Yfirþjóðlegt vald í nafni loftslags

Yfirþjóðlegar stofnanir eins og Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar hanga eins og hundur á roði á hræðslufræðum um að maðurinn hafi áhrif á loftslag jarðarinnar. Þau fræði eru nær hjátrú en vísindum. 

Yfirþjóðlegar stofnanir sækja sér vald yfir þjóðríkjum og réttlæta það með vísun í það að einstökum þjóðum sé um megn að breyta loftslaginu. En, óvart, þá geta engar mennskar stofnanir gert stórar breytingar á loftslagi - hvorki til hins betra né verra.

Þjóðríkin, eins og leiðari Guardian segir, nenna ekki að elta loftslagsvitleysuna þótt þau skrifi upp á samninga þess efnis.

Bandaríkin hættu aðild að Parísarsamkomulaginu um lofthita á jörðinni í framtíðinni. Vinstri grænir á Íslandi hlaupa í skarðið og bjarga jarðlífinu með skattaálögum á íslenskan almenning. Miklir menn erum við, Hrólfur minn. 


mbl.is Ísland geti kennt umheiminum ýmislegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump-hagfræðin hækkar laun lágtekjuhópa

Lágtekjufólk í Bandaríkjunum sér fram á betri tíð með blóm í haga á meðan Trump er forseti. Láglaunafyrirtæki eins og Amazon hækka launin enda eykst samkeppnin um starfsmenn þegar atvinnuleysi minnkar.

Trump-hagfræðin gengur út á að flytja framleiðslustörf heim til Bandaríkjanna, frá láglaunasvæðum í þriðja heiminum. Hann segir upp óhagstæðum tollasamningum og gerir nýja, leggur á tolla á kínverskar og evrópskar vörur og bætir hag þess fólks sem kaus hann í Hvíta húsið.

Trump-hagfræðin virkar fyrir Bandaríkjamenn á lágum launum.


mbl.is Trump fagnar „frábærum samningi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír bankar 2008, þrjú flugfélög 2018

Fyrst féll Glitnir, þá Landsbankinn og loks Kaupþing. Haustið 2008 aflitaði íslenska bankakerfið á fáeinum dögum. Vikur og mánuði áður kepptust bankamenn að mála reksturinn skærum litum. Með dyggri aðstoð fjölmiðla sögðust þeir fullfjármagnaðir til margra ára.

Tíu árum síðar fellur flugfélagið Primera hvers forstjóri og aðaleigandi er nýbúinn að tilkynna stórsókn í háloftunum, fullfjármagnaða, auðvitað. Forstjóri og aðaleigandi WOW segir nýverið að félagið fái peningasekki frá útlöndum, eins og Kaupþing fékk frá Al-Thani forðum daga. Milljarða skuld við Isavia er ónefnt aukaatriði. Vonandi tilkynnir Icelandair ekki um fullfjármögnun næstu daga.

Flugfélögin lifa á lánum frá viðskiptavinum sínum. Væntanlegir farþegar staðgreiða farseðla með löngum fyrirvara. Ókeypis lán kalla á aukna áhættu.

Fólk lætur ekki plata sig tvisvar á tíu árum af bandalagi kokhraustra auðmanna og auðtrúa fjölmiðla. Almenningur kippir að sér höndum í farmiðakaupum, útlendingar verða varir um sig, og lánveitendur krefjast aukinna trygginga.

Leiðrétting á flugrekstri er löngu tímabær. Þeir sem selja fargjöld undir kostnaðarverði, og taka lán hjá almenningi til að fjármagna taprekstur, leika sér að eldinum. Heimurinn refsar heimskum rekstri. Haustið aflitar hratt á tíu ára fresti.


mbl.is Yfirlýsingagleði þrátt fyrir vandræðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Primera gjaldþrota, WOW hættir flugi

Tvö högg á íslenskan flugrekstur sama síðdegið. Primera er sagt gjaldþrota og WOW hættir flugi til þriggja borga.

Flugrekstur er á vonarvöl víða um heim. Hærra eldsneytisverð og hækkandi vextir snúa áður sjálfbærum rekstri í tap.

Það er ekki tilviljun að hlutabréf í Icealndair eru í frjálsu falli.

 


mbl.is WOW hættir flugi til þriggja áfangastaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV, Hannes og séra Jón

RÚV tekur skýrslu vinstrimanns um siðferði í stjórnmálum upp á sína arma og býður honum ómældan tíma í umræðuþáttum. Vinstrimaðurinn er Jón Ólafsson prófessor. Á tíu ára afmæli hrunsins skilar hægrimaðurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor skýrslu um alþjóðlegt samhengi íslenska hrunsins.

Hvað gerir RÚV? Jú, býður þriðja prófessornum, vinstrimanni, að ræða skýrslu Hannesar í föstum umræðuþætti. Sigurður Már Jónsson gerir þetta að umtalsefni:

Augljóslega er Hannes með skýrslu sinni að ganga gegn ákveðnum dogmatisma sem hefur verið sterkur í umræðunni hér heima, einkum meðal vinstri manna, einstaka háskólamönnum og ákveðnum starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Þessi umræðustjórnun birtist kannski skýrast í Silfrinu í dag þar sem Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor er fengin til að ræða um skýrslu Hannesar en ekki Hannes sjálfur. Ekki er vitað annað en að Hannes hafi verið tiltækur. Til að benda á hliðstæðu þá má horfa til þess að fyrir stuttu vann Jón Ólafsson heimspekiprófessor skýrslu fyrir forsætisráðuneytið og fékk í kjölfar þess heiðurssæti í Silfrinu [...] Daginn áður hafði þessi sami Jón setið í Vikulokunum á Rás 1 þar sem hann talaði óáreittur um það hugarefni sitt að fá að setja ríkisstjórninni siðareglur.

RÚV gengur erinda vinstrimanna blygðunarlaust. 


Brexit og Dunkirk

Breski utanríkisráðherrann Jeremy Hunt segir að vondur Brexit samningur veki upp Dunkirk-ástand með Bretum. Dunkirk er hápunktur breskrar þjóðernishyggju á síðustu öld, þegar Hitlers-Þýskaland lagði undir sig alla Vestur-Evrópu og Noreg og Danmörku í kaupbæti.

Dunkirk er frásögnin um lýðræði, mannúð og frelsi Breta annars vegar og hins vegar skepnuskap Meginlands-Evrópu.

Að Dunkirk skuli yfir höfð koma til umræðu vegna úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit, sýnir betur en flest annað að tilvera þjóðríkisins er í húfi þegar Brussel-valdið hefur einu sinni læst klónum sínum í það.

Hér á Fróni er enn til fólk sem segir fullum fetum að vel sé hægt að ganga í Evrópusambandið, prófa vistina þar, og ganga út ef maður kann ekki við sig. Og þetta fólk ætlast til að mark sé á því tekið í umræðunni.


mbl.is May og Johnson takast á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband