Sigurður Ingi og Framsókn: haltur leiðir blindan

Sigurður Ingi formaður Framsóknarflokksins segist leiður yfir fylgisleysi flokksins. Lái honum hver sem vill. Framsókn fékk í haust sína lélegustu kosningu í 100 ára sögu flokksins. Framsókn er tíu prósent flokkur undir forystu Sigurðar Inga.

Mistök Framsóknar og Sigurðar Inga voru atlagan að Sigmundi Davíð formanni kortéri fyrir kosningar. Sigmundur Davíð gerði Framsókn að stærsta flokki landsins kosningarnar 2013 og sem forsætisráðherra sigldi hann þjóðarskútunni í höfn eftir hamfarir hrunsins.

Dómgreind Framsóknar, eða litlu klíkunnar sem virðist öllu ráða þar, og Sigurðar Inga bilaði vegna þess að RÚV gerði Sigmund Davíð að skotmarki. Sigurður Ingi var frambjóðandi RÚV til formennsku. En RÚV skaffar hvorki stefnumál né atkvæði.

Ef Sigurður Ingi meinar það sem hann segir ætti hann að stíga til hliðar og hleypa stjórnmálaaflinu Sigmundi Davíð að stjórn flokksskútunnar.


Sósíalismi og alþjóðahyggja - Samfylking og Vinstri grænir

Staðan á vinstri væng stjórnmálanna eftir síðustu kosningar er að Vinstri grænir eru 15 prósent flokkur en Samfylkingin 6 prósent flokkur. Píratar, sem ekki er dæmigerður vinstriflokkur og tímabundið fyrirbrigði, liggur þar á milli.

Eftir kosningar er lítil umræða meðal vinstrimanna um stöðu mála. Í vor er það helst að frétta að Sósíalistaflokkur var stofnaður. Einkaflipp kveikir ekki í glæðum vinstrimenna.

Vinstriflokkar Evrópu eru vanda. Hvort heldur sé litið til Frakklands, Bretlands, Hollands eða Þýskalands eru flokkar með sósíalíska arfleifð í vörn.

Alþjóðahyggja er sögulegur rauður þráður sósíalismans. Karl Marx boðaði að öreigar allra landa skyldu sameinast. Móðurland sósíalismans árabilið 1921 til 1991 var Sovétríkin. Öflugir flokkar sósíalista/kommúnista í Frakklandi og Ítalíu áttu sovétið sem bakland.

Eftir fall Sovétríkjanna varð Evrópusambandið holdgervingur alþjóðahyggju sósíalista. Um tíma, í kringum aldamótin, virtist ESB stefna að Stór-Evrópu með sameiginlegan gjaldmiðil og sambandsríki.

Vandræði evrunnar eftir 2008 og Brexit í fyrra setja varanlegt strik í reikninginn. Ef ESB lifir af hremmingarnar verður það í smækkuðu formi. Annað tveggja mun hluti ESB-ríkjanna, t.d. þau sem nota evru, dýpka samstarfið eða að sambandið fletjist út í laustengdara viðskiptabandalag.

Vinstristjórn Jóhönnu Sig., eina hreina vinstristjórn lýðveldisins, veðjaði stórt á Evrópusmbandið með umsókninni 16. júlí 2009. Það veðmál tapaðist, umsóknin steytti á skeri áramótin 2012/2013. Í tvennum þingkosningum eftir strand alþjóðavæðingar íslenskra vinstrimanna tapa þeir stórt, fara úr samtals 50 prósent fylgi 2009 niður í 20 prósent 2016.

Samfylkingin tapaði mun meira fylgi en Vinstri grænir. Í Vinstri grænum var stuðningur við alþjóðahyggju Samfylkingar, þ.e. ESB-umsóknina, hálfvolgur í besta falli. Arfur Vinstri grænna er þjóðernissósíalískur, byggir m.a. á andstöðu við Nató og varðstöðu um íslenska menningu. Samfylkingin er í ætt við dæmigerða sósíaldemókrata á Norðurlöndum sem eru yfirleitt ESB-sinnaðir.

Engin umræða er á milli Samfylkingar og Vinstri grænna um sameiningu. Misheppnaða ríkisstjórn Jóhönnu Sig. breikkaði bilið milli þeirra. Fáir samnefnarar eru í erfðamengi flokkanna og engar stórar hugmyndir frá útlöndum koma þeim til bjargar.

Vinstri vængurinn í íslenskum stjórnmálum er brotinn. Sósíalísk alþjóðahyggja er munaðarlaus í Evrópu. Í fyrirsjáanlegri framtíð eru það mið- og hægriflokkar sem eiga sviðið í íslenskum stjórnmálum.


Bloggfærslur 13. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband