Bylting kemur ekki í bútum - gagnbylting ekki heldur

Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar ætlaði að bylta samfélaginu. Ný stjórnarskrá, nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi og aðild að Evrópusambandinu var byltingartilraun.

Vanmetakindurnar á vinstrikantinum fengu aldrei í lýðveldissögunni umboð frá þjóðinni til landsstjórnar. Undantekningin var hrunkosningin 2009. Nú skyldi höggva, bæði lýðveldið og andstæðingana. Byltingarrúsínan í pylsuendanum var sýndarréttarhöld yfir föllnum forsætisráherra Sjálfstæðisflokksins. Handritið var frá Moskvu á fjórða áratug síðustu aldar.

Jóhanna segir núna að líklega færðist vinstristjórnin 2009-2013 of mikið í fang. Það er mislestur á aðstæðum. Eftir að Samfylking sveik Sjálfstæðisflokk og felldi ríkisstjórn Geirs H. Haarde var ekki aftur snúið. Valdataka vinstrimanna vorið 2009 var allt eða ekkert. Annað tveggja var að uppfylla villtustu drauma vitlausa vinstrisins í einni andrá eða það yrði alls engin vinstristjórn. Bylting kemur ekki í bútum heldur holskeflum. Það vita allir sem kunna sögu.

Vinstristjórn Jóhönnu hlaut að gera ítrustu kröfur um uppstokkun samfélagsins vorið 2009. Allt frá fyrsta klofningi vinstrimanna, 1930 þegar kommúnistar klufu sig úr Alþýðuflokknum, höfðu þeir beðið eftir þessu tækifæri. Og 79 ár er langur tími.

En rétt eins og byltingin kemur ekki í bútum gerir gagnbyltingin það ekki heldur. Það tókst að lama ríkisstjórn Jóhönnu Sig. strax veturinn 2010. Ekki síst vegna þess að auðvelt var að sýna ríkisstjórnina and-íslenska. Óopinbert slagorð stjórnarinnar var ,,ónýta Ísland." Almenningur vissi sem var að hrunið leiddi ekki í ljós ónýtt samfélag heldur rotið bankakerfi. Nokkur munur á þessu tvennu. En vinstrimenn skilja hvorki fjármál né þjóðina; þess vegna eru þeir í svo mörgum flokkum.

Stjórnin hékk út kjörtímabilið en það var aðeins fyrir spéhræðslu ráðherranna og ferðarisnu Birgittu að meirihlutinn féll ekki.

Í kosningunum 2013 skellur fallöxin á misheppnuðu byltinguna. Fjórum árum áður fengu Vinstri grænir og Samfylking meirihluta atkvæða. Vorið 2013 fékk Samfylking 12,9 prósent fylgi og Vinstri grænir tveim prósentum minna.

Á Íslandi er einfaldlega ekki eftirspurn eftir byltingu.

 


mbl.is Færðumst of mikið í fang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"En vinstrimenn skilja hvorki fjármál né þjóðina"

Hárrétt, en svo kemur:

"Á Íslandi er einfaldlega ekki eftirspurn eftir byltingu."

Sem er kolrangt með hliðsjón af framangreindu.

A Íslandi er nefninlega gríðleg eftirspurn eftir þeirri umbyltingu á fjármálakerfinu sem sumir flokkar hafa einmitt boðað.

Þar er afnám verðtryggingar lána til neytenda efst á blaði.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.11.2017 kl. 23:11

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Til hvers er nauðsynlegt að afnema verðtrygginguna? Þú veist að líkindum að allir sem taka lán eru spurðir að því hvort þeir vilji verðtryggt eða óverðtryggt. Þá er boðið víðast hvar upp á skilmálabreytingum á þegar veittum lánum, úr verðtryggðu yfir í óverðtryggt og öfugt.

Af hverju er þessi krafa um að taka val neytenda frá þeim með því að banna verðtrygginguna? Er þetta ekki ákvörðun sem á að vera í valdi hvers og eins?

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 17.11.2017 kl. 00:32

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Aldrei talað um að verðtryggingin virkar á báða vegu. Hún hverfur þá líka af sparifé og innistæður fólks brenna upp í bönkum. Enginn sæi tilgang í sparnaði.

Merkilegt að sjá Jóhönnu stæra sig af að hafa lækkað skuldir. Þar er hún að tala um að Icesave greiddi sig sjálft, krófur bankanna seldar á hrakvirði og skotleyfi hrægamma gefið á almenning. Já og svo salan á veðinu í FIh, danska bankanum sem seldur var hrægömmum á 70 milljarða en sem seldur var á 1200 milljarða strax á eftir og hrægammarnir hlógu alla leið í bankann.

Það lágu engar aðgerðir þeirrar ríkistjórnar í lækkun skulda sem urðu til við hrunið. Þvert a möti var það stæsta fjármálablönder sögunnar. 

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2017 kl. 06:43

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Predikarinn.

Svarið er það sama og við spurningunni: Hvers vegna eigum við að banna eitur í matvælum eða hindra mengun í drykkjarvatni? Augljóslega vegna þess að slíkt er skaðlegt. Neytendavernd gengur út á að koma í veg fyrir viðskiptahætti og vörur sem eru skaðleg fyrir neytendur. Það dettur engum í hug að neytendur eigi að hafa val um kaupa eitruð matvæli enda væri það fáránleg hugmynd. Það sama á við um aðrar skaðlegar vörur, þar á meðal fjármálaafurðir, en af þeim eru verðtryggð lán þau langskaðlegustu sem neytendum er boðið upp á. Þau eru ekki aðeins varasöm fyrir einstaka lántakendur heldur hafa þau líka skaðleg áhrif sem smitast yfir á allt fjármálakerfið og þar með alla aðra líka. Þeir sem verða þolendur þeirrar skaðsemi hafa aldrei fengið neinn valkost um að hafna henni. Frelsi hefur nefninlega tvær hlíðar, það snýst ekki aðeins um að hafa val á milli ólíkra kosta heldur er maður er ekki raunverulega frjáls nema maður sé líka frjáls undan skaðlegum áhrifum af þeim valkostum sem aðrir velja.

Þegar erlendir aðilar sem þekkja vel til á fjármálamörkuðum í öðrum löndum heimsækja Ísland og þeim er sagt frá því að á Íslandi séu langflest neytendalán verðtryggð og hvernig sú verðtrygging er útfærð, eru viðbrögðin nánast undantekningalaust vantrú í fyrstu og svo hneykslan í kjölfarið. Í heimalöndum þeirra þjóna nefninlega vextir því hlutverki að færa lánveitendum sanngjarnt endurgjald fyrir afnot af lánsfé, en hér á landi eru ekki aðeins háir vextir á lánum heldur verðtrygging líka, sem fyrir utan að vera algjör óþarfi er líka beinlínis varasamt. Auk þess er mikil útbreiðsla verðtryggða neytendalána ein meginástæðan fyrir því að óverðtryggðir vextir eru eins háir og raun ber vitni, því þeir eru beinlínis ákvarðaðir með hliðsjón af raunávöxtun verðtryggðu lánanna.

Jón Steinar.

Veistu hver er besti fjárfestingarkosturinn í dag fyrir þá sem eiga fé og vilja ávaxta það? Það eru alls ekki verðtryggð innlán, heldur íbúðarhúsnæði. Það er ekki verðtryggt en ávöxtunin kemur til vegna hækkandi fasteignaverðs. Ég heyrði til dæmis nýlega um verktaka sem var að byggja fjölbýlishús, en honum liggur ekkert á því að selja íbúðirnar og leggja peningana í banka  því hann hagnast mun meira á því að eiga þær bara áfram enda hafa þær á undanförnum 12 mánuðum hhækkað í verði um hátt í 20% og auk þess getur hann á sama tíma haft tekjur af því að leigja þær út.

Þegar talað er um afnám verðtryggingar neytendalána er í fyrsta lagi ekki verið að tala um að afnema hana af innlánum og í öðru lagi ekki af öðrum lánum en neytendalánum, til að mynda ekki af lántökum ríkissjóðus eða fyrirtækja. Þvert á móti hefur verið bent á til að mynda í skrifum Ólafs Margeirssonar doktors í hagfræði sem ég hvet þig til að lesa, að það eigi með réttu að vera hlutverk ríkisins að sjá fyrir framboði á verðtryggðum fjárfestingarkostum, til dæmis með útgáfu skuldabréfa til fjárfesta og spariskírteina til almennings. Enginn hefur lagt til að horfið verði frá því heldur aðeins að leysa heimilin undan þessu hlutverki sem þau hafa aldrei farið fram á að gegna. Auk þess er ekki hægt að tala um að almenningur eigi verðtryggð innlán í neinum verulegum mæli enda eru flestir þeirra fagfjárfestar og samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands nema verðtryggð innlán einstaklinga innan við 100 milljörðum á meðan verðtryggð útlán þeirra nema yfir 1.500 milljörðum.

Jafnvel þó verðtryggð innlán myndu hverfa er ekki þar með sagt að allir hvatar til sparnaðar hverfi, það eina sem þyrfti að koma í staðinn væru fjárfestingarkostir sem gefa meiri ávöxtun en sem nemur verðbólgu. Í öllum öðrum löndum landi þjóna vextir því hlutverki og þarf ekki verðtryggingu líka til þess að skila ávöxtun umfram verðbólgu.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.11.2017 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband