Guðmundur Árni sem formaður Samfylkingar

Samfylkingin var stofnuð um aldamótin til að verða hinn turninn í íslenskum stjórnmálum. Núna er Framsókn hinn turninn en Samfylkingin lággróður í skugga Pírata.

Ástæðan fyrir eymd Samfylkingar er tilraunastarfsemi. Í ríkisstjórn Geirs H. Haarde (2007-2009)  var flokkurinn 21. aldar Alþýðuflokkur, hækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á fyrstu árum flokksins reyndi hann að verða kaþólskari en páfinn, kom sér upp auðmönnum eins og Jóni Ólafssyni og Baugsfeðgum. Í ríkisstjórn Jóhönnu Sig. (2009-2013) reyndi flokkurinn fyrir sér sem ESB-flokkur. Óþarfi að fjölyrða um þá tilraun, mistök frá upphafi til enda.

Formenn ráða ekki fylgi flokka en þeir eru nauðsynlegir til að fylkja liði, vera oddvitar og talsmenn fyrir það erindi sem stjórnmálafl þykist eiga við samtíma sinn. Formaður er ímynd málefna sem flokkurinn stendur fyrir. Fráfarandi formaður er röndóttur sprellikarl. Við hæfi og árangurinn eftir því.

Næsti formaður Samfylkingar gæti gert flokkinn að því sem hann átti að verða við stofnun. Gelgjuskeiðið yrði að baki. En til þess þarf skipstjóra sem kann pólitísk siglingafræði. Kristrún er óreynd og Dagur fullreyndur.

Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði gerði gott mót í síðustu kosningum. Hann er hokinn reynslu og veitir Samfylkingunni kjölfestu sem flokkurinn þarf. Guðmundur Árni er ekki upphlaupsmaður. Unggæðisháttur Samfylkingar seinni árin lýsir sér í samkeppni við Pírata. Fyrirsagnir eru fremur mælikvarði á ótrúverðugleika en vísbendingar um tiltrú kjósenda.

Einn aðalvandi Samfylkingar er að Vinstri grænir eru trúverðugra stjórnmálaafl. Til að verða stjórntæk þarf Samfylkingin að fullorðnast. Án fullveðja formanns er það tæpast hægt.  


mbl.is Kristrún og Dagur helst nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband