Núllvextir og alþjóðavæðing auka ójöfnuð

Eftir fjármálakreppuna 2008 reyndu stærstu seðlabankar heims að halda atvinnulífinu gangandi með núllvöxtum og peningaprentun. Í meginatriðum tókst að koma í veg fyrir að fjármálakreppan yrði að efnahagskreppu með atvinnuleysi og samdrætti.

En sá galli fylgdi gjöf Njarðar að núllvextir og peningaprentun juku ójöfnuð á vesturlöndum, sem þegar var hafin undir merkjum alþjóðavæðingar.

Vaxandi ójöfnuði fylgja pólitískar hamfarir. Frjálslyndir vinstriflokkar víðast á vesturlöndum eru meira og minna í rúst. Trump sigraði forsetakosningarnar í Bandaríkjunum undir merkjum andstöðu við alþjóðavæðingu. Brexit er önnur afleiðing.

Það verða ekki frjálslyndir og vinstrimenn sem munu bæta ójöfnuð síðustu áratuga. Þeir seldu sig alþjóðavæðingunni fyrir löngu. Önnur pólitísk öfl eru í framsókn.

 


mbl.is Hinir ríkustu verða ríkari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðavæðing, jöfnuður og hagvöxtur: Framsókn í dauðafæri

Stórkanónur hagfræðinnar, t.d. Joseph Stiglitz, endurskoða viðteknar hagfræðikenningar í ljósi pólitískrar þróunar síðustu ára og áratuga. Til skamms tíma var alþjóðavæðing trúarsetning í hagfræðibókmenntum. Önnur trúarsetning var að jöfnuður hamlaði hagvexti.

Vegna trúarsetninganna óx ójöfnuður í mörgum vestrænum ríkjum. Úr þessum jarðvegi spratt andúð á alþjóðahyggju, sem leiddi til sigurs Trump í Bandaríkjunum, Brexit og uppgangs stjórnmálamanna eins og Le Pen í Frakklandi.

Vinstrimenn og frjálslyndir töpuðu mest á framgangi Trumpara á vesturlöndum. Sósíaldemókratar ánetjuðust alþjóðahyggju Evrópusambandsins; frelsi fjármagns var tekið umfram jöfnuð.

Stiglitz er í uppreisn gegn viðteknum hagkenningum. Hann andmælir að jöfnuður hamli hagvexti, segir þvert á móti að jöfnuður örvi hagvöxt og vísar til Norðurlandanna. Óheft alþjóðavæðing skili ójöfnuði og þess vegna þurfi að koma böndum á hana - en frjáls alþjóðaverslun sé forsenda framfara. Stefna Trumpara muni ganga af henni dauðri.

Heimfært upp á Ísland er endurskoðun Stiglitz á hagkenningum vatn á myllu Framsóknarflokksins umfram aðra. Sígilda Framsókn stígur varlega til jarðar í alþjóðavæðingu, er hlynnt jöfnuði og vill skapa réttar forsendur fyrir hagvöxt.

En Framsókn þarf vitanlega foringja til að nýta sér dauðafærið.


Sjálfstæðisflokkur og sexflokkurinn

Sigurvegari síðustu þingkosninga, Sjálfstæðisflokkur, gat beðið rólegur eftir að sexflokkurinn, þ.e. flokksdvergarnir sex á alþingi, ynni sig í gegnum leðjuslag eftirkosninganna.

Sjálfstæðisflokkur mátti vita að þeir tveir flokkar sem kæmu skást út yrðu samstarfsaðilar í ríkisstjórn. Í sexflokknum var aðeins einn útilokaður, Píratar, enda börðust þeir um hæl og hnakka í leðjunni og ötuðu hina auri eins og iðnaðarmaður í akkorði.

Flokkarnir tveir, sem komu skást út, Viðreisn og Björt framtíð fengu lyklana að litlu deildum stjórnarráðsins - en Sjálfstæðisflokkurinn fer með lyklavöldin.

Ef Viðreisn og Bjartri framtíð leiðist tilveran í stjórnarráðinu er alltaf hægt að skila lyklunum. Framsókn, Vinstri grænir og Samfylking bíða eftir sínu tækifæri í húsi móðurflokksins.

Ofanritað er útlegging á grein samfylkingarmannsins Kristjáns Guy Burgess, sem Eyjan segir frá.


Munngælur og landráð

Trump forseti Bandaríkjanna er reglulega ásakaður um landráð í fjölmiðlum þar vestra. Hann er sakaður um að hafa stolið forsetakosningunum með hjálp Pútín Rússlandsforseta. Álitsgjafar, stjórnmálamenn, blaðamenn og þáttastjórnendur endurtaka þessar ásakanir í mörgum útfærslum daginn út og inn.

Brigsl um landráð forsetans fá engin formleg viðbrögð frá stjórnvöldum eða eftirlitsstofnunum. Umræða af þessu tagi er talin hluti af hversdagspólitík í landi frjálshuga manna og hugaðra.

En að segja talfæri Trump best sniðin fyrir hólk Rússlandsforseta - það er einum of mikið af því góða. Þáttastjórnandinn Stephen Colbert fór yfir strikið þegar hann ýjaði að munnmökum forsetanna tveggja með Trump í undirgefna hlutverkinu.

Samkvæmt Guardian rannsakar FCC, eftirlitsnefnd fjölmiðla, flimt Colbert í kjölfar fjölda kvartana.

Stjórnmálamenning í landi þar sem landráðabrigsl þykja sjálfsögð en munngælur ekki er komin töluvert út í móa.


Góða fólkið og hatursumræðan

Góða fólkið vill koma í veg fyrir gagnrýna umræðu um eðli og einkenni menningarheima, t.d. með samanburði á þeim vestræna og múslímska. Stefán Karlsson greinir stöðuna og segir:

Þessi forræðishyggja byggist á pólitískum rétttrúnaði. Gagnrýni á hugmyndafræði íslamskra öfgamanna er t.d. bönnuð og henni jafnað við rasisma.

Og þetta eru afleiðingarnar, segir Stefán:

Í viðleitni sinni til að þagga niður umræðu um mikilvæg og viðkvæm málefni er pólitískur rétttrúnaður í andstöðu við grunngildi mannréttinda.

Góða fólkið talar í nafni mannréttinda en boðar valdhyggju ritskoðunar og þöggunar.

 


Krónan og dollarahagkerfið

Bandaríkjadalur er ráðandi í útflutningstekjum Íslendinga. Yfir helmingur útflutningstekna er í dollurum. Stór hluti innflutnings er í sömu mynt, t.d. allur eldsneytiskostnaður.

Bretland með sterlingspundið er stærsti útflutningsmarkaður okkar í Evrópu.

Evran, sem sumir töldu að yrði ráðandi gjaldmiðill í viðskiptum okkar við útlönd, er langt í frá að ná þeirri stöðu. Þeir sem starfa í fjármálageiranum, t.d. bankastjóri Landsbankans, telja ekki að upptaka evru í stað krónu auki stöðugleika hér á landi.

Evra og Evrópusambandsaðild er dautt mál í umræðunni.


mbl.is Mestar tekjur í dollurum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinberar persónur, einkalíf og fjölmiðlar

Opinberar persónur, þ.e. þeir sem eru áberandi í samfélaginu vegna þjóðfélagsstöðu eða áhrifavalds, njóta minni verndar fyrir einkalíf sitt í fjölmiðlaumræðu, samkvæmt dómavenju bæði hér heima og í vestrænum ríkjum.

Í máli DV-manna, vegna umfjöllunar þeirra um málefni Sigurplasts og stjórnarmanns þar, er tekist á um hvort háskólakennarinn í málinu sé opinber persóna eða ekki. 

Íslenskir dómstólar litu svo á að háskólakennarinn væri ekki opinber persónu en Mannréttindadómstóllinn er ósammála, sjá grein 53. í dómnum.

Á liðnum árum gerist það reglulega að í meiðyrðamálum veitir Mannréttindadómstóllinn meiri svigrúm til að fjalla um og gagnrýna menn og málefni en íslenskir dómstólar.


mbl.is Braut gegn blaðamönnum DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingnefnd rannsaki Jón Baldvin og EES-samninginn

EES-samningurinn var seldur Íslendingum um miðjan síðasta áratug liðinnar aldar undir formerkjunum að Ísland hafði fengið ,,allt fyrir ekkert." Helsti sölumaðurinn var Jón Baldvin Hannibalsson þáv. utanríkisráðherra.

Heimssýn rýnir í nýleg orð Jóns Baldvins þar sem hann viðurkennir fals og óheilindi í pólitíkinni í kringum EES-samninginn. Orð Jóns Baldvins núna

EES-samningurinn hefur reynst vera mun langlífari en við, sem að honum stóðum í upphafi, gerðum ráð fyrir. Í okkar hugum var hann brúarsmíð, sem átti að brúa bil í sögulegri þróun, sem við gerðum ráð fyrir, að yrði skammvinnt.

eru viðurkenning á falsinu. EES-samningurinn átti að vera áfangi á leið Íslands inn í Evrópusambandinu. Þeir sem sáu í gegnum falsið á sínum tíma, t.d. Haukur Helgason, voru kveðnir í kútinn með fagurgala Jóns Baldvins og ESB-sinna.

Alþingi ætti að rannsaka tilurð EES-samningsins. Ekki til að finna þar saknæmt athæfi heldur til að draga fram hvernig staðið er að opinberri umræðu og ákvarðanatöku um lífshagsmuni þjóðarinnar.

Jón Baldvin má eiga það að á efri árum verður hann hreinskilnari og skýrari í hugsun en hann var sem ungur ráðherra. Hann efast í seinni tíð um skynsemi þess að Ísland gangi í Evrópusambandið: ,,Evrópusambandið er nú um stundir í tilvistarkreppu, sem ekki er séð fyrir endann á. Það er því ekki í stakk búið til að taka við nýjum aðildarríkjum í náinni framtíð," skrifar hann.

EES-samningurinn er á fallandi fæti. Til að undirbúa okkur undir óhjákvæmilega endurskoðun á samskiptum við Evrópusambandið ætti að brjóta til mergjar tilurð samningsins sem kynntur var sem ,,allt fyrir ekkert" en var í reynd samningsúlfur í sauðagæru. Markmiðið var að innlima Ísland í Evrópusambandið. Við verðum að læra af reynslunni.


Ónýt ríki múslíma; valdavinátta Pútín og Trump

Pólitísk menning múslíma miðausturlöndum setur þjóðríkið ekki í öndvegi líkt og tíðkast á vesturlöndum síðustu 200 ár eða svo. Lýðræði, að ekki sé talað um jafnrétti, er framandi hugtak í trúarmenningu múslíma.

Seinni hluta síðustu aldar skópu sterkir leiðtogar stöðugleika í ríkjum miðausturlanda: Gadaffi í Líbýu, Hussein í Írak og Assad-feðgar í Sýrlandi. Sádí-Arabía er ættarríki Sáda. Íran kastaði af sér veraldlegum keisara og tók upp múslímskt klerkaræði. Jafnvel Tyrkland snýr baki við lýðræðinu.

Innrás Bandaríkjanna í Írak 2003 skók undirstöður margra ríkja í heimshlutanum. Um tíma, í kringum 2010, var talað um arabíska lýðræðisvorið, en það var tálsýn. Blóðugt uppgjör trúarflokka og ættbálka leyfði ekkert lýðræði.

Þrjú ríki eru ónýt. Líbýa, Sýrland og Írak auk smáríkisins Jemen. Önnur standa veikt, t.d. Sádí-Arabía. Tyrkland er í umbrotaferli undir forystu Erdogan forseta.

Tillaga stjórnvalda Pútín Rússlandsforseta og stjórnar Trump í Bandaríkjunum um ,,örugg svæði" í Sýrland eru fyrstu drög að sniðmáti fyrir nýtt ríkjafyrirkomulag í miðausturlöndum. Grófu línurnar í síðnýlendustefnu stórveldanna: Rússar eru í bandalagi með shíta-múslímum í Íran, Írak og Sýrlandi en Bandaríkin styðja súnnaríkin Sádí-Arabíu og Tyrkland. Kúrdar eru þar á milli.

Valdavinátta Pútín og Trump er helsta von almennings í miðausturlöndum um frið í heimshlutanum. En það er langt ferli framundan. Spámaðurinn frá Mekka gerir ekki ráð fyrir að aðrir en múslímar ráði sínum málum, markmiðið er jú guðsríki á jörðu. Endurskoðun á trúarmenningu múslíma er forsenda friðar. Og slík endurskoðun tekur nokkrar kynslóðir.

 


mbl.is Pútín og Trump sammála um örugg svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatur ríkissaksóknara á tjáningarfrelsinu

Ísland situr uppi með ríkissaksóknara sem hatast við tjáningarfrelsi borganna. Ríkissaksóknari gefur út ákærur hægri vinstri til að berja á fólki með óæskilegar skoðanir.

Dómari héraðsdóms segir eftirfarandi um hatursákærur ríkissaksóknara:

Op­in­ber umræða um hvað eina í lýðræðisþjóðfé­lagi hef­ur iðulega í för með sér ým­iss kon­ar óþæg­indi fyr­ir ein­stak­linga og eða hópa fólks. Fólk móðgast, hneyksl­ast eða reiðist, tel­ur á sig hallað, tel­ur á sér brotið og svo fram­veg­is. Þetta er óhjá­kvæmi­leg­ur fylg­is­fisk­ur op­in­berr­ar umræðu í lýðræðisþjóðfé­lagi.

Ríkissaksóknari skilur ekki þessu einföldu grunnatriði og stefnir fólki á sakamannabekk fyrir skoðanir á mönnum og málefnum. Ríkissaksóknari er ekki starfi sínu vaxinn og á að víkja.

Að auki stendur það upp á dómsmálaráðherra og alþingi að fella úr gildi lagagreinina sem ríkissaksóknari byggir misskilning sinn á.


mbl.is Þrír sýknaðir af ákæru um hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband