbylting ekki heldur

Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar ætlaði að bylta samfélaginu. Ný stjórnarskrá, nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi og aðild að Evrópusambandinu var byltingartilraun.

Vanmetakindurnar á vinstrikantinum fengu aldrei í lýðveldissögunni umboð frá þjóðinni til landsstjórnar. Undantekningin var hrunkosningin 2009. Nú skyldi höggva, bæði lýðveldið og andstæðingana. Byltingarrúsínan í pylsuendanum var sýndarréttarhöld yfir föllnum forsætisráherra Sjálfstæðisflokksins. Handritið var frá Moskvu á fjórða áratug síðustu aldar.

Jóhanna segir núna að líklega færðist vinstristjórnin 2009-2013 of mikið í fang. Það er mislestur á aðstæðum. Eftir að Samfylking sveik Sjálfstæðisflokk og felldi ríkisstjórn Geirs H. Haarde var ekki aftur snúið. Valdataka vinstrimanna vorið 2009 var allt eða ekkert. Annað tveggja var að uppfylla villtustu drauma vitlausa vinstrisins í einni andrá eða það yrði alls engin vinstristjórn. Bylting kemur ekki í bútum heldur holskeflum. Það vita allir sem kunna sögu.

Vinstristjórn Jóhönnu hlaut að gera ítrustu kröfur um uppstokkun samfélagsins vorið 2009. Allt frá fyrsta klofningi vinstrimanna, 1930 þegar kommúnistar klufu sig úr Alþýðuflokknum, höfðu þeir beðið eftir þessu tækifæri. Og 79 ár er langur tími.

En rétt eins og byltingin kemur ekki í bútum gerir gagnbyltingin það ekki heldur. Það tókst að lama ríkisstjórn Jóhönnu Sig. strax veturinn 2010. Ekki síst vegna þess að auðvelt var að sýna ríkisstjórnina and-íslenska. Óopinbert slagorð stjórnarinnar var ,,ónýta Ísland." Almenningur vissi sem var að hrunið leiddi ekki í ljós ónýtt samfélag heldur rotið bankakerfi. Nokkur munur á þessu tvennu. En vinstrimenn skilja hvorki fjármál né þjóðina; þess vegna eru þeir í svo mörgum flokkum.

Stjórnin hékk út kjörtímabilið en það var aðeins fyrir spéhræðslu ráðherranna og ferðarisnu Birgittu að meirihlutinn féll ekki.

Í kosningunum 2013 skellur fallöxin á misheppnuðu byltinguna. Fjórum árum áður fengu Vinstri grænir og Samfylking meirihluta atkvæða. Vorið 2013 fékk Samfylking 12,9 prósent fylgi og Vinstri grænir tveim prósentum minna.

Á Íslandi er einfaldlega ekki eftirspurn eftir byltingu.

 


mbl.is Færðumst of mikið í fang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjáningarfrelsið - þrátt fyrir Loga

Tjáningarfrelsinu í stjórnarskránni er óhætt á meðan menn eins og Snorri Óskarsson nýta sér það til að tjá sannfæringu sína. Eða eins og segir í 73. grein stjórnarskrárinnar:

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. 

Logi Einarsson formaður Samfylkingar  sagði mannréttindi Snorra lítils virði ef hann nýtti þau til að hafa rangar skoðanir. Logi sagði í viðtali:

Varðandi tjáningarfrelsi Snorra segir Logi að tjáningarfrelsinu séu settar skorður. „Tjáningarfrelsið, það má aldrei skerða rétt annarra,“ segir Logi.

Samkvæmt Loga er tjáningarfrelsið aðeins fyrir ,,réttar" skoðanir. Menn eins og Logi eru stórhættulegir mannréttindum. Útgáfa Loga af mannréttindum er beint upp úr Dýrabæ Orwell: sumir eru jafnari en aðrir, sumar skoðanir á að banna.


mbl.is Snorri í Betel fær 6,5 milljónir í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstritrú, valdleysi og einangrun

Hrein vinstritrú var til skamms tíma að vinna ekki með Sjálfstæðisflokki. Aðeins einn flokkur var ,,hreinn" í þessum skilningi, Vinstri grænir. Að stórum hluta stafaði sakleysið af valdleysi.

Forverar Vinstri grænna, Alþýðubandalag og Sósíalistaflokkur, voru aldrei nógu öflugir flokkar, mælt í þingstyrk og áhrifum í samfélaginu, til að verða samstarfsaðili Sjálfstæðisflokks. Stærsti ásteytingarsteinninn var þó alltaf afstaðan til veru bandaríska hersins á Miðnesheiði. Það ágreiningsefni gufaði upp hægt og hljóðlega árið 2006.

Vinstri grænir, sem kjósa að halda í ,,hreinleikann", óska sér í reynd valda- og áhrifaleysis. Sem er nokkuð kyndug afstaða fyrir fólk sem á annað borð gefur sig að pólitík. 


mbl.is Drífa Snædal segir sig úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stétt með stétt

Um 80 prósent Íslendinga telja sig til millistéttar. Launajöfnuður er hvað mestur hér í alþjóðlegum samanburði.

Ný ríkisstjórn byggð á breiddinni í stjórnmálum leitar sjálfkrafa í meðalhófið sem að nokkru glataðist í umróti útrásarinnar.

Ríkisstjórnin þarf ekki að hugsa stórt en hún þarf að vanda sig.


mbl.is Sáttmáli kynntur í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótímabærar kosningar eru skaðvaldur

Í þingkosningum kynna stjórnmálaflokkar útgjöld til að kaupa sér atkvæði. Margt er sagt loðið í kosningabaráttunni en engu að síður er hægt að námunda útgjöldin, líkt og Seðlabankinn hefur gert.

Tvennar þingkosningar á einu ári eru þjóðarbúinu dýrkeyptar og samfélaginu til skaða.

Annað tveggja gerist eftir kosningar. Stjórnmálaflokkar efna loforðalistann og setja þjóðarbúið á hausinn eða þeir vinda ofan af loforðum um útgjöld og efna þau ekki nema að hluta. Við þær aðstæður er hægt að saka stjórnmálin um að svíkja gefin loforð.

Hvorugt er vel gott.


mbl.is Viðskiptaafgangur hyrfi á þremur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máttarstólpar í meiðyrðum

Hæstiréttur er einn máttarstólpi lýðveldisins og Jón Steinar Gunnlaugsson er einn af máttarstólpum umræðunnar síðustu áratugi. Nú mætast hæstaréttardómari og Jón Steinar í réttarsal til að útkljá hvar gagnrýni þess síðarnefnda stendur gagnvart 73. grein stjórnarskrárinnar. En þar segir:

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi.

Sumum finnst heldur slæmt að gagnrýni Jóns Steinars á hæstarétt skuli fara fyrir dóm. Önnur og jákvæðari túlkun á málsatvikum er að æskilegt sé að dómstólar leggi reglulega mat á hvar tjáningarfrelsið endar og æruvernd tekur við. Landamærin þar á milli eru í stöðugri endurskoðun eins og sæmir lifandi samfélagi umræðunnar. 


mbl.is Mál Benedikts og Jóns Steinars þingfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfengi, kjöt og frjálslyndi

Áfengi í matvörubúðir og óheftur innflutningur á fersku kjöti er kennt við frjálslynda pólitík. Lýðheilsurök mæla með að áfengi skuli selt í sérverslunum og ferskt kjöt útlent sæti innflutningstakmörkum.

Reynslan styður lýðheilsuna, áfengisvandi íslenskra ungmenna er minni en víðast á byggðu bóli og íslensk matvæli hollari en gengur og gerist.

Þegar reynsla og lýðheilsa standa andspænis frjálslyndi hlýtur pólitíkin að víkja fyrir heilbrigðri skynsemi.


mbl.is Dómur EFTA geti „ógnað lýðheilsu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkjan, siðferði og lög

Líkt og margar starfsstéttir búa prestar við siðareglur. Siðanefndir starfsstétta meta kærur og skrifa úrskurði sem ætlaðir eru til siðbótar. Öllum stéttum er hollt að búa að aðhaldi skráðra siðareglna.

Aftur vandast mál þegar álitaefni siðanefnda snúa að mögulegum lögbrotum. Lög landsins eru æðri faglegum siðareglum og þar gilda strangari reglur um málsmeðferð en hjá siðanefndum starfsstétta. Siðanefnd blaðamanna tók ákvörðun fyrir mörgum árum að fjalla ekki um mál sem jafnframt væru til meðferðar dómstóla.

Kirkjan virðist hafa ratað í mál sem áhöld eru um hvort eigi heima hjá siðaráði eða kalli á lögreglurannsókn. Í ljósi erfiðra mála sem mætt hafa á kirkjunni á liðnum árum kemur ókunnugum spánskt fyrir sjónir að verkferlar kirkjunnar skuli ekki vera skýrari en raun ber vitni.

 


mbl.is Mögulegt trúnaðarbrot á kirkjuþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingið ræður, ekki forsetinn

Þingræði var komið á hérlendis 40 árum áður en lýðveldið var stofnað. Þingræðið felur í sér að meirihluti þingsins ber ábyrgð á ríkisstjórn hverju sinni. 

Aðeins í undantekningatilvikum kemur til kasta forsetans. Ef alþingi mistekst að mynda meirihluta og viðvarandi stjórnarkreppa blasir við, talin í misserum fremur en mánuðum, ætti að beita forsetavaldi til að skipa utanþingsstjórn.

Forsetinn þjónar þjóðinni, lýðveldinu og lýðræðinu best þegar hann skiptir sér ekki af málum nema í neyð. Ekkert neyðarástand blasir við og því farsælast að forsetinn sinni táknrænum athöfnum en leyfi þingheimi að ráða fram úr sínum málum.


mbl.is Guðni stýrir meira en forverar hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið breytist - engar fréttir þar

Veðurfar á jörðinni tekur breytingum. Um árið 1000 var hlýskeið. Norrænir menn byggðu Grænland og stunduðu kvikfjárrækt. Íslendingar bjuggu í stórum skálum og ornuðu sér við langelda.

Um 1300 tók að kólna. Byggð á Grænlandi lagðist af og Íslendingar gerðu óupphitaða baðstofu að helsta íverustað sínum innan veggja heimilisins. Kuldatímabilið varir fram á 19. öld og er kallað litla ísöld.

Fyrir fáeinum árum, rétt áðan á mælikvarða veðurfarsins, þóttust vísindamenn sjá merki um að mennskar athafnir, einkum notkun jarðefnaeldsneytis, ylli hlýnun. En þeir skiptu óðara um skoðun og kalla hlýnunina núna ,,breytingar" en halda fast við mennskar orsakir.

Nokkrir gamlingjar á sviði náttúruvísinda fóru yfir helstu álitamálin. Í eldri bloggfærslu:

Fred Singer er á tíræðisaldri og prófessor í umhverfisvísindum. Hann segir engar sannanir fyrir hlýnun af mannavöldum.

Norsk-ameríski nóbelsverðlaunahafinn Ivar Giaver segir loftslagsvísindin í höndum sértrúarmanna sem brjóti meginreglur vísindanna um að leita sannleikans. Ivar er 88 ára.

Carl-Otto Weiss er þýskur vísindamaður. Hann sýnir fram á að loftslagsbreytingar eru náttúrulegar sveiflur; ekki af mannavöldum. Carl-Otto er 76 ára.

Freeman Dyson prófessor í Princeton er með þrjá yfir nírætt. Leggjum ekki trúnað á reiknilíkönin um að jörðin verði óbyggileg er hans viðhorf. Þvert á móti er jörðin lífvænlegri en áður.

Með orðum loftslagsvísindamannsins Roy Spencer; veðrið breytist, með eða án tilverknaðar okkar.


mbl.is Loftslagsbreytingar munu versna frekar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband