Fréttablaðið hafnar sjálfstæðri rödd

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifaði leiðara sem gerðu Fréttablaðið lestursins virði. Kolbrún er gamalreynd í faginu og fyrir lifandi löngu orðin sjálfstæð rödd er lét sér fátt um finnast þjónkun við óformlegt bandalag sem mestu ræður í umræðunni.

Ekki svo að skilja að tilfallandi höfundur hafi jafnan verið sammála Kolbrúnu. Lýðræðisleg umræða er, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki spurning um að vera sammála þessu sjónarmiði eða hinu. Heldur hitt að sem flestar skoðanir fái að heyrast. Umræðan sjálf tálgar og skerpir hugmyndir og skoðanir sem eiga erindi.

Í skrúðgarði skoðana sáði Kolbrún fræjum sem festu rætur. Sjálfstæð hugsun og launfyndinn texti er aðall Kolbrúnar.

Uppsögnin á Fréttablaðinu gefur til kynna að heldur þrengist um þá er byrja ekki daginn á spurningunni: hvernig get ég þóknast? 

Vonandi finnur Kolbrún sér hentugan vettvang að segja sína skoðun. Þögnin er afleitur kostur fyrir sjálfstæða hugsun. 

 


mbl.is Kolbrúnu sagt upp hjá Fréttablaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauðhetta var ekki fjárkúgari

Saga Vítalíu Lasarevu er samtímaútgáfa sögunnar af Rauðhettu sem rataði í gin úlfsins. Vítalía fór í sveitina, líkt og stúlkan í ævintýrinu. Þar beið hennar ekki úlfur heldur þrír hvítir miðaldra karlar með mannaforráð, loðnir um lófana og til í tuskið.

Í sumarbústaðnum í sveitinni fór eitthvað fram sem var nógu ósiðlegt til að karlarnir þrír ,,stigu til hliðar", eins og sagt er á kurteisan hátt, eftir að Vítalía varð á augabragði þjóðkunn fyrir ásakanir sínar.

Fjölmiðlar kveiktu óðara galdrabál og fuðruðu upp þrenn mannorð (raunar fern, en það er hliðarsaga). Femínistar notuðu frásögnina til að kynda undir fordómum um að allir karlar séu inn við beinið nauðgarar.

Þáverandi kærasti Vítalíu var með í för og hefur staðfest að frásögn hennar sé í meginatriðum rétt. Ekki hefur komið fram hvað kærastinn aðhafðist á meðan karlarnir þrír misbuðu stúlkunni. Fálkaorðan fyrir riddaramennsku verður ekki í bráð næld á brjóst Arnars Grant.

Endurskoðuð saga af sumarbústaðaferð Vitalíu og Arnars í október 2020 er að skötuhjúin hafi átt það erindi að flá feita gelti. Höfundar endurskoðuðu útgáfunnar eru Þórður Már Jóhannesson, Ari Edwald og Hreggviður Jónsson sem Vitalía sakar um misgjörð við sig. Þremenningarnir kæra Vitalíu og Arnar fyrir fjárkúgun.

Framtakssemi af þessu tagi er ekki ný af nálinni. Tvær stúlkur hirtu nokkrar millur af knattspyrnumanni fyrir nokkru með hótunum að væna hann um alvarlegt brot. Þær guldu Stígamótum tíund. Hákirkjan fær sitt fyrir erja akurinn og búa í haginn fyrir fjárkúgara.

Rauðhetta er ekki lengur lítil saklaus stúlka heldur kynferðisleg tálbeita, samkvæmt endurskoðuðu útgáfunni. Í ljósi afsagna þremenninganna gleyptu þeir agnið. Úlfarnir stigu ekki ,,til hliðar" fyrir þær sakir að þeir horfðu á Rauðhettu og stunduðu hugrenningasyndir. Eitthvað meira gekk á. Loðnir um lófana eru þeir kannski en kunna síður að halda að sér höndunum.

Réttlætið sem Vitalía krafðist þegar hún kynnti alþjóð raunir sínar virtist þetta hefðbundna í anda Stígamóta og metoo. Opniber smánun gerenda og samfélagsleg útilokun. En ef  fiskur undir steini er sá að 150 milljónir krónu áttu að skipta um hendur verður málið allt annars eðlis. Andstæðurnar eru ekki lengur sekt og sakleysi heldur siðleysi og ósvífni - að ekki sé talað um lögbrot. Gott efni í skáldsögu en lélegt fjölmiðlaefni þar sem hlutirnir þurfa að vera annað tveggja svartir eða hvítir til að blaðamenn skilji.  

Rauðhetta fékk uppreist æru fyrir heimsku sína, að halda úlf ömmu, og var frelsuð heil og óspjölluð úr kviði dýrsins sem fékk makleg málagjöld og drukknaði í brunni. En Rauðhetta, sum sé, var ekki fjárkúgari.

Ævintýrin í sveitinni enda ekki öll vel.

 


mbl.is Engin kæra frá Vítalíu í Löke
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýkristni, fóstureyðingar: tilgáta um heift

Fóstureyðingar eru pólitískt hitamál í Bandaríkjunum af trúarlegum ástæðum öðrum fremur. Guðs útvalda þjóð á rætur í púrítisma sem tekur mannhelgi alvarlega. Hæstiréttur sneri við úrskurði um rétt kvenna til fóstureyðinga frá 1973, sem var tími hippa, frjálsra ásta, eiturlyfja og andófs gegn feðraveldinu.

Bann við fóstureyðingum er kristin hugmynd. Rómverjar höfðu sérstaka öskuhauga fyrir óæskilega nýbura. Í íslenskri heiðni tíðkaðist útburður barna. Eftir kristnitöku lagðist sá siður af.

Kristin mannhelgi er undirstaða vestrænnar stjórnmálamenningar. Í deilunni um fóstureyðingar takast á um rétt konu yfir líkama sínum annars vegar og hins vegar rétt fósturs til lífs.

Eftir seinna stríð dofnuðu kristin gildi samtímis sem veraldleg mannréttindi fengu meira vægi. Veraldleg mannréttindi hvíla á lagabókstafnum einum saman, eru aðskilin frá trúarkenningunni. Mannasetningum má breyta, það leiðir af sjálfu sér. Réttindi sem styðjast við trú, t.d. kristin mannhelgi, eru aftur með innbyggðri seiglu og verður ekki auðveldlega kastað fyrir róða.

Úrskurður hæstaréttar vestan hafs snýst formlega um að fylkin sem mynda Bandaríkin ákveði sjálf staðbundin lög um fóstureyðingar. Í reynd er opnuð ný víglína í menningarstríði íhaldsmanna og frjálslyndra vinstrimanna.

Þótt bandaríska menningarstríðið hafi áhrif á Evrópu, það sást t.d. í Black Lives Matter, er harla ólíklegt að umræða um rétt kvenna þar vestra til fóstureyðinga skipti sem slík meginmáli í Evrópu. Engu að síður lögðust menn í gamla heiminum á árarnar og reru undir orðræðunni. Jafnvel á friðsæla Fróni kastast í kekki milli manna.

Nýkristni er pólitísk hugmyndafræði sem fléttar saman púrítanisma, félagslegri og efnahagslegri íhaldssemi, einstaklings- og þjóðhyggju. Í Bandaríkjunum eru menn kjörnir forsetar út á þessa hugmyndafræði, yngstu dæmin eru Reagan 1980 og Trump 2016.

Ákefð Evrópumanna að taka þátt í bandarísku umræðunni um fóstureyðingar stafar líklega af þeim grun að úrslit deilunnar hafi stórpólitísk áhrif á vesturlöndum almennt og langt út fyrir deiluefnið sjálft.

Tilfallandi spurn er hvort trúarlegir tímar séu á næsta leiti.   


mbl.is Sviptingar í bandarísku réttarkerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra-vestrið tapar vinum og áhrifum

G7 löndin, stóra-vestrið, eru Norður-Ameríka, 4 stærstu ríkin í Vestur-Evrópu og Japan. Íbúafjöldi er samtals 771 milljón. Viku fyrir G7 fundinn, hittust leiðtogar BRICS-ríkjanna á fjarfundi. Ásamt Indónesíu og Argentínu, væntanleg aðildarríki, telja BRICS-ríkin 3 milljarða íbúa. Hlutföllin eru 1 á móti 4.

BRICS er andvestræna alþjóðabandalagið skrifar þýska borgaralega útgáfan Die Welt. Höfundur greinarinnar, Stefan Aust, er stórt nafn í þýskri blaðamennsku. Ekki fréttabarn, sem sagt.

BRICS-ríkin eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka. Stór lönd í fjórum heimsálfum. Þau styðja öll Rússa í staðgenglastríðinu við stóra-vestrið í Úkraínu. 

Heimspólitísk umskipti standa fyrir dyrum, segir fjármálavesírinn Ray Dalio. Alþjóðakerfið sem Bandaríkin settu upp eftir seinna stríð er komið að fótum fram. Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hæðist að aldamótakenningu Fukuyama um sigur stóra-vestursins með endalokum sögunnar.

Kenningin um að heimsbyggðin yrði vestræn hvíldi á þeirri forsendu að frjálslynda vinstrið í bandalagi við nýfrjálshyggju kynni uppskriftina að menningarverðmætum annars vegar og hins vegar sjálfbærri fjársýslu.

Árangurinn er sá að vestræn menning veit ekki hvort kynin séu þrjú, fimm eða seytján. (Nýjasta talan er 150). Vestrænt fjármálavit er búið að kokka upp verðbólgu sem hefur ekki sést í Evrópu frá dögum Weimar-lýðveldisins. Miðjan hrynur á vesturlöndum, nýjasta dæmið er þingkosningarnar í Frakklandi þar sem flokkar yst til hægri og vinstri eru í stórsókn.

Við vitum hverjum klukkan glymur þegar forsætisráðherra Íslands er orðin stórstjarna í menningarstríðinu vestan hafs. Katrín tók sér málhvíld frá transumræðunni hér heima og sló í gegn með ummælum um rétt bandarískra kvenna til fóstureyðinga. Kvenréttindi eru aftur ósamrýmanleg transréttindum. Í transheimi getur karl verið kona þótt engu móðurlífi sé til að dreifa.   

Menning sem ekki kann skil á einföldustu atriðum mannlífsins er ekki upp á marga fiska. Stóra-vestrið gerir heimsbyggðinni tilboð sem auðvelt er að hafna. BRICS-ríkin eflast en G7-ríkin veikjast.   


mbl.is Biden setur tóninn fyrir G7-ráðstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víetnam, Írak og Úkraína, lærdómur ósigra

Stríð sem vinnast eru ekki ítarlega skilgreind og rædd (þótt þeim sé fagnað). Stríð sem tapast eru aftur brotin til mergjar og reynt að læra af mistökunum. Á mínu æviskeiði hafa Bandaríkin háð þrjú slík stríð. Í Víetnam, Írak og núna í Úkraínu.

Svona hefst fyrirlestur helsta raunsæismanns í bandarískum utanríkismálum, John Mearsheimer. Fyrirlesturinn var fluttur fyrir þrem vikum.

Mearsheimer rekur aðdraganda stríðsins sem hófst 24. febrúar. Hann vitnar í heimildir og dregur upp þá mynd að Bandaríkin beri meginábyrgð með þeirri stefnu að gera Úkraínu að Nató-ríki. Að kröfu Bandaríkjanna var gefin út yfirlýsing á leiðtogafundi Nató í Búkarest í Rúmeníu árið 2008 um að Úkraína og Georgía yrðu Nató-ríki.

Úkraína í Nató ógnar tilvist Rússlands. Í slíkri stöðu eru Rússlandi allar bjargir bannaðar, kæmi til ófriðar. Nató er hernaðarbandalag, ekki skátafélag eða saumaklúbbur. 

Mearsheimer vísar á bug þeirri orðræðu að Pútín stefni á fyrri yfirráð keisara og kommúnista yfir Austur-Evrópu. Aldrei fram til upphafs Úkraínudeilunnar, með stjórnarbyltingunni 2014, var rætt um að Pútín stefndi að útþenslu.

Pútín varð leiðtogi Rússlands árið 2000. Í 14 ár var hann við völd og engin merki um yfirráðastefnu gagnvart Austur-Evrópu. Innrásin í Georgíu síðsumars 2008 var bein afleiðing af tilraunum að gera Georgíu að Nató-ríki. Allir með sæmilega dómgreind máttu vita að sama meginlögmál, séð frá sjónarhóli Rússa, gilti um Úkraínu og Georgíu. En vestrið, með Bandaríkin i forystu, taldi enga ástæðu að taka mark á viðvörun Kremlar.

Mearsheimer er ekki bjartsýnn á friðarsamninga, telur að stríðið geti varað í mánuði eða ár. Hættan á stigmögnun er yfirvofandi, að Nató-ríki dragist inn í átökin og kjarnorkuvopnum verði beitt.

Úkraínustríðið er skelfilegt stórslys, segir Mearsheimer. Sagan mun dæma Bandaríkin og fylgiríki hart fyrir fádæma heimskulega utanríkisstefnu.


mbl.is Rússar ná tökum á Severódónetsk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvenréttindi ósamrýmanleg transréttindum

Transfólk er það sem fer úr einu kyni yfir í annað, karl verður kona og kona karl. Til eru blæbrigði, að vera hvorugt kynið eða bæði en það eru fáein tilvik úr hópi sem fyrir er fámennur.

Krafa transfólks er að hver og einn fái að skilgreina sig sjálfur. Í grunninn eru það sjálfsögð mannréttindi að sérhver ákveði með sjálfum sér hver hann er. Þrautagangan hefst þegar persónuleg sannfæring einstaklings og minnihlutahóps gerir kröfu um að samfélagið í heild lagi sig að sannfæringu eins eða fárra. 

Allir hafa rétt á persónulegri sannfæringu en ekki fylgir að samfélagið eigi að aðlagast sérhverri sannfæringu. Sextugur maður með bjórvömb má kalla sig knattspyrnusnilling en hann á enga kröfu að spila í deild atvinnumanna. Í mannlífinu eru margvíslegar kröfur, bæði formlegar og óformlegar, sem einstaklingar þarf að uppfylla til að njóta tiltekinna gæða eða hljóta framgang. Tilfallandi höfundur gæti talið sér trú um að kunna eðlisfræði á við Einstein. En hann fengi hvergi vinnu sem eðlisfræðikennari nema hann sýndi fram á innistæðu fyrir sannfæringunni. 

Kvenréttindabarátta síðustu 150 ára gengur út á að konur eigi að njóta sama réttar og karlar. Á vesturlöndum er jafn réttur kynjanna í meginatriðum viðurkenndur, þótt útfærslan sé með ýmsu móti og efndir fylgi ekki alltaf orðum.

Þrátt fyrir jafnréttiskröfuna eru konur upp til hópa sannfærðar að þær séu ekki það sama og karlar. Það sést skýrt í umræðu um réttinn til fóstureyðinga. Þar krefjast konur, a.m.k. þorri þeirra, réttar til að ákveða hvort fóstri í móðurkviði skuli eytt eða ekki. Konurnar setja kröfuna fram á grunni kynferðis, að þær séu konur. Þó liggur í augum uppi að ekkert fóstur verður til án sæðis frá karli. En fóstrið er hluti kvenlíkamans á meðgöngu. Það er líffræðileg staðreynd.

Kona, sem sagt, er jafnrétthá karli, en hún er ekki karl. (Fáránlegt að þurfa skrifa svona setningu árið 2022, en þetta er menningarástandið). Ef fallist er á rök transfólks er enginn munur á karli og konu. Karl í dag getur verið kona á morgun og öfugt, kona má sannfærast að hún sé karl og samfélagið skal meðtaka það, - annars er það transfóbískt.

Þessi afstaða, að kyn sé hugsun og ekkert annað, gerir hugtökin karl og kona merkingarlaus. Orðið kona er án innihalds ef orðið vísar ekki í neitt efnislegt. Ef það er í reynd svo þá skiptir engu máli af hvoru kyni fólk er. Ef kyn er aðeins huglægt fyrirbrigði, vaknar spurningin af hverju transfólk rembist við málflutninginn. Manneskja sem lítur út eins og karl, en hefur þá sannfæringu að vera kona, ætti ekki að þurfa samfélagslega viðurkenningu í kynlausum heimi. Það væri álíka fáránlegt og að fólk færi í kröfugöngu til að fá samþykkt að það sé spendýr. 

Til hvers að krefjast opinberrar viðurkenningar á einstaklingsbundnu hugarfari?

Tilfellið er að sumum körlum finnst eftirsóknarvert að fá þjóðfélagslega viðurkennt að þeir séu konur. Nokkuð færri konum er í mun að fá samþykkt að þær séu karlar.       

Konur sem kenna sig við femínisma hafa áttað sig á að innrás transkvenna (kvenna sem áður voru karlar) inn í kvennarými s.s. búningsklefa, salerni og kvennadeildir sjúkrahúsa valdi konum skaða. Konur með þessi sjónarmið eru sagðar hættulegar

Ein þessara kvenna, Kathleen Stock, skrifaði grein til að útskýra sjónarmið sín. Þar hvetur hún konur til að fylkja sér um kvenréttindabaráttu gegn körlum sem segjast transkonur. Í greininni segir hún frá ofsóknum sem hún varð fyrir af hálfu karla/transkvenna.

Það er eins og karlar sem verða transkonur taki með sér herskátt viðhorf í ný kynheimkynni, viðhorf sem að jafnaði er talið karllægt. Rökþrot enda í öskrum og ofbeldi.

Fáar fréttir eru um karla sem amast við transkörlum. Líkleg skýring er að þeim finnst sér ekki ógnað þótt konur gangi inn í karlaheim. Þær hirða ekki gullið af nokkrum karli í íþróttum og trufla fáa í búningsklefum eða á salerni. Ekki heldur er vitað um sérstakar deildir á sjúkrahúsum sem eingöngu eru fyrir karla.

Öll þessi umræða, með tilheyrandi brigslum um hatur og leiðindi, er í grunninn einn allsherjar misskilningur. Mannkynið er tvö kyn, líffræðilega ákveðin. Náttúran, ekki mannlegur máttur, hagar málum þannig að án tveggja kynja, karls og konu, væri ekkert mannkyn. Ef menn gleyma, eða sópa undir teppið, hversdagslegum sannindum náttúrunnar er illt í efni. Eins og dæmin sanna.

 


mbl.is VG fordæmir ákvörðun SÍ varðandi trans konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Iðnaðarstríð í Úkraínu, vestrið tapar stórt

Árleg framleiðsla Bandaríkjanna af sprengikúlum fyrir stórskotalið er notuð í Úkraínu á hálfum mánuði af Rússum. Segi og skrifa: á tveim vikum nota Rússar sama magn af sprengjum í fallbyssur sínar og Bandaríkin framleiða á einu ári.

Upplýsingarnar koma fram í samantekt konunglegrar breskrar stofnunar á sviði varnarmála, RUSI. Stofnunin er aldagömul og virt. Einn stofnenda var Wellington, sá sem sigraði Napóleon í Waterloo. Það er ekki líklegt að RUSI birti fleipur.

Höfundur samantektarinnar, Alex Vershinin, segir vígvöllinn á úkraínsku sléttunum iðnaðarstríð. Sá sigrar sem framleiðir og flytur á víglínuna meiri búnað s.s. skotfæri og birgðir. Í upphafi stríðsins voru 200 þús. rússneskir hermenn á móti 250 þús. úkraínskum. Síðan hefur stjórnin í Kænugarði kvatt til vopna um 450 þús. hermenn. Samt eru Rússar á sigurbraut þrátt fyrir að vera til muna liðfærri.

Ástæðan er að Rússar eiga verkfærin, vopn og skotfæri. Í ofanálag eyðileggja Rússar birgðaflutninga með flugskeytum og flugvélaárásum. Úkraínumenn geta miklu síður hoggið skörð í birgðahald óvinarins. Atvinnuher Rússa slátrar Úkraínuher.

Úkraínumenn hafa viðurkennt að um helmingur af stórskotaliði þeirra í upphafi átaka í lok febrúar er ónýtur. Fáeinar fallbyssur og hreyfanleg eldflaugakerfi frá vesturlöndum breyta ekki neinu sem nemur. Sérfræðingar segja Rússa með tífalda og upp í tvítugfalda skotgetu í stórskotaliði og vígvallareldflaugum í samanburði við Úkraínuher. Stríðið á sléttum Garðaríkis er fyrst og fremst háð með þungavopnum. Flestir deyja án þess að sjá óvininn. Dauðinn kemur með fallbyssukúlu eða eldflaug.

Ekki er nokkur lifandi leið að Úkraínuher snúi taflinu sér í vil að óbreyttum forsendum. 

Það er ábyrgðarhluti af vestrænu stjórnmálaelítunni og fjölmiðlum á þeirra vegum að halda þeirri hugmynd á lofti að Úkraína geti sigrað. Það eru einfaldlega ekki til byssur og skotfæri á vesturlöndum til að standast Rússum snúning. Úkraínskir hermenn eru fallbyssufóður, deyja í fullkomnu tilgangsleysi í gjörtöpuðu stríði.

Á sléttum Garðaríkis taka heimsmálin stakkaskiptum. Þegar lærdómurinn af tapinu sækir vesturlönd heim verður það sársaukafullt. Rússar niðurlægja vestrið í staðbundnum átökum. Kínverjar standa álengdar. Heimurinn allur er undir og horfurnar eru slæmar fyrir vesturlönd. 


mbl.is Segir Rússa eiga heitt sumar í vændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heppileg kreppa

Hækkandi vextir hægja á hagkerfinu sem er á fullum dampi. Atvinnuleysi er við 4%. Verðbólgan er að hluta til innflutt en að öðru leyti sökum þenslu á fasteignamarkaði - sem aftur er afleiðing ósjálfbærs hagvaxtar.

Í haust eru kjarasamningar lausir. Alltaf er betra að semja þegar slær í bakseglin. Í bullandi þenslu eru væntingar óraunhæfar.

Íslendingar ferðast til útlanda eins og enginn sé morgundagurinn, skuldlitlir og áhyggjulausir. Eftir huggulegt sumar taka við verkefni haustsins, sem er að leggja línurnar í kjaramálum þjóðarinnar.

Vonandi helst kreppan nokkra mánuði enn. Raunsæi fylgir þegar mittisólina þarf að herða eilítið.


mbl.is Þróttur í íslensku hagkerfi þó útlitið sé svart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin loftslagsvá - ný bók

Eftir hundrað á verður ekki talað um loftslagsvá, segir sænski loftslagsvísindamaðurinn Lennart Bengtsson í viðtali við Die Welt. Bengtsson gaf nýlega út bókina Hvað verður um loftslagið? (Vad händer med klimatet).

Die Welt er fremur þekkt fyrir að taka undir með þeim sem telja jörðina brátt óbyggilega vegna manngerðs veðurfars. Til að fullvissa lesendur sína um að Bengtsson sé vísindamaður sem beri að taka af fullri alvöru vitnar Die Welt í loftslagsvísindamanninn og Nóbelsverðlaunahafann Klaus Hasselmann sem lofar Bengtsson í bak og fyrir.

En hvað segir Bengtsson í viðtalinu? Jú, til dæmis að hlýnun jarðar undanfarið sé að mörgu leyti blessun, einkum fyrir þá sem búa á norðlægari breiddargráðum. Betri uppskera í landbúnaði og huggulegri lífskjör bjóðist á kaldari slóðum. Ef og þegar Norður-Íshafið opnast fyrir siglingar hafi það jákvæð efnahagsleg áhrif. Fólk deyi miklu oftar úr kulda en hita.

Aðspurður segir Bengtsson að loftslagsvísindin geti fátt sagt um möguleg áhrif hlýnunar á samfélagshætti manna. Aðrar breytur en loftslag skipti meira máli, s.s. stríðsrekstur og efnahagsstjórnun. Hlýnunin gerist hægt og fyrirsjáanlega verði hægt að bregðast við óþægindum. Tíminn til stefnu sé nægur.

Þá vekur Bengtsson athygli á að vísindin viti ekki enn sem komið er hvernig náttúrulegir ferlar breyta loftslagi jarðar. Til dæmis kunna menn ekki skýringar á litlu ísöldinni, 1350-1850. Litla ísöldin er feimnismál í umræðunni. Náttúrulegar breytingar á loftslagi jarðar eru reglan en ekki undantekning. Tímabilið fyrir litlu ísöld er kallað miðaldahlýskeiðið, 900-1300. Þá var töluvert hlýrra á Grænlandi en það er í dag, eða sem nemur 1,5 C.

Þegar Bengtsson er spurður um samlanda sinn, Grétu Thunberg, helsta spámann hamfarahlýnunar svarar hann að þekking sé besta vörnin gegn loftslagsangist. Gréta hætti í skóla til að boða fagnaðarerindið um heimsendi - ekki á forsendum þekkingar heldur trúarhita. Bengtsson óttast að pólitísku hamfaratrúarbrögðin fæli fólk frá vísindum. Það er einkenni samtímans. Háværir aðgerðasinnar kæfa þekkingu.

 


Guðmundur Árni sem formaður Samfylkingar

Samfylkingin var stofnuð um aldamótin til að verða hinn turninn í íslenskum stjórnmálum. Núna er Framsókn hinn turninn en Samfylkingin lággróður í skugga Pírata.

Ástæðan fyrir eymd Samfylkingar er tilraunastarfsemi. Í ríkisstjórn Geirs H. Haarde (2007-2009)  var flokkurinn 21. aldar Alþýðuflokkur, hækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á fyrstu árum flokksins reyndi hann að verða kaþólskari en páfinn, kom sér upp auðmönnum eins og Jóni Ólafssyni og Baugsfeðgum. Í ríkisstjórn Jóhönnu Sig. (2009-2013) reyndi flokkurinn fyrir sér sem ESB-flokkur. Óþarfi að fjölyrða um þá tilraun, mistök frá upphafi til enda.

Formenn ráða ekki fylgi flokka en þeir eru nauðsynlegir til að fylkja liði, vera oddvitar og talsmenn fyrir það erindi sem stjórnmálafl þykist eiga við samtíma sinn. Formaður er ímynd málefna sem flokkurinn stendur fyrir. Fráfarandi formaður er röndóttur sprellikarl. Við hæfi og árangurinn eftir því.

Næsti formaður Samfylkingar gæti gert flokkinn að því sem hann átti að verða við stofnun. Gelgjuskeiðið yrði að baki. En til þess þarf skipstjóra sem kann pólitísk siglingafræði. Kristrún er óreynd og Dagur fullreyndur.

Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði gerði gott mót í síðustu kosningum. Hann er hokinn reynslu og veitir Samfylkingunni kjölfestu sem flokkurinn þarf. Guðmundur Árni er ekki upphlaupsmaður. Unggæðisháttur Samfylkingar seinni árin lýsir sér í samkeppni við Pírata. Fyrirsagnir eru fremur mælikvarði á ótrúverðugleika en vísbendingar um tiltrú kjósenda.

Einn aðalvandi Samfylkingar er að Vinstri grænir eru trúverðugra stjórnmálaafl. Til að verða stjórntæk þarf Samfylkingin að fullorðnast. Án fullveðja formanns er það tæpast hægt.  


mbl.is Kristrún og Dagur helst nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband