Tuddafyndni í skaupinu

Í áramótaskaupið vantaði þá kímnu mennsku sem gerir pólitíska ádeilu skemmtilega. Löngun handritshöfunda til að setja fram vinstripólitík bar kímnina ofurliði.

Einu sinni voru vinstrimenn fyndnir.

Núna eru þeir mest sorglegir.


Samfylkingin hættir ESB-stefnu

Samfylkingin berst ekki lengur fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í áramótaávarpi formanns flokksins í Morgunblaðinu kveður við nýjan tón um ,,lýðveldisheimilið" en ekki er einu orði minnst á aðild Íslands að ESB.

Formaðurinn, Árni Páll Árnason, gat sér til frægðar árið 2008 að segja eftirfarandi:

Það hefur sýnt sig að yfirlýsing um að stefnt sé að Evrópusambandsaðild er töfralausn

Árni Páll stóð að misheppnaðri umsókn um aðild 16. júlí 2009, sem er skammardagur í þingsögunni enda byggði umsóknin á beinum svikum þingmanna Vg við sannfæringu sína og yfirlýsta stefnu.

Við áramót birta stjórnmálamenn heitstrengingar og áherslur. Árni Páll minnist ekki einu orði á Evrópusambandsaðild Íslands. Hann freistar þess að láta málið lognast útaf.

 


Auðmenn, fjölmiðlaveldi og skilningsvana blaðamenn

Auðmenn eins og Jón Ásgeir Jóhannesson; málsvarar þeirra á borð við Sigurð G. Guðjónsson og handlangarar í holdgervingu Björns Inga Hrafnssonar eru að setja saman fjölmiðlaveldi úr 365-miðlum (Fréttablaðinu/Stöð 2/Bylgjunni/visir.is), Eyjunni-Pressunni og DV.

Fjölmiðlaveldið beitir sér fyrir samræmdum áróðri í þágu auðmanna. Leiðari Fréttablaðsins sem herjar á sérstakan saksóknara er endurbirtur á Eyjunni, svo dæmi sé tekið. Líkt og fyrir hrun munu auðmenn beita fjölmiðlum í sína þágu.

Blaðamenn þessara fjölmiðla horfa skilningssljóir upp á yfirtöku auðmanna og væla undan einhverjum Eggertum.

 


mbl.is „Brandari“ að Eggert sé ritstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pressusnúningur á 365 miðlum - Sigurður G. viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs

Sigurður G. Guðjónsson var stjórnarformaður Glitnis/Íslandsbanka í hruninu í umboði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Áður var Sigurður G. sjónvarpsstjóri Jóns Ásgeirs á Stöð 2 en fýldist úti í velgjörðarmann sinn um tíma, þegar Jón Ásgeir lét Gunnar Smára Egilsson leika lausum hala með 365 miðla.

Á fýluskeiðinu stofnaði Sigurður G. Blaðið sem átti að veita Fréttablaðinu samkeppni, þar var lagt niður þegar sættir tókust og Sigurður G. fékk bankann. Núna kaupir Sigurður G. hlut í Pressunni  sem Björn Ingi á stærstan hlut í að nafninu til.

Fjölmiðladeild 365 miðla verður lögð inn í nýja veldið - sem að öðru leyti verður fjarskiptafyrirtæki. Áður var DV komið í hendur fyrirtækis sem Björn Ingi er skráður fyrir - en ekki eiginkona Jóns Ásgeirs. Til að blöffa almenning og eftirlitsstofnanir er látið í það skína að margir nýir hluthafar komi að málum. Til dæmis er mágur Björns Inga, Jón Óttar, allt í einu orðinn hluthafi.

Sigurður G. er ekki í fýlu út í Jón Ásgeir og tveir plús tveir eru enn tveir. Innan skamms verða DV, Pressan/Eyjan, Fréttablaðið/Bylgjan/Stöð 2 í eigu þeirra Jóns Ásgeirs, Sigurðar G. og Björns Inga. Það er ekki íslenskri fjölmiðlun til framdráttar, svo hlutirnir séu orðaðir af stakri hófsemi.


mbl.is Sigurður G. keypti 10% hlut í Pressunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran eyðileggur innviði þjóðríkja

Verðmæti gjaldmiðils Grikkja er ekki í neinu samræmi við efnahag landsins og enn síður í samhengi við pólitískt ástand Grikklands. Evran er 30 til 50 prósent of dýr fyrir Grikki en þeir ráða engu þar um. Verðmæti evrunnar ræðst af stóru hagkerfinum í norðri, einkum Þýskalands.

Grikkir finna ekki til ábyrgðar gagnvart evrunni og líta á hana sem aðskotahlut í hagkerfinu, sem þeir þó geta ekki verið án. Grikkir miða innanlandspólitík sína við að taka evruna í gíslingu. Þeir hóta hinum 17 evruríkjum að æsa markaðsöflin til ófriðar gegn evrunni.

Verkfæri Grikkja í gíslatökunni er róttæki vinstrimaðurinn Alexis Tsipras sem fer fyrir Syriza-flokknum. Tsipras vill að ríku evru-þjóðirnar aflétti skuldum af Grikkjum, sem urðu til vegna þess að Grikkir lifðu um efni fram í áratug einmitt vegna þess að evran bauð upp á þýska vexti en grískt aðhald í fjármálum. Sem er uppskrift að þjóðargjaldþroti.

Tsipras hótar að taka evruna með Grikklandi í fallinu. Gríska þingið ætlar að veðja á Tsipras og gefur þjóðinni færi á að taka þátt í veðmálinu með því að efna til kosninga í lok janúar.

Þjóðverjar vita hvað klukkan slær. Í Spiegel er Tsipras kallaður sjarmerandi brennuvargur. Þýskir hagfræðingar eru leiddir fram til að segja að evru-samstarfið þoli brotthvarf Grikkja.

Hlutlausari greinendur, til dæmis Jeremy Warner í Telegraph, telja þennan gríska kafla evru-tragedíunnar leiða til eyðileggingar hvorttveggja á evrunni og grískum efnahag.

Með því að stjórnmál í Grikklandi snúast ekki lengur um sjálfsbjörg þjóðarinnar heldur hvernig sé heppilegast að standa að fjárkúgun á hendur Þýskalandi er evran þegar búin að eyðileggja pólitíska innviði grísku þjóðarinnar.

Þjóð sem hættir að bera ábyrgð á sjálfri sér er komin út í kviksyndi. Gríska þjóðin er hlutverki fjölskyldunnar sem sagði sig til sveitar með því að kasta frá sér ábyrgðinni á eigin fjármálum. Engar líkur eru á því að Grikkir læri sjálfsbjörg með því að kreista peninga frá Þjóðverjum. Betlarar verða ekki að betri mönnum við að fá í hendur skammbyssu.


mbl.is Tókst ekki að kjósa forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðir í þágu Jóns Ásgeirs - aftur

Í hruninu töpuðu lífeyrissjóðir ótöldum milljörðum á rekstri sem tengist Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Nægir þar að nefna Dagsbrún, fjölmiðlaveldið sem átti að verða stórveldi á Íslandi, Bretlandi og Danmörku.

Afgangurinn af Dagsbrún er 365 miðlar sem eiginkona Jóns Ásgeirs er skráð fyrir. Samkvæmt Kjarnanum eru lífeyrissjóðirnir farnir að pumpa peninginum í þennan rekstur.

Ætla lífeyrissjóðadrengirnir aldrei að fullorðnast?


Heildsalar hóta vöruskorti - nýjasta fjölmiðlafirran

Hagsmunaaðilar nota fjölmiðla skefjalaust til að herja á ríkissjóð og almannahagsmuni. Forsíða Fréttablaðsins í dag er skýrt dæmi.

Þar poppar upp fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins, sem núna stundar hagsmunavörslu fyrir heildsala, Ólafur Stephensen, og hótar vöruskorti í landinu ef ríkisvaldið fer ekki að vilja heildsala.

Fjölmiðlafirrur af þessum toga gera íslenska fjölmiðla æ ómerkilegri. Og var þó ekki úr háum söðli að detta.


Pólitíkin, kerfin og meðalhófið

Kerfin á Íslandi eru í fleirtölu. Ríkiskerfið er eitt, kerfið í kringum Samtök atvinnulífsins er annað, það þriðja er verkalýðshreyfingin og saman reka SA og ASí lífeyriskerfið. Ríkiskerfið er á valdi þings og ríkisstjórnar sem hálfopinberu kerfin herja á með ólíkum hætti; SA vill sparnað en ASÍ útgjöld.

Til að hagræða í kerfinu, svo einhverju nemi, þarf pólitískan styrk og ótvírætt umboð. Hrunið nánast gereyddi pólitískum styrk gömlu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og þjóðin veðjaði á vinstrimeirihluta 2009-2013. Offors Jóhönnustjórnarinnar, t.d. í stjórnarskrármálinu, umboðsleysi eins og í ESB-umsókninni og getuleysi í Icesave-málinu leiddi til þess að þjóðin tók gömlu flokkana í sátt og leiddi þá til valda í kosningunum 2013.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs er ekki með umboð frá kjósendum til stórtækrar uppstokkunar á ríkiskerfinu. Ríkisstjórnarflokkarnir fengu meirihluta til að stöðva öfgastefnu Jóhönnustjórnarinnar og sjá til þess að starfandi kerfi virkaði sæmilega. Það felur m.a. í sér að ríkissjóður skili afgangi með tilheyrandi aðhaldi í ríkisútgjöldum.

Í öllum meginatriðum hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs vegnað vel. Óvissuástandinu er aflétt og ríkiskerfið, sem er aðalábyrgð stjórnarráðsins, tikkar. Þótt SA heimti sem fyrr sparnað og ASí útgjöld þá á ríkisstjórnin að fylgja stefnu meðalhófsins.


mbl.is Hagsmunaöfl í vegi hagræðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú, texti og menning

Biblían er skrifuð á framandi þjóðtungur, hebresku, armensku og grísku. Saga biblíunnar löng, frá um 1500 f. Kr. og texti og innihald tekið breytingum eftir því hvernig hún veröld valt. Kristni barst til Vestur-Evrópu með Klóvís konungi Franka, sem ríkti um 500. Bandalag Franka og páfans í Róm var innsiglað með krýningu Karlamagnúsar í Róm árið 800 og var þar með stofnað til Hins heilaga rómverska keisaradæmis, en síðustu leifar þess var ríki Habsborgara sem entist til loka fyrri heimsstyrjaldar.

Frá ríki Franka barst kristni i norður og austur; bæði Íslendingar og Ungverjar miða kristnitöku sína við árið þúsund. Á þeim tíma var biblían verkfæri kaþólsku kirkjunnar að leggja undir sig vesturlönd. Biblían laut ritstýringum á latínu á synódum, kirkjuþingum. Kaþólska kirkjan gekk stundum svo langt að banna leikmönnum að eiga biblíu enda heilög ritning nánast göldrótt á tímum trúarhita og ekki á allra meðfæri að höndla þann texta.

Klofningur innan kaþólsku kirkjunnar skóp óvissu um ,,réttan" texta biblíunnar. Á kirkjuþing í Konstans við Bodensee-vatn í Þýskalandi komu saman árið 1414 um 25 þúsund kristnir að þjarka um ritstýringu biblíunnar. Samkvæmt Spiegel þjónuðu 800 vændiskonur söfnuðinum sem hertu jarlinn þegar andann þraut og holdið reis.

Konstans-kirkjuþingið brenndi tékkneska siðbótarmanninn Jóhann Húss fyrir villutrú þrátt fyrir loforð veraldlega valdsins um grið. Húss er mærður í Tékklandi fyrir framlag sitt til þjóðtungunnar. Hann stóð í þakkarskuld við þann enska Wycliffe sem mótmælti einokun páfa á heilagri ritningu með þýðingu á ensku. Marteinn Lúther kom í kjölfarið hundrað árum eftir að Húss var brenndur, klauf kaþólsku kirkjuna og með þýðingu sinni á biblíunni lagði grunninn að þýsku ritmáli.

Lútherismi fékk rótfestu á Íslandi með dönsku valboði. Jafnhliða nýrri kristni efldist útgáfa á þjóðtungunni, Guðbrandsbiblía, sem tók tvö ár í prentun, og Vísnabók Guðbrands. Án lútherskunnar væri íslenskan fátækari tungumál.

Þegar Þjóðverjar fjalla um biblíuna tala þeir um hana sem máttugustu bók síðustu tveggja árþúsunda. Biblían er forsenda þess að skilja vestræna menningu.

Þjóðkirkjan á íslandi er helsti túlkandi biblíunnar. Á hverjum sunnudegi og á hátíðum leggja hundruð presta út frá ritningunni, máta hana við samtímann, freista nýrrar túlkunar eða feta troðnar slóðir. Textinn sem er til grundvallar var skrifaður í fjarlægu heimshorni fyrir þúsundum ára og löngu sannað aðlögunarhæfni sína að trúarviðhorfum ólíkra tíma og samfélaga.

Menning er að skilja; án biblíunnar verður hvorki íslensk menning skilin né vestræn. Af því leiðir er starf þjóðkirkjunnar brýnt fyrir alla þjóðina, hvort heldur trúaða eða vantrúaða.

 

 


Jón Gnarr grínast með einelti

Jón Gnarr hefur einelti í flimtingum þegar hann segir um áskoranir til sín að bjóða sig fram til forseta lýðveldisins: ,,Það er verið að gera aðför að mér. Ég fer bara að líkja þessu við einelti."

Nú hlýtur pólitíska rétttrúnaðarhersingin taka við sér og hrauna yfir grínistann fyrir léttúðina.

En kannski er það svo að góða fólkið sér í gegnum fingur sér þegar frambjóðendur þess djóka með heilög hugtök hins pólitíska rétttrúnaðar.


mbl.is Jón „volgur“ fyrir forsetaframboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband